Fréttir

Framkvæmdastjórn ESB hefur rannsókn á Facebook og Instagram

2.5.2024

Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti síðastliðinn mánudag að hafin væri rannsókn á Facebook og Instagram á grundvelli laga um stafræna þjónustu (e. DSA, Digital Service Act).

Framkvæmdastjórnin telur að stefna Meta varðandi villandi auglýsingar og pólitískt efni sé ófullnægjandi og veiti ekki þriðja aðila kost á borgaralegri umræðu í rauntíma og notkun á kosningar- eftirlitstólum fyrir kosningarnar til Evrópuþingsins. Auk þess gagnrýndi framkvæmdastjórnin fyrirkomulag Meta við flöggun ólöglegs efnis á Facebook og Instagram, innra kvörtunarkerfi fyrirtækisins og reglur um aðgang vísindamanna að opinberum gögnum.

Þótt ýmsir annmarkar virðast vera til staðar, leggur framkvæmdastjórnin aðaláherslu á ógnir við komandi Evrópuþingskosningar, en samkvæmt Financial Times var framkvæmdastjórnin sögð hafa sérstakar áhyggjur af villandi upplýsingum og falsfréttum frá Rússlandi. Ljóst er að framkvæmdastjórnin hefur nauman tíma til að ljúka við rannsóknina eigi hún að hafa áhrif þar sem þingkosningarnar fara fram í júní.

Fréttatilkynning framkvæmdastjórnar ESB.Var efnið hjálplegt? Nei