Fréttir

Á þriðja tug leiðbeininga um ný persónuverndarlög

17.4.2019

Eitt af meginverkefnum Persónuverndar er að auka vitund þeirra sem vinna með persónuupplýsingar – þannig að viðkomandi þekki skyldur sínar samkvæmt persónuverndarlögum. 

Eins og kunnugt er tóku ný persónuverndarlög gildi þann 15. júlí 2018 sem innleiddu í íslensk lög persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins.

Ný persónuverndarlög fela í sér auknar skyldur fyrir fyrirtæki, stjórnvöld, sveitarfélög og aðra sem vinna með persónuupplýsingar. Til þess að upplýsa þessa aðila, og almenning allan, um nýjar reglur hóf Persónuvernd öflugt kynningarstarf haustið 2016, eða tæpum tveimur árum áður en ný lög voru samþykkt af Alþingi. Frá þeim tíma hafa á þriðja tug leiðbeininga og bæklinga verið birt á vefsíðu stofnunarinnar í því skyni að aðstoða framangreinda aðila við að uppfylla ákvæði löggjafarinnar.

Einnig býður Persónuvernd upp á þjónustuborð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem fyrirspurnum er svarað innan þriggja til fimm daga frá því að þær berast. Alls hefur 131 fyrirspurn verið svarað frá því þjónustuborðið var opnað í júní 2018.

Þá stóð Persónuvernd fyrir hringferð í kringum landið síðastliðið haust þar sem haldnir voru opnir fundir á níu stöðum á landinu. Á fundunum var farið yfir helstu atriði tengd nýju löggjöfinni, bæði hvað varðar fyrirtæki, stjórnvöld og einstaklinga. Frá hausti 2016 hefur Persónuvernd haldið mikinn fjölda námskeiða og kynninga, meðal annars fyrir ráðuneyti, ríkisstofnanir, dómstólana, Alþingi, sveitarfélög og önnur stjórnvöld auk þess sem fulltrúar stofnunarinnar hafa haldið erindi hjá heildarsamtökum fyrirtækja. Þessu til viðbótar hefur Persónuvernd staðið fyrir sérstökum málstofum fyrir skólasamfélagið – frá leikskóla til háskóla og fyrir íslenskan heilbrigðisgeira.

Bæklingar og leiðbeiningar sem Persónuvernd hefur gefið út til að undirbúa fyrirtæki, stjórnvöld, sveitarfélög og aðra sem vinna með persónuupplýsingar – auk einstaklinga, eru sem hér segir:

1. Upplýsingar til fyrirtækja á Íslandi vegna Brexit (2019)

2. Rafræn vöktun - eftirlit eða njósnir? (2019)

3. Fyrirtæki og stofnanir í nýju persónuverndarumhverfi (2018)

4. Vinnsluaðilar - Hlutverk og ábyrgð (2018)

5. Persónuvernd barna - Upplýsingar til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum (2018)

6. Fyrirtæki (2016)

7. Leiðbeiningar um öryggisbresti (2018)

8. Leiðbeiningar fyrir vinnsluaðila (2018)

9. Sniðmát að vinnslusamningi (2018)

10. Leiðbeiningar um samþykki (2018)

11. Leiðbeiningar Persónuverndar fyrir skrá yfir vinnslustarfsemi (2018)

12. Sniðmát að vinnsluskrá fyrir ábyrgðaraðila (2018)

13. Sniðmát að vinnsluskrá fyrir vinnsluaðila (2018)

14. Leiðbeiningar um persónuverndarfulltrúa (2018)

15. MÁP - Mat á áhrifum á persónuvernd (2018)

16. Leiðbeiningar um öryggi persónuupplýsinga (2018)

17. Fræðsluefni fyrir persónuverndarfulltrúa (2018)

18. Glærukynning: Fræðsluefni fyrir persónuverndarfulltrúa (2018)

19. Glærukynning: Fræðsluefni fyrir persónuverndarfulltrúa með punktum (2018)

20. Hver eru þín einkamál? Til umhugsunar fyrir 13-17 ára (2018)

21. Þínar upplýsingar - Þín réttindi (2018)

22. Einstaklingar (2016)

Frekari fræðsla fyrirhuguð á árinu 2019

Á árinu 2019 er fyrirhugað að Persónuvernd birti frekari leiðbeiningar, ásamt því að eldri leiðbeiningar verða uppfærðar, eftir því sem þurfa þykir. Dæmi um þær leiðbeiningar sem Persónuvernd hyggst gefa út eru:

1. Leiðbeiningar fyrir nýsköpunarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni

2. Leiðbeiningar um vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndarreglugerðarinnar (vinnsla nauðsynleg vegna samnings í upplýsingasamfélaginu)

3. Leiðbeiningar um hátternisreglur

4. Leiðbeiningar um landfræðilegt gildissvið persónuverndarreglugerðarinnar

5. Leiðbeiningar um vottun

6. Leiðbeiningar um sjálfvirka ákvarðanatöku.



Var efnið hjálplegt? Nei