Hvernig á að vinna með persónuupplýsingar í kosningabaráttu?

Notkun stjórnmálasamtaka á félagatölum, netföngum og símanúmerum

Við skráningu persónuupplýsinga félagsmanna hjá stjórnmálasamtökum verður að liggja skýrt fyrir hver tilgangur skráningar er og hvernig upplýsingarnar verða notaðar. Sem dæmi verður við skráningu netfanga að liggja fyrir hvort þau verða notuð til að senda félagsmönnum tölvupóst eða hvort nota eigi netföngin til að ná til þeirra á samfélagsmiðlum. Auk þess þarf að vera skýrt hver eða hverjir mega nota persónuupplýsingarnar. Einstaklingar eiga rétt á að andmæla þessari vinnslu og þau andmæli ber að virða. Þá geta einstaklingar einnig verið bannmerktir í þjóðskrá og ber þeim sem vinna með upplýsingarnar að bera lista sína saman við bannskrána áður en hafist er handa við markaðssetningu. Þá hefur Fjarskiptastofa gefið út leiðbeiningar vegna óumbeðinna fjarskipta í aðdraganda kosninga.

Almennt verður talið að stjórnmálasamtök hafi lögmæta hagsmuni af því að nota persónuupplýsingar um skráða félagsmenn sína til að beina til þeirra skilaboðum í aðdraganda kosninga. Á hinn bóginn mega stjórnmálasamtök ekki afhenda eða miðla til þriðja aðila, svo sem samfélagsmiðla, persónuupplýsingum félagsmanna sinna án þess að fyrir liggi afdráttarlaust og upplýst samþykki þeirra fyrir því hvaða persónuupplýsingum þeirra megi miðla, hvert og í hvaða tilgangi. Hlýst það m.a. af því að þegar stjórnmálasamtök miðla upplýsingum um félagsmenn sína felst í því miðlun upplýsinga um aðild að stjórnmálasamtökum sem teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga.

Með hliðsjón af eðli umræddra persónuupplýsinga og tilgangi vinnslu þeirra í kringum kosningar

verður að gera ríkar kröfur til gagnsæis við vinnsluna og viðeigandi fræðslu. Í því felst að stjórnmálasamtökum ber að veita félagsmönnum sínum upplýsingar um hvaða persónuupplýsingar unnið er með, tilgang vinnslunnar og lagagrundvöll, hvernig persónuupplýsingar hafa verið fengnar, ef ekki hjá hinum skráðu sjálfum og, ef við á, hverjir eru eða kunna að vera viðtakendur upplýsinganna.

Kosningabarátta á samfélagsmiðlum

Kosningabaráttur er í auknum mæli háðar á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar safna ítarlegum upplýsingum um notendur, til dæmis um staðsetningu þeirra, aldur, hvað þeim líkar við, skrifa ummæli um eða deila. Þannig eru markhópar afmarkaðir með nákvæmari hætti en áður hefur þekkst og auðvelt er að birta notendum auglýsingar sem höfða sérstaklega til þeirra.

Í þessu umhverfi þarf að gæta að því að unnið sé eftir persónuverndarlögum. Vinnsla stjórnmálasamtaka á viðkvæmum persónuupplýsingum félagsmanna og kjósenda, svo sem um stjórnmálaskoðanir, verður að byggjast á afdráttarlausu samþykki hins skráða, þ.e. einstaklingsins sem er undir, fyrir vinnslunni. Samþykkið skal vera upplýst og skýrt um hvernig og hverjir megi nota persónuupplýsingar viðkomandi og í hvaða tilgangi. Í því felst meðal annars að gera verður ríkar kröfur til fræðslu til hins skráða og á það einnig við þegar unnið er með almennar persónuupplýsingar á grundvelli lögmætra hagsmuna.

Á vegum þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram til síðustu alþingiskosninga hafa nú verið gerðar sameiginlegar verklagsreglur sem taka mið af leiðbeiningum og tillögum Persónuverndar sem fram komu í áliti stofnunarinnar frá 5. mars 2020 um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis.

Fyrir alla þá sem hyggjast taka þátt í stjórnmálabaráttu er nauðsynlegt að taka mið af eftirfarandi:

Kynntu þér persónuverndarlöggjöfina. Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að fara fram í samræmi við persónuverndarlöggjöfina. Það þýðir að vinnslan verður að vera lögmæt, sanngjörn og gagnsæ gagnvart einstaklingum og byggja á fullnægjandi heimild, t.d. samþykki.

Hafðu gagnsæi að leiðarljósi við söfnun gagna. Gefðu góðar og skiljanlegar upplýsingar um hvaða upplýsingum er safnað, hvaðan þeim er safnað, í hvaða tilgangi og hverjir (hvaða þriðju aðilar) hafa aðgang að upplýsingunum og hvert þeim kann að vera miðlað.

Vertu meðvitaður um þær tegundir upplýsinga sem unnar eru. Stjórnmálaskoðanir eru skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar í persónuverndarlögunum. Það er í grundvallaratriðum bannað að nota slíkar upplýsingar án þess að hafa til þess heimild. Þegar persónuupplýsingar tengdar stjórnmálaskoðunum eru notaðar á samfélagsmiðlum er það einna helst afdráttarlaust samþykki sem kemur til greina.

Takmarkaðu söfnun og notkun persónuupplýsinga. Þetta á bæði við þegar stjórnmálasamtök eða aðrir skrá niður persónuupplýsingar og þegar þær eru notaðar. Til að mynda getur skrá eða hugbúnaður, sem er notaður í tengslum við heimsóknir og símtöl, verið með textasvæði þar sem starfsmenn stjórnmálasamtaka eða tiltekinnar kosningabaráttu geta skráð inn upplýsingar og þarf þá að tryggja að þar séu ekki skráðar meiri upplýsingar en nauðsynlegt er í tilteknum tilgangi. Þá ber að huga að því að þegar ná skal til afmarkaðs hóps á samfélagsmiðlum skal ekki nota meiri upplýsingar til afmörkunar hópsins en nauðsynlegt er hverju sinni. Þá er stjórnmálasamtökum að auki óheimilt að nýta persónusnið til að beina að einstaklingum efni og auglýsingum í tengslum við stjórnmálabaráttu sem fela í sér hvatningu um að nýta ekki kosningarréttinn. Skal þess að öðru leyti gætt að nýting persónusniðs samrýmist lýðræðislegum gildum. Aðrir en stjórnmálasamtök þurfa að gæta sérstakrar varúðar þegar afmörkun er beitt og gæta þar sérstaklega að meginreglum um lögmæti, sanngirni og meðalhóf.

Hafðu yfirsýn yfir hvaða upplýsingum er safnað á vefsíðunni. Farðu yfir hvaða vefkökur eru settar upp á vefsíðunni. Eyddu þeim sem ekki er þörf á. Vefkökur sem ekki eru notaðar með virkum hætti geta enn sent upplýsingar um notendur vefsíðunnar til óviðkomandi þriðja aðila, t.d. samfélagsmiðla.

Hafðu stjórn á þriðju aðilum. Gerðu vinnslusamninga þegar þriðju aðilar, s.s. auglýsingafyrirtæki eða greiningaraðilar, eru fengnir til að vinna persónuupplýsingar fyrir þína hönd.

Að lokum bendir Persónuvernd á að Fjölmiðlanefnd hefur gefið út fræðslu í tengslum við kosningarVar efnið hjálplegt? Nei