Hlutverk Persónuverndar

Hlutverk Persónuverndar er að gæta hagsmuna almennings þannig að mannréttindi séu ekki brotin við meðferð persónuupplýsinga.

Persónuvernd er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn. Hún tekur ekki við fyrirmælum frá stjórnvöldum eða öðrum aðilum. Ákvörðunum hennar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.

Persónuvernd er leiðandi á sviði persónuverndar og meðferðar persónuupplýsinga á Íslandi og leitast við að tryggja að stofnanir og einkaaðilar þekki og fari eftir lögum og reglum um meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin eflir þekkingu, vitund og skilning almennings á áhættu, reglum, verndarráðstöfunum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að almenningur geti staðið vörð um réttindi sín og friðhelgi, svo og vitund ábyrgðaraðila og vinnsluaðila um skyldur sínar.

Markmið persónuverndarlaganna er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

Persónuvernd hefur skýra sýn á hlutverk sitt og ábyrgð í samfélaginu. Gildi stofnunarinnar eru þekking, trúverðugleiki og fagmennska og samanstendur innra og ytra starf stofnunarinnar af þessum þáttum sem unnið er af samheldnum og traustum mannauði.


Hlutverk Persónuverndar og helstu verkefni eru:

 

Eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd

Persónuvernd er eftirlitsstjórnvald og hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og öðrum reglum um vinnslu persónuupplýsinga og að bætt sé úr annmörkum og mistökum.

Úrskurðarvald í ágreiningsmálum

Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga.

Frumkvæðismál

Persónuvernd getur fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvarðanir að eigin frumkvæði.

Leyfisveitingar og fyrirmæli um ráðstafanir varðandi vinnslu persónuupplýsinga

Persónuvernd afgreiðir leyfisumsóknir og mælir, eftir því sem þurfa þykir, fyrir um ráðstafanir að því er varðar tækni, öryggi og skipulag vinnslunnar þannig að hún verði í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

Öryggisúttektir

Persónuvernd gerir úttektir á öryggi vinnslu persónuupplýsinga.

Almenn þróun á sviði persónuupplýsingaverndar

Persónuvernd fylgist með framvindu á sviðum tengdum persónuupplýsingavernd á innlendum og erlendum vettvangi.

Skilgreining og afmörkun þess hvar persónuvernd er hætta búin

Persónuvernd skilgreinir og afmarkar hvar persónuvernd er hætta búin og veitir ráð um leiðir til lausnar.

Leiðbeiningar til ábyrgðaraðila

Persónuvernd leiðbeinir þeim sem ráðgera að vinna með persónuupplýsingar eða þróa kerfi fyrir slíka vinnslu.

Ráðgjöf um lagasetningu og stjórnsýslu

Persónuvernd skal veita Alþingi, stjórnvöldum og öðrum aðilum ráðgjöf á sviði lagasetningar og stjórnsýslu sem tengist vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga.

Erlent samstarf

Persónuvernd tekur þátt í starfsemi Evrópska persónuverndarráðsins (e. European Data Protection Board – EDPB). Þá er Persónuvernd í samstarfi við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum, þ.m.t. í þeim tilgangi að skiptast á upplýsingum við þau og veita gagnkvæma aðstoð með það fyrir augum að tryggja samræmi í beitingu og framkvæmd laganna og reglugerðarinnar.

Umsagnir

Persónuvernd tjáir sig, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði, um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga og veitir umsagnir við setningu laga og annarra reglna sem þýðingu hafa fyrir persónuvernd.

Útgáfa ársskýrslu

Persónuvernd birtir árlega skýrslu um starfsemi sína

Þá eru Persónuvernd falin verkefni og vísað til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga í á annað hundrað lagabálkum og stjórnvaldsreglum.Var efnið hjálplegt? Nei