Persónuvernd barna

Útgefnir bæklingar

Persónuvernd barna

Upplýsingar til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum. Foreldrar, forráðamenn og aðrir sem annast börn eiga að þekkja þennan rétt barna.

Sérstaklega þarf að huga að eftirfarandi:

 • Börn geta þurft að samþykkja að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska.
 • Börn eiga rétt á að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða birtingu mynda af þeim á Netinu. Taka þarf tillit til skoðana þeirra, jafnvel þó að þau séu ung.
 • Allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti. Settu þig  í spor barnsins og hugsaðu um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á barnið síðar.
 • Það sem sett er á Netið getur farið víða. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum.
 • Ljósmyndum geta fylgt nákvæmar upplýsingar um staðsetningu, til dæmis GPS-hnit. Þær geta svo fylgt myndinni þegar hún er sett á Netið. Það getur því skipt máli að fjarlægja þær áður en myndum er deilt á Netinu svo að óviðkomandi aðilar fái ekki upplýsingar um staðsetningu barna.

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til einstaklings, t.d. nafn, kennitala, heimilisfang, ljósmynd eða upptaka. Persónuupplýsingar eru upplýsingar um fólk, ekki fyrirtæki eða dýr.

Hvenær má vinna upplýsingar um börn?

Öll vinnsla persónuupplýsinga, svo sem söfnun þeirra, varðveisla og miðlun, þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum. Samþykki barns eða foreldra þess er ein tegund heimildar. Aðrar heimildir geta verið samningur, lagaheimild eða lögmætir hagsmunir, svo að dæmi séu nefnd.  

Þegar vinnsla er byggð á samþykki þarf að meta í hvert skipti hvort það er barnið sjálft eða foreldri þess sem veitir samþykki sitt. Hafa þarf í huga að forsjárforeldri fer með lögformlegt fyrirsvar barns og hefur bæði rétt og skyldu til að ráða persónulegum högum þess. Foreldrar þurfa þó ávallt að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefa tilefni til.

Þegar barni er boðin þjónusta á Netinu með beinum hætti og vinnsla persónuupplýsinga byggist á samþykki þess er samþykkið einungis gilt ef barnið hefur náð 13 ára aldri. Þetta getur til dæmis átt við um notkun samfélagsmiðla þar sem skilmálar eru samþykktir í byrjun. Ef  barnið er yngra en 13 ára þarf að afla samþykkis foreldra/forráðamanna fyrir vinnslunni.

Fræðsla

Ef vinna á með persónuupplýsingar um barn þarf að veita fræðslu um tiltekin atriði. Slíka fræðslu getur þurft að veita bæði foreldrum og eftir atvikum barninu sjálfu, hafi það aldur og þroska til að skilja hana.

Ef fræðslu er beint að barninu sjálfu þarf að veita upplýsingarnar þannig að barnið skilji þær. Ekki er hægt að gera sömu kröfur til málskilnings sjö ára barns, 15 ára unglings og fullorðins einstaklings og þarf að útbúa fræðsluna með hliðsjón af því.

 

Sá sem ætlar að vinna með persónuupplýsingar þarf meðal annars að upplýsa um:

 • hvaða upplýsingar unnið verður með
 • af hverju unnið verður með upplýsingarnar
 • hvaðan upplýsingarnar koma, ef þær koma ekki frá barninu eða foreldrum þess
 • hvort einhver annar aðili fái að sjá upplýsingarnar, og þá hver og hvers vegna

Skóla- og frístundastarf 

Skólar, frístundaheimili og íþróttafélög, sem vinna persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, bera ábyrgð á þeirri vinnslu. Það er því þeirra hlutverk að gæta að því að öll meðferð persónuupplýsinga samrýmist lögum. Hið sama gildir um aðra aðila sem skrá og varðveita persónuupplýsingar barna í tengslum við starfsemina eða nota þær með öðrum hætti.

Miðlun persónuupplýsinga um börn á samfélagsmiðlum, svo sem Facebook, telst til vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laganna. Persónuvernd beinir þeim tilmælum til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga og annarra þeirra sem koma að starfi með börnum að þeir noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða.

 

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum. Foreldrar, forráðamenn og aðrir sem annast börn eiga að þekkja þennan rétt barna.

Helstu atriði:

 • Börn eiga rétt til persónuverndar
 • Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til þín, t.d. nafnið þitt, kennitalan þín eða mynd af þér
 • Börn eiga rétt á að tjá sig um vinnslu persónuupplýsinga um sig, að teknu tilliti til aldurs og þroska
 • Ef veita á barni fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga um það þarf að veita upplýsingarnar á skýru og einföldu máli sem barnið skilur
 • Börn mega hafa skoðun á þeim myndum sem birtar eru af þeim á samfélagsmiðlum, jafnvel þótt foreldrarnir birti myndirnar
 • Persónuvernd beinir þeim tilmælum til þeirra sem starfa með börnum, svo sem skóla og íþróttafélaga, að nota ekki samfélagsmiðla til að miðla persónuupplýsingum um börn

Hér má nálgast bæklinginn á PDF-formi.

Fáni EvrópusambandsinsÞessi bæklingur var fjármagnaður af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Efni þessa bæklings er unnið af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á því. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei