Fréttir

Fyrirsagnalisti

8.7.2020 : Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um forritið TikTok

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur sætt gagnrýni fyrir umfangsmikla söfnun og vinnslu persónuupplýsinga um notendur sína. Evrópska persónuverndarráðið (European Data Protection Board) hefur af því tilefni sett á laggirnar átakshóp til að öðlast betri yfirsýn yfir starfsemi fyrirtækisins og samræma mögulegar aðgerðir aðildarríkjanna. Persónuvernd hvetur foreldra og forráðamenn til að fræða börn sín um samfélagsmiðla og þá áhættu sem getur falist í því að deila persónuupplýsingum á slíkum miðlum.

3.7.2020 : Bréf Persónuverndar til Íslenskrar erfðagreiningar vegna deilingarhnapps frá Facebook

Fimmtudaginn 25. júní 2020 sendi Persónuvernd bréf til Íslenskrar erfðagreiningar vegna deilingarhnapps frá Facebook á niðurstöðusíðu rannsóknar fyrirtækisins á erfðum persónuleikaþátta og vegna notkunar fyrirtækisins á Facebook til að hvetja almenning til þátttöku. Í bréfinu kemur fram að Íslensk erfðagreining hafi gert grein fyrir því í umsókn sinni um rannsóknina að þátttaka yrði öllum opin á Netinu og að mögulega yrði á einhverjum tíma óskað eftir þátttakendum meðal almennings með auglýsingum og umfjöllun í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Persónuvernd hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir því, í ljósi þessarar umfjöllunar, hvað í því fólst. Hefði svo verið, hefði Persónuvernd kallað eftir frekari upplýsingum og gögnum og mun gera það framvegis við yfirferð umsókna um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði ef fyrirhugað er að notast við samfélagsmiðla með einhverjum hætti. Bréf Persónuverndar má sjá hér að neðan.

2.7.2020 : Árétting á tilmælum Persónuverndar til þeirra sem koma að starfi með börnum vegna notkunar samfélagsmiðla við birtingu persónuupplýsinga um börn, m.a. myndir

Persónuvernd áréttar tilmæli stofnunarinnar frá 6. september 2018 um að þeir sem koma að starfi með börnum, m.a. skólar og íþróttafélög, noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða. Er þar fyrst og fremst átt við miðla þar sem ábyrgðaraðilinn hefur ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn samkvæmt þeim skilmálum sem gilda um miðilinn, sbr. Facebook. Öðru máli gegnir hins vegar um vefsíður eða hugbúnað sem tryggja ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er, m.a. til að eyða myndum þaðan ef beiðni berst þar að lútandi. Þannig geta ábyrgðaraðilarnir sjálfir gert umræddar myndir aðgengilegar fyrir hlutaðeigandi aðila með öruggum hætti, t.d. með aðgangsstýringu. 

1.7.2020 : 30.-33. fundir EDPB; yfirlýsing vegna opnunar landamæra og samvirkni rakningarforrita o.fl.

Vegna Covid-19 faraldursins hafa fundir Evrópska persónuverndarráðsins farið fram í gegnum fjarfundarbúnað frá því í apríl. Í stað mánaðarlegra funda skipti ráðið yfir í vikulega fjarfundi. Í júní hafa verið haldnir fjórir slíkir fundir. Áætlað er að ráðið haldi fjarfundi út júlí í það minnsta. 

26.6.2020 : Reglur um öryggi persónuupplýsinga við framkvæmd vísindarannsókna á heilbrigðissviði

Þann 8. júní 2020 tóku gildi reglur um öryggi persónuupplýsinga við framkvæmd vísindarannsókna á heilbrigðissviði.

24.6.2020 : Vegna fréttatilkynningar Neytendasamtakanna og ASÍ um starfsleyfisskilmála Creditinfo

Að gefnu tilefni vill Persónuvernd taka eftirfarandi fram vegna fréttatilkynningar sem Neytendasamtökin og ASÍ birtu í dag:

16.6.2020 : Fundir EDPB í apríl og maí

Vegna Covid-19 faraldursins hafa fundir Evrópska persónuverndarráðsins farið fram í gegnum fjarfundarbúnað í apríl og maí. Í stað mánaðarlegra funda skipti ráðið yfir í vikulega fjarfundi. Alls voru á þessum tíma haldnir 11 fjarfundir. Áætlað er að ráðið haldi fjarfundi út júlí í það minnsta. 

19.5.2020 : Álit um skrár Embættis landlæknis

Persónuvernd hefur veitt álit í máli af tilefni kröfu Embættis landlæknis um að sjálfstætt starfandi sérfræðingar sendi því upplýsingar um sjúklinga sína til skráningar í samskiptaskrá sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Í álitinu er meðal annars rakið að í 71. gr. stjórnarskrárinnar felist að reglugerðir eða önnur fyrirmæli sett af ráðherra sem takmarki einkalífsréttindi manna verði að eiga sér skýra lagastoð og geti ekki gengið lengra en ráðgert sé í lögunum sjálfum. Í 22. gr. reglugerðar nr. 548/2008 um heilbrigðisskrár sé kveðið á um að skylt sé að færa tilteknar persónuupplýsingar í umrædda skrá. Samkvæmt lögum nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu standi hins vegar einungis heimild til þeirrar skráningar og séu því með reglugerðinni lagðar þyngri byrðar á borgarana en lögin heimili. Með hliðsjón af þessu sé það mat Persónuverndar að þörf sé á skýrari ákvæðum í settum lögum um heilbrigðisskrár.

14.5.2020 : Tilkynningagátt fyrir öryggisbresti opnuð í dag

Ný tilkynningagátt um öryggisatvik – oryggisatvik.island.is – hefur verið opnuð en gáttin auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að tilkynna um öryggisatvik sem upp kunna að koma í rekstri þeirra. Gáttin er samvinnuverkefni Persónuverndar, Póst- og fjarskiptastofnunar/CERT-IS og Lögreglunnar undir forystu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. 

Síða 1 af 36


Var efnið hjálplegt? Nei