Ársskýrsla Tölvunefndar 1999

EFNISYFIRLIT


1. Formáli

2. Almennt um skipun og starf Tölvunefndar.
2.1. Um skipun nefndarinnar.
2.2. Um málafjölda og viðfangsefni nefndarinnar.

3. Yfirlit yfir afgreidd erindi á árinu 1999.
3.1. Vísindarannsóknir og kannanir ýmis konar.
3.1.1. Helstu skilmálar fyrir gerð slíkra rannsókna og kannanna.
3.1.2. Yfirlit yfir þær vísindarannsóknir og kannanir sem heimilaðar voru.
3.2. Kannanir sem voru framkvæmdar með þeim hætti að Tölvunefnd taldi ákvæði laganna ekki taka til þeirra og því ekki standa gerð þeirra í vegi.
3.3. Starfsleyfi sem gefin voru út.
3.3.1. Starfsleyfi skv. 15. gr.
3.3.1.1. Lánstraust hf. (99/277)
3.3.2. Starfsleyfi skv. 21. gr.
3.3.2.1. Fasteignamat ríkisins (99/297)
3.3.2.2. Íslandspóstur (99/170)
3.3.2.3. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (99/395)
3.3.2.4. Landssími Íslands (99/253)
3.3.2.5. Markhúsið ehf. (99/506)
3.3.3. Starfsleyfi skv. 24. gr.
3.3.3.1. Íslenskar markaðsrannsóknir ehf. (98/292)
3.3.4. Starfsleyfi skv. 25. gr.
3.3.4.1. Rósakot ehf. (99/475)
3.3.4.2. Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (98/417)
3.3.5. Starfsleyfi skv. 15. og 25. gr.
3.3.5.1. Reiknistofa bankanna (99/336)
3.4. Tilkynningar starfsleyfishafa um einstakar kannanir skv. 1. mgr. 24. gr..
3.5. Erindi sem var synjað.
3.6. Álit, umsagnir og leyfi.
3.7. Svör við fyrirspurnum.
3.8. Afgreiddar kvartanir.
3.9. Beiðnir um gerð, aðgang, notkun, gerð og samtengingu einstakra skráa.
3.10. Ýmis mál
3.11. Eftirlit og önnur mál.
3.12. Nánari greinargerð um einstakar afgreiðslur.
3.12.1. Heilbrigðisráðuneytið (99/468)
3.12.2. Hjartavernd (97/113)
3.12.3. Póst- og fjarskiptastofnunin (98/464)

4. Starf á fjölþjóða vettvangi.
4.1. Norrænt samstarf.
4.2. Evrópuráðið.
4.3. Alþjóðasamtök gagnaverndarstofnana.
4.4. Vinnuhópur samkvæmt 29. gr. ESB-tilskipunar um verndun einstaklingsins í vinnslu persónuupplýsinga.
4.5. Sameiginlega eftirlitsnefnd Schengen.

5. Lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121 28. desember 1989.

6. Nafnaskrá.1. Formáli

Samkvæmt 36. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121 28. desember 1989 skal Tölvunefnd árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Skal þar birta yfirlit yfir þau starfsleyfi, samþykktir og heimildir sem nefndin hefur veitt, reglur sem hún hefur sett og úr skurði sem hún hefur kveðið upp.

Skýrsla þessi fyrir árið 1999, sem hér birtist, er önnur skýrsla um störf þeirrar nefndar sem skipuð var til að starfa í ársbyrjun 1998. Er það þriðja nefndin sem skipuð er samkvæmt lögum nr. 121/1989 en jafnframt fimmta nefndin sem skipuð er frá því að fyrstu lög varðandi meðferð og skráningu persónuupplýsinga voru sett, en það voru lög um skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, nr. 63 5. júní 1981.2. Almennt um skipun og starf Tölvunefndar

2.1. Um skipun nefndarinnar

Skýrsla þessi, sem er birt samkvæmt 36. gr. laga nr. 121/1989, er önnur skýrsla þeirrar nefndar sem tók til starfa í ársbyrjun 1998. Nefndina skipuðu: Þorgeir Örlygsson, prófessor, formaður, Jón Ólafsson hrl., varaformaður, Valtýr Sigurðsson, héraðsdómari, Guðbjörg Sigurðardóttir, deildarstjóri, tilnefnd af Skýrslutæknifélagi Íslands og Haraldur Briem, yfirlæknir. Varamenn voru: Jón Thors, skrifstofustjóri, Erla S. Árnadóttir hrl.,Gunnar Thoroddsen, lögfr., Vilhelmína Haraldsdóttir, læknir og Óskar B. Hauksson, verkfr. Framkvæmdastjóri nefndarinnar var Sigrún Jóhannesdóttir, deildarstjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Formaður nefndarinnar lét af störfum í ágúst mánuði. Tók þá Páll Hreinsson, prófessor við starfi formanns.

2.2. Um málafjölda og viðfangsefni nefndarinnar

Á árinu 1999 bárust nefndinni alls 519 erindi og umsóknir. Óafgreidd erindi sem nefndin tók við frá fyrra ári voru 68 talsins þannig að til afgreiðslu voru 587 erindi. Afgreidd voru 512 erindi en 75 biðu til næsta árs. Nefndin hélt 27 fundi á árinu. Tölvunefnd skipaði nokkra menn til að hafa tilsjón með einstökum málum. Það voru m.a. Svana Helen Björnsdóttir, Guðmundur Sigurðsson, Jónas Sverrisson og Magnús Már Halldórsson.

Að vanda leitaði nefndin umsagna ýmissa aðila um þau erindi sem henni bárust, alls um 21 erindi hjá 13 aðilum. M.a. var leitað umsagnar Fjármálaeftirlitsins, Flugmálastjórnar, Háskóla Íslands, Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis (um 2 erindi), Landlæknis (um 4 erindi), Landssímans, Nefndar um gerð og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði, Neytendasamtakanna, Samgönguráðuneytis, tilsjónarmanna (um 3 erindi), Tryggingastofnun ríkisins (2 erindi), Vísindasiðanefnd (um 2 erindi), Þjóðskjalasafns Íslands.

Kostnaður af starfi nefndarinnar var kr. 7.065.000. Þar af var launakostnaður kr. 4.962.000. Ferðakostnaður var 1.586.000. Fjárveiting samkvæmt fjárlögum var kr. 4.700.000.

Eftirfarandi tafla sýnir fjölda erinda og afgreiðslna frá því að starfsemi nefndarinnar hófst með lögum nr. 61/1981:


Ár Fjöldi erinda Fjöldi afgreiðslna
1982 59 32
1983 48 68
1984 68 64
1985 95 104
1986 186 171
1987 119 118
1988 89 86
1989 107 118
1990 156 139
1991 141 143
1992 157 158
1993 203 203
1994 264 268
1995 299 280
1996 331 341
1997 439 416
1998 509 493
1999 519 512


3. Yfirlit yfir afgreidd erindi á árinu 1999.

Hér á eftir fer yfirlit yfir þau mál sem Tölvunefnd afgreiddi á starfsárinu:

3.1. Vísindarannsóknir og kannanir ýmis konar

3.1.1. Helstu skilmálar fyrir gerð slíkra rannsókna og kannana

Hér að neðan eru taldir upp ýmsir skilmálar sem algengt er að nefndin bindi leyfi fyrir framkvæmd slíkra verkefna sem talin eru í kafla nr. 3.1.2.

1. Að fullkominnar nafnleyndar allra þátttakenda í rannsókn /könnun verði gætt.
2. Að persónuauðkenni þátttakenda í rannsókn verði hvergi skráð.
3. Að þátttakendur í rannsókn samþykki skriflega þátttöku í henni, samþykki skráningu upplýsinganna og e.t.v. geymslu þeirra.
4. Að þátttakendum verði bent á að þeim sé hvorki skylt að svara einstökum spurningum né spurningalista í heild og það skuli koma greinilega fram á spurningalista eða í bréfi til þátttakenda.
5. Að þátttakendum verði bent á að þeir geti hætt þátttöku á hvaða stigi rannsóknar sem er.
6. Að óheimilt sé að veita óviðkomandi aðgang að skráðum upplýsingum.
7. Að óheimilt sé að nota upplýsingar sem skráðar verða til annars en þess sem er tilgangur rannsóknar/könnunar.
8. a) Að öll frumgögn rannsóknar verði eyðilögð að lokinni úrvinnslu og Tölvunefnd tilkynnt um eyðingu gagnanna, eða
b) Að öllum persónuauðkennum verði eytt um leið og ekki er lengur þörf fyrir þau (að gagnasöfnun lokinni),
eða
c) Að frumgögn rannsóknar megi varðveita í læstri hirslu á ábyrgð umsækjanda í tiltekið tímabil en öll frekari vinnsla upplýsinganna sé háð leyfi Tölvunefndar.
9. Að óheimilt sé að flytja gögn rannsóknar úr landi.
10. Að óheimilt sé að samkeyra skráðar upplýsingar við aðrar skrár.
11. Að einungis megi birta rannsóknarniðurstöður á þann hátt að ekki megi rekja þær til ákveðinna einstaklinga.
12. Að allir þeir sem að rannsókn vinni undirriti þagnarheit.
13. Að Tölvunefnd geti sett frekari skilyrði ef persónuverndarhagsmunir krefjist þess.

3.1.2. Yfirlit yfir þær vísindarannsóknir og kannanir sem heimilaðar voru. Um er að ræða heimildir samkvæmt 3. mgr. 4. gr. til að skrá persónuupplýsingar, samkvæmt 2. mgr. 5. gr. til aðgangs að skráðum upplýsingum, samkvæmt 3. mgr. 6. gr. til samtengingar skráa og samkvæmt 27. gr. til flutnings gagna úr landi

Aðalbjörn Þorsteinsson, Girsh Hirlekar og Kristinn Sigvaldason læknar (99/058) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á faraldsfræði bráðrar lungnabilunar o.fl. Þátttakendur voru sjúklingar sem lögðust inn á gjörgæsludeildir á 2ja mánaða tímabili. Eingöngu var safnað upplýsingum sem skráðar eru við eðlilegar aðstæður hjá öllum sjúklingum sem koma á gjörgæslu. Hjá þeim sjúklingum sem voru með bráða lungnabilun verða og skráð atriði sem taldir voru geta gefið upplýsingar um alvarleika sjúkdómsins. Engin persónuauðkenni voru skráð.
Andri Konráðsson deildarlæknir, Höskuldur Kristvinsson og Páll Helgi Möller skurðlæknar (99/127) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á stigun, meðferð og horfum brjóstakrabbameins á Íslandi 1989-1994. Þátttakendur voru allir þeir sjúklingar sem fóru í aðgerð vegna brjóstakrabbameins á nefndu tímabili. Upplýsingar voru fengnar úr gögnum Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði og í gögnum krabbameinsdeildar Landspítalans. Heimild veitt með því skilyrði að öllum persónuauðkennum yrði eytt þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en nokkur úrvinnsla hæfist. Skyldi greiningarlykli þá annað hvort eytt eða komið í vörslu Tölvunefndar. Gildi heimildarinnar var og bundið því skilyrði að fyrir hendi væri samþykki allra viðkomandi skrárhaldara/yfirlækna.
Ann Hermansson, Anna Björk Magnúsdóttir og Karl G. Kristinsson yfirlæknir (99/447) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna verkefnis um könnun tengsla arfgerðar pneumókokkastofna af svipgerð 6 við eðli sýkingar. Þátttakendur voru 50 einstaklingar sem skráðir voru í gögnum Sýklafræðideildar Landsspítalans. Um tvíþætta rannsókn var að ræða, fyrri hlutinn var eingöngu rannsókn á bakteríustofninum án tengingar við sjúklinga/einstaklinga en síðari hlutinn laut að rannsókn á því frá hvers konar sýkingum þessir stofnar ræktist í mönnum og hvort tengsl væru milli sýkingagerðar og arfgerðar. Gagna var aflað úr sjúkraskrám en skráð án persónuauðkenna. Ekki hægt að tengja númer sýnis við viðkomandi einstaklinga nema með aðgangi að tölvuskrá sýklafræðideildar Landspítalans.
Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri, Jóna V. Guðmundsdóttir deildarstjóri og Lúðvík Gröndal (99/147) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna samanburðarkönnunar á starfsemi fimm og sjö daga öldrunarlækningadeilda. Þátt tóku þeir sem lögðust inn á öldrunarsvið Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 1. apríl 1999 til 1. apríl 2000. Miðað var við frjálsa þátttöku sjúklinga sem lögðust inná deildirnar umrætt tímabil. Úrvinnsla gagna í höndum ábyrgðarmanns og verkefnastjóra verkefnisins. Varðveisla gagna í sjúkraskrá viðkomandi sjúklings og samkvæmt tilmælum Tölvunefndar. Tölvunefnd leitaði umsagnar tilsjónarmanns sem vildi fá staðfest að upplýsingar úr umræddri könnun yrði meðhöndlaðar eins og önnur sjúkragögn viðkomandi einstaklinga.
Anna Björg Jónsdóttir (99/084) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni Méniere´s sjúkdóms meðal Íslendinga, meðferð og batahorfum. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni hennar til lokaprófs í læknisfræði við Háskóla Íslands. Fenginn listi yfir fólk sem farið hafði í svimarannsóknir síðustu 10 árin á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Því fólki voru sendir spurningalistar. Tölvunefnd fór fram á að henni bærist sýnishorn þess kynningarbréfs, spurningalista og annars efnis sem væntanlegum þátttakendum yrði sent. Eftir að hafa fengið umbeðin gögn í hendurnar gerði Tölvunefnd athugasemd við að í kynningarbréfi til þátttakenda væri ekki tekið fram að mönnum væri heimilt að standa utan umrædds verkefnis og fá nafni sínu og upplýsingum eytt af rannsóknargögnum. Heimild veitt enda yrði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hæfist.
Anna Gunnarsdóttir deildarlæknir, Guðmundur Bjarnason og Jónas Magnússon skurðlæknar (99/051) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á árangri STING aðgerða á Landsspítalanum. Þátttakendur voru allir sem gengist höfðu undir STING aðgerð á Landsspítalanum vegna bakflæðis frá þvagblöðru án annarra galla á þvagkerfi. Farið var yfir sjúkraskrár allra barna sem höfðu gengist undir STING aðgerð á Landsspítalanum frá 1994 er byrjað var að gera þessar aðgerðir. Gögn skráð eftir nafni og fæðingardegi sjúklings. Heimild veitt með því skilyrði að öll persónuauðkenni yrðu afmáð. Setja mátti númer í þeirra stað og varðveita greiningarlykil allt til ársins 2004.
Anna Lilja Sigfúsdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Hrönn Birgisdóttir og Jóhanna Margrét Sveinsdóttir (99/465) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna mats á sálfræðilegri aðlögun kvenna sem fá lyfjameðferð vegna krabbameins. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni þeirra til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru u.þ.b. 120 konur sem fengu lyfjameðferð í janúar-júní 2000. Gagna aflað með spurningalista. Heimild veitt með því skilyrði að þess yrði gætt að auðkenna skráðar upplýsingar ekki með persónugreinanlegum hætti. Gildi heimildarinnar einnig bundið því skilyrði að fyrir liggi leyfi frá yfirlæknum viðkomandi deilda.
Anna Margrét Halldórsdóttir læknir, Einar Sindrason yfirlæknir og Friðrik K. Guðbrandsson sérfræðingur (99/472) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á arfgengi snigilgluggaherslis á Íslandi. Þau fengu lista með nöfnum sjúklinga sem skornir höfðu verið upp á SHR vegna heyrnartaps af völdum snigilgluggaherslis og þeirra sem hafa leitað til HTMÍ og greinst með snigilgluggahersli frá 1992. Þátttakendur fengu senda spurningarlista, ef ættgengi kemur í ljós verður leitað samþykkis viðkomandi ættingja fyrir þátttöku í rannsókninni og ættartengsl einstaklinga sem greinst hafa með snigilgluggahersli kortlögð. Heimild Tölvunefndar var bundin því skilyrði að fyrir liggi leyfi frá viðkomandi.
Anna Þóra Einarsdóttir sérkennari (99/190) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum sérkennslunemenda til eigin getu og hæfni á nokkrum afmörkuðum sviðum. Þátttakendur í könnuninni voru u.þ.b. 75 nemendur sem fæddir eru 1987, valdir með hentiúrtaki úr grunnskólum á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri. Gagna var fyrst og fremst aflað með spurningalistum til þátttakenda en ennfremur hjá viðkomandi skólum um hvaða nemendur njóti sérkennslu á þessu skólaári. Einnig voru tekin hálfopin viðtöl við 5-6 nemendur sem nutu sérkennslu í þeim tilgangi að fá nánari upplýsingar um mat þeirra á eigin getu og fá betri mynd af viðhorfum þeirra. Leyfi veitt með fyrirvara um samþykki forráðamanna.
Arna Skúladóttir hjúkrunarfræðingur og Marga Thome dósent (99/156) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á þróun göngudeildar fyrir svefntrufluð ungbörn og foreldra þeirra. Skráðar voru upplýsingar öll ungbörn sem komu á göngudeild og foreldra þeirra. Rannsóknargögnum eytt að lokinni úrvinnslu og ekki hægt að rekja upplýsingar til einstaklinga.
Arna Skúladóttir hjúkrunarfræðingur, Gyða Baldursdóttir, Ingibjörg Hjaltadóttir og Margrét Björnsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjórar, Herdís Gunnarsdóttir, Ingibjörg H. Elíasdóttir, Ragnheiður Erlendsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/091) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu aðstandenda af umönnun aldraðra einstaklinga með minnistap. Upplýsinga aflað með einu til tveimur viðtölum við hvern þátttakanda. Í vélrituðum viðtölum var ýmsum nöfnum og ýmsum einkennum breytt svo að ekki yrði unnt að bera kennsl á þátttakendur eða lýsingu á aðstandendum þeirra.
Arnar Hauksson yfirlæknir, Hrólfur Einarsson stud.med., Peter Holbrook og Reynir Tómas Geirsson prófessorar (99/142) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á sambandi eðlilegs og afbrigðilegs sýklagróðurs í munni og leggöngum þungaðra kvenna með tilliti til hættu á fyrirburafæðingu. Þátttakendur í rannsókninni voru 50 heilbrigðar þungaðar konur. Öllum persónuauðkennum eytt þegar að gagnasöfnun lokinni.
Atli Dagbjartsson, Gestur Pálsson og Þórður Þórkelsson læknar (99/486) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar annars vegar á áhrifum reykinga móður á súrefnisflutning til fósturs og hins vegar á því hvort börn sem fæðast með eðlilegri fæðingu hafi merki um minni súrefnisflutning en börn sem fæðast með fyrirfram ákveðnum keisaraskurði án þess að móðir þeirra hafi farið í fæðingu. Skráðar voru upplýsingar um 20 börn mæðra sem reyktu á meðgöngu og fæddust með fyrirfram ákveðnum keisaraskurði, í öðru lagi 20 börn mæðra sem ekki reyktu á meðgöngu og fæddust með fyrirfram ákveðnum keisaraskurði og í þriðja lagi 20 börn sem fæddust með eðlilegri fæðingu. Heimildin var bundin því skilyrði að til væri leyfi frá yfirlækni þeirrar deildar sem rannsóknin var unnin á.
Árni Árnason sjúkraþjálfari (99/487) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á meiðslum í knattspyrnu og áhrifum forvarna. Könnunin var unnin í samvinnu við Norges Idrettshögskole og Lífeðlisfræðistofnun Háskóla Íslands. Þátttakendur komu úr 18 knattspyrnuliðum úr Landssímadeildinni og fyrstu deild karla, alls 270 leikmenn.
Árni Kjalar Kristjánsson, Bjarni Þjóðleifsson, Gestur Pálsson, Hallgrímur Guðjónsson, Jón G. Jónasson og Nicholas J. Cariglia (99/369) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna framhaldsrannsóknar á faraldsfræði glútenóþols í görn. Þátttakendur voru allir þeir sem höfðu greinst með glútenóþol í görn á tímabilinu 1992-1999. Gagna verður aflað úr sjúkraskýrslum og frá sjúklingum. Heimild bundin því skilyrði að áður en gagnasöfnun hæfist myndi læknir viðkomandi sjúklings hafa samband við hann og kanna hvort hann væri samþykkur slíkri notkun sjúkraskrárinnar.
Árni Kristinsson yfirlæknir, Axel Sigurðsson, Guðmundur Þorgeirsson og Jóhann Ragnarsson hjartasérfræðingar, Ásgeir Jónsson, Halldóra Björnsdóttir, Guðmundur Oddsson og Karl Andersen (99/232) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á gildi lyfsins Candesartan cilexetil fyrir sjúklinga með hjartabilun. Þátttakendur alls 75 sjúklingar með hjartasjúkdóm og merki þess að hjartað dragist ekki nægilega vel saman. Aflað gagna með viðtölum við sjúklinga um fyrri sjúkrasögu. Heimild veitt með því skilyrði að þess yrði gætt að fara með öll gögn eins og sjúkragögn.
Ársæll Kristjánsson (99/388) fékk heimild til meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar/leitar að æxlisboðum sem gefa vísbendingu um framvindu yfirborðslægra blöðruæxla. Nöfn þeirra sem greinst hafa með þvagfæraþerkjukrabbamein á tímabilinu 1986-1991 voru fengin hjá Krabbameinsskrá KÍ, upplýsingum um þá safnað úr sjúkraskrám og æxlissýnum frá Dungalsafni. Hluti vinnslunnar í höndum Urðar-Verðandi-Skuldar ehf. Heimild bundin því skilyrði að engin nafngreind gögn bærust UVS eða öðrum óviðkomandi aðilum og að greiningarlykli yrði eytt að gagnaöflun lokinni.
Ásdís Björk Kristinsdóttir (99/267) fékk heimild fyrir Símann Internet til að fá lista yfir útskriftarnema í framhaldsskólum og skólum á háskólastigi til að senda markpóst á. Heimild veitt fyrir umræddum aðgangi með því skilyrði að umræddur listi verði einungis notaður til að árita og dreifa umræddum markpósti en síðan eytt.
Ásdís Kristjánsdóttir sjúkraþjálfi, Bjarni Torfason dósent og María Ragnarsdóttir yfirsjúkraþjálfari (99/399) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á breytingum á öndunarhreyfingum og lungnarúmmáli 3 og 12 mánuðum eftir hjartaskurðaðgerð með bringubeinsskurði. Þátttakendur voru 20 sjúklingar sem farið höfðu í CABG aðgerð á Landsspítalanum. Gagna aflað með mælingum, röngtenmyndir af lungum teknar og göngupróf tekið. Öll upplýsingaöflun fór fram að fengnu upplýstu samþykki þátttakenda. Áskilið að þess yrði gætt að fara með öll gögn í samræmi við gildandi reglur um meðferð sjúkraskráa.
Ásgeir Haraldsson prófessor og Karl G. Kristinsson dósent (99/038) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á sýklalyfjaónæmi öndunarfærabaktería hjá börnum í Reykjavík og Vilníus. Þátttakendur voru 300 börn á leikskólaaldri. Að fengnu leyfi foreldra var gagna aflað með spurningalista og með töku sýnis. Niðurstöður verða bornar saman við fyrri sambærilegar rannsóknir bæði í Reykjavík og í Vilníus. Gögnum verður eytt að rannsóknartíma liðnum.
Ásgeir Haraldsson prófessor, Michael Clausen, Sigurður Kristjánsson og Þórólfur Guðnason barnalæknar (99/034) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort ofnæmismyndun ungra barna sé háð RSV sýkingu. Þátttakendur voru 200 börn fædd á Landspítalanum eða Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Börnunum verður fylgt eftir til sjö ára aldurs. Þátttaka þeirra er háð samþykki foreldra. Öll gögn sem tengjast barninu og rannsókninni verða númeruð. Númerin verða tengd lista sem inniheldur kennitölu barnsins og sá listi geymdur í læstri hirslu.
Ásgeir Theodór og Kjartan Örvar sérfræðingar (99/374) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á áhrifum tíðahrings á flæði fæðu gegnum meltingarveg kvenna. Þátttakendur voru tuttugu konur á aldrinum 18-35 ára sem valdar voru eftir auglýsingu í Háskóla Íslands, menntaskólum og á fjölmennum vinnustöðum. Gögnum var safnað þannig að flæði um meltingarveg var kannað í þrennu lagi og auk þess voru spurningalistar lagðir fyrir þátttakendur. Allar upplýsingar skráðar undir númeri og greiningarlykill varðveittur svo lengi sem rannsókn er í gangi.
Ásta Guðmundsdóttir nemi (99/298) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á stöðu ungra einstæðra mæðra. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni hennar til lokaprófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru mæður sem sótt höfðu um starfsnám á vegum Hins Hússins frá árinu 1996. Gagna aflað með því að greina gögn sem til voru hjá atvinnusveit Hins Hússins en megináhersla lögð á að afla viðbótarupplýsinga með viðtölum við mæður sem hafa ólíka reynslu af starfsnámsnáminu. Nafnleyndar sætt.
Ásta Snorradóttir hjúkrunarfræðingur, Jóhanna Bernharðsdóttir lektor og Rannveig Þöll Þórsdóttir hjúkrunarfræðingur (99/074) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þörf fyrir þjónustu geðhjúkrunarráðgjafa. Þátt tóku allir starfandi hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Landspítalanum alls u.þ.b. 1000 hjúkrunarfræðingar. Gagna var safnað með spurningalista. Skráð persónuauðkenni sem voru aldur, kyn og starfsaldur.
Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur (99/007) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna samanburðarkönnunar á hljóðvitund barna með og án lestrarörðugleika. Könnunin var liður í lokaverkefni hennar til mastersprófs í talmeinafræði við Fort Hays State University í Bandaríkjunum. Skráðar voru upplýsingar um 40 börn 1. bekkjar fjögurra grunnskóla í Reykjavík, þar af 20 með lestrarörðugleika. Að fengnu leyfi fræðsluyfirvalda og foreldra var einföld leskönnun lögð fyrir þátttakendur og spurningalisti til kennara.
Ástráður B. Hreiðarsson yfirlæknir (99/353) fékk leyfi til meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á fjölskyldubundinni sykursýki. Rannsóknarvinna var að nokkru falin Urði-Verðandi-Skuld ehf. Rannsóknin var unnin þannig að í spjaldskrár Göngudeildar sykursjúkra voru sótt nöfn u.þ.b. 40 manna sem greinst höfðu með MODY sykursýki. Þátttakendur gengust undir læknisskoðun, lagður var fyrir þá spurningalisti og teknar blóðprufur. Heimild bundin því skilyrði að ábyrgst yrði að unnið verði í samræmi við setta persónuverndarskilmála og þess gætt að engin persónugreind gögn bærust UVS.
Ástríður Stefánsdóttir og María Sigurjónsdóttir (99/265) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á sjálfræði aldraðra á fimm íslenskum öldrunarstofnunum. Könnun þessi var hluti af stærra rannsóknarverkefni sem Rannsóknarhópur um sjálfræði aldraðra hafði unnið að. Þátt tók starfsfólk við hjúkrun og umönnun á hverri stofnun og heimilismenn, 200 einstaklingar á fimm völdum öldrunarstofnunum sem hafa yfir 70 heimilismenn. Upplýsinga aflað með notkun spurningalista, annars vegar fyrir starfsmenn og hins vegar fyrir vistmenn. Áður en úrvinnsla hófst var nafnalista eytt svo ekki væri hægt að rekja svör til ákveðinna persóna.
Berglind Eva Ólafsdóttir nemi (99/075) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tengslum sjálfsmats og foreldramats við félagskvíða. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni hennar til B.A. prófs í sálfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 250 börn á aldrinum 10-14 ára og foreldrar þeirra, heilir bekkir í grunnskólum valdir. Gögnum safnað með spurningalistum. Heimild veitt með því skilyrði að þess yrði vandlega gætt að útfylltir spurningalistar bæru engin auðkenni með sér sem gerðu kleift að rekja svör til einstaklinga.
Bertrand Lauth, Evald Sæmundsen, Ólafur Ó. Guðmundsson, Páll Magnússon og Stefán Hreiðarsson (99/246) fengu heimild til meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á faraldsfræði og erfðum einhverfu. Kannaður var vilji manna til þátttöku í rannsókninni áður en farið var að vinna með gögn um þá. Íslenskri erfðagreiningu ehf. var falin hluti persónuupplýsingavinnslunnar og á grundvelli samkomulags hennar og Tölvunefndar verður skipaður maður til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt skilmálum og settu vinnuferli.
Bjarni Hannesson yfirlæknir, Hjalti Már Þórisson læknanemi, Kristinn Guðmundsson yfirlæknir og Þórir Sturla Ragnarsson (99/455) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á árangri og fylgikvillum aðgerða á carotisæð til varnar slagi. Upplýsinga aflað úr sjúkraskrám heila- og taugaskurðdeildar SHR. Heimild veitt með því skilyrði að aðeins yrðu skráðar upplýsingar um aldur og kyn sjúklings en hvorki nöfn, heimilisföng, kennitölur né önnur sambærileg auðkenni.
Bjarni Þjóðleifsson, Ingvar Bjarnason, Katrín Davíðsdóttir og Úlfur Agnarsson (99/176) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum mislingabólusetningar á þarma hjá ungbörnum. Skráðar voru upplýsingar um a.m.k. 100 14 mánaða börn sem fóru í bólusetningu á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur eða Heilsugæslustöð Suðurnesja.
Bjarnveig Höskuldsdóttir (99/257) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar sem var liður í B.Ed. ritgerð hennar við Þroskaþjálfaskor Kennaraháskóla Íslands. Ritgerðin fjallaði um hvað yrði um útskriftarhóp þeirra nemenda sem myndu útskrifast frá sérskólum/sérdeildum vorið 1999 og hvaða tilboð þeir fengju við skóla lok. Þátttakendur voru 67 talsins, nöfn fengin hjá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Spurningar lagðar fyrir þátttakendur. Upplýsingar skráðar á tölvutæku formi og varin með hefðbundnum hætti. Gögnum eytt að rannsókn lokinni.
Björg Sigurðardóttir, Brynja Dröfn Jónsdóttir og Hulda Pálsdóttir nemar (99/015) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þörfum aðstandenda sjúklinga í líknarmeðferð í heimahúsum. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.Sc.prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur í könnuninni voru u.þ.b. 35 aðstandendur í þjónustu heimahlynningar Krabbameinsfélags Íslands. Notaður var spurningalisti og allra upplýsinga aflað með vitund og vilja þátttakenda.
Bryndís Guðmundsdóttir yfirtalmeinafræðingur, Hannes Petersen, Ingibjörg Hinriksdóttir og Kristján Guðmundsson háls- nef- og eyrnalæknar (99/299) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á batahorfum einstaklinga með raddbandalömun. Þátttakendur voru einstaklingar sem greinst höfðu með raddbandalömun síðustu 24 mánuði eða lengur.
Brynhildur Briem lektor (99/054) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á breytingum á hæð og þyngd skólabarna og tengslum þeirra við mataræði. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til M.S. prófs í heilbrigðisfræði við Háskóla Íslands. Í könnuninni var unnið með upplýsingar um 6700 9 ára gömul börn úr Reykjavík og frá Akureyri. Skoðuð gögn tíunda hvers áratugar alveg aftur til ársins 1908. Skráð hæð, þyngd, kyn og fæðingarár þeirra sem lenda í úrtakinu og um þá sem enn eru í skóla er nafn skóla einnig skráð.
Brynhildur Briem lektor (99/471) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á holdafari skólabarna og samanburðar á því milli dreifbýlis og þéttbýlis. Notaðar upplýsingar um öll 9 ára börn á Íslandi alls 4717. Rannsóknin fór þannig fram að fyrst var borið saman mat skólahjúkrunarfræðinga á holdafari barna og líkamsþyngdarstuðli sömu barna og síðan voru líkamsþyngdarstuðlar barna í dreifbýli og þéttbýli bornir saman. Heimild veitt með þeim skilyrðum að skráðar holdafarsupplýsingar sem bærust frá skólahjúkrunarfræðingum yrðu með öllu án persónuauðkenna.
Brynhildur Smáradóttir, Erla Guðlaug Sigurðardóttir og Helga Sif Friðjónsdóttir nemar (99/122) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun hafi orðið varir við ofbeldi gegn öldruðum. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar sem höfðu starfað a.m.k. í 2 ár í heimahjúkrun á Norðurlandi á tímabilinu 1993-1998. Rannsóknargagna verður aflað með viðtölum við þátttakendur. Niðurstöður síðan bornar saman við heimildir um efni. Heimild veitt með því skilyrði að þess yrði gætt að í umræddum viðtölum yrðu engin nöfn nefnd – hvorki á fólki, bæjum né öðru þ.h.
Brynja Ragnarsdóttir læknanemi, Jón Gunnlaugur Jónasson og Sigurður Ólafsson læknar (99/092) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á faraldsfræði lifrarkrabbameins. Notaðar voru upplýsingar um alla sem greinst hafa með þessa tegund krabbameins undanfarin 15 ár, u.þ.b. 50 einstaklingar. Sjúkraskrár þátttakenda skoðaðar með tilliti til sjúkdómsgreiningar og sjúkdómsgagns. Heimild veitt með því skilyrði að ekki mætti nota gögnin til erfðarannsókna. Þá var óheimilt að varðveita greiningarlykil lengur en þar til gagnasöfnun lauk. Því skyldi áður en úrvinnsla hæfist, annað hvort eyða lyklinum eða fela Tölvunefnd varðveislu hans.
Brynjólfur Mogensen læknir (99/022) fékk leyfi til að vinna með persónuupplýsingar vegna könnunar á raunverulegum orsökum dauðaslysa á árunum 1988-1998. Gagna aflað með því að skoða dánarvottorð, krufningaskýrslur, sjúkraskýrslur og lögregluskýrslur. Tölvunefnd veitti heimild en lagði ríka áherslu á að ítrustu varúðar verði gætt í allri meðferð gagnanna og að öllu því sem gerir kleift að rekja upplýsingar til einstakra manna yrði eytt þegar að úrvinnslu lokinni og eigi síðar en 31. desember 2000.
Brynjólfur Y. Jónsson trúnaðarlæknir, Guðrún Á. Einarsdóttir og Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfar (99/456) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á endurhæfingu örorkulífeyrisþega. Þátttakendur voru 28 einstaklingar sem njóta örorkulífeyris hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum og 28 einstaklingar sem höfðu verið í meðferð hjá dr.med.Halldóri Jónssyni jr., bæklunarskurðlækni á Landsspítalanum. Rannsókninni ætlað að standa yfir í tvö ár eða til 1. sept. 2001. Samþykkið var bundið því skilyrði að allri tengingu við persónuauðkenni yrði eytt að rannsókn lokinni og gögnin ekki notuð til annarrar rannsóknar.
Davíð Gíslason, Eyþór Björnsson, Þorsteinn Blöndal og Þórarinn Gíslason (99/307) fengu leyfi fyrir lokaáfanga þríþætts verkefnis sem kallað er Evrópukönnun: Lungu og heilsa. Áður hafði verið veitt leyfi fyrir A og B áfanga. C-áfangi fól í sér að biðja þá 577 einstaklinga sem þátt tóku í fyrsta áfanganum um nánari persónuupplýsingar og jafnframt þá sem höfðu fengið astma frá því að rannsóknin hófst. Heimild Tölvunefndar var veitt með þeim skilmála að engin gögn úr tveimur fyrri áföngum yrðu notuð nema til þess stæði sérstakt skriflegt upplýst samþykki hins skráða þá var gerður skilmáli um eyðingu greiningarlykils Í framhaldi af heimild Tölvunefndar óskuðu rannsakendur eftir að nefndin félli frá skilmála sínum um eyðingu greiningarlykils og ákvað hún að verða við því. Tölvunefnd fær lykilinn afhentan að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hefst og verður hann varðveittur hjá nefndinni.
Davíð Gunnarsson (99/339) Fékk fyrir hönd nefndar um veitingu leyfis til að reka gagnagrunn á heilbrigðissviði, heimild til aðgangs að 30 sjúkraskrám í Sjúkrahúsi Reykjavíkur til að gera könnun á eðli og umfangi sjúkraskráa. Aðgangur heimilaður fyrir 5 starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar ehf. vegna undirbúnings leyfisveitingarinnar. Heimildin veitt með þeim skilmálum að umræddar sjúkraskrár yrðu valdar af handahófi, að þær yrðu aðeins skoðaðar innan veggja sjúkrahússins, engin afrit tekin, skoðunin færi fram undir eftirliti læknis sem tilnefndur yrði af lækningaforstjóra og að þeir 5 starfsmenn sem fengju aðgang undirrituðu fyrst sérstök þagnarheit sem send yrðu Tölvunefnd.
Dóra Björk Gunnarsdóttir og Helena Símonardóttir (99/416) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum svefns á námsárangur. Könnun þessi var liður í lokaverkefni umsækjenda til B.Ed. prófs frá Kennaraháskóla Íslands. Þátt tóku 9 ára nemendur í 12 bekkjardeildum við 5 grunnskóla í Reykjavík. Áskilið að foreldrar þeirra veitt samþykki sitt. Samstarfsaðilar við framkvæmd verkefnisins: nefndir Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar, Rannsóknarstofnun uppeldis- og menntamála, viðkomandi kennarar og starfsmaður prófadeildar RUM.
Drífa Björk Guðmundsdóttir (99/383) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni þunglyndis á meðal íslenskra mæðra. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni hennar til B.A. prófs í sálfræði við HÍ. Þátttakendur voru 160 konur sem komu með börn sín í ungbarnaeftirlit á 8 mismunandi heilsugæslustöðvum. Upplýsingasöfnun fór fram með notkun spurningalista, án persónuauðkenna. Heimild veitt með þeim skilyrðum að samþykkisyfirlýsingum yrði eytt að gagnasöfnun lokinni og að til að torvelda persónugreiningu yrði fæðingarár látið hlaupa á fimm árum.
Einar Stefánsson prófessor og Friðbert Jónasson yfirlæknir (99/239) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á erfðum skýmyndunar á augnsteini. Þátttakendur þeir sömu og í fyrri rannsókn, auk ættingja þeirra. Hluti persónuupplýsingavinnslunnar unninn af Íslenskri erfðagreiningu ehf. Samkvæmt samkomulagi Tölvunefndar og Íslenskrar erfðagreiningar ehf. skipaði tölvunefnd mann til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt settum skilmálum og vinnuferli.
Einar Stefánsson, Friðbert Jónsson, Guðmundur Þorgeirsson og Vilmundur Guðnason læknar (99/076) fengu leyfi til að samkeyra skrá með nöfnum einstaklinga sem tóku þátt í svokallaðri "Reykjavíkuraugnrannsókn" við skrá Hjartaverndar sem til hefur orðið við gerð svokallaðrar "Hóprannsóknar". Markmið samkeyrslunnar var að kanna hvort áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma skipti máli í tilurð augnsjúkdóma sem valda blindu. Heimild er bundin því skilyrði að tiltekinn umsækjandi rannsóknarhópsins fylgist með og ábyrgist afmáun persónuauðkenna úr þeirri skrá sem til varð við framkvæmd umræddrar samkeyrslu.
Eiríkur Jónsson (99/319) fyrir hönd Krabbameinsfélags Íslands fékk leyfi til að fara með persónuupplýsingar vegna rannsóknar á ættartengslum og krabbameinsheilkennum krabbameins í blöðruhálskirtli. Í Krabbameinsskrá voru sótt nöfn karla sem greindust á árunum ´85-´87, ættir þeirra raktar hjá Erfðafræðinefnd og það ættskrársafn samkeyrt við Krabbameinsskrá. Sá heildarúrtakslisti sem þá var til var gerður ópersónugreinanlegur og þannig afhentur vinnsluaðila, þ.e. Urðir-Verðandi-Skuld ehf. (UVS).
Eiríkur Jónsson, Kjartan Magnússon og Magnús Hjaltalín Jónsson (99/211) fengu leyfi til notkunar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á afdrifum sjúklinga sem greindust með krabbamein í þvagblöðru á árunum 1986-88. Gögnin annars vegar sótt í Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins og hins vegar á geisladeild Landsspítalans. Heimild Tölvunefndar bundin þeim skilmála að þau gögn sem yrðu til við samtengingu skránna yrðu gerð ópersónugreinanleg þegar að samtengingunni lokinni.
Eiríkur Líndal sálfræðingur (99/509) óskaði heimildar til að afla viðbótargagna vegna könnunar á langtíma afleiðingum sjóslysa á heilsufar og félagsaðstæður. Tilgangurinn var að meta hvort eitthvert gagn sé í því að veita sjómönnum áfallahjálp eftir að skip hafa farist. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við slíka útvíkkun verkefnisins enda yrðir settum skilmálum fylgt.
Eiríkur Líndal sálfræðingur, Jón G. Stefánsson yfirlæknir og Sverrir Bergmann sérfræðingur (99/220) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á afleiðingum og tíðni síþreytu á Íslandi. Þátttakendur voru 4000 einstaklingar sem valdir með handahófi úr þjóðskrá á aldrinum 19-75 ára. Rannsóknin verður í tveimur hlutum, fyrsti hlutinn með spurningalista og annar hlutinn umfangsmikil sálfræðileg athugun og nánari staðfesting á líkamlegum einkennum með aðstoð sérfræðings. Heimild veitt með því skilyrði að kynningarbréfi til þátttakenda verði breytt þannig að þar komi fram þær upplýsingar sem Tölvunefnd gat um í fyrra bréfi til umsækjenda og að sett yrði tímaviðmiðun um eyðingu nafnalista.
Eiríkur Örn Arnarson dósent (98/507) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tilfinningalegri líðan barna og unglinga með það að markmiði að þróa námskeið í lífsleikni og meta árangur þess. Tveir spurningalistar sem meta áttu þunglyndiseinkenni og skýringarstíl voru lagðir fyrir nemendur á aldrinum 7-17 ára í tilteknum grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu. Samþykki foreldra fyrir þátttöku barnanna varð að liggja fyrir.
Elías Ólafsson taugasérfræðingur (99/113) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á áhrifum og öryggi topiramats í samanburði við tvö önnur flogaveikilyf. Þátttakendur voru 6-12 nýgreindir flogaveikisjúklingar sem verið höfðu í meðferð hjá umsækjanda og samþykkja þátttöku. Upplýsinga var aflað frá sjúklingum, þeir fóru í mismunandi lyfjameðferðir og í heimsóknum til læknis var tekinn blóðþrýstingur, blóðsýni, púls og hjartalínurit og þungunarpróf var gert á konum. Heimilt að varðveita eitt eintak greiningarlykils í 15 ár enda yrði Tölvunefnd falin varðveisla hans.
Elín Bjarnadóttir nemi (99/128) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á algengi bráðaofnæmis, ofnæmissjúkdóma og astma meðal læknanema. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til lokaprófs í læknisfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru u.þ.b. 100 læknanemar á aldrinum 20-24 ára sem svöruðu spurningalista og fóru í húðpróf.
Elín Borg, Inga A. Valdimarsdóttir, Inger María Ágústsdóttir og María Muller hjúkrunarfræðingar (99/017) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áliti foreldra á stuðningi hjúkrunarfræðinga við þá meðan börn þeirra dvöldu á vökudeild. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni til B.Sc. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátt tóku foreldrar 50 barna sem útskrifuðust af vökudeild á árinu 1998. Miðað var við foreldra barna sem dvalist höfðu a.m.k. eina viku á vökudeild og útskrifast heilbrigð heim. Þátttakendur svöruðu spurningalista.
Elín Margrét Hallgrímsdóttir, Grétar Þór Eyþórsson og Hjálmar Freysteinsson (99/426) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar sem ætlað er að meta árangur breyttra starfsaðferða fimm ára þróunarverkefnis Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, þ.e. hvort það hafi leitt til breytinga á líðan kvenna eftir fæðingu. Gagnaöflun var með tvennum hætti. Annars vegar voru þegar mæður komu í þriggja mánaða skoðun með börn sín, lagðir fyrir þær spurningalistar, streitupróf og lýðbreytulistar. Hins vegar voru tekin viðtöl við konur úr hópi úrtaksins. Varðandi seinni hluta gagnasöfnunar gerði Tölvunefnd þann fyrirvara að Heilsugæslustöðin hefði samband við viðkomandi konur og kannaði vilja þeirra til þátttöku áður en rannsakendur fengju upplýsingar um nöfn þeirra eða annað. Leyfið var bundið skilmála um upplýst samþykki og um eyðingu greiningarlykils að gagnasöfnun lokinni.
Elín Sigurgeirsdóttir tannlæknir, Guðjón Axelsson prófessor og Sigrún Helgadóttir tölfræðingur (99/371) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á breytingum á tannheilsu Íslendinga 1985-2000. Um er að ræða lokaáfanga í rannsókn sem unnin er í samræmi við áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og Alþjóðasamtök tannlækna (FDI). Þátttakendur voru 7000, 18 ára og eldri, valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Fengu senda spurningalista. Niðurstöður bornar saman við niðurstöður fyrri kannana, niðurstöður sambærilegra erlendra rannsókna og metið hvort Íslendingum hafi tekist að ná 3., 4. og 5. alheimsmarkmiði FDI og WHO. Auk almennra skilyrða var heimild veitt með því skilyrði að aðeins yrði skráð fæðingarár (ekki dagur), kyn, búseta og hjúskaparstaða eftir úrtakslista. Tölvunefnd fór einnig fram á að kynningarbréfi yrði breytt þannig að þátttakendum verði gerð grein fyrir því að unnt yrði að persónugreina einstök svör og hversu lengi það yrði hægt.
Elín Þöll Þórðardóttir lektor (99/366) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á sérkennum í máltöku á íslensku. Þátttakendur voru 30 börn á aldrinum 5-8 ára og foreldrar þeirra, þar af 20 börn með sértæka málörðugleika. Söfnun upplýsinga fór fram þannig að haft var samband við börn í gegnum leikskóla og skóla og kennarar og leikskólakennarar beðnir um að afhenda foreldrum boð um að taka þátt. Gögnum um þátttakendur safnað með spurningalista sem foreldrar fylltu út. Eins var lagt próf fyrir börnin og sýnishorn af tali þeirra hljóðritað.
Elísa G. Halldórsdóttir nemi (99/026) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegum aðstæðum ungra einstaklinga sem leggjast inn á geðdeild vegna sjálfsvígshugsana. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til lokaprófs í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 10-12 einstaklingar á aldrinum 20-25 ára sem voru lagðir inn á deild 32C árið 1998 vegna sjálfsvígshugsana. Upplýsinga aflað úr sjúkraskýrslum þátttakenda. Heimildin var skilyrt eftirfarandi: að fyllsta trúnaðar yrði gætt um þær upplýsingar sem í gögnunum koma fram, að ekki yrði farið með nokkur persónugreind gögn út úr húsi geðdeildar, að ekki yrði tekin ljósrit af gögnunum, að upplýsingar þær sem fram koma um einstaka unglinga yrðu ekki notaðar til annars en umrædds rannsóknarverkefnis og að hvorki yrði safnað úr umræddum skýrslum upplýsingum um kennitölur né nöfn.
Elísabet H. Pálmadóttir nemi (99/231) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar sem mun vera þáttur í mastersritgerð hennar. Könnunin fjallar um reynslu, viðhorf og notkun íslenskra foreldra á líkamlegum refsingum. Þátttakendur voru foreldrar 3ja til 6 ára barna á fimm leikskólum í Kópavogi sem dregnir voru úr nöfnum allra leikskóla í Kópavogi. Öllum foreldrum 3ja til 6 ára barna var boðin þátttaka í könnuninni. Upplýsinga aflað með spurningalista. Númer en ekki nafn notað við úrvinnslu rannsóknarinnar. Öllum gögnum eytt 3 árum eftir lok mastersritgerðarinnar.
Elísabet Hjörleifsdóttir og Gunnar Frímannsson (99/349) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á sjúkrahúsþjónustu í heimahúsum. Þátt tóku krabbameinssjúklingar í krabbameinslyfjameðferð og bæklunarlækningasjúklingar sem fóru í liðskiptaaðgerð og hjúkrunarfræðingar og læknar á viðkomandi deildum. Upplýsinga verður aflað með viðtölum.
Elísabet S. Guðmundsdóttir deildarlæknir og Guðmundur Bjarnason yfirlæknir (99/135) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á nýgengi Hrischprungs sjúkdóms á Íslandi, einkennum og aldri við greiningu, tegund og árangri aðgerða og fylgikvilla. Þátttakendur voru sjúklingar sem lögðust inn á Landspítala með greininguna Hirschprungs á árunum 1969-1998. Haft samband við sjúklinga símleiðis. Gögn skráð eftir nafni og fæðingardegi sjúklings.
Ellen Svava Guðlaugsdóttir nemi (99/040) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegum aðstæðum þeirra sem leituðu til Bráðamótttöku Geðdeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur árin 1990 og 1998. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni umsækjanda í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru u.þ.b. 267 einstaklingar, þ.e. fjórði hver einstaklingur sem kom á Bráðamótttökuna á þessum árum. Upplýsingar fengnar úr skýrslum Bráðmóttökunnar. Heimildin var skilyrt eftirfarandi: að fyllsta trúnaðar verði gætt um þær upplýsingar sem í gögnunum koma fram, að ekki verði farið með nokkur persónugreind gögn út úr húsi geðdeildar, að ekki verði tekin ljósrit af gögnunum, að upplýsingar þær sem fram koma um einstaka sjúklinga verði ekki notaðar til annars en umrædds rannsóknarverkefnis og að hvorki verði safnað úr umræddum skýrslum upplýsingum um kennitölur, nöfn né nokkuð það sem gerir kleift að rekja þær upplýsingar sem skráðar verða til einstakra manna.
Emil L. Sigurðsson læknir og Friðrik Vagn Guðjónsson (99/080) fengu leyfi til meðferðar persónuupplýsinga vegna verkefnis sem felst í því að kanna áhættuþætti kransæðasjúkdóms meðal 50 karla og kvenna, meta árangur einfaldrar ráðgjafar um mataræði o.þ.h. og meta hugsanlegt framlag gena til áhættu á að fá kransæðasjúkdóma. Rannsóknarvinna að hluta til falin Hjartavernd. Allir karlar og konur, búsett í Hafnarfirði og á Akureyri, sem urðu 50 ára á árinu 1999, alls u.þ.b. 500 einstaklingar, urðu beðin um að taka þátt í rannsókninni. Upplýsingum safnað með skoðun, sýnatöku, spurningalista og mælingum. Allur hópurinn endurkallaður eftir eitt ár til mats á breytingum á áhættuþáttum sem orðið hafa. Heimildin er bundin því skilyrði að engin persónugreind gögn myndu berast vinnsluaðila, Hjartavernd.
Eric P. Baumer, Richard A. Wright, Helgi Gunnlaugsson og Kristrún Kristinsdóttir (98/351) fengu leyfi til aðgangs að persónuupplýsingum er tengjast afbrotum og refsingum vegna athugunar á ítrekunartíðni eða endurhvarfi einstaklinga til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa sætt einhvers konar refsingu. Að tillögu Tölvunefndar leituðu umsækjendur samninga við skráarhaldara, Fangelsismálastofnun, um að fá í hendur safn ópersónugreinanlegra upplýsinga til vinnslu tölfræðilegra niðurstaðna. Samþykki Tölvunefndar bundið því að fyrirfram gerðu vinnuferli yrði fylgt. Tilsjónamaður skipaður.
Erla Dóris Halldórsdóttir (98/447) fékk heimild til aðgangs að tilteknum sjúkraskrám sem varðveittar eru á Þjóðskjalasafninu vegna ritgerðar um holdsveiki á Íslandi. Heimild veitt með þeim skilyrðum að fyllsta trúnaðar yrði gætt um þær upplýsingar sem þar koma fram, eigi yrði farið með nokkrar sjúkraskrár út úr húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands, eigi yrðu tekin ljósrit af nokkrum sjúkraskrám, að upplýsingar þær sem fram koma í sjúkraskrám yrðu ekki til annarra nota en umrædds rannsóknarverkefnis og að engin nafngreining komi fram í rannsóknarniðurstöðum svo tryggt yrði að eigi yrðu borin kennsl á einstök mál.
Erla Kolbrún Svavarsdóttir lektor (99/263) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á því hvernig foreldrar aðlagast því að eiga ungt barn með langvarandi astma. Þátttakendur voru 100 fjölskyldur hér á landi með langveikt barn með astma. Þátttakendur fylltu út spurningalista sem auðkenndir voru með rannsóknarnúmerum. Frumgögn rannsóknarinnar (ópersónugreinanleg), verða varðveitt. Að gagnasöfnun lokinni var samþykkisyfirlýsingum þátttakenda eytt og sömuleiðis greiningarlykli.
Erla Kolbrún Svavarsdóttir (99/450) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á aðlögun foreldra sem eiga krabbameinsveikt barn. Nöfn þátttakenda (35 fjölskyldur) fengust frá læknum sem hafa sérhæft sig í krabbameinslækningum barna eftir að þeir höfðu sjálfir kannað vilja foreldranna til að starfa með rannsakanda. Spurningalistar voru notaðir.
Erna Haraldsdóttir og Nanna Friðriksdóttir stoðhjúkrunarfræðingar, Guðlaug Þórsdóttir læknir, Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir, Sigrún Magnúsdóttir, Svandís Íris Hálfdánarsóttir og Þórunn M. Lárusdóttir hjúkrunarfræðingar (99/359) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á einkennum sjúklinga í líknarmeðferð og þörfum fjölskyldna þeirra. Þátttakendur voru 200 sjúklingar í líknarmeðferð og 200 aðstandendur þeirra. Upplýsingum verður safnað með spurningalistum, matsblaði og úr sjúkraskrám.
Eva Kristjánsdóttir, Halla Dís Hallfreðsdóttir og Hrönn Thorarensen nemar (99/115) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna prófunar á spurningalista sem mælir lundarfar barna á aldrinum 3-7 ára. Könnunin var liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátt tóku 50 foreldrar barna sem valdir voru úr hópi kunningja, vina og ættingja.
Evald Sæmundsen, Ólafur Ó. Guðmundsson, Páll Magnússon og Stefán Hreiðarsson (99/209) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á faraldsfræði og erfðum einhverfu. Notaðar voru upplýsingar um einstaklinga sem hafa greinst með einhverfu eða skyldar raskanir. Einnig var leitað eftir þátttöku ættingja. Þátttakendalisti var samkeyrður við ættfræðiupplýsingar til að kanna innbyrðis skyldleika einstaklinganna. Unnið í samstarfi við vinnsluaðila, Íslenska erfðagreiningu ehf. Skipaður var tilsjónarmaður til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt settum skilmálum.
Eyjólfur Þ. Haraldsson læknir (99/293) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna frásogsrannsókna á lyfinu Cisapride. Þátt tóku sjálfboðaliðar á aldrinum 20-45 ára. Allir sjálfboðaliðar undirrituðu þátttökuyfirlýsingar. Öll gögn þar sem einstaklingur er tilgreindur með nafni geymd í læstum hirslum sem enginn hefur aðgang að nema þeir læknar sem eru ábyrgir fyrir rannsókninni svo og starfsmaður sem sér um úrvinnslu gagnanna.
Friðjón R. Friðjónsson og Tinna Traustadóttir nemar (99/304) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á algengi þunglyndis og þunglyndislyfjanotkunar meðal ungs fólks á Íslandi. Þátttakendur voru 2000 einstaklingar fæddir á árunum 1973-1980, valdir með slembiúrtaki af öllu landinu úr þjóðskrá. Spurningalistar voru sendir til þátttakenda. Gögn ekki á neinn hátt persónuauðkennd.
Friðrik K. Guðbrandsson læknir (99/497) fékk leyfi til vísindarannsóknar sem ætlað er að meta árangur og líðan eftir bólusetningu gegn Influenzu með nefúðagjöf. Var árangur af nefúðabólusetningu borinn saman við venjulega bólusetningu með innspýtingu. Heimild veitt með þeim skilmálum að öllum persónuauðkennum verði eytt þegar að gagnasöfnun lokinni.
Friðrik Yngvason sérfræðingur, Gunnar Guðmundsson sérfræðingur og Steinn Jónsson sérfræðingur dósent (99/079) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á faraldsfræði bandvefsmyndandi lungnasjúkdóma á Íslandi. Þátttakendur valdir eftir sjúkdómsgreiningaskrám sjúkrahúsa yfir þá sem fengið hafa sjúkdómsgreiningar sem samrýmast interstitial lungnasjúkdómum á árunum 1983-1998. Heimild veitt enda verði þess gætt að safna og skrá einvörðungu ópersónugreinanlegar upplýsingar.
Friðþjófur Már Sigurðsson og Helga Hansdóttir (99/136) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á breyttri lyfjameðferð eftir innlögn á sjúkrahús og tíðni innlagna af völdum lyfja. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til lokaprófs í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Öllum sjúklingum sem voru í einum mánuði lagðir inn á öldrunarsvið Sjúkrahúss Reykjavíkur var boðin þátttaka í könnuninni. Upplýsinga aflað úr sjúkraskrám þeirra að fengnu samþykki hvers og eins. Allar skráðar upplýsingar ópersónugreinanlegar.
Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur, Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur og Vilborg Sveinsdóttir félagsfræðingur (99/196) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á persónuleika unglinga og ástæðum þess að þeir fremja afbrot. Þátt tóku unglingar sem fengu skilorðsbundna ákærufrestun á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1999-2000 að fengnu skriflegu samþykki þeirra. Upplýsingaöflun fór fram í Fangelsismálastofnun ríkisins og hjá Ríkissaksóknara. Gögnin varðveitt í Fangelsismálastofnun.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir hjúkrunarframkvæmdarstjóri og Sigríður Lóa Rúnarsdóttir deildarstjóri (99/056) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvaða fræðslu kransæðasjúklingar fá. Þátt tóku einstaklingar á aldrinum 35-67 ára sem fengu kransæðastíflu og útskrifuðust af hjartadeild SHR eða hjartadeild Landspítalans á tímabilinu 1. maí 1998 til 31. janúar 1999. Sendir voru spurningalistar til þátttakenda. Gögnum eytt að gagnavinnslu lokinni.
Guðmundur Geirsson og Helgi Ísaksson (99/255) fengu heimild til meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á þætti erfða í góðkynja stækkun blöðruhálskirtils. Íslenskri erfðagreiningu ehf. (ÍE) var falinn hluti persónuupplýsingavinnslunnar. Tölvunefnd skipaði mann til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt settum skilmálum.
Guðmundur Oddsson, Hilmar Kjartansson og Karl Andersen (99/516) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á gagnsemi segaleysandi lyfja til að opna stíflaða kransæð. Þátt tóku sjúklingar sem lögðust inn á hjartadeild SHR vegna bráðrar kransæðastíflu og uppfylltu tiltekin skilyrði. Rannsóknin var byggð á mælingum og hjartalínuritum.
Guðmundur Þorgeirsson, Gunnar Sigurðsson, Rafn Benediktsson og Vilmundur Guðnason (98/415) fengu leyfi til að skrá viðbótarupplýsingar um einstaklinga sem eru fæddir 1907 og 1934 og hafa tekið þátt í hóprannsókn Hjartaverndar. Upplýsingarnar eru um stærð þeirra við fæðingu og lengd og þyngd á skólaaldri með það að markmiði að athuga tengsl þessara þátta við áhættu á að fá sjúkdóma síðar á ævinni. Tölvunefnd gerði skilyrði um upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Einnig skyldi þess gætt að halda öllum persónugreinanlegum upplýsingum aðskildum frá vinnslu sem tengist öðrum rannsóknarverkefnum á vegum Hjartaverndar.
Guðríður Egilson, Ingveldur Ólafsdóttir og Ragna Gústafsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/179) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á reynslu hjúkrunarfræðinga af því að starfa á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátt tóku hjúkrunarfræðingar, valdir með tilgangsúrtaki. Upplýsinga aflað með viðtölum við þátttakendur
Guðríður Helga Ólafsdóttir ættfræðingur, Helgi Sigvaldason tölfræðingur, Hrafn Tulinius yfirlæknir, Jón Gunnlaugur Jónasson meinafræðingur, Jórunn E. Eyfjörð erfðafræðingur og Laufey Tryggvadóttir faraldsfræðingur (99/095) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á tíðni BRCA stökkbreytinga í ættum sjúklinga með krabbamein í brjóstum. Þátttakendur fundnir hjá Krabbameinsfélagi Íslands, þ.e. nöfn 982 kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein á tímabilinu 1910-1985. Gögnum safnað með aðstoð Erfðafræðinefndar, Krabbameinsskrár, Dungalssafn og Lífsýnabanka Krabbameinsfélagsins. Eitt eintak greiningarlykils til sem varðveita skyldi í Krabbameinsskrá þar til úrvinnslu lyki. Þá skal hann afhentur Tölvunefnd til varðveislu.
Guðríður Linda Karlsdóttir nemi (99/165) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort hraðatakmarkanir í Vesturbænum, norðan Hringbrautar, hafi dregið úr tíðni og eðli slysa. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til lokaprófs í landafræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 354 einstaklingar, búsettir í Vesturbænum valdir af handahófi úr Þjóðskrá. Rannsakandi fór heim til þessa fólks og lagði fyrir það spurningalista.
Guðrún Bjarnadóttir kennari (99/406) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á leikreynslu barna í frjálsum leik í leikskólanum. Könnun þessi er liður umsækjanda í lokaverkefni í uppeldisfræðum leikskóla við Högskolen í Osló. Fylgst var með og safnað upplýsingum um börn á tveimur leikskólum í Reykjavík. Til að nálgast viðfangsefnið voru notaðar myndbandsupptökur. Aðeins mátti skráð kyn og aldur barnanna. Gildi leyfisins var háð því skilyrði að ekki yrði safnað myndum né annars konar upplýsingum um börn þeirra foreldra sem ekki hafa gefið samþykki sitt.
Guðrún Kristjánsdóttir og Herdís Gunnarsdóttir (99/423) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á þörfum foreldra veikra ungbarna. Könnunnin var liður í lokaverkefni umsækjenda til meistaragráðu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Í þægindaúrtaki voru 120 foreldrar sem áttu börn á aldrinum 0-1 árs er dvöldu á Landspítalanum. Af vökudeild voru valdir 80 foreldrar en af ungbarnadeild 40 foreldrar. Notaðir voru auðkennalausir spurningalistar.
Guðrún S. Eyjólfsdóttir forstöðumaður (99/308) fékk f.h. Lyfjaeftirlits ríkisins leyfi til að samtengja þjóðskrá Hagstofu Íslands við skrá Lyfjaeftirlits ríkisins um notkun eftirritunarskyldra lyfja, vegna eftirlits með ávísun ávana- og fíkniefna.
Gunnar B. Gunnarsson, Karl G. Kristinsson og Már Kristjánsson sérfræðingar (99/069) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum nýs sýklalyfs við meðferð á lungnabólgum. Þátttakendur voru 508 sjúklingar á öllum rannsóknarstöðvum. Um var að ræða tvíblinda slembaða hliðstæða hóprannsókn til þess að meta áhrif og öryggi lyfsins SB-265805 í samanburði við Cefuroxime og Clarithromycin við meðhöndlun á CAP. Heimild tölvunefndar veitt enda yrði kynningarbréfi til þátttakenda breytt þannig að til viðbótar kæmi fram hvernig varðveislu greiningarlykils yrði háttað.
Gunnar Guðmundsson og Þórarinn Gíslason (99/373) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á ástæðum endurinnlagna sjúklinga með teppusjúkdóma í lungum á sjúkrahús. Frá hverjum rannsóknarstað komu upplýsingar um 100 sjúklinga 18 ára og eldri með teppusjúkdóm og sem vour reiðubúnir til að taka þátt í rannsókninni. Við útskrift var safnað ýmsum persónuupplýsingum og tólf mánuðum síðar tekið viðtal við einstaklinginn og skráð hvort hann hafi þurft endurinnlögn á sjúkrahús vegna lungnasjúkdóms. Við útskrift voru skráðar persónuupplýsingar til að unnt væri að hafa upp á sjúklingi tólf mánuðum síðar en eftir það voru allar upplýsingar auðkenndar eftir númerum. Heimild veitt með þeim skilyrðum að fullljóst væri að Þátttakendur fengju ítarlegar upplýsingar um allar hliðar verkefnisins og samþykktu vinnslu hver fyrir sitt leyti.
Gunnar Sigurðsson læknir (99/315) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna klínískrar samanburðarrannsóknar á kólesteróllækkandi áhrifum atorvastatíns annars vegar og simvastatíns hins vegar. Þátttakendur voru u.þ.b. 100, valdir úr hópi eigin sjúklinga. Sjúklingar fengu upplýsingar varðandi rannsóknina og skrifuðu undir upplýst samþykki. Upphafsstafir sjúklings svo og sérstakt ID númer var skráð og upplýsingar geymdar í "investigatory study file" í allt að 15 ár eftir að rannsókn lýkur.
Gunnlaugur Sigfússon og Sigurður Sverrir Stephensen (99/386) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á tíðni meðfæddra hjartagalla hjá börnum, fæddum á árunum 1990-1999. Þátttakendur voru u.þ.b. 500 einstaklingar valdir skv. sjúkdómsgreiningarnúmerum fyrir meðfædda hjartasjúkdóma barna í ICD-9 og ICD-10. Upplýsingar fengnar úr sjúkraskrám, um það hvernig hjartasjúkdómar greindust og við hvaða aldur, hvaða meðferð viðkomandi sjúklingur fékk og afdrif hans. Gildi heimildar Tölvunefndar var og bundið skilyrði um eyðingu persónuauðkenna.
Hafdís Skúladóttir lektor (99/067) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvaða áhrif langvarandi verkir í stoðkerfi hafa á daglegt líf kvenna á aldrinum 25-55 ára og hvernig þeim tekst að ráða við verkina. Könnun þessi var liður í lokaritgerð umsækjanda í mastersnámi í hjúkrunarfræði við Royal College of Nursing í London. Þátttakendur voru konur á aldrinum 25-55 ára sem hafa verið með daglega verki sl. 6 ár eða lengur. Viðtöl tekin upp á segulband og notaðar opnar spurningar. Þátttakendum gefin ný nöfn og upplýsingar skráðar undir þeim nöfnun. Öllum upplýsingum eytt í lok úrvinnslu gagna.
Hafsteinn G. Hafsteinsson (99/193) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á mati kennara og foreldra á börnum og unglingum með athyglisbrests með ofvirkni. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni til lokaprófs í sálfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 40 kennarar og 900 foreldrar sem beðnir voru um að meta börn í 6., 8. og 10. bekk í 4-5 grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Matskvarði var lagður fyrir þátttakendur. Rannsakandi hafði kvarðana en kennarar nöfn nemenda og foreldra auk númera. Tölvunefnd óskaði eftir því að kennarar eyddu greiningarlyklum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hæfist.
Halldór Kolbeinsson og Páll Ásgeirsson yfirlæknar og Kjartan Kjartansson sérfræðingur (99/083) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á stöðugleika og öryggis Paroxetins í samanburði við lyfleysu í langtímameðferð áfallastreitu. Þátttakendur voru a.m.k. 8 sjúklingar. Upplýsinga aflað með viðtölum og ýmsum "Rating scales" og sértækum spurningalistum er tengjast áfallastreitu auk sýnatöku. Þátttöku sjúklings haldið leyndri og persónulegar upplýsingar auðkenndar með númerum. Greiningarlykill í vörslu ábyrgðaraðila og honum eytt þegar rannsókn lýkur.
Hallfríður Erla Guðjónsdóttir nemi (99/381) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna mats á áhersluþáttum í lestrarkennslu sex ára nemenda og samanburði þeirra þátta við árangur í lestri. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til meistaraprófs í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Valdir voru til þátttöku átta til tíu fyrstu bekkir víðsvegar úr Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Upplýsinga m.a. aflað með mælingum, skráningu á heimanámi, því hvernig kennari metur starf og árangur nemenda, skráningu á gögnum sem notuð eru, nemendur voru lestrarprófaðir, spurningalistar lagðir fyrir foreldra barna í úrtakinu að fengnu leyfi þeirra og spurningalistar lagðir fyrir kennara og stjórnendur. Heimild veitt enda yrði þess og gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að rannsókn lokinni og að safna engum persónuupplýsingum um börn nema samþykki foreldra lægi fyrir.
Hannes Petersen yfirlæknir (99/029) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna samanburðarrannsóknar á bólgueyðandi áhrifum tveggja sykurvirkra barkstera. Verður annars vegar mældur styrkur fitusýrusamtengja í nefslímhúð eftir eina gjöf budesonids lyfs sem heitir Rhinocort Aqua og hins vegar til samanburðar Flixonase. Þátttakendur í könnuninni voru 24 heilbrigðir einstaklingar sem svöruðu auglýsingum sem birtar voru meðal lækna- og hjúkrunarfræðinema. Nafn og kennitala komu hvergi fram.
Helga Guðrún Loftsdóttir nemi (99/041) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna athugunar á kennslu fyrir nýbúa í íslenskum grunnskólum. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til M.A. prófs í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 200 nemendur í efri bekkjum grunnskóla, 200 foreldrar og 200 kennarar. Nöfn barnanna sem var boðin þátttaka í könnuninni voru sótt í skrá um kennslu fyrir nýbúa. Spurningalistar sendir þátttakendum. Í kynningarbréfi til þátttakenda var tekið fram að hver og einn ætti um það frjálst val að hvaða marki hann svaraði. Tölvunefnd tók fram að útskýra yrði í kynningarbréfi hafi látið rannsakanda í té upplýsingar um nöfn þeirra og skóla.
Helga Haraldsdóttir og Ragnhildur I. Guðbjartsdóttir nemar (99/046) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna samanburðarkönnunar á viðhorfum, tilfinningum og matarvenjum hjá reykvískum börnum í 7.-10. bekk grunnskóla. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.A. prófs í sálfræði við Háskóla Íslands. Spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 7.-10. bekk grunnskóla í Reykjavík, alls 500 manns, að fengnu leyfi foreldra og skólayfirvalda. Heimild veitt með því skilyrði að þess yrði gætt að auðkenna spurningalista ekki með nokkrum öðrum persónuauðkennum en um kyn, fæðingarár, hæð og þyngd.
Helga Lára Helgadóttir lektor og Margaret E. Wilson dósent (99/228) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á lundarfari barna og verkjum eftir hálskirtlatöku. Þátttakendur voru u.þ.b. 60 börn 3-7 ára sem innrituðust á barnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til hálskirtlatöku. Foreldrar svöruðu tveimur spurningalistum á meðan eða eftir að barnið fór í aðgerðina. Greiningalykill varðveittur á barnadeild SHR og eytt að rannsókn lokinni.
Helgi Valdimarsson prófessor (99/414) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna klínískrar meðferðarrannsóknar á MBL próteini fyrir þá sem þjást af fæðuofnæmi eða óþoli. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna öryggi þess að gefa prótein í æð og skoða hversu fljótt það hverfur úr líkamanum. Leitað var til einstaklinga sem mældust með lágt MBL þegar þeir tóku þátt í fyrri rannsókn umsækjanda á fæðuofnæmi eða óþoli. Gildi heimildar Tölvunefndar var bundið því skilyrði að persónuauðkennum yrði eytt að gagnasöfnun lokinni.
Herdís Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur (99/173) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna mats á þunglyndi aldraðra frá sjónarhóli hjúkrunarfræðinga. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 3 reyndir hjúkrunarfræðingar á sviði öldrunarhjúkrunar og einn skjólstæðingur þeirra. Upplýsingum safnað með töku viðtala. Hvorki nafn né kennitala þátttakanda skráð. Samþykki fengið hjá þátttakendum og siðanefnd SHR.
Hildur Guðmundsdóttir og Kristín Bergsdóttir (99/451) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna mats á tilfinningalíðan kvenna sem fá lyfjameðferð vegna krabbameins. Könnun þessi var liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru a.m.k. 100 konur valdar úr hópi kvenna sem fá lyfjameðferð vegna krabbameins á Landspítalanum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur á tímabilinu janúar-júní 2000. Upplýsinga aflað með spurningalistum sem lagðir voru fyrir sjúklinga í lyfjameðferð. Hjúkrunarfræðingar á krabbameinsdeildum SHR og LSP afhentu konunum spurningalistana er þær komu til lyfjameðferðar. Þátttakendur skiluðu spurningalistunum nafnlausum í lokuðum umslögum til hjúkrunarfræðinga deildarinnar.
Hildur Kristín Sveinsdóttir og Sigríður Einarsdóttir nemar (99/037) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum ungbarnasunds á hreyfiþroska barna. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda við Kennaraháskóla Íslands. Hreyfiþroski 20 barna sem verið höfðu í ungbarnasundi var borinn saman við hreyfiþroska 20 barna með svipaðan bakgrunn og hin en höfðu ekki verið í ungbarnasundi. Tölvunefnd gerði athugasemd við að ekki hafi verið aflað heimildar hennar fyrr en eftir að upplýsingaöflun hófst. Sérstaklega var gerð athugasemd við að þeir sem ábyrgð báru á listunum hefðu látið þá frá sér án tilskilinnar heimildar.
Hildur Lilja Jónsdóttir nemi (99/301) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á starfi deildarstjóra á leikskólum. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til meistaragráðu í kennslustjórnun við háskólann í Strathclyde í Skotlandi. Þátttakendur voru 70 sjálfboðaliðar úr hópi leikskólakennara. Allra upplýsinga aflað með vitund og vilja þátttakanda og eingöngu í formi spurningalista og viðtalshóps.
Hildur Ýr Guðmundsdóttir og Ragnheiður H. Friðriksdóttir nemar (99/096)
fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvað mótar viðhorf hjúkrunarfræðinga til forgangsröðunar. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru118 hjúkrunarfræðingar á 8 deildum Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala. Upplýsinga aflað með spurningalista og honum fylgdi ómerkt svarumslag og kynningarbréf. Öllum gögnum eytt þegar úrvinnslu er lokið.
Hjartavernd (98/397) fékk leyfi til að vinna með persónuupplýsingar í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu ehf. í tengslum við rannsókn á erfðum blandaðrar blóðfituhækkunar. Þátttakendur verða einstaklingar sem hafa skv. upplýsingum í gagnagrunni Hjartaverndar greinst með blandaða blóðfituhækkun og ættingjar þeirra. Um skilmála Tölvunefndar vísast til 3. tl. í kafla leyfis Hjartaverndar frá 3. sept. 1999.
Hrafn Tulinius prófessor (96/299) óskaði breytinga á heimild sem Tölvunefnd veitti honum í nóvember 1996 fyrir skráningu persónuupplýsinga vegna könnunar á stigun, meðferð og horfum brjóstakrabbameins á Íslandi 1989-1994 þar sem rannsóknin hafði tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir í umsókninni. Heimild veitt.
Hrafnhildur G. Sigurðardóttir og Sigríður Síta Pétursdóttir (99/490) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna athugunar á fagmennsku í leikskólastarfi. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.ed-gráðu fyrir leikskólakennara við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Þátttakendur voru 14 af 46 starfandi leikskólakennurum á leikskólum Akureyrarbæjar. Sendir voru spurningalistar til þátttakenda og spurningunum fylgt eftir með viðtölum sem tekin voru upp á segulband. Allar upplýsingar skráðar með vitund og vilja þátttakenda.
Hrafnhildur Ragnarsdóttir prófessor (99/116) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á máltöku skólabarna. Rannsóknin gerð í tveimur hlutum. Í A-hluta voru 20 þátttakendur á aldrinum 10-49 ára. Þeir áttu að horfa á myndband og viðhafa stutta frásögn. Í B-hluta voru börn og fullorðnir, 48 "dyslexiskir" og 80 "venjulegir". Allir áttu að segja og skrifa upp einhverja frásögn. Tölvunefnd lagði áherslu á að í kynningarbréfi til þátttakenda yrði útskýrt hvers vegna viðkomandi hafi orðið fyrir valinu, hvar nafn hans var fengið, hvernig nafnleynd yrði tryggð, að viðkomandi væri með öllu óskylt að taka þátt og gæti óskað þess að öllum upplýsingum sem rannsakandi hefði um hann yrði eytt.
Hrönn Baldursdóttir og María Dóra Björnsdóttir (99/144) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna framkvæmdar tiltekinnar áhugasviðskönnunar. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni til lokaprófs í námsráðgjafarnámi við Háskóla Íslands. Þátt tóku útskriftarhópar tveggja framhaldsskóla í Reykjavík. Tilgangurinn er að athuga réttmæti og áreiðanleika íslenskrar þýðingar á áhugasviðskönnun.
Hulda Sólrún Guðmundsdóttir nemi (99/089) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á þjónustuþörf fjölskyldna langveikra barna. Könnun þessi er liður í lokaritgerð umsækjanda í sálfræði við Árósaháskóla. Þátttakendur voru u.þ.b. 1400 foreldrar 700 langveikra barna sem eru félagsmenn í aðildarfélögum Umhyggju. Upplýsinga aflað með spurningalistum. Auk þess tekin viðtöl við 2-4 fjölskyldur valdar af handahófi til að dýpka þekkingu og skilning á rannsóknarverkefninu. Heimild veitt enda verði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni.
Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur (99/081) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á neyslu 15-16 ára ungmenna á áfengi, tóbaki og öðrum vímuefnum. Þátttakendur í könnuninni voru nemendur í 10. bekk grunnskóla landsins. Könnunin er annar hluti alþjóðlegrar rannsóknar sem gerð er á þriggja ára fresti að tilstuðlan Evrópuráðsins.
Jóhanna Eiríksdóttir, Margrét Gunnarsdóttir og Margrét S. Gunnarsdóttir nemar (99/006) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum kvenna til hjúkrunarþjónustu fyrstu vikurnar eftir barnsburð. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 100 konur sem fæddu fullburða barn á Landspítalanum fyrstu mánuði ársins 1999, valdar með þægindaúrtaki. Upplýsinga aflað með spurningalista. Þátttakendur gerðu grein fyrir aldri, hjúskaparstöðu, menntunarstigi, fjölskyldutekjum, búsetu, fjölskyldustærð og aldri barna. Heimild veitt enda yrði þess gætt að útskýra fyrir þátttakendum meðferð persónuupplýsinga og mögulegan rekjanleika.
Jóhanna Valgeirsdóttir, Kristrún L. Ástvaldsdóttir og Lilja Kristjánsdóttir nemar (99/053) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tengslum fengins stuðnings og óskaðs stuðnings einstaklinga sem misst hafa neðri útlim. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjenda til B.S. prófs í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur vour þeir sem fengið hafa gervifót/fætur hjá Össur hf. eða Stoð hf., samtals 163 einstaklingar. Þátttakendur fengu senda spurningalista. Öllum gögnum í vörslu umsækjenda eytt eftir úrvinnslu.
Jón Snædal læknir (99/380) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna klínískrar lyfjarannsóknar þar sem borin eru saman áhrif og öryggi Aricept meðferðar annars vegar og hins vegar meðferðar með lyfleysu í meðhöndlun á minnisleysi hjá sjúklingum með Alzheimer´s sjúkdóm. Slembival réð því hvora meðferðina sjúklingur fékk. Þátttakendur voru 12 sjúklingar, valdir með hjálp lækna. Tekin voru blóðsýni úr þátttakendum og ítarlegum upplýsingum safnað um heilsufar þeirra. Upphafsstafir sjúklings svo og sértakt ID númer skráð. Upplýsingar eru geymdar í "investigatory study file" í allt að 15 ár eftir að rannsókn lýkur.
Jónas Hallgrímsson forstöðulæknir og Jónas Magnússon yfirlæknir (99/338) fengu heimild til meðferðar persónuupplýsinga vegna könnunar á tíðni magakrabbameins og tíðni þess og annarra krabbameina meðal ættingja sjúklinga með magakrabbamein (faraldsfræðileg könnun í frændgarði). Rannsóknarvinna að nokkru falin vinnsluaðila, Urði-Verðandi-Skuld ehf. Nöfn þeirra sem greinst hafa með magakrabbamein á árunum 1935-1999 fengin á Handlækningadeild Landspítalans og Rannsóknarstofu H.Í. í meinafræði, ættir hvers sjúklings síðan raktar af Erfðafræðinefnd og þær skrár samkeyrðar við Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands. Heimild Tölvunefndar bundin því skilyrði að engin afrit nafnaskráa yrðu til hjá Erfðafræðinefnd og þess að öðru leyti gætt að persónugreind gögn bærust engum óviðkomandi, hvorki UVS né öðrum. Heimildin tekur ekki til framkvæmdar á erfðarannsókn (genaleit).
Júlíus K. Björnsson forstöðumaður (99/200) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á lestrar-, stærðfræði- og náttúrufræðikunnáttu 15 ára barna. Þátttakendur í forprófun rannsóknarinnar voru u.þ.b. eitt þúsund nemendur í 37 skólum auk skólastjórnenda sem svöruðu spurningum um sína eigin skóla. Gögnum safnað með spurningalistum. Gögn rannsóknarinnar ekki persónugreinanleg. Ekki reiknaðar út einstaklingseinkunnir né frammistaða einstaklinga metin á nokkurn hátt. Heimild Tölvunefndar bundin þeim skilmála að vandlega yrði kynnt fyrir hverjum og einum aðila meðferð upplýsinganna og honum gefinn kostur á að taka upplýsta afstöðu til þátttöku í verkefninu.
Karl Andersen sérfræðingur (99/172) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort algengar sýkingar í öndunarfærum eigi þátt í blóðtappamyndun í kransæð og jafnvel drepi í hjartavöðva. Þátttakendur voru 100 sjúklingar á hjartadeildum SHR og Landspítala. Upplýsingum safnað með mælingum og sýnatökum. Öllum gögnum eytt að lokinni úrvinnslu.
Karólína M. Vilhjálmsdóttir, Sonja S. Guðjónsdóttir og Þorbjörg Guðbrandsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/068) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum hjúkrunarfræðinga sem stunda, eða hafa lokið sérskipulögðu B.S. námi til námsins. Þátttakendur allir hjúkrunarfræðingar sem lokið hafa sérskipulögðu B.S. námi eða stunda það nám núna og fundnir voru með aðstoð Nemendaskrár Háskóla Íslands. Spurningalistar lagður fyrir þátttakendur.
Katla Sóley Skarphéðinsdóttir og Melkorka Árný Kvaran nemar (99/009) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á tíðni átröskunar meðal íþróttakvenna á Íslandi og hvort athugasemdir þjálfara, kennara eða annarra hefðu áhrif varðandi þetta efni. Könnunin er liður í lokaverkefni umsækjenda við íþróttaskor Kennaraháskóla Íslands. Þátttakendur voru 300 stúlkur og konur í landsliðum, meistaraflokkum og aðalliðum félaganna eða greinanna. Upplýsinga aflað með spurningalistum. Heimild veitt enda yrði þess gætt að útskýra fyrir þátttakendum hvernig vörslu persónuupplýsinga yrði hagað og hvenær þeim verði eytt og að á grundvelli upplýsinga um bakgrunnsbreytur, yrði unnt að rekja svör til einstakra kvenna.
Kristinn B. Jóhannsson sérfræðingur (99/261) fékk heimild til aðgangs að gögnum frá Hagstofu Íslands enda verði fyllsta trúnaðar gætt við meðferð upplýsinganna og nafnleynd einstaklinga tryggð.
Kristinn Einarsson stundakennari (99/410) fékk leyfi til að gera rannsókn á högum útskrifaðra MR-inga. Tilgangur könnunarinnar var að sanna þá tilgátu að nám í MR sé góður grunnur að framhaldsnámi. Stærð úrtaksins var á milli 250-300 manns, slembiúrtak, lagskipt eftir aldurshópum. Upplýsinga aflað símleiðis, með spurningalista. Tölvunefnd fór fram á að í upphafi hvers samtals við þátttakanda yrði vakin athygli hans á rekjanleika svara og að honum væri frjálst að láta nokkrum eða öllum spurningum ósvarað.
Kristín Hannesdóttir B.Sc. og Þuríður J. Jónsdóttir yfirtaugasálfræðingur (99/194) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á skerðingu á vitsmunum sjúklinga með Alzheimer og sjúkdómsinnsæi þeirra. Þátttakendur voru 70 sjúklingar af báðum kynjum greindir með Alzheimersjúkdóm. Upplýsinga aflað með prófum sem lögð voru fyrir í áföngum og spurningalistum. Rannsóknin er unnin í samræmi við ákvæði alþjóðlegra samþykkta um vísindasiðfræðileg atriði. Sérhver þátttakandi aðeins auðkenndur með rannsóknarnúmeri. Þátttakendum frjálst að hætta við hvenær sem er. Heimildin var og bundin þeim skilmála að umsækjendur myndu þegar að gagnasöfnun lokinni, og áður en úrvinnsla hæfist, eyða þeim greiningarlykli sem gerði kleift að nafngreina skráðar upplýsingar.
Kristófer Þorleifsson geðlæknir (99/112) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á langtímaáhrifum stungulyfsins risperidone depot á sjúklinga með geðklofa eða geðklofaeinkenni. Þátttakendur voru 6-12 einstaklingar með geðklofa eða geðklofaeinkenni, voru allar upplýsingar fengnar hjá þeim sjálfum.
Linn O. Getz læknir og Reynir Tómas Geirsson prófessor (99/294) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á viðbrögðum þungaðra kvenna við óljósum uppgötvunum í ómskoðun. Verkefnið var liður í doktorsnámi við Háskólann í Þrándheimi. Verkefnið var tvíþætt. Fyrri áfanginn var með þátttöku allra þungaðra kvenna sem komu til ómskoðunar á Kvennadeild Landspítalans haustið 1999 til 2000/2001. Verður gagna annars vegar aflað með spurningalista og hins vegar voru tekin upp samtöl konu og læknis meðan á ómskoðun stóð. Seinni áfanginn var með þátttöku úrtaks úr hópi þeirra sem tóku þátt í fyrri áfanga þar sem bornir voru saman hópar kvenna sem fengu óljósar niðurstöður úr ómskoðun við hóp sem fékk eðlilegar niðurstöður. Heimild veitt enda yrði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hæfist Video/audio-spólur merktar með kóðanúmeri einstaklings má þó varðveita þar til rannsókn lýkur.
Lárus Jón Guðmundsson bsc. (99/356) óskaði leyfis að bera starfsmannalista Hjúkrunarheimilisins Eirar vorið 1999 saman við nafnalistann sem var notaður í könnun 1996. Tölvunefnd gerði athugasemd við að listanum frá 1996 hefði ekki verið eytt en það var einn af skilmálum fyrir leyfisveitingu þá. Nefndin áréttaði fyrri tilmæli en gerði ekki athugasemdir við að fyrst yrði áðurnefndur samanburður gerður. Eyðing greiningarlykils skyldi síðan fara fram eigi síðar en 1. nóvember 1999.
María Guðsteinsdóttir og Þóra Einarsdóttir nemar (99/027) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á próffræðilegum eiginleikum tveggja ofvirknikvarða og söfnun greiningarnorma fyrir 4ra ára börn. Könnunin er liður í lokaritgerð umsækjenda til B.A. prófs í sálfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 350-400 4ra ára börn, valin með slembiúrtaki úr leikskólum í Reykjavík. Lagður var spurningalisti fyrir foreldra barnanna.
María Haraldsdóttir leikskólakennari (99/078) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á því hvort leikskólakennarar eru í stakk búnir til að taka á móti og vinna með börnum með sérþarfir. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni í framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands. Þátttakendur voru 30 leikskólakennarar valdir með tilviljunarkenndu úrtaki. Notaðir voru spurningalistar sem hvorki auðkenndir með nöfnum né númerum. Gögnum eytt að úrvinnslu lokinni.
María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur (99/162) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á minnisskerðingu fólks sem haldið er Alzheimer sjúkdómi. Þátttakendur voru Alzheimer sjúklingar sem ekki eru langt gengnir með sjúkdóminn, u.þ.b. 10 manns. Rannsóknin unnin í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn felst í að búa til viðeigandi íslensk próf með þátttöku 6-8 heilbrigðra manna en seinni hlutinn í því að leggja prófin fyrir sjúklingahópinn. Heimild veitt enda yrði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en nokkur úrvinnsla hæfist.
María Ragnarsdóttir sjúkraþjálfi (99/071) fékk leyfi til aðgangs að persónuupplýsingum vegna könnunar á tíðni lungnafylgikvilla eftir hjartaaðgerðir á Landsspítalanum á árinu 1997. Safnað var persónuupplýsingum úr sjúkraskrám 112 einstaklinga sem fóru í hjartaaðgerð á Landsspítalanum umrætt ár. Heimild veitt með þeim skilmála að þess yrði gætt að skrá engin persónuauðkenni en setja þess í stað númer eða fangamark á þau gögn sem yrði til við framkvæmd verkefnisins.
Málfríður Þórarinsdóttir nemi (99/028) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á ritfærni nemenda í dönsku á 1. ári í framhaldsskóla. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til B.A. prófs í dönsku við Háskóla Íslands. Þátttakendur u.þ.b. 450 nemendur úr 6 framhaldsskólum og voru60 úrlausnir valdar út með tilviljanakenndu vali. Nemendur fylltu út spurningalista og skrifuðu bréf á dönsku.
Ólöf Sigríður Arngrímsdóttir kennari (99/268) fékk heimild til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðhorfum foreldra til skóla. Könnunin er hluti af meistaraprófsverkefni umsækjanda við Kennaraháskóla Íslands. Þátttakendur voru 500 foreldrar barna sem voru í 10. bekk í grunnskólum Reykjavíkur veturinn 1998, valdir með tilviljunarúttekt. Upplýsinga aflað með spurningalistum. Heimild veitt með því skilyrði að útsendir spurningalistar yrði hvorki auðkenndir með númerum né öðru sem gerði kleift að rekja svör til hlutaðeigandi einstaklinga.
Páll Helgi Möller og Tómas Jónsson (99/123) fengu leyfi til að mynda skrá með persónuupplýsingum um alla sjúklinga með greininguna ristil- og endaþarmskrabbamein á Landspítalanum. Leitað var til allra sem lögðust inn á Landspítalann 1.9.'99-1.9.'04 með ofangreinda greiningu. Safnað verður upplýsingum um greiningu, meðferð og eftirlit. Heimild veitt með því skilyrði að þess verði gætt að skrá ekki upplýsingar um aðra en þá sem veittu til þess upplýst samþykki sitt.
Páll Torfi Önundarson yfirlæknir (99/407) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á algengi og orsökum blæðingahneigðar á Íslandi. Um er að ræða rannsókn á nemendum 10. bekkjar grunnskóla, u.þ.b. 2000 einstaklingum. Rannsóknaraðferðin verður þríþætt, þ.e. skimun með spurningalistum í leit að blæðingareinkennum, blóðrannsókn á undirhópi með blæðingareinkenni og á pöruðum viðmiðunarhópi og mat á tíðablæðingamagni hjá þeim stúlkum sem hafa sögu sem bendir til asatíða og hjá samanburðarhópi. Gildi heimildar Tölvunefndar og bundið því skilyrði að fyrir liggi leyfi frá viðkomandi einstaklingum (foreldrum). Þá batt Tölvunefnd leyfi sitt því skilyrði að greiningarlykli verði eytt þegar að rannsókn lokinni.
Pálmi V. Jónsson yfirlæknir (99/129) fékk leyfi til meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á erfðum langlífis. Þátttakendur verða einstaklingar sem náð hafa 90 ára aldri og þeirra nánustu skyldmenni. Vinnsluaðili var ÍE. Tölvunefnd skipaði tilsjónarmann til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt settum skilmálum en markmið skilmála Tölvunefndar er að tryggja nafnleynd þátttakenda í erfðarannsóknum.
Ragnar F. Ólafsson kennari (98/470) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna seinni hluta könnunar á einelti. Í þessum hluta könnunarinnar fékk Ragnar starfsmenn grunnskólanna til að láta sig hafa nöfn 30 barna á aldrinum 10-15 ára sem þeir töldu hafa átt aðild að einelti. Viðtöl síðan tekin við þessi börn. Tölvunefnd óskaði umsagnar Umboðsmanns barna vegna þeirra viðkvæmu upplýsinga sem safnast í slíkri könnun. Umboðsmaður barna gerði athugasemd við númeringu skráðra svara. Heimild Tölvunefndar var veitt með þeim skilmálum að ekki mætti auðkenna skráðar upplýsingar með númerum né nokkrum öðrum þeim auðkennum sem gerðu kleift að rekja upplýsingarnar til einstakra barna.
Ragnar Pétur Ólafsson deildarsérfræðingur (99/085) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á áhrifum fræðsluefnis á einelti í grunnskólum. Þátttakendur voru 600 nemendur í 8. bekk í Reykjavík sem var skipt í tvennt, tilraunarhóp og samanburðarhóp. Upplýsinga verður aflað með spurningalistum sem tvívegis voru lagðir fyrir þátttakendur. Hver nemandi fékk sama númer í fyrri og seinni fyrirlögn listans og verður nafnalistunum eytt strax að loknum undirbúningi fyrirlagnar en spurningalistum að lokinni úrvinnslu gagnanna. Gögnin geymd í tölvutæku formi á RUM.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir (99/264) fékk heimild til skráningar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á aðlögun systkina barna með langvinnan astmasjúkdóm. Rannsóknin er liður í lokaverkefni umsækjanda til meistaranáms við námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur verða valdir með aðstoð sérfræðinga í lungna- og öndunarfærasjúkdómum sem munu hafa samband við fólkið og fá þátttökusamþykki þess. Í úrtakinu verða heilbrigð systkini sem eiga 6 ára eða yngri bróður eða systur sem hafa verið læknisfræðilega greind með astma. Upplýsinga verður aflað með spurningalista. Í gögnunum kemur einungis fram aldur, staða og kyn.
Rakel Valdimarsdóttir og Þóra Margrét Pálsdóttir (99/295) fengu leyfi til að gera atvinnusálarfræðilega rannsókn sem unnin verður í samvinnu við starfsmannaþjónustu Sjúkrahúss Reykjavíkur. Rannsóknin er liður í rannsóknarverkefni Þóru Margrétar til Mastersprófs í sálarfræði við Frei háskólann í Berlín. Þátttakendur verða starfsfólk á skurðlækningadeild B-6. Upplýsinga verður aflað með viðtölum og hópumræðum þátttakenda. Heimild veitt með því skilyrði að þess verði gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hefst.
Rannsóknarstöð Hjartaverndar (99/155) fékk leyfi til að vinna í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu ehf. með persónuupplýsingar vegna rannsóknar á erfðum kransæðastíflu. Þátttakendur verða einstaklingar sem hafa skv. upplýsingum í gagnagrunni Hjartaverndar, greinst með kransæðastíflu – og ættingjar þeirra. Meðferð persónuupplýsinganna heimiluð með þeim hætti sem greinir í leyfi Hjartaverndar (sjá síðar) og ber yfirlæknir Hjartaverndar ábyrgð á að svo sé. Greining erfðamarka sem unnin er af ÍE fer eftir þeim skilmálum sem á hverjum tíma gilda samkvæmt ákvörðun Tölvunefndar.
Sesselja Hauksdóttir nemi (99/130) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna verkefnis sem felst í athugun á samskiptum barna og kennara í leikskólum og starfsfyrirkomulagi. Athugunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til meistaraprófs í leikskólafræðum við Kennaraháskóla Íslands. Þátttakendur voru kennarar og börn í tveimur leikskólum. Upplýsinga aflað með myndbandsvélum auk þess sem viðtöl voru tekin við leikskólakennara og þau hljóðrituð. Við birtingu notuð tilbúin nöfn einstaklinga og leikskóla.
Sigríður D. Benediktsdóttir og Sóley D. Davíðsdóttir sálfræðingar (99/167) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á próffræðilegum eiginleikum sjálfsmatskvarðar Conners Wells' fyrir unglinga í 6., 8. og 10. bekk. Þátttakendur verða 900 unglingar í fyrr nefndum bekkjum nokkurra grunnskóla. Upplýsinga verður aflað með spurningalista sem kennari leggur fyrir. Heimild Tölvunefndar veitt enda yrði þess gætt að eyða greiningarlykli þegar að gagnasöfnun lokinni þannig að eftir það yrði með öllu ókleift að rekja upplýsingarnar til einstakra ungmenna.
Sigríður Einarsdóttir nemi (99/378) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á atvinnuhögum nemenda sem hafa brautskráðst úr sérdeildum grunnskóla með undanþágu frá samræmdum prófum. Þátttakendur voru 8 einstaklingar, valdir af handahófi úr listum grunnskóla. Upplýsinga aflað með viðtölum við þátttakendur.
Sigríður Lóa Jónsdóttir (98/110) óskaði breytingar á heimild frá 1998 vegna könnunar á skammtíma- og langtímaáhrifum yfirgripsmikillar atferlismeðferðar á ung börn sem greinst hafa með einhverfu eða skyldar þroskaraskanir. Óskað var eftir að láta könnunina ná til samanburðarhóps barna sem notið hafa annars konar meðferðar en þau eru jafnframt skjólstæðingar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Tölvunefnd gerir ekki athugasemd við framangreinda breytingu enda yrði þeim persónuverndarskilmálum sem nefndin setti við útgáfu fyrra leyfis hlítt með sama hætti um báða þessa hópa.
Sigríður Teitsdóttir sérkennari (99/050) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegri aðstöðu, tónlistarnámi, námsgengi og tómstundum. Könnunin er liður í prófsverkefni til M.Ed. gráðu við sérkennsluskor Kennaraháskóla Íslands. Þátttakendur verða allir nemendur í 7. og 8. bekk í grunnskólum Kópavogs, um 500 börn. Upplýsinga verður aflað með spurningalistum og einkunnir hvers einstaklings úr samræmdum prófum í stærðfræði og íslensku færðar inn með svörum hans í tölvuvinnslu.
Sigrún Ingvarsdóttir nemi (99/243) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á viðbrögðum og upplifun karla á ofdrykkju eiginkvenna sinna. Könnunin er liður umsækjanda í rannsóknarverkefni til B.A. prófs í sálfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur í könnuninni verða 8 karlar sem valdir verða með hjálp auglýsingar á Al-anon fundi. Upplýsinga verður aflað með viðtölum. Viðtölin verða skráð í útprentun undir gervinöfnun og staðháttum s.s. heimilisföng, staða o.fl. verður breytt eða alveg sleppt úr.
Sigurbjörn Birgisson læknir (99/354) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna faraldsfræðilegrar rannsóknar á vélindislokakrampa. Rannsóknin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda í doktorsnámi í læknisfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur verða allir sjúklingar með greininguna achalasia/cardiospasmi. Upplýsinga verður aflað úr sjúkraskrám. Tölvunefnd veitti heimild með því skilyrði að gögn verði aðeins auðkennd með kennitölum í frumvinnu en þeim eytt þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hefst. Heimilt er þó að setja númer í stað kennitalna og fela Tölvunefnd varðveislu greiningarlykils enda verði ekki til annað eintak af honum.
Sigurður Árnason læknir (99/503) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna samanburðarrannsóknar annars vegar á notkun verkjastillandi lyfsins fentanyl í plástri og hins vegar á notkun forðataflna af morfíni, hvoru tveggja við langvinnum bakverkjum. Um alþjóðarannsókn er að ræða. Þátttakendur verða 600 sjúklingar á alþjóðavísu en hér á landi 6-12 sjúklingar. Leyfið er meðal annars bundið þeim skilmálum að fyrir liggi upplýst samþykki til allrar meðferðar persónuupplýsinga, að fullkominnar nafnleyndar og trúnaðar verði gætt og að ekki verði, án sérstakrar heimildar frá Tölvunefnd, öðrum veittur aðgangur að skráðum upplýsingum eða þær notaðar í öðrum tilgangi en var með söfnun þeirra í upphafi, að nafn þátttakanda eða annað persónuauðkenni verði einungis á vitorði leyfishafa/ábyrgðaraðila eða þeirra sem starfa í hans umboði og á hans ábyrgð, að öll frumgögn rannsóknarinnar (þ.e. persónugreinanleg gögn (þ.m.t. dulkóðuð)) verði eyðilögð að lokinni úrvinnslu og Tölvunefnd tilkynnt um eyðingu gagna.
Sóley S. Bender lektor (99/044) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á notkun getnaðarvarna meðal kvenna sem fara í fóstureyðingu. Þátttakendur verða 400 konur sem sótt hafa um og fara í fóstureyðingu á Kvennadeild Landspítalans, 200 í tilraunahópi og 200 í samanburðarhópi og ræður slembiúrtaksaðferð í hvorum hópi þátttakandi lendir. Tekin verða þrenns konar viðtöl við þátttakendur. Afstaða Tölvunefndar var að gagnvart konunum væri viðurhlutamikið að gera umrædda könnun með slíkri aðferð þar sem þær þyrftu að veita fleirum upplýsingar um einkalíf sitt en ella. Leitað var eftir umsögn Landlæknis um framkvæmd könnunarinnar. Eftir að Landlæknir sagðist ekkert hafa við framkvæmdina að athuga og útskýrt var að meðlimir í rannsóknarhópi séu allir starfandi á móttöku Kvennadeildar fyrir konur sem fara í fóstureyðingu og að taka umræddra viðtala væru einungis viðbót við starf þeirra þar veitti Tölvunefnd heimildina með því gildisskilyrði að samþykki Siðanefndar Landspítalans lægi fyrir.
Sólrún Jónsdóttir sjúkraþjálfari (99/273) fékk leyfi til könnunar á endurhæfingu hjartasjúklinga. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda ti M.S. prófs í læknisfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur verða u.þ.b. 60 einstaklingar undir 75 ára aldri sem allir hafa greinst með hjartabilun og uppfylla viss skilyrði. Upplýsinga verður aflað með mælingum en auk þess sóttar í sjúkraskrár. Tölvunefnd fór fram á að texta samþykkisyfirlýsingar yrði breytt þannig að þar kæmu fram upplýsingar um meðferð persónuupplýsinga.
Sólveig Hallgrímsdóttir nemi (99/351) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna mats á tölvusneiðmyndarannsóknum á röntgendeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í slysatilvikum. Könnunin er liður í B.Sc. ritgerð umsækjanda frá Röntgentæknabraut Tækniskóla Íslands. Þátttakendur voru u.þ.b. 150 einstaklingar sem hafa gengist undir tölvusneiðmyndarannsóknir á myndgreiningardeild SHR. Athuguð verður tímalengd og svör lækna við hverri rannsókn og áverkastig metið útfrá þeim. Heimild veitt enda verði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en nokkur úrvinnsla hæfist. Skyldi Tölvunefnd tilkynnt um eyðingu gagna.
Stefán Yngvason yfirlæknir (99/420) fékk leyfi til að flytja persónuupplýsingar, þ.e. upplýsingar um sjálfsbjargargetu sjúklinga, til úrvinnslu erlendis. Tilefni beiðninnar er fyrirhuguð notkun alþjóðlegs tækis til að mæla slíka getu en rétthafi tækisins bindur notkun þess áskilnaði um upplýsingaflutning. Upplýsingarnar verða persónugreinanlegar með greiningarlykli en hann verður varðveittur á endurhæfingardeild SHR. Gögnin verða send á disklingi í ábyrgðarpósti. Gögn fyrir hvern sjúkling verða auðkennd með lykli þannig að hægt verður að rekja upplýsingarnar til baka innan endurhæfingardeildar. Upplýsingar um niðurstöður mælinga fyrir hvern sjúkling tilheyra sjúkraskrá hans. Með vísun til 1.-3. mgr. 27. gr. laga nr. 121/1989 var leyfið veitt enda ekki talið að slík afhending upplýsinganna skerði til muna þá vernd sem lögin búa mönnum. Leyfið er bundið því skilyrði að greiningarlykli verði eytt þegar hann vegna aldurs eða af öðrum ástæðum hefur glatað gildi sínu miðað við það hlutverk sem honum er ætlað að gegna.
Steingrímur Davíðsson læknir (99/292) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á lífsgæðum psoriasis sjúklinga. Þátttakendur verða 500 psoriasis sjúklingar sem orðnir eru 18 ára. Rannsóknin er með algjörri nafnleynd og upplýsinga er aflað með spurningalista. Niðurstöðurnar verða sendar til Danmerkur þar sem forsvarsmenn rannsóknarinnar vinna úr niðurstöðunum fyrir öll Norðurlöndin. Tölvunefnd veitti heimild enda verði þess gætt að auðkenna útsenda spurningalista hvorki með númerum né öðrum auðkennum sem gera kleift að rekja svör til einstakra þátttakenda. Tölvunefnd getur hvenær sem er sett frekari skilyrði varðandi könnun þessa ef persónuverndarhagsmunir krefjast þess.
Steinn Jónsson forstöðulæknir (98/436) óskaði breytinga á heimild sem veitt var á árinu 1998 vegna rannsóknar á erfðum lungnakrabbameins. Breytinga var óskað vegna þess að rannsóknin fælist ekki einungis í genaleit heldur og í skoðun á faraldsfræðilegri þróun og sambandi erfða- og umhverfisþátta og að eingöngu yrðu notuð gögn Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði og tiltekinna sjúkrahúsa. Ekki er fyrirhugað að rjúfa tengsl gagna við persónuauðkenni fyrr en niðurstöður liggja fyrir. Heimild Tölvunefndar var bundin þeim skilmála að gagnagrunnurinn yrði dulkóðaður þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en nokkur úrvinnsla hæfist. Tölvunefnd skipaði tilsjónarmann til að hafa eftirlit með einstökum þáttum verksins.
Torfi Höskuldsson læknanemi (99/252) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknarverkefnisins "Lymphoma í meltingarvegi á Íslandi á 15 ára tímabili (1984-1998)". Rannsóknin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til B.S. prófs í læknisfræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur verða allir þeir sem fengið hafa sjúkdóminn, u.þ.b. 50 manns, eftir skrá RH í meinafræði og Krabbameinsskrá. Tölvunefnd skilyrti leyfið og með því að ekki verði farið í sjúkraskrár nema fyrir liggi bæði samþykki yfirlæknis viðkomandi deildar og samþykki hlutaðeigandi einstaklings, sé hann á lífi. Í framhaldi af leyfisveitingu Tölvunefndar fór rannsakandi fram á að Tölvunefnd félli frá skilmála um aðgang að sjúkraskrám með fyrirliggjandi samþykki. Tölvunefnd samþykkti að verða við beiðninni og er samþykki hennar bundið þeim skilmála að öllum persónuauðkennum verði eytt þegar að gagnasöfnun lokinni og áður en úrvinnsla hefst.
Trausti Hrafnsson og Valgeir Sigurðsson nemar (99/104) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á álagseinkennum við vinnu, aðbúnaði á vinnustað og hreyfingu bæði í vinnu og utan. Könnunin er liður í lokaverkefni umsækjenda í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Farið verður á nokkra vinnustaði og spurningalistar lagðir fyrir starfsmenn sem allir eiga það sameiginlegt að vinna við tölvur, alls um 200 manns. Nöfn og heimilisföng koma hvergi fram aðeins kyn og aldur.
Unnur Óttarsdóttir nemi (99/205) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á sérkennslu og listmeðferð fyrir börn sem hafa orðið fyrir tilfinningalegu áfalli og eiga við námsörðugleika að etja. Könnun þessi er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda til doktorsritgerðar við University of Herfordshire. Þátttakendur voru 15 börn valin með tilliti til einkunna o.fl. og á aldrinum 10-15 ára sem áttu við námsörðugleika að stríða sem virtust tengjast tilfinningalegu áfalli. Að loknu skólaárinu var gerður samanburður á þeim eftir því hvort þau hefðu fengið listmeðferð/sérkennslu, sérkennslu eða enga aðstoð. Heimild veitt með þeim skilmála að aflað yrði upplýsts samþykkis foreldra og þess gætt að eyða greiningarlykli þegar að gagnasöfnun lokinni.
Vigfús Þorsteinsson læknir (99/086) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á notagildi mælinga á sTfR til þess að meta járnbúskap hjá sjúklingum með bólguástand og ýmsa sjúkdóma og bera það saman við gildi annarra aðferða til þess að meta járnbirgðir. Þátttakendur voru sjúklingar á FSA sem mergsýni voru tekin hjá af öðrum orsökum á rannsóknartímabilinu, alls 100 einstaklingar. Tekin voru blóðsýni eða nýleg sýni notuð. Söfnun persónuupplýsinga heimiluð enda verði þess gætt að eyða öllum persónuauðkennum af rannsóknargögnum innan eins árs frá lokum gagnasöfnunar.
Vilhjálmur Rafnsson prófessor (99/461) fékk árið 1997 heimild Tölvunefndar vegna rannsóknar á dánarmeinum og krabbameini bókagerðarmanna. Nú óskaði hann heimildar til að fá jafnframt að safna upplýsingum um reykingavenjur bókagerðarmanna. Tölvunefnd heimilaði það en benti á að í kynningarbréfi til bókagerðarmanna ætti að gera grein fyrir því hvernig varðveislu gagna yrði hagað og hvenær þau yrðu gerð ópersónugreinanleg.
Vilmundur Guðnason forstöðulæknir (99/063) óskaði eftir leyfi til skráningar og meðferðar persónuupplýsinga vegna rannsóknar á breytingum á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma hjá einstaklingum um miðjan aldur. Að mati Tölvunefndar féll umsóknin undir nýútgefið starfsleyfi Hjartaverndar.
Þorvarður Elíasson (99/216) fékk heimild til að fá afhenta skrá Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála yfir alla nemendur í 10. bekk grunnskóla og samkeyra hana eftir kennitölum við Þjóðskrá Hagstofu Íslands vegna dreifingar á kynningarbæklingi um Verslunarskóla Íslands. Heimild til aðgangs og samkeyrslu veitt með því skilyrði að umræddur listi yrði einungis notaður til að árita og dreifa umræddum bæklingum og síðan eytt.
Þóra Jónsdóttir nemi (99/161) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á breytingum á insúlinþörf sykursjúkra kvenna yfir meðgöngu. Könnunin er liður í lokaverkefni umsækjanda í lyfjafræði við Háskóla Íslands. Þátttakendur voru 30 konur á aldrinum 20-37 ára með eina tegund sykursýki. Upplýsingar verða sóttar í sjúkraskrár Göngudeildar sykursjúkra og í Mæðraskrá Kvennadeildar á Landspítalanum. Heimildin var bundin þeim skilmála að með milligöngu læknis yrði leitað samþykkis hlutaðeigandi kvenna fyrir aðgangi að sjúkraskrám þeirra.
Þórkatla Þórisdóttir nemi (99/039) fékk leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna könnunar á félagslegum aðstæðum ofvirkra barna. Könnunin er liður í rannsóknarverkefni umsækjanda í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Þátttakendur verða 49 einstaklingar á aldrinum 6-12 ára. Upplýsinga verður aflað úr sjúkraskýrslum á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Fyrir lágu samþykki foreldra. Auk almennra skilmála er heimild skilyrt eftirfarandi: að fyllsta trúnaðar yrði gætt um þær upplýsingar sem í gögnunum koma fram, að ekki yrði farið með nokkur persónugreind gögn út úr húsnæði geðdeildar, að ekki yrðu tekin ljósrit af gögnunum, að upplýsingar þær sem fram kæmu um einstök börn eða unglinga yrðu ekki notuð til annars en umrædds rannsóknarverkefnis og að hvorki yrði safnað úr umræddum skýrslum upplýsingum um kennitölur né nöfn.
Þórunn Rafnar fræðimaður (99/227) fékk leyfi vegna rannsóknar á ferskum brjóstavef í rækt. Fengin voru fersk vefjasýni úr brjóstaminnkunaraðgerðum að fengnu samþykki sjúklinga. Athuguð voru áhrif eðlilegs brjóstavefjar á eðlilegar eitilfrumur. Tölvunefnd fór þess á leit að henni bærist sýnishorn samþykkisyfirlýsingar og kynningarbréfs auk gleggri upplýsinga um það hvar og hvernig í vinnuferlinu tengsl sýna og persónuauðkenna yrðu rofin og hver yrði ábyrgur fyrir því. Svar barst og var heimild veitt en bundin því skilyrði að kynningarbréfi til þátttakenda yrði breytt þannig að meðferð persónuupplýsinga yrði rétt lýst, þ.á.m. meðferð þess hluta sýnis sem eftir verður á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði.
Þórunn Rafnar ónæmisfræðingur (99/107) fékk leyfi til rannsóknar á leghálskrabbameinssýnum. Upplýsingar voru fengnar úr Krabbameinsskrá og æxlissýni í Dungalssafni. Persónuauðkenni afmáð af sýnum, sýnanúmer sett í þeirra stað og greiningarlykill afhentur Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins. Öll frekari notkun lykilsins háð leyfi Tölvunefndar.

3.2. Kannanir sem voru framkvæmdar með þeim hætti að Tölvunefnd taldi ákvæði laganna ekki taka til þeirra og því ekki standa gerð þeirra í vegi.

Anna Kristín Gunnarsdóttir skipulagsstjóri (99/439). Könnun á áhuga og þörfum fyrir menntun meðal íbúa Norðurlands vestra og Vestfjarða og möguleikum þeirra fyrir menntun.
Ásrún Matthíasdóttir kennari (99/109). Könnun á viðhorfum nemenda og kennara í fjarnámi við Leikskólaskor Kennaraháskóla Íslands.
Bergný Jóna Sævarsdóttir nemi (99/101). Könnun á viðhorfum til Grunnskólans í Sandgerði.
Einar Árnason (99/201). Könnun á því hversu hátt hlutfall manna myndi segja sig úr gagnagrunni á heilbrigðissviði ef úrsagnarblöð yrðu heimsend.
Fjölvar Darri Rafnsson sérfræðingur (99/240). Rannsókn á bælingu hugsana í reykingaánetjun.
Fjölvar Darri Rafnsson, Karl Ægir Karlsson og Matthías Þorvaldsson (99/266). Rannsókn á ungum ökumönnum.
Guðrún Árnadóttir (97/224). Samanburður á upplýsingum úr boðunarskrám Krabbameinsfélags Íslands og upplýsingum frá þátttakendum í rannsókn á áhrifum streitu, persónuleikaþátta og vitneskju um nákominn ættingja með krabbamein á mætingu í brjóstamyndatöku hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands og á sjálfskoðun brjósta.
Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir nemi (99/061). Könnun á áhrifum Hvalfjarðarganganna á búsetu og atvinnulíf á Vesturlandi.
Guðrún Schmidt (99/033). Könnun á viðhorfum bænda til verkefnisins "Bændur græða landið".
Hafdís M. Magnúsdóttir nemi (99/049). Könnun á viðhorfum og væntingum foreldra til leikskóla.
Hannes Petersen yfirlæknir (99/029). Samanburðarrannsókn á bólgueyðandi áhrifum tveggja sykurvirkra barkstera, annars vegar budesonid en hins vegar fluticasonproprionat.
Helga M. Ögmundsdóttir yfirlæknir (99/514). Rannsókn á áhrifum BRCA2999del5 stökkbreytingarinnar á svipgerð brjóstaþekjufruma, myndun brjóstakrabbameins og sérkenni slíkra æxla.
Hjördís Þorgeirsdóttir kennari (99/413). Könnun á hegðun og viðhorfum nemenda í Menntaskólanum við Sund til skólans, Netsins, námsins, afbrota, fyrrverandi fanga, athygli kennara, væntinga til launa, trúmála, kynlífs og framtíðaráforma.
Hólmfríður Einarsdóttir nemi (99/087). Könnun á því hvaða áhrif það getur haft á barn yngra en þriggja ára að hefja leikskólagöngu.
Hrönn Kristjánsdóttir (99/219). Samanburðarkönnun á aðferðum við að meta þjónustuþörf þroskaheftra.
Ingibjörg B. Frímannsdóttir nemi (99/244). Könnun á framburði ákveðinna hljóða í íslensku.
Ingibjörg Sigurjónsdóttir (99/449). Könnun vegna stöðlunar kunnáttuprófs í stærðfræði fyrir 1. – 7. bekk grunnskóla.
Ingibjörg Þórhallsdóttir lektor (99/052). Könnun á jafnræði í notkun á íslenskri heilbrigðisþjónustu.
Ída Braga Ómarsdóttir nemi (99/098). Könnun á úthaldi hjá konum með langvarandi einkenni frá hálsi eftir hálshnykk.
John Maling prófessor og Sigríður Sigurjónsdóttir dósent (99/103). Könnun á setningafræðilegu einkenni og útbreiðslu "nýju þolmyndarinnar" í íslensku.
Jóhanna Þórunn Ingimarsdóttir nemi (99/191). Könnun á áherslum myndlistakennara í kennslu sinni.
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/070). Rannsókn á JC-veiru.
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/073). Rannsókn á erfðafræðilegri fjölbreytni í gerðagenum nokkurra efnaskiptaensíma.
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/149). Rannsókn á hvort tiltekinn erfðabreytileiki finnst eingöngu í sjúklingum með kynbundinn holgóm og tunguhaft.
Jónas Hallgrímsson prófessor (99/055). Könnun á aðferðum til einangrunar erfðaefnis úr formalínhertum vefjasýnum.
Jónas Pálsson (99/132). Könnun á áhrifum ýmissa félagslegra og efnahagslegra einkenna mismunandi byggðalaga á gæði skólastarfs þar.
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson (99/469). Könnun á aðlögun og þátttöku Íslands og íslenskrar stjórnsýslu í Evrópusamstarfi.
Kristín Jóna Magnúsdóttir nemi (99/110). Könnun á því hvaða áhrif það hefur á námsárangur að alast upp við fleiri en eitt tungumál.
Pétur Ingvi Pétursson læknir (99/343). Könnun á ávísanavenjum íslenskra lækna á sýklalyf og þróun þeirra í tímans rás.
Ragnheiður Karlsdóttir (99/224). Könnun á kennslu í grunnskólum í Reykjavík.
Rannsóknarstofa H.Í. í ónæmisfræði (99/188). Taka blóðsýna til viðmiðunar vegna þeirra rannsókna sem gerðar eru á Rannsóknarstofu í ónæmisfræði.
Rekstrardeild Háskólans á Akureyri (99/160). Könnun þar sem markmiðið er aðallega að athuga markað strætisvagna Akureyrar, SVA, en einnig verða teknar til almennar spurningar og kosningamál.
Sif Einarsdóttir lektor (99/334). Könnun á gildi áhugakönnunar Strongs í náms- og starfsráðgjöf með íslenskum nemendum.
Sigurður Ingvarsson dósent (99/222). Greining á erfðabreytingum í brjóstaæxlum.
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/499). Klínísk rannsókn á tilraunabóluefni gegn penumococcum (PNF09297).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/500). Klínísk rannsókn á tilraunabóluefni gegn penumococcum (PNF08197).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/504). Klínísk rannsókn á tilraunabóluefni gegn penumococcum (PNC02197).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/504). Klínísk rannsókn á tilraunabóluefni gegn penumococcum (PNC15295).
Svava Grönfeldt lektor (99/316). Könnun á viðhorfi nemenda við viðskipta- og hagfræðideild HÍ til námsins, notagildi þess o.fl.
Trausti Þorsteinsson framkvæmdastjóri (99/452). Úttekt á starfi grunnskólanna í Fjarðarbyggð.
Trausti Þorsteinsson framkvæmdastjóri (99/502). Úttekt á starfsumgjörð og starfsemi Borgarhólsskóla á Húsavík.
Una Jóhannesdóttir nemi (99/102). Könnun á hvernig tiltekin áhugasviðskönnun (Strong) gagnast fólki við náms og/eða starfsval.

3.3. Starfsleyfi sem gefin voru út

3.3.1. Starfsleyfi skv. 15. gr. til annast söfnun og miðlun upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust

3.3.1.1. Lánstraust hf. (99/277) Þann 19. júlí veitti Tölvunefnd Lánstrausti hf. starfsleyfi skv. 15. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, til þess að annast söfnun og miðlun tiltekinna upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila.

Starfsleyfi þetta heimilar söfnun og miðlun tiltekinna fjárhagsupplýsinga um einstaklinga og lögpersónur. Auk upplýsinga um nöfn, heimili og kennitölur má safna og miðla upplýsingum um vanskil, skv. því sem nánar greinir í starfsleyfinu og upplýsingum um aðild að hlutafélögum og einkahlutafélögum, sem orðið hafa gjaldþrota. Starfsleyfið heimilar söfnun upplýsinganna í eitt miðlægt gagnasafn og miðlun þeirra með beinlínutengingu við hóp áskrifenda að því gagnasafni. Starfsleyfi þetta tekur ekki til útgáfu skýrslna um lánshæfi ("credit-rating reports"). Skilmálar leyfisins skiptast í tvo kafla sem hljóða svo:

I. KAFLI
Um þær upplýsingar sem vinna má með og aðferð
við söfnun þeirra og miðlun.
1. gr.
Söfnun upplýsinga. Starfsleyfishafi má safna upplýsingum með tvenns konar hætti:

a. Frá áskrifendum.
Frá áskrifendum má safna upplýsingum um skuldir sem eru a.m.k. kr. 20.000,- að höfuðstóli enda hafi starfleyfishafi fengið óyggjandi skrifleg gögn um tilvist skuldarinnar og um að :

a.1.skuldari hafi skriflega gengist við því fyrir kröfuhafa (áskrifanda) að skuld sé í gjalddaga fallin, eða
a.2. skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með aðfararhæfri sátt, eða
a.3. skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun skv. 7. gr. laga nr. 90/1989 og frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn, eða
a.4. skuldari hafi verið dæmdur til að greiða skuldina, eða
a.5. skuldari hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali fallist á heimild áskrifanda til að óska skráningar á vanskilum enda séu skilyrði til þeirrar heimildar uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr og við það miðuð að vanskil hafi varað í a.m.k. 40 daga. Áskrifandi sem óskar skráningar á grundvelli slíkrar heimildar skal um leið ábyrgjast að honum sé ekki kunnugt um að skuldari hafi nokkrar réttmætar mótbárur gegn greiðslu skuldarinnar. Beiðni um skráningu skal undirrituð af lögmanni í þjónustu áskrifanda eða fulltrúa hans.

b. Úr opinberum gögnum og almennt aðgengilegum skrám.

Úr almennt aðgengilegum skrám má safna eftirtöldum upplýsingum:
b.1. Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum eða áritunum dómara á stefnur, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991, í málum þar sem stefndi hefur ekki mætt við þingfestingu máls eða þingsókn hefur síðar fallið niður af hans hálfu. Upplýsingar má aðeins skrá ef um er að ræða skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem nema a.m.k. kr. 20.000,- að höfuðstól hver skuld.
b.2. Upplýsingum um framkvæmd fjárnám, skv. skrám þeim sem sýslumenn halda um það efni, sbr. ákvæði 4. gr., 6. og 10. tl., reglugerðar nr. 17/1992. Upplýsingar má skrá um öll árangurslaus fjárnám en um fjárnám með árangri því aðeins að fjárhæð fjárnámskröfu nemi a.m.k. kr. 20.000,-.
b.3. Upplýsingum um uppboð, sem auglýst hafa verið í dagblöðum eða á annan samsvarandi hátt, skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.
b.4. Upplýsingum um töku búa til gjaldþrotaskipta, sem fengnar eru í skrám þeim, sem héraðsdómstólar halda, sbr. ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 226/1992, og upplýsingum um innkallanir og skiptalok, sem birtar hafa verið í Lögbirtingarblaðinu, skv. 85. og 162. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
b.5. Upplýsingum frá hlutafélagaskrá um stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota s.l. fjögur ár. Einungis má safna og miðla upplýsingum um stofnendur hafi umrætt félag verið úrskurðað gjaldþrota á innan við þremur árum frá því að það var stofnað. Þá er óheimilt að miðla upplýsingum um aðra einstaklinga en þá sem staðið hafa að tveimur eða fleiri slíkum félögum. b.6. Upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar sem birtast í auglýsingum í Lögbirtingablaðinu, skv. 2. mgr. 86. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 3. tl. 14. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. 2. gr.
Miðlun upplýsinga Starfsleyfishafi má miðla þeim upplýsingum sem hann skráir, skv. 1. gr. hér að framan, með eftirfarandi hætti:
a. Með beinlínutengingu við áskrifendur:
Með beinlínutengingu við áskrifendur, sem gerir þeim kleift að fletta upp einstökum aðilum (einum í einu), má starfsleyfishafi veita eftirfarandi upplýsingar:
a.1. Upplýsingar frá áskrifendum: Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi fær frá einum áskrifanda (skv. a lið 1. gr.) má hann aðeins miðla til annarra áskrifenda upplýsingum um nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort vanskil séu fyrir hendi en ekki um fjárhæðir vanskila. Veita skal hverjum sem þess óskar almenna vitneskju um hvaðan slíkar upplýsingar eru sóttar í skrána. a.2. Upplýsingar úr almennt aðgengilegum skrám: Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum gögnum og almennt aðgengilegum skrám (skv. b-lið 1. gr.) má hann aðeins miðla upplýsingum um nafn, heimili og kennitölu skuldara og hvort um sé að ræða dóm, áritun á stefnu, framkvæmt fjárnám, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti, skiptalok eða aðild að hlutafélögum/einkahlutafélögum sem orðið hafa gjaldþrota. Fjárhæða skal aldrei getið. Taka skal fram hvaðan viðkomandi upplýsingar eru fengnar og sé upplýsingum ekki safnað frá öllum sýslumannsembættum og héraðsdómstólum landsins skal þess sérstaklega getið á áberandi stað í formála skrárinnar (sem birtist ávallt þegar skráin er opnuð). Varðandi kaupmála og fjárræðissviptingar má aðeins miðla þeim upplýsingum sem koma fram í auglýsingum Lögbirtingablaðsins. b. Með afhendingu skrár til Reiknistofu bankanna:
Starfsleyfishafi má afhenda Reiknistofu bankanna heildarsafn þeirra upplýsinga sem hann safnar úr opinberum og almennt aðgengilegum skrám, skv. b-lið 1. gr., með þeirri aðferð og þeim skilyrðum sem greinir a. lið þessarar greinar. Um notkun Reiknistofu bankanna á þeirri skrá fer samkvæmt starfsleyfi sem Tölvunefnd hefur í dag veitt henni.
c. Með afhendingu skrár til einstakra banka og sparisjóða vegna "heimabankaþjónustu":
Starfsleyfishafi má semja beint við einstaka banka/sparisjóði um afhendingu heildarskrár gagngert og eingöngu til endursölu í svokallaðri "heimabankaþjónustu". Sú skrá skal einungis bera með sér þær upplýsingar sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum og almennt aðgengilegum skrám, skv. b-lið 1. gr., með þeirri aðferð og þeim skilyrðum sem greinir a. lið þessarar greinar.
Að öðru leyti skal um þá notkun, eftir því sem við á, fara samkvæmt þeim skilmálum sem almennt gilda um skrána samkvæmt starfsleyfi þessu, m.a. um rekjanleika fyrirspurna o.s.frv.
d. Með því að afhenda áskrifanda lista yfir fyrirhugaðar framhaldssölur á fasteignum sem auglýstar hafa verið skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.
II. KAFLI
Um meðferð gagna, öryggisráðstafanir,
eyðingu upplýsinga o.s.frv.
3. gr.
Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða er koma fram í V. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum sem Tölvunefnd kann að setja á hverjum tíma um meðferð gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.
4. gr. Starfsleyfishafa er einungis heimilt að safna og skrá upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplýsingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989. 5. gr. Óheimilt er að skrá og/eða miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni sem eldri eru en fjögurra ára. Eyða skal jafnharðan úr skrám upplýsingum sem verða eldri en fjögurra ára. Upplýsingar um töku bús til gjaldþrotaskipta má þó varðveita þar til birt hefur verið auglýsing um skiptalok. 6. gr. Starfsleyfishafa er óheimilt að birta nafn tiltekins aðila á skrá sinni eða miðla þeim með öðrum hætti nema hann hafi áður tilkynnt viðkomandi aðila um það skriflega og gefið honum a.m.k. fjögurra vikna frest til að koma að athugasemdum, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 121/1989.
Í slíkri tilkynningu skal þess getið hvaða upplýsingar hafa verið skráðar um viðkomandi, hvaðan þær koma og útskýrt hvernig viðkomandi geti komið í veg fyrir birtingu nafns í umræddri skrá eða eftir atvikum fengið nafn afmáð af skrá.
Tilkynningaskylda samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar á hvorki við um þær upplýsingar sem safnað er samkvæmt lið nr. b.6. í 1. gr. né þegar upplýsingum er miðlað samkvæmt d-lið 2. gr. 7. gr. Telji aðili að upplýsingar um hann séu skráðar skv. starfsleyfi þessu er starfsleyfishafa skylt, að kröfu aðila, að skýra honum frá því sem þar er skráð, sbr. 18. gr. laga nr. 121/1989, og þeim upplýsingum sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér fara á síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda. Ber starfsleyfishafa að skýra honum frá þessu sem fyrst og eigi síðar en innan tveggja vikna frá því að krafa kom fram. Beiðandi getur gert kröfu til þess að fá skriflegt svar. 8. gr. Hafi starfsleyfishafi í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skv. 5. tl., er honum skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér efni skrár af eigin raun. 9. gr. Upplýsingar skv. starfsleyfi þessu lætur starfsleyfishafi áskrifendum í té með beinlínutengingu við skrána, sbr. 2. gr. Skal nafn og heimilisfang fyrirspyrjanda ávallt skráð og gögn um það varðveitt í a.m.k. sex mánuði. Skal þess gætt að viðhafa nauðsynlegar öryggisráðstafanir til að fyrirbyggja að áskrifendur geti afritað skrána, samtengt hana við aðrar skrár eða unnið með hana á nokkurn hátt.
Um miðlun upplýsinga til Reiknistofu bankanna fer samkvæmt b-lið 2. gr. 10. gr. Starfsleyfishafi ber ábyrgð á áreiðanleika, réttmæti og gæðum þeirra upplýsinga sem hann lætur frá sér. Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 20., sbr. 14. gr. laga nr. 121/1989.
Hafi röngum eða villandi upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber starfsleyfishafi, eftir því sem honum er frekast unnt, að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða. 11. gr. Óheimilt er að miðla upplýsingum um nafn aðila ef starfleyfishafa er kunnugt um að viðkomandi krafa hafi verið greidd eða henni komið í skil með öðrum hætti. Á þetta við hvort heldur um er að ræða almennt aðgengilegar upplýsingar eða ekki. Sýni skráður aðili starfsleyfishafa fram á að umrædd krafa hafi verið að fullu greidd, eða henni komið í skil með öðrum hætti, er starfsleyfishafa þ.a.l. óheimil öll frekari birting nafns þess aðila í skránni.
Það skal vera skilyrði áskriftar (og þar með þess að fá senda starfsleyfishafa upplýsingar um vanskil) að viðkomandi áskrifandi skuldbindi sig til að tilkynna um greiðslu skuldar þegar í stað til leyfishafa. Skal í samningi um áskrift tekið fram að áskrifandi beri ábyrgð á að slíkar upplýsingar berist starfsleyfishafa svo ekki verði á skrá upplýsingar um aðila nema hann sé í vanskilum við annan áskrifanda. 12. gr. Starfsleyfishafa er skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafinn hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Endurgjald þetta má eigi vera hærra en sem nemur því endurgjaldi sem opinberar stofnanir taka í endurrits- eða ljósritunarkostnað, sbr. reglugerð um aukatekjur ríkissjóðs. 13. gr. Upplýsingum þeim sem safnað er skv. lið b.5. og b.6. í 1. gr. skal haldið aðskildum frá öðrum upplýsingum þannig að ókleift verði fyrir áskrifendur að skoða þær á sama tíma og aðrar upplýsingar. Skal taka fram á áberandi stað í skránni að ef áskrifandi synjar um lánveitingu vegna upplýsinga úr þessari skrá skuli hann greina viðkomandi frá þeirri ástæðu og jafnframt greina frá heimild viðkomandi til að fá að vita hvaða upplýsingar séu um hann færðar í skrár starfsleyfishafa. 14. gr. Upplýsingar um skuldastöðu manna má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu annars en þess er upplýsingar varðar. 15. gr. Láti starfsleyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum skal það aðeins gert hjá þeim sem fengið hafa til þess starfsleyfi samkvæmt 25. gr. laga nr. 121/1989. 16. gr. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989 er eigi heimilt að tengja saman skrár sem falla undir ákvæði þeirra laga nema sérstök heimild frá Tölvunefnd liggi fyrir. 17. gr. Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara, og skal hann undirrita heit um þagnarskyldu. 18. gr. Upplýsingagjöf samkvæmt starfsleyfi þessu mega einungis annast þeir starfsmenn Lánstrausts hf. sem sérstaklega verða til þess valdir og Tölvunefnd tilkynnt um.
III. KAFLI
Um eftirlit Tölvunefndar, gildistíma starfsleyfis o.fl.
19. gr. Tölvunefnd og starfsmenn með hennar umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur starfsleyfishafa, tækjabúnað og vinnubrögð, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 121/1989.
Tölvunefnd áskilur sér rétt til að senda á starfsstöð starfsleyfishafa eftirlitsaðila til að kanna hvort meðferð persónuupplýsinga sé með þeim hætti sem mælt er fyrir í starfsleyfi þessu. Skal slíkt eftirlit framkvæmt á kostnað starfsleyfishafa.
Starfsleyfishafi skal tilkynna Tölvunefnd ársfjórðungslega um hve margir hafi aðgang að skrám hans og hverjir það eru, hve margir einstaklingar og fyrirtæki séu á skrám og hve mikið sé skráð af hverri tegund upplýsinga. 20. gr. Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfið eða breyta skilmálum þess, ef persónuverndarhagsmunir krefjast þess. 21. gr.

Starfsleyfi þetta gildir til 1. júlí 2000.


3.3.2. Starfsleyfi skv. 21. gr. til sölu og afhendingar úr skrám á nöfnum og heimilisföngum og til að annast fyrir aðra áritandir nafna og heimilisfanga eða útsendingu tilkynninga

Starfsleyfi samkvæmt þessari grein fengu eftirtaldir aðilar:

Fasteignamat ríkisins (99/297) – leyfi útg. 4. ágúst.
Íslandspóstur (99/170) – leyfi útg. 29. apríl.
Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (99/395) – leyfi útg. 2. nóvember.
Landssími Íslands (99/253) – leyfi útg. 10. júní.
Markhúsið ehf. (99/506) – leyfi útg. 23. desember

Leyfin voru háð eftirtöldum skilyrðum:

1. gr.

Starfsleyfishafi skal gæta allra þeirra atriða sem koma fram í VI. kafla laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum sem Tölvunefnd kann að setja um meðferð nafnalista og nafnáritanir.

2. gr.

Starfsleyfishafi má aðeins hafa á útsendingarskrám upplýsingar um nöfn og heimilisföng einstaklinga og fyrirtækja. Óheimilt er að færa persónuupplýsingar í umrædda skrá.

3.gr.

Þegar símaskrá er notuð til áritunar og útsendingar bréfa, tilkynninga, dreifirita eða þess háttar, er skylt að fram komi á áberandi stað á útsendu efni að því sé dreift eftir skrá í vörslu starfsleyfishafa. Þá skal og koma fram að þeir sem kynnu að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum framvegis geti skrifað eða hringt til Landssímans hf. og fengið nöfn sín afmáð af útsendingarskrá..

4. gr.

Þegar símaskrá er notuð til áritunar og útsendingar bréfa, tilkynninga, dreifirita eða þess háttar skal þess ávallt gætt að undanskilja þá einstaklinga sem óskað hafa bannmerkingar í Þjóðskrá. Þá er starfsleyfishafa skylt að verða tafarlaust við beiðnum um að nöfn einstaklinga eða fyrirtækja verði máð af útsendingarskrá. Ef beiðni um að má nafn af útsendingarskrá berst sendanda ofangreinds póst er honum skylt að koma slíkri kröfu á framfæri við Landsímann hf.

5. gr.

Láti leyfishafi tölvuvinna upplýsingar og skrár hjá öðrum, skal það aðeins gert hjá þeim, sem fengið hafa til þess starfsleyfi skv. 21. gr. laga nr. 121/1989, sbr. og 25. gr. sömu laga.

6. gr.

Tölvunefnd og starfsmenn með hennar umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur leyfishafa, tækjabúnað og vinnubrögð, sbr. og 32. gr. laga nr. 121/1989.

7. gr.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess hvenær sem er, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila krefjast þess.

3.3.3. Starfsleyfi skv. 24. gr. til að framkvæma markaðs- og skoðanakannanir í atvinnuskyni.
Starfsleyfi samkvæmt þessar grein fengu:

Íslenskar markaðsrannsóknir ehf. (98/292) – leyfi útg. 6. apríl. Það var, eftir því sem við átti hverju sinni, háð eftirtöldum skilyrðu:

1. gr.

Starfsleyfishafi skal við kannanir gæta allra þeirra atriða sem talin eru í 24. gr. laga nr. 121/1989 og fylgja þeim skilyrðum sem Tölvunefnd kann að setja um framkvæmd slíkra kannana, meðferð gagna og varðveislu þeirra. Sérstaklega ber að hafa eftirtalin atriði í huga:

a) Gera skal þeim sem spurðir eru grein fyrir því að þeim sé hvorki skylt að svara einstökum spurningum né spurningalistanum í heild.
b) Ef svör eru ekki eyðilögð að könnun lokinni skulu þau geymd þannig frágengin að ekki megi rekja þau til ákveðinna aðila.
c) Aldrei skal spyrja annarra spurninga en þeirra sem hafa greinilegan tilgang með hliðsjón af viðfangsefni því sem verið er að kanna.
d) Óheimilt er að nota upplýsingar þær sem skráðar hafa verið til annars en þess sem var tilgangur könnunar.
e) Óheimilt er að veita öðrum aðgang að skráðum persónuupplýsingum. Skulu ofangreind atriði a)- og c)- liða tekin fram á spurningalistum svo tryggt verði að spyrlum sé kunnugt um þau. Á spurningalistum ber einnig að taka fram formála þá sem spyrlar nota í upphafi samtals við þátttakendur í könnunum. 2. gr.

Tölvunefnd skal hafa borist eigi síðar en 7 dögum áður en könnun á að fara fram lýsing á henni, þar sem fram komi hvaða úrtak á að nota. Spurningalisti sem leggja á fyrir úrtakið skal fylgja. Einnig skal greint frá því fyrir hvaða aðila upplýsingum er safnað og hvaða spurningar hann óskar eftir að lagðar verði fyrir úrtakið.

3. gr.

Leyfishafi hefur heimild til að fá nauðsynleg úrtök úr þjóðskrá vegna kannana sem falla undir leyfi þetta, enda noti hann ekki úrtakið fyrr en Tölvunefnd hefur verið tilkynnt um viðkomandi könnun. Skal þetta ávallt gætt í framkvæmd kannanna að undanskilja þátttöku þá einstaklinga sem óskað hafa bannmerkingar í Þjóðskrá.

4. gr.

Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila krefjast þess.

3.3.4. Starfsleyfi skv. 25. gr. annast tölvuþjónustu
Starfsleyfi samkvæmt þessari grein fengu:

3.3.4.1. Rósakot ehf. (99/475) – fékk leyfi útg. 8. desember hefur Tölvunefnd á fundi sínum í dag ákveðið að veita Rósakoti ehf starfsleyfi skv. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, til að annast álagningu fasteignagjalda fyrir sveitarfélög og tölvuþjónustu í því sambandi. Starfsleyfið er bundið öllum skilmálum og skilyrðum sem greinir í lögum nr. 121/1989. Auk þess er starfsleyfið bundið eftirtöldum skilyrðum: 1. gr.

Aðgangur að þeim upplýsingum sem fram koma við tölvuvinnslu er einungis heimill þeim starfsmönnum sem þörf hafa á vegna vinnslunnar og notkunar upplýsinganna.

2. gr.

Starfsleyfishafa er skylt að beita viðeigandi ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar verði misnotaðar eða þær komist í hendur óviðkomandi.

3. gr.

Starfsmenn í þjónustu starfsleyfishafa eru þagnarskyldir um atriði sem þeir komast að við störf sín og skulu þeir undirrita þagnarheit áður en þeir taka til starfa.

4. gr.

Starfsleyfishafa er, án samþykkis frá skráreiganda, óheimilt að nota upplýsingar þær sem hann hefur veitt viðtöku til annars en að framkvæma þá þjónustu sem samningur hans og skráreiganda varðar eða afhenda öðrum upplýsingarnar til vinnslu eða geymslu.

5. gr.

Samrit eða endurrit af upplýsingum um einkamálefni sem koma fram við tölvuvinnslu skulu einungis gerð í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að framkvæma tölvuvinnsluna á forsvaranlegan hátt.

6. gr.

Eigi er heimilt að tengja saman skrár sem undanþágu þarf fyrir samkvæmt 6. gr. laga nr. 121/1989, nema sérstök heimild frá tölvunefnd liggi fyrir.

7. gr.

Upplýsingar um einkamálefni, sem fram koma við tilraunaskráningu eða tilraunatölvuvinnslu, skal eyðileggja þegar ekki er þörf fyrir þær eða gera óleshæfar.

8. gr.

Starfsleyfishafi skal hlíta öllum reglum og fyrirmælum tölvunefndar, sem settar hafa verið og settar kunna að verða um vörslu gagna, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

9. gr.

Áorðnar eða fyrirhugaðar breytingar á þeim atriðum sem greint er frá í umsókn skulu tilkynntar tölvunefnd og þurfa eftir atvikum samþykki hennar.

10. gr.

Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur leyfishafa, tækjabúnað og vinnubrögð, sbr. ákvæði 31., 32., 33. og 35. gr. laga nr. 121/1989.

11. gr.

Tölvunefnd getur afturkallað leyfi þetta án fyrirvara, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila um vernd einkamálefna krefjast þess.

3.3.4.2. Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (98/417)

– fékk leyfi útg. 16. nóvember. Tölvunefnd hefur ákveðið að veita Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (ÞR), Nóatúni 17, Reykjavík, starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, til að vinna með upplýsingar sem falla undir 1. mgr. 4. gr. þeirra laga. Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna er sjálfseignarstofnun samkvæmt skipulagsskrá sem staðfest var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 29. september 1998. Starfsleyfi þetta er veitt ÞR til að annast vinnslu persónuupplýsinga fyrir einstaka aðila sem hafa leyfi Tölvunefndar til að vinna með persónuuplýsingar vegna rannsókna á erfðum tiltekinna sjúkdóma. Starfsleyfið heimilar ÞR að hafa með höndum framkvæmd tiltekinna verkþátta sem slíkir leyfishafar bera ábyrgð á samkvæmt þeim skilmálum sem Tölvunefnd hefur ákveðið að gilda skuli um meðferð persónuupplýsinga við gerð viðkomandi erfðarannsóknar.

II.

Starfsleyfið er bundið öllum skilmálum og skilyrðum sem greinir í lögum nr. 121/1989. Auk þess er starfsleyfið bundið eftirtöldum skilyrðum:

1. gr.

Aðgangur að tölvubúnaði og gagnagrunnum hjá starfsleyfishafa sem geyma persónuupplýsingar, þ.á m. nafngreind gögn, skal aðeins heimill þeim starfsmönnum sem þörf hafa á vegna þeirrar vinnslu sem samið hefur verið um við hvern og einn leyfishafa/ábyrgðaraðila. Skal kerfið vera þannig úr garði gert að rekja megi alla notkun og uppflettingar í þeim skrám sem vistaðar eru í umræddum búnaði sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar.

2. gr.

Starfsleyfishafa er skylt að beita viðeigandi ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar verði misnotaðar eða þær komist í hendur óviðkomandi og að vinnslunni verði í hvívetna þannig hagað að tryggð verði full vernd þeirra upplýsinga sem leyfishafar bera ábyrgð á gagnvart sínum sjúklingum og það öryggi sem ætla verður að sjúklingar þeirra og aðrir þátttakendur treysti á. Skal þess meðal annars gætt að allur tölvubúnaður sem hefur að geyma persónuupplýsingar verði án ytri nettengingar.

3. gr.

Starfsmenn í þjónustu starfsleyfishafa eru þagnarskyldir um atriði sem þeir komast að við störf sín og skulu þeir undirrita þagnarheit áður en þeir taka til starfa.

4. gr.

Starfsleyfishafa er óheimilt að nota upplýsingar sem hann varðveitir eða kemst að til annars en að framkvæma umsamda og skilgreinda þjónustu fyrir einstaka leyfishafa/ábyrgðaraðila. Öll miðlun upplýsinga til annarra vinnsluaðila sem viðkomandi ábyrgðaraðili kann að vera í samstarfi við er óheimil nema hún sé í samræmi við þá skilmála sem Tölvunefnd hefur sett um framkvæmd viðkomandi erfðarannsóknar.

5. gr.

Samrit eða endurrit af viðkvæmum persónuupplýsingum skulu einungis gerð í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að tryggja rekstraröryggi á forsvaranlegan hátt.

6. gr.

Starfsleyfishafi skal setja sér og framfylgja skýrum reglum um umgengni um þann búnað sem notaður er við vinnsluna, úthlutun og endurnýjun lykilorða, afritatöku, meðferð og geymslu afrita og eyðingu úreltra gagna. Markmið þessara reglna verði að tryggja vernd persónuupplýsinga skv. skilmálum þessa leyfis.

7. gr.

Starfsleyfishafi skal hlíta öllum reglum og fyrirmælum Tölvunefndar sem settar hafa verið og settar kunna að verða um vörslu gagna, meðferð afrita, öryggisráðstafanir, eyðileggingu gagna og önnur atriði.

8. gr.

Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsemi leyfishafa, tækjabúnað og vinnubrögð, sbr. ákvæði 31., 32., 33., og 35. gr. laga nr. 121/1989.

9. gr.

Starfsleyfishafi skal vinna að uppbyggingu öryggis- og persónuverndarkerfis samkvæmt viðurkenndum öryggisstöðlum. Hafa skal samráð við Tölvunefnd um staðla og uppbyggingu kerfisins. Stefnt skal að formlegri vottun slíks kerfis innan tveggja ára frá útgáfu þessa leyfis. Skal slík vottun framkvæmd af aðila sem Tölvunefnd samþykkir fyrir sitt leyti að annist hana.

10. gr.

Starfsleyfishafi skal greiða gjald fyrir heimild þessa vegna þess sem tilfellur vegna kostnaðar sem tilfellur vegna starfa tilsjónarmanna Tölvunefndar, skv. ákvörðun dómsmálaráðherra sbr. 3. mgr. 35. gr. laga nr. 121/1989.

11.gr.

Tölvunefnd getur afturkallað leyfi þetta án fyrirvara ef persónuverndarhagsmunir krefjast þess.

3.3.5. Starfsleyfi skv. 15. til að annast söfnun og skráningu upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust og 25. gr. til að skrá og miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni

3.3.5.1. Reiknistofa bankanna (99/336)

fékk endurnýjað starfsleyfi samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, til að annast tölvuþjónustu fyrir banka, sparisjóði og greiðslukortafyrirtæki í eigu banka og sparisjóða og skv. 15. gr. sömu laga til að skrá og miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni samkvæmt því sem greinir í starfsleyfi þessu.

I. Starfsleyfi þetta veitir Reiknistofu bankanna heimild til að halda eftirtaldar skrár:

A. Skrár fyrir einstaka eignaraðila að Reiknistofu bankanna.

Hver banki/sparisjóður hefur einn aðgang að þeim skrám sem haldnar eru fyrir hann og varða viðskipti hans og þeirra sem við hann eiga viðskipti. Um er að ræða
1. Sparisjóðsreikningaskrá.
Skrá með upplýsingum um eigendur sparisjóðsreikninga, kjör á reikningum og stöðu þeirra.
2. Tékka/debetkorta-reikningaskrá.
Skrá með upplýsingum um tékka/debetkorta-reikninga, eigendur þeirra og önnur atriði s.s. skilmála, vexti, yfirdráttarheimildir, færslur og innstæðulausa tékka.
Skráin skiptist í :
a) reikningaskrá,
b) færsluskrá,
c) tékkasöluskrá,
d) færsluskrá innstæðulausra tékka (fitskrá),
e) mynda- og undirskriftaskrá
3. Skrá yfir innlenda gjaldeyrisreikninga.
Skrá yfir sparisjóðsreikninga sem bókfærðir eru í mismunandi myntum.
4. Hraðbankaskrá.
Skrá yfir þá sem geta tekið út úr hraðbönkum.
5. Skuldabréfaskrá.
Skrá yfir greiðendur skuldabréfa, kjör bréfanna og stöðu þeirra.
Skráin skiptist í:
a) stofnskrá,
b) færsluskrá,
c) greiðsluskrá.
6. Víxlaskrá.
Skrá um kjör víxla og stöðu og um greiðendur þeirra (skiptist á sama hátt og skuldabréfaskrá).
7. Viðskiptamannaskrá.
Skrá þar sem dregnar eru saman upplýsingar úr ofangreindum skrám eftir kennitölum viðskiptamanna. Fram koma upplýsingar um reikningsnúmer, skuldabréf, víxla, upphæðir, stöður, vanskil og samanlögð útlán og innlán. Aðgangi að skránni skal hagað þannig að einungis þeir starfsmenn sem ákvarðanir taka um lánveitingar hafi aðgang að skrá með fjárupphæðum. Aðgangi annarra skal hagað þannig að fjárhæðir komi ekki fram.
8. Þjónustusímaskrá.
Skrá yfir þá sem hafa fengið leyninúmer til þess að hringja í þjónustusíma banka og sparisjóða.
9. Aðalbókhaldsskrá.
Skrá um gjöld og tekjur, eignir og skuldir, viðkomandi banka eða sparisjóðs. Niðurstöður hvers dags fara sjálfskrafa yfir í aðalbókhaldsskrá.
10. Tryggingaskrá.
Skrá um þær tryggingar sem viðskiptamenn banka og sparisjóða hafa sett fyrir viðskiptum sínum við þessar stofnanir.
11. Innheimtuskrá lögfræðideilda.
Skrá um þau mál sem lögfræðingar eru með í innheimtu (Landsbankinn hefur eingöngu notað þessa skrá).
12. Ráðstöfunarskrá.
Skrá þar sem kennitölum viðskiptamanna banka/sparisjóða er raðað saman við reikninga þeirra. Hún er ætluð til þess að geta veitt upplýsingar um númer ráðstöfunarreikning tiltekinnar kennitölur t.d. til Skýrr hf. og opinberra aðila sem annast greiðslur inn á einstaka reikninga, t.d. vegna barnabóta, launagreiðslna, endurgreiðslu á skatti o.s.frv.
13. Innheimtukröfuskrá.
Skrá yfir ógreiddar kröfur sem bankar og sparisjóðir innheimta fyrir sig og viðskiptamenn sína.
Skráin skptist í:
a) skrá yfir ógreiddar kröfur,
b) eigendaskrá með upplýsingum um ráðstöfun greiddra krafna.
B. Sameiginlegar skrár banka og sparisjóða:
1. Lokanaskrá.
Skrá yfir lokaða tékkareikninga. Bankar og sparisjóðir sjá sjálfir um að færa upplýsingar inn á skrána en samvinnunefnd banka og sparisjóða hefur umsjón með skráningunni.
2. Launabókhaldsskrá.
Skrá um starfsstöðvar, launakjör og önnur þau atriði varðandi starfsmannahald sem þörf krefur vegna launabókhalds og uppgjörs við skattyfirvöld. Skráin geymir engar aðrar persónuupplýsingar.
C. Skrár fyrir greiðslukortafyrirtæki í eigu banka og sparisjóða.
1. Kreditkortaskrá fyrir Greiðslumiðlun hf.
Skráin skiptist í nokkrar undirskrár og á þeim koma m.a. fram upplýsingar um alla VISA-kreditkorthafa og allar þeirra færslur bæði innlendar og erlendar. Þá koma fram upplýsingar um innborganir og útborganir á reikningum og um lokun reikninga. Heimilt er að birta upplýsingar um lokun VISA reiknings á viðskiptamannaskrá viðkomandi banka eða sparisjóðs. Viðkomandi banki/sparisjóður hefur aðgang að upplýsingum um sína viðskiptamenn. Skal viðkomandi útibússtjóri takmarka aðgang að upplýsingum um einstakar færslur við þá starfsmenn sem hann þurfa nauðsynlega til að geta afgreitt fyrirspurnir og erindi viðkomandi korthafa.
2. Debetkortaskrá fyrir Kreditkort hf. og Greiðslumiðlun hf.
Skrá yfir samninga við söluaðila vegna debetkorta, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um þjónustuprósentur og ráðstöfunarreikninga söluaðila.
Um allar framangreindar skrár gildir sú regla að aðgangur að þeim er einungis heimill þeim starfsmönnum banka og sparisjóða sem Reiknistofa bankanna úthlutar aðgangi á grundvelli umsóknar frá viðkomandi banka eða sparisjóði. Skal Reiknistofan halda skrá yfir þá sem fá slíkan aðgang og Tölvunefnd hafa aðgang að henni hvenær sem er.
III. Miðlun upplýsinga.
Starfsleyfi þetta veitir Reiknistofu bankanna heimild til að miðla eftirfarandi upplýsingum.
A. Reiknistofu bankanna er heimilt, á grundvelli samings við viðkomandi skrárhaldara (FMR, Siglingastofnun, Hagstofu, sýslumenn) sem staðfestur hefur verið af Tölvunefnd, að miðla til banka og sparisjóða, og til kortafyrirtækja í þeirra eigu, upplýsingum úr eftirtöldum skrám:
1) Fasteignaskrá.
2) Skipaskrá.
3) Þjóðskrá/Fyrirtækjaskrá.
4) Þinglýsingarbókum.
Aðgangi að fasteignaskrá og þinglýsingabókum skal haga þannig að aðeins sé flett upp eftir númeri eða heiti viðkomandi eignar en hvorki nafni né kennitölu eiganda. Þegar um skoðun í þinglýsingarbók er að ræða er aðgangur þó heimill eftir nafni og kennitölu eiganda lausafjár. Um aðgang að fasteignaskrá fer samkvæmt þeim skilmálum sem Tölvunefnd setur þar að lútandi. Um aðgang að skrám Hagstofu Íslands (þjóðskrá og fyrirtækjaskrá) fer eftir samningi við hana, sem staðfestur hefur verið af Tölvunefnd.
B. Hafi Reiknistofa bankanna samið um kaup á fjárhagsupplýsingum (vanskilaskrám) frá aðila sem hefur gilt starfsleyfi, samkvæmt V. kafla laga nr. 121/1989, er henni heimilt að samtengja þá skrá við viðskiptamannaskrár einstakra banka, sparisjóða og greiðslukortafyrirtækja í þeirra eigu að því marki sem þörf krefur vegna upplýsingamiðlunar um fjármál einstaklinga, með þeim skilmálum sem greinir í bréfi Tölvunefndar til RB, dags. í dag. Reiknistofu bankanna er og heimilt að gera umrædda skrá aðgengilega tölvudeildum banka, sparisjóða og greiðslukortafyrirtækja í þeirra eigu í því skyni að gera starfsmönnum mögulegt að framkvæma einstakar uppflettingar í skránni. Um þann aðgang skal, eftir því sem við á, fara samkvæmt þeim skilmálum sem gilda um skrána samkvæmt starfsleyfi viðkomandi fjárhagsupplýsingastofu, m.a. með rekjanlegri aðgangsstjórnun o.s.frv. Öll önnur notkun á skránni s.s. afritun, samkeyrsla við aðrar skrár, endursala o.fl. er óheimil, án samþykkis Tölvunefndar.
C. Starfsleyfi þetta veitir Reiknistofu bankanna heimild til að annast áritun (áprentun) ökuskírteina fyrir dómsmálaráðuneytið. Myndir og undirskriftir sem notaðar eru til þess eru sóttar í mynda- og undirskriftaskrá banka og sparisjóða (ein af undirskrám tékka/debetkorta-reikningaskrár). Slík notkun mynda/undirskrifta er þó óheimil nema fyrir liggi samþykki hins skráða fyrir slíkri notkun mynda/undirritana. Þessi skilmáli gildir þó ekki um myndir/undirskriftir sem aflað hefur verið í gildistíð eldri starfsleyfa. Enga sérstaka skrá skal halda vegna þessa.
IV. Almennir skilmálar.
Starfsleyfi þetta er bundið öllum skilmálum og skilyrðum er greinir í lögum nr. 121/1989. Auk þess er starfsleyfið bundið eftirtöldum skilyrðum:
1. Aðgangur að ofangreindum skrám og þeim upplýsingum sem koma fram við tölvuvinnslu er einungis heimill þeim starfsmönnum sem á því hafa þörf vegna vinnslu og notkunar upplýsinganna.
2. Umfram það sem starfsleyfi þetta heimilar er óheimilt að tengja umræddar skrár saman við skrár sem undanþágu þarf fyrir skv. 6. gr. laga nr. 121/1989, nema sérstök heimild frá Tölvunefnd liggi fyrir.
3. Samrit eða endurrit af upplýsingum um einkamálefni sem koma fram við tölvuvinnslu skulu einungis gerð í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að framkvæma tölvuvinnsluna á forsvaranlegan hátt.
4. Leyfishafi skal tryggja, og er ábyrgur fyrir, að aðrir aðilar fái hvorki aðgang að þeim upplýsingum um einkamálefni sem hann fær í hendur, né samrit eða endurrit af þeim eða hinum tölvuunnu upplýsingum.
5. Upplýsingar um einkamálefni, sem fram koma við tilraunaskráningu eða tilraunavinnslu, skal, þegar ekki er lengur þörf fyrir þær, eyðileggja eða gera óleshæfar.
6. Hver sá sem starfar hjá leyfishafa samkvæmt leyfi þessu skal undirrita heit um þagnarskyldu.
7. Leyfishafi skal hlíta öllum reglum og fyrirmælum Tölvunefndar sem settar hafa verið og settar kunna að verða um vörslu gagna, öryggisráðstafanir og eyðileggingu gagna og önnur atriði.
8. Áorðnar eða fyrirhugaðar breytingar á þeim atriðum sem greint er frá hér að framan skulu tilkynntar Tölvunefnd og þurfa eftir atvikum samþykki hennar.
9. Tölvunefnd og starfsmenn hennar með umboði mega hvenær sem er skoða starfsstofur leyfishafa, tækjabúnað og vinnubrögð.
10. Allur flutningur til útlanda á upplýsingum um einkamálefni sem varðveittar eru í tölvum starfsleyfishafa eða með aðstoð þeirra er óheimill án sérstaks leyfis Tölvunefndar.
11. Tölvunefnd áskilur sér rétt til að afturkalla starfsleyfi þetta eða breyta skilmálum þess, ef hagsmunir einstaklinga eða lögaðila krefjast þess.

3.4. Tilkynningar starfsleyfishafa um einstakar kannanir skv. 1. mgr. 24. gr.

Eftirtaldir starfsleyfishafar tilkynntu um og fengu samþykktar kannanir:
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands: Tíu kannanir.
Gallup – Íslenskar markaðsrannsóknir hf.: Þrjátíu og átta kannanir.
Hagstofa Íslands: Tvær kannanir.
Íslensk Miðlun ehf.: Ein könnun.
Pricewaterhouse Coopers ehf.: Fjórtán kannanir.
Ráðgarður hf.: Fimm kannanir.

3.5. Erindi sem var synjað

Elín Guðjónsdóttir bókasafnsfræðingur (99/258) fór fram á að Tölvunefnd svaraði spurningum er varða stofnun miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði vegna könnunar sem hún vinnur að. Umræddar spurningar lutu að atriðum sem enn voru óútkljáð og á grundvelli hlutleysis Tölvunefndar sem stjórnvalds kaus hún að standa utan þátttöku í könnuninni.
Finnur Þór Vilhjálmsson fréttamaður (99/433) fór fram á aðgang að "samstarfssamningi" Íslenskrar erfðagreiningar ehf. og Hannesar Péturssonar. Tölvunefnd upplýsti að slíkur samningur væri ekki til hjá nefndinni en að hjá henni væru gögn er lytu að samstarfi þesssra aðila varðandi rannsókn á erfðaþáttum geðsjúkdóma. Hafnaði Tölvunefnd því beiðni um aðgang að áðurnefndum samningi.
Ingibjörg Þórhallsdóttir lektor (99/052) fór fram á leyfi til að nota persónuupplýsingar vegna rannsóknar á jafnræði í notkun á íslenskri heilbrigðisþjónustu. Tölvunefnd óskaði umsagnar Vísindasiðanefndar um þann þátt verkefnisins sem laut að því að rannsakandi fengi frá hinum ýmsu læknum nöfn langveiks fólks í því skyni að senda því spurningalista um heilsufar o.fl. Vísindasiðanefnd gerði ýmsar athugasemdir við aðferðafræði rannsóknarinnar og því var ekki veitt heimild til rannsóknarinnar
Kristrún Kristinsdóttir lögfræðingur (98/351) óskaði eftir aðgangi að persónuupplýsingum um afbrot og refsingar vegna athugunar á ítrekunartíðni eða endurhvarfi einstaklinga til afbrotahegðunar eftir að þeir hafa sætt einhvers konar refsingu. Fyrri beiðni hafði verið hafnað því Fangelsismálastofnun var ekki fús til samvinnu en ný umsókn barst þegar afstaða Fangelsismálastofnunar var breytt. Tölvunefnd getur heimilað að skýrt verði frá upplýsingum um það hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé sýnt fram á að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir hagsmunir hins skráða, krefjist þess. Þar sem ekki þótti sýnt að það skilyrði sé uppfyllt var beiðni um aðgangsheimild synjað.
Ragnar S. Halldórsson (98/496) fór fram á að Tölvunefnd endurskoðaði afstöðu sína til beiðni um aðgang að lista Lífeyrissjóðs verkfræðinga yfir menn sem njóta skertra lífeyrisréttinda úr sjóðnum. Taldi Tölvunefnd erindið fela í sér beiðni um endurupptöku máls á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þau skilyrði sem stæðu til endurupptöku máls væru ekki uppfyllt og því ekki efni til endurupptöku þess.

3.6. Álit, umsagnir og leyfi.

Aðalskoðun hf. (99/337) óskaði álits Tölvunefndar um hvort og hvaða upplýsingar skoðunarstofum sé heimilt að gefa úr ökutækjaskrá. Tölvunefnd vísaði til reglugerðar um starfshætti Skráningarstofunnar hf. og starfsleyfis hennar.
Borgarbókasafnið (99/214) óskaði álits Tölvunefndar á lögmæti / ólögmæti tiltekins þáttar í skráningu upplýsinga um lántökur viðskiptavina bókasafna. Tilefnið er ný útgáfa bókasafnskerfis þar sem hægt er að skoða alla hreyfingu á útláni og þaðan hægt að fara beint inn í lánþegamynd viðkomandi. Að áliti nefndarinnar geta upplýsingar um það hvaða tímarit/bækur fólk les talist persónuupplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Taldi Tölvunefnd myndun skráa sem hafi að geyma upplýsingar um slíkt vera andstætt sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Með vísun til þess og að því gættu að ekki varð séð að svo víðtæk skráning sem hin nýja útgáfa af kerfinu gerir ráð fyrir sé eðlilegur þáttur í starfsemi bókasafna lagðist Tölvunefnd gegn henni og lagði til að Borgarbókavörður beindi tilmælum um breytingu til umsjónaraðila hugbúnaðarins.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (99/100) óskaði umsagnar Tölvunefndar um drög að reglum um notkun málaskrár lögreglu o.fl. frá ágúst 1999. Tölvunefnd hafði áður haft drögin til umfjöllunar og taldi að með breytingunum hafi verulega verið komið til móts við ábendingar hennar. Að áliti Tölvunefndar var og lögð á það brýn áhersla að þrátt fyrir strangar reglur um aðgangstakmarkanir væri nauðsynlegt að umræddur gagnagrunnur væri þannig úr garði gerður að tryggður yrði rekjanleiki allra uppflettinga og skráninga.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (99/345) óskaði umsagnar Tölvunefndar um drög að frumvarpi til laga um Schengen upplýsingakerfið á Íslandi. Frumvarpinu er ætlað að veita lagaheimild fyrir gerð rafræns gagnasafns (N.SIS) sem mun hafa að geyma tilteknar persónuupplýsingar. Gagnasafnið mun tengjast sameiginlegu upplýsingakerfi á Schengen svæðinu (C.SIS). Niðurstaða Tölvunefndar var að í ljósi þess að þau ákvæði sem fjalla um hvað má skrá, um hverja og hvenær eru í samræmi við ákvæði Schengen samningsins hefði hún því takmarkað svigrúm til sjálfstæðra athugasemda um efni þeirra. Hún benti á að ákvæði um það hverjir mega hafa aðgang að umræddum persónuupplýsingum væru hins vegar i nokkru frábrugðin efni samningsins og lagði áherslu á mikilvægi þess að veita ekki rýmri aðgang en nauðsyn krefur. Var lagt til að Tölvunefnd hefði eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu væri í samræmi við lög og reglur. Lagði Tölvunefnd áherslu á að í reglugerð yrði mælt fyrir sjálfvirka tilkynningu um tilvist of gamalla upplýsinga í gagnasafninu, um rekjanleika uppflettinga, notkunartölfræði, handahófsprófun fyrirspurna, sjálfvirka tilkynningu óheimilla aðgangstilrauna og eftir atvikum annað sem bæði hefur varnaðaráhrif og auðveldar nefndinni að sinna lögboðnu hlutverki sínu.
Dómsmálaráðuneytið (99/443) óskaði álits á þátttöku ráðuneytisins í samstarfi aðildarríkja Evrópusambandsins um söfnun tölulegra upplýsinga um umferð ólöglegra innflytjenda um ESB/Schengensvæðið, CIREFI. Tölvunefnd gerði ekki sérstakar athugasemdir fyrir sitt leyti svo fremi lögreglustjórar muni eingöngu senda Útlendingaeftirlitinu tölfræðilegar upplýsingar um skilgreind tilvik en engar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar.
Fangelsismálastofnun (98/465) óskaði leyfis til að fá birt í heild á aflestrarskjá þau númer sem hringt er úr í símanúmer einangrunardeildar fangelsins þrátt fyrir að viðkomandi símnotandi hafi númeraleynd. Tölvunefnd leitaði álits Landssímans á því hvort þetta væri tæknilega mögulegt. Í svarbréfi Landssímans kemur fram að tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að verða við erindi Fangelsismálastofnunar. Hins vegar telur Landssíminn að ekki eigi að veita fleiri aðilum möguleika á að sjá númer þeirra sem eru með leyninúmer en nauðsynlegt er vegna öryggishagsmuna. Tölvunefnd féllst á röksemdir Landssímans og lagði til að prófuð yrði sú aðferð sem Landssíminn lagði til í bréfi sínu.
Fjármálaráðuneytið (99/064) óskaði leyfis til að safna persónuupplýsingum og samtengja skár með slíkum upplýsingum. Þær upplýsingar sem nauðsynlegt er að afla eru: um fæðingar á ákveðnu tímabili (1997), um stöðu móður og föður á vinnumarkaði við fæðingu, um tekjur móður og föður á því tímabili sem þau áttu rétt á fæðingarorlofi vegna fæðingar á ákveðnu tímabili og um kostnað vegna fæðingarorlofs og dreifingu á ákveðnu tímabili vegna fæðinga 1997. Tilgangurinn eru hugmyndir hagsmunaaðila á vinnumarkaði um breytingar á núverandi réttindum til fæðingar- og foreldraorlofs. Tölvunefnd heimilaði framkvæmd verksins og fékk tilsjónarmann sinn til að sjá um að persónuverndar væri gætt við framkvæmd hennar allt þar til umrædd skrá hefur verið gerð ópersónugreinanleg.
Flugmálastjórn (99/284) óskaði umsagnar um notkun búnaðar sem skráir símtöl flugumferðarstjóra í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Skráðar verða upplýsingar um númer sem valin eru í fjarskiptastjórnkerfinu, númer sem hringja inn í fjarskiptastjórnkerfið og tímasetningu allra símtala. Skráningin er til að geta aukið öryggi og gæði talsambanda við flugstjórnarmiðstöðina. Vegna tilgangs skráningarinnar gerði Tölvunefnd ekki athugasemd við framkvæmd hennar enda verði farið að eftirtöldum skilmálum: að starfsmenn hafi aðgang að öðrum símum þar sem ekki fer fram skráning símtala né hljóðritun, að starfsmönnum sé gert kunnugt um þessa skráningu/hljóðritun símtala, upplýsingarnar verði ekki varðveittar lengur en í þrjá mánuði nema nauðsyn krefji, að aðgangur verði takmarkaður og að starfsmanni verði gert kunnugt um ef fram fer sérstök athugun á símnotkun hans og honum gefinn kostur á að koma að skriflegum athugasemdum.
Framleiðsluráð landbúnaðarins (99/370) óskaði álits Tölvunefndar á veitingu aðgangs að upplýsingum um mjólkurgreiðslumark 15 tiltekinna fyrrverandi ríkisjarða síðustu sex árin. Beiðnin tengdist málarekstri aðila gegn íslenska ríkinu þar sem hann hefur verið ábúandi á ríkisjörð og vildi við ábúðarlok fá frá ríkinu greiðslu fyrir framleiðslurétt jarðarinnar. Málið varðaði beiðni um aðgang að upplýsingum um einkamálefni annarra í fullvirðisréttarskrám Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Að mati Tölvunefndar hafði sá sem aðgangsins óskaði sýnt fram á þörf sína fyrir aðganginn vegna dómsmáls sem höfðað hafði verið til að fá úr því leyst hverjum mjólkurkvóti tilheyri, ábúanda eða landsdrottni, væri um leigujörð að ræða. Tölvunefnd taldi hagsmuni þess sem aðgangsins óskaði vega þyngra en hagsmuni annarra af því að halda upplýsingunum leyndum og samþykkti því að Framleiðsluráð landbúnaðarins veitti aðilanum aðgang að umræddum upplýsingum. Heimildin var bundin því skilyrði að upplýsingarnar yrði eigi notaðar í öðrum tilgangi en vegna umrædds dómsmáls og fyllsta trúnaðar gætt um efni þeirra.
Gagnalind hf. (98/471) óskaði leyfis til fjarþjónustu vegna sjúkraskrárkerfisins Sögu. Megintilgangurinn var að veita hraða og örugga þjónustu við heilsugæslustöðvar um landið, óháð staðsetningu og fjarlægð. Tölvunefnd veitti heimild sína þar sem unnið verður eftir ferli sem tryggir öryggi fjarþjónustu við sjúkraskrárkerfi heilsugæslustöðva þar til fyrir liggur sérstakt aðgangskerfi sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun setja upp að fengnu samþykki nefndarinnar.
Háskóli Íslands (99/114) óskaði leyfis til að safna persónuupplýsingum um félaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna úttektar á lífeyrisskuldbindingum hins opinbera. Heimild veitt með því skilyrði að tilsjónarmaður Tölvunefndar hefði tilsjón með því að persónuverndar væri gætt við framkvæmd verkefnisins og fylgst með því að HÍ berist ekki persónuauðkennd gögn.
Háskólinn á Akureyri (99/008) óskaði leyfis f.h. Rannsóknarstofnunar HA til að framkvæma könnun fyrir Háskólanefnd Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi á viðhorfum Sunnlendinga til menntunar í heimabyggð og hvernig best væri að mæta þeim væntingum. Um var að ræða símakönnun og þátttakendur, 550 manns á aldrinum 20-70 ára, valdir með tilviljunarúrtaki af öllu Suðurlandi að Vestmannaeyjum undanskildum. Tölvunefnd samþykkti með eftirfarandi skilyrðum: Að einstaklingar sem óskað hafa bannmerkingar í Þjóðskrá lendi ekki í úrtakinu, að þátttakendum verði gerð grein fyrir að þeim sé frjálst að svara öllum spurningum, hluta þeirra eða engum og svör verði ekki rakin til einstakra svarenda.
Heilbrigðisráðuneytið (99/468) óskaði umsagnar um drög að reglugerð um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Sjá nánar 3.12.1.
Hjartavernd (97/113) fékk heimild til að safna og skrá persónuupplýsingar og til samtengingar skráa með persónuupplýsingum. Sjá nánar 3.12.2.
Ingimundur Gíslason læknir, Einar Stefánsson prófessor og Þór Eysteinsson lífeðlisfræðingur (99/066) fengu leyfi til að skrá persónuupplýsingar vegna rannsóknar á faraldsfræði og erfðum retinitis pigmentosa (hrörnunarsjúkd. í augnbotnum). Upplýsts samþykkis aflað. Hluti persónuupplýsingavinnslunnar unninn af Íslenskri erfðagreiningu. Tölvunefnd, skipaði tilsjónarmann til að hafa tilsjón með því að unnið væri samkvæmt settum skilmálum.
Íslandsbanki hf. (99/314) óskaði álits Tölvunefndar á því að bankinn fengi frá Fiskistofu upplýsingar um löndunartölur fiskiskipa. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við að bankinn fengi umrædd gögn í hendur í þeim tilgangi að fylgjast með löndunum ákveðinna útgerða til að meta stöðu þeirra hverju sinni. Kæmi til önnur notkun skráarinnar skyldi senda Tölvunefnd nýtt erindi þar að lútandi.
Íslandspóstur hf. (99/501) óskaði álits Tölvunefndar á birtingu póstfangaskrár á heimasíðu Íslandspósts hf. Tölvunefnd taldi að birting og miðlun upplýsinga um viðtökustað pósts á Netinu, sé hann annar en lögheimili, gæti ekki talist eðlilegur þáttur í starfi Íslandspósts hf. enda þótt það geti talist eðlilegur þáttur í starfinu að halda slíka skrá fyrir sig. Álit Tölvunefndar er því að Íslandspósti hf. sé, án upplýsts samþykkis þeirra sem hafa gefið upp annan viðtökustað pósts en lögheimili, óheimilt að birta upplýsingar þar að lútandi á Netinu.
Kirkjugarðar Akureyrar (KGA) (99/152) óskaði umsagnar Tölvunefndar um heimild KGA til að setja útdrátt úr legstaðaskrá sinni upp á heimasíðunni. Hægt yrði að fletta upp: nafni hins látna, síðasta lögheimili, fæðingar-, dánar- og útfarardegi og útfarar- og legstað. Engar tengingar yrðu við aðstandendur og þess gætt að ekki verði hægt að nota birt gögn í hagnaðarskyni. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við þennan uppflettimöguleika.
Landlæknisembættið (99/159) óskaði umsagnar Tölvunefndar um hvort einstaklingar sem hefðu sagt sig úr miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði gætu fengið upplýsingar um sig afmáðar úr gagnagrunnum sem samkeyrðir verða við þann miðlæga. Rekstrarleyfishafi þarf ekki sérstakt leyfi Tölvunefndar eins og almennt gildir til samtengingar gagnagrunns með ættfræðiupplýsingum né erfðafræðilegum upplýsingum skv. 2. gr. laga nr. 121/1989. Tölvunefnd taldi það verklag og vinnuferli sem notað yrði til að tryggja persónuvernd við slíka samtengingu útiloka að unnt yrði að bera kennsl á þá einstaklinga sem sagt hafa sig úr hinum miðlæga gagnagrunni. Gætu því reynst torvelt að framkvæma slíkar úrsagnir.
Landlæknisembættið (99/519) óskaði eftir athugasemdum frá Tölvunefnd varðandi væntanlegt efni á heimasíðu embættisins um öryggi sjúkragagna í tölvum.
Landssíminn (99/138) óskaði umsagnar Tölvunefndar um hvenær Pósti og síma sé skv. reglum heimilt að prenta út eða miðla þeim upplýsingum sem skráðar eru. Umsagnar óskað vegna beiðni þriðja aðila um aðgang að skráðum upplýsingum og vísaði Tölvunefnd til 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989.
Lánasjóður íslenskra námsmanna (99/430) óskaði álits Tölvunefndar á því hvort LÍN sé heimilt að verða við ósk SÍNE um að fá nöfn, kennitölur og heimilisföng allra félagsmanna SÍNE og annarra erlendra námsmanna sem eru lántakendur hjá LÍN. Niðurstaða Tölvunefndar var sú að gera ekki athugasemdir við slíka skráningu enda yrði þess áður gætt af hálfu LÍN að gera öllum umræddum einstaklingum aðvart og gefa þeim tiltekinn frest til að fá nöfn sín afmáð af þeirri skrá sem SÍNE yrði afhent.
Lánstraust hf. (99/248) óskaði sérstakrar heimildar til miðlunar upplýsinga um auglýst framhaldsuppboð. Mat Tölvunefndar var að upplýsingar um framhaldsuppboð rúmist innan ákvæðis í starfsleyfi Lánstrausts hf. Og gerði því ekki athugasemd við að fyrirtækið miði við tilvik þar sem til framhaldsuppboðs kemur og dragi þar með úr umfangi notkunar uppboðsupplýsinga.
Lánstraust hf. og Markhúsið ehf. (99/445) lýstu yfir áhuga á samstarfi um kerfisbundna söfnun upplýsinga um fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri. Tölvunefnd heimilaði það svo fremi sem tryggt væri að öllum yrði, áður en þeir senda inn upplýsingar um sig/fyrirtæki, með sannanlegum hætti gerð grein fyrir því hverju verði safnað og hverju miðlað, til hverra og í hvaða markmiði.
Lögregluskóli ríkisins (99/262) óskaði umsagnar Tölvunefndar um aðgang valnefndar að upplýsingum í skráningarkerfi lögreglunnar um umsækjendur um nám í Lögregluskóla ríkisins. Það var álit Tölvunefndar að almennt hafi einstaklingur það á forræði sínu að ákveða að hve miklu leyti stjórnvald eins og Valnefnd Lögregluskóla ríkisins fái aðgang að einkalífsupplýsingum hans. Lagði Tölvunefnd því til að samþykkisyfirlýsing, þar sem umsækjendur samþykkja að nefndin leiti allra upplýsinga um þá sem þörf krefur, verði feitletruð í textanum og henni breytt þannig að fram komi að samþykkið taki m.a. til upplýsingaöflunar úr skráningarkerfi lögreglu.
Margrét Dóra Ragnarsdóttir (99/379) óskaði álits Tölvunefndar á lögmæti þess að Ríkisútvarpið hafi framkvæmt samkeyrslu Þjóðskrár og skrár yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Þannig hafi RÚV í raun myndað nýja skrá yfir þá sem Útvarpið telji eiga að greiða afnotagjöld en gera það ekki. Í áliti Tölvunefndar er ekki talið tilefni til sérstakra afskipta Tölvunefndar þótt innheimtudeild Ríkisútvarpsins hafi útbúið skrá með samanburði á íbúaskrá þjóðskrár og skrá yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins, þar sem hin nýja skrá sem þannig yrði til félli innan heimildar 3. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1989.
Menntamálaráðuneytið (99/391) óskaði athugasemda vegna beiðni Samtaka fámennra skóla um birtingu niðurstaðna samræmdra prófa í fámennum skólum. Samtökin lögðu til að birta mætti einkunnir frá skólum sem hafa færri en 11 nemendur í árgangi þannig að teknar yrðu saman meðaleinkunnir þriggja ára í senn. Tölvunefnd sá ekki ástæðu til athugasemda svo fremi sem áfram yrði miðað við sama fjölda einstaklinga í mengi þ.e. a.m.k. 11 nemendur.
Neyðarlínan (99/479) óskaði álits Tölvunefndar á fyrirhugaðri viðbótarskráningu upplýsinga í tölvukerfi Neyðarlínunnar. Erindið var tilkomið vegna fyrirspurnar einstaklinga um það hvort mögulegt sé að færa inn í tölvukerfi Neyðarlínunnar atriði sem viðkomandi vilja að sjúkraflutningamenn fái vitneskju um, komi til þess að þeir þurfi að meðhöndla viðkomandi. Niðurstaða Tölvunefndar var að gera ekki athugasemd við fyrirhugaða skráningu enda byggðist hún á frumkvæði hlutaðeigandi einstaklings.
Póst- og fjarskiptastofnun (98/464) óskaði álits Tölvunefndar á breytingartillögum sem gerðar höfðu verið á drögum að reglum um skráningu og meðferð upplýsinga um fjarskipti. Sjá nánar 3.12.3.
Póst- og fjarskiptastofnun (98/491) óskaði umsagnar um beiðni sem stofnuninni hafði borist frá Radíóþjónustu Sigga Harðar ehf. um að fá frá stofnuninni lista yfir alla leyfishafa SSB talstöðva í þeim tilgangi að gefa út skrá yfir þá. Tölvunefnd samþykkti umrædda afhendingu listans með þeim fyrirvara að viðtakandi myndi skuldbinda sig til að gefa öllum hlutaðeigandi kost á að hindra birtingu nafns síns í hinni útgefnu skrá.
Ríkisskattstjóri (99/444) óskaði álits á að fá aðgang að úrskurðum yfirskattanefndar á tölvutæku formi. Um er að ræða aðgang fyrir skilgreindan hóp starfsmanna embættis ríkisskattstjóra sem vinna að kröfugerðum mála fyrir yfirskattanefnd. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við slíkan aðgang að því gefnu að yfirskattanefnd væri því samþykk fyrir sitt leyti.
SAF (99/105) óskaði leyfis til að fá að vinna úr þeim upplýsingum sem söfnuðust í könnun sem Gallup hf. vann fyrir Vímuvarnarráð Reykjavíkur, Ísland án eiturlyfja árið 2002 og Tóbaksvarnarráð og í könnun sem Ísland án eiturlyfja vann árið 1998. Tölvunefnd samþykkti birtingu niðurstaðnanna ef ekki yrði hægt að rekja upplýsingar til einstaklinga.
Sjálfsbjörg – Landssamband fatlaðra (98/506) óskaði álits Tölvunefndar á að Bílastæðasjóður fengi frá Sjálfsbjörgu skrá yfir handhafa P-merkja hreyfihamlaðra. Miðað við að afhending skráarinnar geti verið í þágu hinna hreyfihömluðu sá Tölvunefnd ekki ástæðu til að gera athugasemdir við afhendingu skráarinnar. Þessi afstaða byggist á því skilyrði að umrædd skrá hafi engar upplýsingar aðrar en kennitölur og að Bílastæðasjóður skuldbindi sig til að tryggja að upplýsingarnar berist ekki víðar.
Sjúkrahús Reykjavíkur (99/218) óskaði umsagnar um þá aðferð sem viðhöfð verður til þess að sjúklingar sem eru með tilkynningarskylda sjúkdóma og þurfa ekki að greiða fyrir komu á göngudeild komist hjá því að "rökræða þau mál við afgreiðslufólk í opnum afgreiðslum". Fallist var á þá tillögu SR að rannsóknarbeiðnir og lyfseðlar verði auðkenndir með táknum óskiljanlegum öðrum en hlutaðeigandi starfsmönnum og að bókhaldsdeild spítalans muni aðeins berast vitneskja um að viðkomandi hafi einn 28 tilkynningarskyldra sjúkdóma en ekki hvaða sjúkdóm. Þá gerði nefndin ekki athugasemdir við notkun gagnanna að öðru leyti enda væri réttur sá skilningur hennar að umrædd lyf verði afgreidd í sjúkrahússapótekinu og komi því ekki fyrir augu þriðja aðila.
Starfsmannahald RSP (99/323) óskaði álits Tölvunefndar á skyldu Ríkisspítalanna til að afhenda Íslenskri erfðagreiningu ehf. lista yfir alla starfsmenn á tölvutæku formi til útsendingar kynningarefnis um fyrirtækið. Þar sem slík notkun skráarinnar var ekki í samræmi við þann tilgang sem var með stofnun hennar í upphafi ákvað nefndin að mæla gegn afhendingu hennar enda ekki séð að ríkir hagsmunir leiddu til annarrar niðurstöðu.
Steinn Jónsson læknir (98/436) ítrekaði beiðni um að Tölvunefnd skilgreindi með hvaða hætti fara skuli með gögn í rannsókn hans o.fl. lækna á faraldsfræði og erfðum lungnakrabbameins. Ákvað nefndin að árétta fyrra svar um taka ekki afstöðu til notkunar á gögnum Krabbameinsfélagsins fyrr en fyrir lægi hvort félagið sjálft væri samþykkt slíku.
TölvuMyndir ehf. (99/143) óskaði umsagnar um upplýsinga- og fagforritið "Leikskóli til framtíðar". Að mati Tölvunefndar eru upplýsingarnar sem skráðar verða í forritið allar þess eðlis að telja megi skráningu þeirra eðlilegan þátt í starfsemi leikskóla og samþykkti því gerð þess fyrir sitt leyti.
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/346) kom ábendingu á framfæri við Tölvunefnd þess efnis að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefði selt skrár með nöfnum lánþega hjá sjóðnum og heimilsföngum umboðsmanna þeirra. Óskað var eftir úrskurði Tölvunefndar um lögmæti þess. Úrskurður Tölvunefndar var að Lánasjóði íslenskra námsmanna sé óheimilt að láta af hendi skrár með nöfnum og heimilisföngum lánþega hjá sjóðnum til aðila sem er óviðkomandi lánasjóðnum, nema áður hafi annað hvort verið aflað til þess upplýsts samþykkis hlutaðeigandi lánþega eða lögmælts leyfis Tölvunefndar.
Verkfræðistofa Snorra Ingimarssonar (99/250) óskaði álits Tölvunefndar varðandi hljóðritun símtala frá öryggisvörslu í hliðskýli Íslenska álfélagsins í Straumsvík. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við umrædda hljóðritun enda væri öllum viðkomandi starfsmönnum kunnugt um hana og þeim jafnframt gert kleift að eiga einkasamtöl sem ekki væru hljóðrituð. Allar upptökur verða varðveittar í lokuðu rými, ekki á þær hlýtt nema tilefni gefist til og þeim jafnan eytt með sex vikna millibili. Tölvunefnd taldi einnig eðlilegt að starfsmanni eða fulltrúa hans væri gefinn kostur á að vera viðstaddur þegar hlýtt væri á upptökur.

3.7. Svör við fyrirspurnum

ALMA (98/426) spurðist fyrir um tilhögun á starfsemi fjárhagsupplýsingastofa og nýtt kerfi fyrir upplýsingamiðlun um fjármál einstaklinga. Til upplýsinga sendi Tölvunefnd afrit af svari til Reiknistofu bankanna varðandi upplýsingamiðlun um fjármál einstaklinga og afrit af starfsleyfi fyrir Reiknistofu bankanna og Lánstraust hf.
Ásdís Frímannsdóttir (99/178) spurðist fyrir um hvort ákvæði íslenskra laga hindri það að hún geri opinberar heilsufarsupplýsingar sem fram koma í sjúkraskrám foreldra sinna sem bæði eru látin. Álit Tölvunefndar var að þótt fyrirspyrjanda hafi af þar til bærum yfirvöldum verið veittur aðgangur að sjúkraskýrslum látinna foreldra sé ekki heimilt að gera þær upplýsingar opinberar skv. ákvæði 5. gr. laga nr. 121/1989 og 15. gr. laga nr. 74/1997. Hins vegar tök Tölvunefnd fram að þessi niðurstaða hennar hindri á engan hátt notkun umræddra upplýsinga til að gæta hagsmuna látinna foreldra t.d. við málarekstur vegna meintra læknamistaka eða með öðrum sambærilegum hætti.
Björn Finnsson (99/344) spurðist fyrir um lögmæti þess að gögn lögð fram hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík til endurnýjunar ökuréttinda væru notuð sem eigin gögn hjá Reiknistofu bankanna. Tölvunefnd athugaði málið í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Urðu lyktir þær að dómsmálaráðuneytið ákvað að gera ráðstafanir til að breyta viðeigandi umsóknareyðublöðum vegna ökuskírteina svo og kennispjaldi vegna ökuskírteina, til þess að gefa umsækjendum um ökuskírteini þann skýra möguleika að velja hvort þeir óski eftir því að myndin og undirskriftin sem þeir framvísa vegna umsóknar um ökuskírteini verði jafnframt aðgengileg Reiknistofu bankanna (RB) við framleiðslu debet- og kreditkorta. Þá hefur Tölvunefnd nýlega breytt starfsleyfi RB þannig að nú segir að RB megi annast áritun ökuskírteina fyrir dómsmálaráðuneytið en megi ekki nota myndir/undirskriftir úr mynda og undirskriftaskrá banka og sparisjóða nema fyrir liggi ótvírætt samþykki hins skráða fyrir slíkri notkun mynda/undirritana.
Council of Europe (99/281) sendi spurningalista varðandi meðferð viðkvæmra upplýsinga.
Einkaleyfastofan (99/411) spurðist fyrir um miðlun upplýsinga úr vörumerkjaskrá sem hún heldur skv. lögum nr. 45/1997. Tölvunefnd komst að þeirri niðurstöðu að slík miðlun upplýsinga gæti ekki talist eðlilegur liður í starfsemi stofunnar. Einnig að í ljósi almennra sjónarmiða um persónuvernd og friðhelgi einkalífs orki tvímælis að miðla úr opinberum skrám sem haldnar eru í ákveðnum lögskipuðum tilgangi upplýsingum sem gefa til kynna mynd af eignastöðu einstakra aðila. Lagðist Tölvunefnd því gegn því að Einkaleyfastofan veitti upplýsingar úr vörumerkjaskrá sem fundnar eru með leit eftir eiganda merkis. Þetta á þó ekki við ef um er að ræða eiganda merkis eða aðila sem hefur sérstaka hagsmuni af því að fá slíkar upplýsingar, s.s. vegna dómsmáls eða annarra laganauðsynja.
Electronic Privacy Information Center (99/270) spurðist fyrir um gagnavernd, fjölda verkefna og gagnagrunna.
European commission (99/163) spurðist fyrir um persónuvernd á Íslandi.
Eyþing (99/153) spurðist fyrir um eyðingu gagna í einstaklingsmálum hjá skólaþjónustu samtakanna. Tilefni fyrirspurnarinnar var sú ákvörðun Eyþings að leggja skólaþjónustuna niður í þáverandi mynd og fela sveitafélögunum að annast hana. Tölvunefnd óskaði umsagnar þjóðskjalavarðar um þetta mál. Lagði hann til að öll skjöl frá skólaskrifstofu Eyþings yrðu afhent Þjóðskjalasafni/héraðsskjalasafni. Að áliti Tölvunefndar mæla ýmis veigamikil persónuverndarsjónarmið með eyðingu skýrslna sem hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar eins og þær sem hér um ræðir þegar þær hafa lokið hlutverki sínu. Hins vegar eru ákvæði laga nr. 121/1989 almenn lög sem eftir atvikum víkja fyrir ákvæðum sérlaga. Slíkt sérákvæði er að finna í 5. gr. laga nr. 66/1985 um skilaskyldu til Þjóðskjalasafns á skjölum til varðveislu. Með vísun til þessa taldi Tölvunefnd að á Eyþingi hvíldi skylda að til skila Þjóðskjalasafni umræddum gögnum.
Gunnlaugur Haraldsson ritstjóri (99/288) spurðist fyrir um heimild ritstjórnar Læknatals til að birta í nýju læknatali upplýsingar um lækna sem ekki hafa fyllt út eyðublað og veitt umbeðnar upplýsingar. Tölvunefnd upplýsti að samkvæmt 2. gr laga nr. 121/1989 félli skráning í þágu ættfræðirita og æviskrárrita utan marka laganna og þar með utan valdsviðs Tölvunefndar þó svo að við samningu þeirra og rannsóknir þurfi að gæta reglna um vernd einkalífs. Tölvunefnd taldi menn vart geta varnað því að í slíku riti birtist um þá almennt aðgengilegar upplýsingar þ.e. um nafn og kennitölu, nöfn niðja, foreldra og núverandi maka, um menntun og opinberar stöður sem menn hafa gegnt. Um birtingu annarra upplýsinga er eðlilegt að byggja á samþykki hlutaðeigandi.
Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík (99/256) spurðist fyrir um aðgang að vaktaskrám vaktavinnufólks við stofnunina. Sá háttur hefur verið hafður að veita starfsmönnum ekki aðgang að heildarvaktaskrá heldur aðeins upplýsingar um eigin vaktir. Að áliti Tölvunefndar teljast slíkar upplýsingar sem koma fram á vaktaskrám ekki til persónuupplýsinga. Ráðstöfun þeirra fer því samkvæmt ákvörðun stjórnenda viðkomandi vinnustaðar.
Hólmfríður Þóra Guðjónsdóttir (99/187) spurðist fyrir um rannsókn á erfðum heilablóðfalls.
Ingo Lehmann (99/197) spurðist fyrir um EC-Directive 95/46 (tilskipun Evrópusambandsins) og var upplýstur um að ekki væri búið að lögleiða hana hér á landi.
NN (99/318) spurðist fyrir um hvort læknar sem reka einkastofur og eru jafnframt starfandi læknar á ríkisspítölum hafi heimild til þess að semja skýrslur um einstaklinga upp úr sjúkraskrám ríkisspítalanna og selja þær gegn reikningi frá einkastofu sinni til aðila utan heilbrigðisgeirans. Í svari sínu vísaði Tölvunefnd til 14. og 15. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og gerði að öðru leyti grein fyrir þeim reglum sem gilda um sjúkarskrár.
Krabbameinsfélag Íslands (99/485) spurðist fyrir um hvaða almenn skilyrði Tölvunefnd hafi sett fyrir samstarfi heilbrigðisstofnana, svo sem Krabbameinsfélagsins, við líftæknifyrirtæki, innlend eða erlend, varðandi starfsmannahald, stjórnun, húsnæði, tölvukerfi og meðferð persónuupplýsinga. Útskýrt var að Tölvunefnd styðst við vissar meginreglur en tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Í fyrsta lagi er sú viðmiðunarregla að sé um að ræða persónuupplýsingar sem heilbrigðisstofnun hefur safnað, vegna heilbrigðisþjónustu eða eigin rannsóknarstarfsemi, skuli gætt sérstaks trúnaðar um upplýsingarnar þegar hafið er samstarf við utanaðkomandi aðila um notkun upplýsinganna vegna rannsókna sem ekki tengjast beinni læknismeðferð tiltekins sjúklings. Í öðru lagi var talið fram að Tölvunefnd hefur lagt ríka áherslu á að skilja að ábyrgðaraðila og vinnsluaðila. Ábyrgðaraðili er alla jafna sá sem kemur fram gagnvart hinum skráða (sjúklingi) og ber ábyrgð á trúnaði og nafnleynd. Vinnsluaðili tekur við gögnum og framkvæmir á þeim tilteknar vinnsluaðgerðir. Reynt að tryggja að vinnsluaðili fái ekki persónugreind gögn, enda ljóst að sitji aðilar báðum megin borðs verður hætt við að vernd persónuupplýsinga verði marklaus.
Magnús Halldórsson og Helga Bragadóttir (99/184) spurðust fyrir um friðhelgi barna í framkvæmd klínískra rannsókna. Til upplýsinga var þeim send ársskýrsla Tölvunefndar árið 1997 og upplýst um að í slíkum tilfellum sé yfirleitt áskilið samþykki einhvers sem hefur heimild til að skuldbinda þann einstakling. Í vissum tilvikum er einnig leitað umsagnar umboðsmanns barna og/eða samþykkis viðkomandi stofnunar eða Vísindasiðanefndar heilbrigðismálaráðuneytisins.
Morgunblaðið (99/278) spurðist fyrir um netfangaskrá Miðlunar hf. þ.e. hvort hún þyrfti leyfi til að safna slíkum upplýsingum án vitundar og vilja viðkomandi aðila, s.s. á prenti eða á Netinu og hvort Miðlun hf. megi selja upplýsingarnar til þriðja aðila í tölvutæku formi t.d. með því að gefa út geisladisk með netfangasafninu. Tölvunefnd taldi eðlilegt að seljendur Internetþjónustu bjóði þeim sem fá netfang að njóta leyndar um netfangið með svipuðum hætti og gert er gagnvart rétthöfum síma. Þá taldi Tölvunefnd rétt að á sama stað og skráin birtist sé rækilega kynnt hvernig menn geti fengið nafn sitt og netfang tekið út af skránni. Sé slík skrá hins vegar notuð í markaðssetningarstarfsemi er um að ræða starfsleyfisskylda starfsemi sem háð er ýmsum skilmálum m.a. um samkeyrslu við bannskrá Hagstofu Íslands í þeim tilgangi að hlífa þeim sem vilja losna undan því að lenda á markpóstlistum.
Óskar Þórðarson (99/139) spurðist fyrir um lögmæti könnunar sem framkvæmd var meðal sumarbústaðaeigenda í Skorradal. Tölvunefnd taldi könnunina ekki lúta að atriðum sem falla undir ákvæði laga nr. 121/1989 þar sem hver og einn viðtakandi spurningalistans hefði um það fullt val að hvaða marki hann veitir umbeðnar upplýsingar. Tölvunefnd taldi hins vegar eðlilegra að við gerð slíkra kannana væru innsendir spurningalistar hvorki auðkenndir með númerum né nokkrum öðrum þeim auðkennum sem gera kleift að rekja svör til einstakra svarenda.
Ríkislögreglustjórinn (99/048) framsendi til Tölvunefndar fyrirspurn sem honum barst frá danska ríkislögreglustjóranum um efni laga nr. 121/1989.
Sænska sendiráðið (98/287) framsendi fyrirspurn Socialregisterutredningen í Malmö um löggjöf á sviði persónuupplýsingaverndar hér á landi.
Þjóðskjalasafn Íslands (99/241) spurðist fyrir um hvort því væri heimilt að veita foreldrum 18 ára barns aðgang að dagálum barnsins án þess að samþykki þess lægi fyrir. Með vísan í 5. gr. laga nr. 121/1989 synjaði Tölvunefnd um aðgang að umræddum gögnum. Taldi hún engu breyta á hvaða aldri hinn skráði var þegar gögnin urðu til.
Ættfræðiþjónustan ehf. (99/458) spurðist fyrir um hvernig færa skuli ættleidda menn á ættarskrá kynforeldra eða kjörforeldra. Þetta málefni, skráning í þágu ættfræðirita og æviskrárrita, fellur ekki undir valdsvið Tölvunefndar skv. 2. gr. laga nr. 121/1989. Tók því ekki taka sérstaka afstöðu til þess.


3.8. Ýmsar kvartanir

A.Þ. (99/121) kvartaði yfir því að Ríkisútvarpið hafi framkvæmt samkeyrslu íbúaskrár og skrár yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1989 er heimilt að tengja saman skrár sem hafa að geyma upplýsingar um nafn, nafnnúmer, kennitölu, fyrirtækjanúmer, heimilsfang, aðsetur og póstnúmer þótt slíkar upplýsingar séu sóttar í skrár annarra aðila. Því taldi Tölvunefnd Ríkisútvarpinu hafa verið heimilt að framkvæma umrædda samkeyrslu.
Á.I. (99/005) kvartaði yfir skuldalista sem um hver mánaðarmót er hengdur upp í aðalinngangi fjölbýlishúss. Stjórn húsfélagsins staðfesti að umrædd aðferð við innheimtu gjalda væri viðhöfð. Tölvunefnd gerði athugasemd við stjórn húsfélagsins þar sem umræddur birtingamáti samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 121/1989 og að húsfélagið skuli leita annarra leiða við innheimtu krafna sinna.
Á.I. (99/393) lýsti sig mótfallna því að Ríkisútvarpið noti kennitölur við innheimtu reikninga þ.e. að halda skrá með kennitölum þeirra sem ekki eiga viðtæki og þurfa því ekki að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins. Tölvunefnd vísaði til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1989 sem heimilar slíka samtengingu skráa.
B.B. (99/347) gerði athugasemd við þá aðgerð fyrirtækisins Lánstrausts hf. að færa á fjárhagsmálefnaskrá sína upplýsingar um fjárnámsaðgerð sem sýslumaðurinn í Keflavík framkvæmdi. Óskaði B.B. frestun skráningar þar til að loknum kærufresti aðfararlaga. Samkvæmt útgefnu starfsleyfi má Lánstraust hf. safna upplýsingum m.a. um framkvæmd fjárnám, árangurslaus fjárnám en um fjárnám með árangri því aðeins að fjárhæð fjárnámskröfu nemi a.m.k. kr. 20.000,-. Skráning upplýsinga um slíka aðgerð er ekki bundin skilmála um lögmæti hennar en sannist síðar að um ólögmæta aðgerð hafi verið að ræða ber Lánstrausti hf. að afmá skráðar upplýsingar um aðgerðina. Því gerði Tölvunefnd að svo stöddu ekki athugasemd við aðgerð Lánstrausts hf.
B.F. (99/090) kvartaði yfir starfsemi Myndmarks á grundvelli starfsleyfis sem Tölvunefnd gaf út. Tölvunefnd átti í bréfaskriftum við Myndmark, samtök þeirra sem dreifa myndbandsefni í gegnum útleigu og heildsölu á Íslandi. Lauk málinu þegar Myndmark leysti áformum um úrbætur og veitti Tölvunefnd samtökunum mánaðarfrest til að framkvæma þær.
E.Á. (98/494) kvartaði vegna starfrækslu banka og sparisjóða á svokallaðri Lokanaskrá. Í fyrsta lagi var athugasemd varðandi lagaheimild fyrir starfsemi Lokanaskrá. Tölvunefnd svaraði því til að í starfsleyfi Reiknistofu bankanna væri heimilað að halda skrá yfir lokaða tékkareikninga. Í öðrum lið kvörtunar var bent á að skv. samstarfssamningi banka og sparisjóða sé misnotkun sé skilyrði þess að nafn fari á Lokanaskrá og að fleira en innistæðuleysi á tékkareikningi geti fallið undir það. Álit Tölvunefndar var að hugtakið misnotkun afmarkist af texta í skuldbindingu sem reikningshafi undirritar við stofnun tékkareiknings þar sem hann er upplýstur um afleiðingar þess ef innistæða er ekki næg á tékkareikningi. Í þriðja lagi fann E.Á. að því að reikningshafa sé ekki gefinn kostur á að koma með athugasemd við færslu nafns hans á Lokanaskrá. Tölvunefnd vísaði til samstarfssamnings banka og sparisjóða en þar er sagt til um með hvaða hætti viðkomandi reikningshafa er gefinn kostur á að koma að athugasemdum við reikningslokun og honum gerð grein fyrir tilkynningu þar að lútandi til Lokanaskrár. Í fjórða lagi var kvartað yfir því að nafn geti verið lengur á Lokanaskránni en 4 ár. Tölvunefnd vísaði til liðs nr. 8.3. í áðurnefndum samningi og sá ekki ástæðu til athugasemda.
Eiður Alfreðsson (99/181) kvartaði yfir því að Ríkisútvarpið hafi framkvæmt samkeyrslu íbúaskrár og skrár yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1989 er heimilt að tengja saman skrár sem hafa að geyma upplýsingar um nafn, nafnnúmer, kennitölu, fyrirtækjanúmer, heimilsfang, aðsetur og póstnúmer þótt slíkar upplýsingar séu sóttar í skrár annarra aðila. Því taldi Tölvunefnd Ríkisútvarpinu hafa verið heimilt að framkvæma umrædda samkeyrslu.
G.I.K. (98/416) kvartaði yfir meðferð ýmissa aðila á sjúkraskrárupplýsingum um sig. Erindið laut m.a. að eyðingu upplýsinga sem skráðar voru í sjúkraskrá 1981, því sem skráð var hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. og í skýrslum Örorkunefndar. Þá kvartaði hann yfir því dómsmálaráðherra og skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu endursendu innlögð gögn í almennum pósti en ekki í ábyrgðarpósti. Álit Tölvunefndar var að almennt hafi einstaklingur það á forræði sínu að ákveða að hve miklu leyti stjórnvald eins og Örorkunefnd fái aðgang að einkalífsupplýsingum hans. Í þessu tilviki var talið að með yfirlýsingu hafi G.I.K. veitt Örorkunefnd fullan aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þýðingu gætu haft við umfjöllun hennar um örorku hans. Varðandi upplýsingar skráðar hjá VÍS og Örorkunefnd var tekið fram að að því leyti sem umrædd gögn kynnu að vera varðveitt á þeim stofnunum sem falla undir 5. gr. laga nr. 66/1985 gilti sú regla að þeim er óheimilt að ónýta nokkurt skjal nema heimild Þjóðskjalasafns komi til eða skv. sérstökum reglum sem settar verða um ónýtingu skjala. Eyðing sjúkraskrárupplýsinga fellur utan valdsviðs Tölvunefndar þar sem lög um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 ganga framar lögum nr. 121/1989. Tölvunefnd kom á framfæri athugasemd við ráðuneytið um aðferð þess við útsendingu upplýsinga.
G.J. (99/311) kvartaði vegna alvarlegs trúnaðarbrots aðstoðarlandlæknis. Tölvunefnd óskaði skýringa landlæknis og framsendi þær til G.J.
Í.P. og M.Í. (99/043) kvörtuðu yfir notkun á skrá Fasteignamats ríkisins (FMR) í markaðssetningarstarfsemi s.s. við dreifingu markpósts á grundvelli persónumynstra. Niðurstaða Tölvunefndar var sú að FMR væri umrædd starfsemi heimil samkvæmt starfsleyfis þess. Hins vegar er FMR skylt að verða við beiðnum um að nöfn verði máð af þeirri skrá sem FMR notar í umræddri starfsemi.
NN (99/385) kvartaði vegna aðgangs Tómasar Zoëga að sjúkraskrám hans. Tölvunefnd óskaði skýringa Tómasar Zoëga og framsendi NN þær.
J.K.F. (98/499) kvartaði yfir notkun bankastofnana á þeim gögnum sem fylgja umsóknum um debet-kort. J.K.F. hafði sótt um debetkort og talið sig aðeins gefa sínum viðskiptabanka heimild til að nota umræddar upplýsingar á kortið. Í smáa letrinu kemur hins vegar fram að verið sé að veita öllum fjármálastofnunum landsins heimild til að nota gögnin í öryggisskyni. Í umsögn Sambands íslenskra viðskiptabanka kom m.a. fram að notkun gagnanna væri til að auka öryggi í bankaviðskiptum og að mikilvægur liður í því væri að hafa rafrænan aðgang að myndum og undirskriftum í sameiginlegu safni RB. Tölvunefnd taldi þá samþykkisyfirlýsingu nægi til notkunar innan RB (banka og sparisjóða).
J.I.Þ. (98/502) kvartaði yfir því að Ríkisútvarpið hafi framkvæmt samkeyrslu íbúaskrár og skrár yfir greiðendur afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1989 er heimilt að tengja saman skrár sem hafa að geyma upplýsingar um nafn, nafnnúmer, kennitölu, fyrirtækjanúmer, heimilsfang, aðsetur og póstnúmer þótt slíkar upplýsingar séu sóttar í skrár annarra aðila. Því taldi Tölvunefnd Ríkisútvarpinu hafa verið heimilt að framkvæma umrædda samkeyrslu.
K.G.B. (99/097) kvartaði yfir brotum á lögum um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs í starfsemi myndbandaleiganna. Tölvunefnd hefur átt í bréfaskriftum við Myndmark, samtök þeirra sem dreifa myndbandsefni í gegnum útleigu og heildsölu á Íslandi. Lauk málinu þegar Myndmark lýsti áformum um úrbætur. Veitti Tölvunefnd samtökunum mánaðarfrest til að framkvæma þær.
K.V. (99/302) kvartaði yfir viðveru fulltrúa stjórnmálaflokkanna við kosningar á hinum einstöku kjörstöðum og skráningu þeirra á upplýsingum um hverjir neyta kosningaréttar. Slík skráning sem hér um ræðir var ótvírætt talin vera kerfisbundin í skilningi laganna, þ.e. kerfisbundin skráning upplýsinga í skipulagsbundna heild. Lög nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis heimila umboðsmönnum listanna að vera viðstaddir kosningar á hinum einstöku kjörstöðum og talningu atkvæða. Þar er hins vegar ekki tekin afstaða til þess berum orðum hvort þeim sé heimilt að skrá á kjörstað upplýsingar um hverjir mæta til kjörfundar. Bann við að hafa meðferðis á kjörfundi kjörskrá eða aðra slíka skrá til að rita þar til minnis nöfn þeirra sem neyta atkvæðisréttar og senda af kjörfundi eða láta í té upplýsingar um hverjir neyta atkvæðisréttar og hverjir ekki var í lögum nr. 91/1957 en numið úr gildi í með gildistöku laga nr. 52/1959. Með vísun til þess taldi Tölvunefnd að með því hafi löggjafinn heimilað umrætt atferli á nýjan leik. Þó telur Tölvunefnd þennan víðtæka rétt umboðsmanna framboðslistanna lítt samrýmanlegan grundvallarsjónarmiðum laga nr. 121/1989 um einkalífsvernd.
R.E. (99/057) kvartaði vegna svarts lista sem myndbandaleigur halda utan um. Tölvunefnd átti í bréfaskriftum við Myndmark, samtök þeirra sem dreifa myndbandsefni í gegnum útleigu og heildsölu á Íslandi. Áformum um úrbætur. Veitti Tölvunefnd samtökunum mánaðarfrest til að framkvæma þær.
S.ehf. (99/303) gerði athugasemd við þá aðgerð fyrirtækisins Lánstrausts hf. að færa á fjárhagsmálefnaskrá sína upplýsingar um tiltekið uppboð án þess að senda áður skriflega aðvörun og gefa kost á að koma að athugasemdum í samræmi við starfsleyfi sitt. Tölvunefnd taldi ekki rök fyrir því að senda tilkynningar í hvert skipti sem ný færsla væri skráð á aðila sem þegar væri fyrir á skrá. Niðurstaðan byggðist m.a. á 17. gr. laga nr. 121/1989 þar sem mælt er fyrir um skyldu starfsleyfishafa til að tilkynna aðila, sem í fyrsta skipti er tekinn á skrá, frá því innan fjögurra vikna frá skráningu. Gerði Tölvunefnd því ekki athugasemd við að Lánstraust hf. hefði ekki sent S.ehf. aðvörun í umrætt sinn þar sem nafn þess var fyrir á skránni.
S.S.P. (99/313) kvartaði yfir vinnubrögðum fyrirtækisins Lánstrausts hf. að færa á fjárhagsmálefnaskrá sína upplýsingar um tiltekið uppboð á T. Tölvunefnd gaf Lánstrausti hf. kost á koma að athugasemdum vegna kvörtunarinnar. Reyndist kvörtun hans réttmæt og færslu á hans nafni vegna auglýstrar nauðungarsölu eytt.
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/346) kvartaði vegna meðferðar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) á persónuupplýsingum í vörslu sjóðsins. Í framhaldi af því barst Tölvunefnd bréf LÍN þar sem tilkynnt er um samþykkt stjórnar sjóðsins þess efnis að telja upplýsingar um nöfn og póstföng umsækjenda og lánþega til einstaklingsbundinna upplýsinga sem farið skuli með sem trúnaðarmál. Í framhaldi af því ákvað Tölvunefnd að aðhafast ekki frekar nema sérstök ósk bærist þar að lútandi.
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/489) kvartaði vegna þjónustusamnings Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Tölvunefnd óskaði umsagnar SHÍ og framsendi til Vöku.


3.9. Beiðnir um gerð, aðgang, notkun og samtengingu einstakra skráa.

Bandalag íslenskra skáta (99/342) óskaði eftir að Tölvunefnd heimilaði að Skráningarstofan hf. áriti til útsendingar happdrættismiða í happdrætti sem Bandalagið efndi til. Samþykki Tölvunefndar var bundið eftirfarandi skilmálum: Skráningarnúmer ökutækja verði aðeins notað við áritun til viðtakanda. Nota skal "hlaupandi númer sem einkenni happdrættismiða við útdrátt. Skýrt verði tekið fram á áberandi stað á útsendum miðum að þeim sé dreift eftir ökutækjaskrá Skráningarstofunnar hf. Þá skal tekið fram hvert þeir, sem kunni að óska eftir því að losna frá slíkum sendingum framvegis, geti snúið sér og fengið nöfn sín afmáð af útsendingarskrá. Þess skal vandlega gætt að ekki verið sendir happdrættismiðar til þeirra sem þegar hafa óskað eftir að vera ekki á útsendingaskrá skv. ökutækjaskránni né til þeirra sem óskað hafa bannmerkingar í Þjóðskrá."
Háskóli Íslands (99/462) óskaði heimildar til aðgangs að skrá hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) vegna rannsóknar á slysum og slysabótum. Leyfi Tölvunefndar er háð því skilyrði að TR sé samþykk því fyrir sitt leyti og að TR afmái persónuauðkenni af þeim gögnum sem hún afhendir.
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir sérfræðingur (98/456) hafði fengið heimild Tölvunefndar til að samkeyra skrár vegna rannsóknar á krabbameini og dánarmeini starfs- og þjóðfélagshópa. Áréttað var það sem ekki var skýrum orðum tekið fram í heimildinni að eyða skyldi öllum persónuauðkennum þegar að samkeyrslu lokinni og áður en eiginleg úrvinnsla og útreikningar hæfust.
Íslensk erfðagreining ehf. (99/229) óskaði eftir að gera tvíburaskrá til samkeyrslu við sjúklingalista. Fyrirtækið benti á að erfðaefni eineggja tvíbura er eins þ.e. eins og um einn einstakling sé að ræða. Þegar unnið er með sýni og erfðaefnisupplýsingar úr sjúklingahópum er mikilvægt að geta á fljótvirkan hátt staðfest eða útilokað að tiltekin sýni eða erfðamerki tilheyri eineggja tvíbura. Var heimiluð gerð dulkóðaðs lista yfir tvíbura. Listinn skyldi dulkóðaður af tilsjónarmönnum Tölvunefndar og aðeins notaður til að staðfesta/útiloka að um eineggja tvíbura væri að ræða þegar tvö sýni eða erfðamerkjamælingar gæfu slíkt til kynna og til að reikna líkur á sameiginlegum erfðamerkjum systkinabarna þegar foreldrar eru ekki tiltækir.
Íslensk erfðagreining ehf. (99/415) óskaði eftir að gera skrá með dulkóðuðum kennitölum einstaklinga sem ekki eru fæddir á Íslandi. Íslensk erfðagreining bjó skrána til og engar aðrar upplýsingar en kennitölur viðkomandi eru í henni. Skráin verður notuð til uppflettingar þegar þátttakendur í rannsóknarverkefnum sýna "ættleysi" við skyldleikakönnun í dulkóðaðri Íslendingabók. Í umsögn tilsjónarmanns um hvort slíkt væri líklegt til að veikja persónuvernd og auðvelda persónugreiningu skráðra upplýsinga kemur fram að sú grunnkrafa hafi verið viðhöfð að hver einstaklingur í dulkóðaðri Íslendingabók falli inn í minnst 20 manna hóp. Tölvunefnd samþykkti fyrir sitt leyti gerð skráarinnar með skilmála um 20 manna lágmarksstærð hópa.
Jón Óttar Ólafsson nemi (99/329) óskaði leyfis til samkeyrslu skráa sem hafa að geyma persónuupplýsingar. Samkeyrslan er liður í könnun á mynstri ofbeldis í Reykjavík með hliðsjón af efnahagsstöðu. Heimild Tölvunefndar er bundin því skilyrði að Þjóðhagsstofnun afhendi einungis tölur um meðaltekjur einstaklinga og heimila í hverju af 22 hverfum Reykjavíkur og eyði síðan samkeyrslugögnum. Tölvunefnd lagði til að í rannsóknarniðurstöðum yrðu hverfum gefin gervinöfn eða númer enda er markmið verkefnisins að kanna tengsl efnahags við mynstur ofbeldisbrota en ekki að upplýsa úr hvaða hverfum ofbeldismenn kæmi né hvernig tekjur dreifist á einstök hverfi.
Kristleifur Kristjánsson læknir (99/174) óskaði eftir fyrir hönd lækna sem eru ábyrgðaraðilar og leyfishafar vegna rannsókna á erfðum Parkinsonveiki, Alzheimer og góðkynja handskjálfta að mega sameina sjúklingalista þessara verkefna og samkeyra þann lista sem þannig verður til við ættfræðigrunn ÍE. Tölvunefnd óskaði álits tilsjónarmanna sinna vegna þessa erindis og framsendi það Kristleifi til kynningar.
Landssíminn, Þróunardeild (99/441) sótti um leyfi til að samtengja Þjóðskrá og lista með sveitabæjum á landinu öllu í þeim tilgangi að finna þau býli sem ekki eru í ábúð. Með þessu vildi Þróunardeild geta veitt Áætlana- og línudeild upplýsingar um bæjarnöfn og staðsetningu þeirra bæði sem lista og á myndrænum hætti í landupplýsingakerfinu svo hægt væri að mæla fjarlægðir til símstöðva o.fl. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við samkeyrsluna að því gefnu að skráðar niðurstöður hennar yrðu ekki tengdar við nöfn einstakra manna/ábúenda.
Landsspítalinn, Ásgeir Haraldsson læknir, Guðmundur K. Jónmundsson og Jón R. Kristinsson sérfræðingar (99/310) sóttu um að gera forkönnun vegna könnunar á skyldleika sjúklinga sem fengið hafa hvítblæði fyrir 17 ára aldur. Forkönnunin yrði gerð með samkeyrslu dulkóðaðs sjúklingalista við dulkóðaðan ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE). Samþykki Tölvunefndar áskildi eftirfarandi vinnuferli: Tilsjónarmaður Tölvunefndar búi til kóðunarlykil og dulkóði sjúklingalistann og ættfræðigrunn ÍE en ÍE framkvæmi síðan samtengingu dulkóðaðs sjúklingalista og dulkóðaðs ættfræðigrunns og vinni skyldleikakönnun með notkun dulkóðaðra upplýsinga. Öll afkóðun niðurstaðna ættrakningarinnar og frekari notkun sjúklingalistans er óheimil nema til þess fáist sérstakt leyfi.
Landsspítalinn, Halldór Jónsson læknir, Guðmundur Björnsson og Hjördís Smith (99/408) sóttu um að gera forkönnun á skyldleika þeirra sjúklinga sem skráðir eru með króníska verki af einhverjum orsökum og hafa verið eða eru til meðferðar hjá umsækjendum. Forkönnunin verður gerð með samkeyrslu dulkóðaðs sjúklingalista við dulkóðaðan ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE). Samþykki Tölvunefndar er bundið eftirfarandi vinnuferli: Tilsjónarmaður Tölvunefndar búi til kóðunarlykil og dulkóði sjúklingalistann og ættfræðigrunn ÍE en ÍE framkvæmi síðan samtengingu dulkóðaðs sjúklingalista og dulkóðaðs ættfræðigrunns og vinni skyldleikakönnun með notkun dulkóðaðra upplýsinga. Öll afkóðun niðurstaðna ættrakningarinnar og frekari notkun sjúklingalistans er óheimil nema til þess fáist sérstakt leyfi.
LÍN (99/146) óskaði eftir aðgangi að fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins (FMR). Í fyrsta lagi var óskað uppflettiaðgangs eftir kennitölum og í öðru lagi að mega semja við Fasteignamatið um vélræna yfirferð á skrá LÍN yfir fasteignaeigendur í þeim tilgangi að staðfesta réttmæti uppgefinna upplýsinga um íbúðareign. Tölvunefnd samþykkti umrædda samtengingu. Samþykkið var bundið þeim skilmálum að FMR væri fyrir sitt leyti samþykkt því að veita LÍN umrædda þjónustu og að þess yrði getið á umsóknareyðublöðum sjóðsins að uppgefnar upplýsingar yrðu staðreyndar með umræddri aðferð.
Lánstraust hf. og Markhúsið ehf. (99/445) gerðu Tölvunefnd grein fyrir samstarfi sínu um kerfisbundna söfnun upplýsinga um fyrirtæki og einstaklinga í atvinnurekstri. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við slíka upplýsingasöfnun svo fremi sem öllum yrði gerð grein fyrir því, áður en þeir senda inn upplýsingar, hverju yrði safnað og hverju miðlað, til hverra og í hvaða markmiði.
Rauði kross Íslands, Garðabæjardeild (99/148) óskaði leyfis til notkunar lista yfir börn fædd 1993 sem búa í Garðabæ til að undirbúa að gefa þeim reiðhjólahjálma við upphaf vorskólagöngu þeirra. Tölvunefnd heimilaði slíka notkun listans en eyðingu hans að því loknu.
Ráðgarður hf. (99/118) f.h. formannafélags Menntaskólans í Kópavogi óskaði eftir leyfi til að samkeyra skrá yfir alla nemendur skólans við Þjóðskrá í þeim tilgangi að uppfæra heimilisföng þeirra til að undirbúa útsendingu kynningarefnis um stofnun Hollvinaráðs Menntaskólans í Kópavogi. Tölvunefnd heimilaði umrædda samkeyrslu.
Reiknistofa lífeyrissjóða (99/333) óskaði eftir að halda skrá yfir einstaklinga sem greitt hafa í lífeyrissjóði á Íslandi. Tölvunefnd samþykkti með þeim skilmála að einvörðungu verði skráð nöfn, kennitölur, kyn og hjúskaparstaða einstaklinga (makanúmer) sem eru sjóðfélagar, til hvaða sjóða þeir hafi greitt og hvenær síðast. Aðgang að skránni skulu ekki aðrir hafa en þeir starfsmenn lífeyrissjóða sem þess þurfa nauðsynlega starfs síns vegna. Notkun skráarinnar er bundin við þarfir lífeyrisgreiðenda. Fyrir sitt leyti gerir Tölvunefnd ekki athugasemd við að skrá þessi verði borin saman við þjóðskrá.
Reykjavíkurborg (99/175) var tilkynnt um samþykki Tölvunefndar fyrir því að fasteignasalar fái nettengingu til uppflettiaðgangs að álagningarkerfi Reykjavíkurborgar. Heimilt er að fletta upp eftir fastanúmerum eigna og um föst álögð fasteignagjöld sbr. 4. tl. 2. gr. rgl. nr. 93/1998.
Rúnar Vilhjálmsson thD prófessor (98/321) óskaði eftir að Tölvunefnd afhenti sér greiningarlykil úr könnun sinni o.fl. á heilbrigði og lífskjörum Íslendinga. Tölvunefnd varð við því og á rannsakandi að eyða lyklinum um leið og gagnasöfnun vegna seinni hluta könnunarinnar er lokið.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (99/332) sótti um að mega nota skrá Landssímans hf. yfir skráð símanúmer til áritunar símahappdrættis félagsins 1999. Leyfi Tölvunefndar var háð eftirfarandi skilmálum. Símanúmer má einungis nota við áritun til viðtakanda. Nota skal hlaupandi númer sem einkenni happdrættismiða við útdrátt. Við áritun skal taka skýrt fram á áberandi stað á útsendum miðum að þeim sé dreift eftir símaskrá Landsímans hf. Þá skal tekið fram hvert þeir, sem kunni að óska eftir því að losna frá slíkum sendingum framvegis, geti snúið sér og fengið nöfn sín afmáð af útsendingarskrá. Þess skal vandlega gætt að ekki yrði sendir happdrættismiðar til þeirra sem þegar hafa óskað eftir að vera ekki á útsendingaskrá skv. símaskránni.
Tryggingastofnun ríkisins (99/409) sótti um að gera forkönnun vegna könnunar á skyldleika þeirra sjúklinga sem skráðir eru með króníska verki af einhverjum orsökum og hafa verið metnir öryrkjar vegna þess. Forkönnunin verður gerð með samkeyrslu dulkóðaðs sjúklingalista við dulkóðaðan ættfræðigrunn Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE). Samþykki Tölvunefndar er bundið eftirfarandi vinnuferli: Tilsjónarmaður Tölvunefndar búi til kóðunarlykil og dulkóði sjúklingalistann og ættfræðigrunn ÍE en ÍE framkvæmi síðan samtengingu dulkóðaðs sjúklingalista og dulkóðaðs ættfræðigrunns og vinni skyldleikakönnun með notkun dulkóðaðra upplýsinga. Öll afkóðun niðurstaðna ættrakningarinnar og frekari notkun sjúklingalistans er óheimil nema til þess fáist sérstakt leyfi.
Þróunarsvið Reykjavíkurborgar (99/453) óskaði eftir aðgangi að gögnum hjá Þjóðhagsstofnun um tekjur Reykvíkinga fyrir Árbók Reykjavíkur – uppskiptar eftir hverfum. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við aðganginn að því gefnu að hvert hverfi væri skilgreint nógu stórt til að útiloka mögulega persónugreiningu upplýsinganna.

3.10. Ýmis mál

Dögg Pálsdóttir hrl. (99/020) óskaði eftir liðsinni Tölvunefndar vegna beiðni nokkurra skjólstæðinga sinna við að hætta þátttöku í rannsókn á erfðum MS-sjúkdómsins og fá eytt öllum þeim gögnum sem þeir hafa látið í té. Niðurstaða Tölvunefndar var að hún umræddir einstaklinga eiga ótvíræðan rétt á að hætta þátttöku í rannsókninni. Rannsakandi var mótfallinn eyðingu afleiddra rannsóknargagna sem orðið höfðu til við framkvæmd rannsóknarinnar og var fallist á að breyta kóðunarferli þannig að umrædd gögn yrðu ópersónugreinanleg. Málinu er ekki endanlega lokið.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra (99/030) gerði athugasemd við hljóðupptökur á fjarskiptum í flugi, á vinnustöðum flugumferðarstjóra, vörslu á hljóðupptökum og aðgang að þeim. Tölvunefnd veitti upplýsingar um þær reglur sem eru í gildi varðandi ofangreint og sá ekki ástæðu til athugasemda.
Hagaskóli (99/437) sótti um leyfi til þess að settar verði upp eftirlitsmyndavélar við Hagaskóla. Tölvunefnd upplýsti að í lögum nr. 121/1989 er ekki að finna sérstakt ákvæði um notkun myndavéla við söfnun persónuupplýsinga um fólk. Þó hefur nefndin litið svo á að taka mynda geti eftir atvikum jafngilt skráningu persónuupplýsinga í skilningi laganna og er því óheimil nema til hennar standi sérstök heimild. Tölvunefnd áskildi að kæmi til þess að skoða þyrfti myndefni yrðir það aðeins gert af skólastjóra og/eða aðstoðarskólastjóra og hverfislögreglumanni og eftir atvikum því barni sem hlut ætti að máli og foreldrum þess. Ekki var gerð athugasemd við að framangreindir aðilar kalli til aðra starfsmenn skólans t.d. til að bera kennsl á einstaka nemendur.
Heiðarskóli (99/495) sótti um uppsetningu eftirlitsmyndavéla við Heiðarskóla í Reykjanesbæ. Tölvunefnd upplýsti að í lögum nr. 121/1989 er ekki að finna sérstakt ákvæði um notkun myndavéla við söfnun persónuupplýsinga um fólk. Þó hefur nefndin litið svo á að taka mynda geti eftir atvikum jafngilt skráningu persónuupplýsinga í skilningi laganna og er því óheimil nema til hennar standi sérstök heimild. Heimild Tölvunefndar er bundin þeim skilmálum að aðgangur að myndefninu sé mjög takmarkaður, upptökur verði aðeins geymdar í 3 sólarhringa og að sýnt verði með merkjum/skiltum hvar vöktun fer fram og hver hafi umsjón með henni.
Hjartavernd, Vilmundur Guðnason (99/080) gerði athugasemd við leyfi Tölvunefndar til rannsóknar á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma meðal 50 ára karla og kvenna. Lúta athugasemdirnar einkum að því að Hjartavernd sé ekki tilnefnd ábyrgðaraðili heldur vinnsluaðili. Voru skýringar veittar.
Hjartavernd, Vilmundur Guðnason (99/113) bað um staðfestingu á skilningi á starfsleyfi sem Tölvunefnd veitti Hjartavernd. Ákvað nefndin að staðfesta að umrætt starfsleyfi nær til vísindalegrar úrvinnslu heilsufarsupplýsinga og annarra persónuupplýsinga sem Hjartavernd hefur safnað um þátttakendur í einstökum skráningar- og rannsóknarverkefnum.
Jóhann Tómasson læknir (98/504) gerði athugasemd við hugsanlegt vanhæfi Guðmundar Sigurðssonar sem tilsjónarmaður Tölvunefndar með starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.. Tölvunefnd upplýsti að Guðmundur hefði þegar óskað eftir að vera leystur frá umræddu starfi og taldi því ekki efni til frekari aðgerða.
Jóhann Tómasson læknir (99/431) óskaði eftir að sér yrði sendur listi yfir allar rannsóknir sem Tölvunefnd hefur heimilað samstarfslæknum ÍE. Tölvunefnd gat ekki orðið við beiðninni þar sem engin slíkur listi var til. Einnig óskaði Jóhann eftir afriti samþykkisyfirlýsinga allra rannsóknanna. Tölvunefnd útskýrði að til að finna mætti þau gögn þyrfti að tilgreina nafn þess læknis sem væri ábyrgðaraðili viðkomandi rannsóknar. Tölvunefnd sendi honum ársskýslu sína ef þar gætu verið upplýsingar til nánari afmörkunar erindisins.
Jón Vilberg Guðjónsson (99/185) gerði athugasemd við leit Ríkisendurskoðunar að ólöglegum búnaði hjá ríkisstofnunum. M.a. var gerð sú athugasemd að þær upplýsingar sem Ríkisendurskoðun safnaði hjá ríkisstofnunum væru persónuupplýsingar sem rekja mætti til ákveðinna starfsmanna. Umrædd könnun Ríkisendurskoðunar fólst í söfnun upplýsinga um uppsett forrit sem auðkennd eru með tilteknum hætti. Tölvunefnda taldi eðlilegt að við framkvæmd slíkra verkefna væri starfsmönnum hverrar stofnunar væri, með góðum fyrirvara, gerð grein fyrir upplýsingasöfnuninni og að söfnunarhluti verkefnisins færi þannig fram að upplýsingar um söfnunina birtust á skjá starfsmanna á meðan keyrslan færi fram. Einnig taldi Tölvunefnd æskilegt að ráðstafanir yrðu gerðar til að forðast að upplýsingarnar yrði persónugreinanlegar víðar en brýn nauðsyn bæri til. Lagði nefndin til að Ríkisendurskoðun berist ekki sundurliðaðar upplýsingar heldur einungis upplýsingar fyrir hvert embætti í heild og ennfremur að niðurstöður hennar verði opinberlega aðeins kynntar fyrir ríkið í heild en ekki einstakar stofnanir. Tölvunefnd gerði ekki athugasemd við framkvæmd Ríkisendurskoðunar á útbreiðslu notkunar ólögmæts hugbúnaðar hjá ríkisstofnunum.
Neytendasamtökin (99/376) óskuðu rannsóknar á því hvort Baugur hf. selji rafrænar upplýsingar um viðskiptavini sína til Gallup á Íslandi. Tölvunefnd sendi fyrirspurn til Baugs hf. sem svaraði að Baugur láti Gallup í té söluupplýsingar um einstakar vörutegundir en ekki viðskiptavini. Fullyrt var að með þessum upplýsingum færu engar upplýsingar um nöfn, kennitölur eða kortanúmer viðskiptavina fyrirtækisins. Tölvunefnd ákvað að aðhafast ekki meir í málinu nema henni berist ný gögn um það og ósk um frekari athugun á grundvelli þeirra.
Rannsóknarstofan í Mjódd sf. (99/182) óskaði leyfis að mega koma á fót stafrænum samskiptum við viðskiptavini með því að senda þeim niðurstöður blóðrannsókna með venjulegum tölvupósti. Tölvunefnd leitaði m.a. upplýsinga um tilvist staðlaðra EDIFACT skjala fyrir slíkar gagnasendingar og upplýsti að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ynni að mótun svokallaðs heilbrigðisnets þar sem m.a. ætti að samræmda öryggiskröfur varðandi samskipti á heilbrigðisnetinu. Mæltist Tölvunefnd fyrir að beðið yrði með umræddar gagnasendingar þar til reglur heilbrigðisnetsins lægju fyrir.
Siðfræðistofnun H.Í. (99/400) kynnti að hún hefði fengið styrk til að vinna að rannsókn, annars vegar á hugtakinu friðhelgi og hins vegar á gagnagrunnum. Lýsti stofnunin yfir áhuga sínum á að fá Tölvunefnd til samstarfs við rannsóknina sem sá sér ekki fært að verða við því vegna anna.
Sjúkraflutningaráð (99/226) kynnti nýtt tölvukerfi fyrir skráningu sjúkraflutninga.
Sjúkrahús Reykjavíkur (99/203) óskaði eftir að fá að birta í Læknablaðinu grein sem heitir Krabbamein í blöðruhálskirtli; ættartengsl íslenskra karlmanna. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við birtingu greinarinnar þar sem hún hefði ekki að geyma persónugreinanlegar upplýsingar.
Skjár einn (99/397) óskaði yfirlits yfir öll þau samstarfsverkefni sem Tölvunefnd hefur veitt leyfi fyrir milli Íslenskrar erfðagreiningar hf. og samstarfslækna fyrirtækisins. Tölvunefnd sendi Skjá einum ársskýslu sína ef þar gætu verið upplýsingar til nánari afmörkunar erindisins.
Smáraskóli (99/287) sendi Tölvunefnd upplýsingar um skráningarforritið Ask, þ.e. hvaða persónuupplýsingar væri gert ráð fyrir að skrá og hvernig aðgangi að þeim væri hagað. Tölvunefnd fjallaði um hvort sú skráning væri eðlilegur þáttur í starfsemi skólans í skilningi 3. gr. laga nr. 121/1989. Niðurstaða Tölvunefndar var að gera ekki athugasemd við tilgreinda notkun forritsins.
Starfsmaður sýslumannsembættisins í Kópavogi (98/462) sendi erindi um svokallaðan "snuðrara" á Internet-vefþjóni í tölvumiðstöð ráðuneytisins og kvartaði yfir því að hvorki dómsmálaráðuneytið né tölvumiðstöðin hafi tilkynnt að ætlunin væri að safna upplýsingum um Internet notkun starfsmanna. Tölvunefnd óskaði skýringa dómsmálaráðuneytisins sem kannaðist ekki við uppsetningu "snuðrara" (log skrá). Hinsvegar væri upplýsingum um notkun safnað sem hluta af "proxy-þjónustu" og yki það uppflettihraðann. Tölvunefnd taldi ekki tilefni til frekari aðgerða í málinu.
Tollstjóraembættið (98/209) sendi Tölvunefnd drög að leiðbeiningum um meðferð og miðlun upplýsinga um gjaldendur. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við þau.
Umboðsmaður Alþingis (99/171) spurðist fyrir um afgreiðslu máls G.I.K. vegna kvörtunar sem honum barst vegna þess.
Öldutúnsskóli (99/024) óskaði leyfis til að tengja myndbandstæki við eftirlitsmyndavélar sem voru í opnum rýmum skólans. Tölvunefnd upplýsti að í lögum nr. 121/1989 er ekki að finna sérstakt ákvæði um notkun myndavéla við söfnun persónuupplýsinga um fólk. Þó hefði nefndin litið svo á að taka mynda gæti eftir atvikum jafngilt skráningu persónuupplýsinga í skilningi laganna og væri því óheimil nema til hennar stæði sérstök heimild. Heimildin var bundin þeim skilmálum að aðgangur að myndefninu yrði mjög takmarkaður og að myndefni yrði jafnan eytt innan viku.

3.11. Eftirlit og önnur mál.

Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (99/247) fékk sent erindi Tölvunefndar þar sem honum var gerð grein fyrir fjárhagsstöðu nefndarinnar og fjárfrekum verkefnum. Óskaði nefndin eftir viðbótarfjárframlagi svo vinna hennar stöðvaðist ekki vegna fjárskorts.
Dóms- og kirkjumálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir (99/418) fékk sent erindi Tölvunefndar þar sem starfsskilyrði Tölvunefndar voru reifuð í stuttu máli og óskað eftir að ráðuneytið ljái atbeina sinn við gjaldtöku skv. 35. gr. laga nr. 121/1989.
Dómsmálaráðuneytið (99/344). Vegna fyrirspurnar um lögmæti þess að gögn sem lögð eru fram hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík til endurnýjunar ökuréttinda séu notuð sem eigin gögn hjá Reiknistofu bankanna lagði Tölvunefnd fyrir ráðuneytisins að breyta eyðublaði fyrir umsókn um ökuskírteini verði breytt þannig að menn geti valið um hvort myndin/undirritunin berist Reiknistofunni eða ekki.
Dómsmálaráðuneytið (98/416) fékk ábendingu frá Tölvunefnd þess efnis að nota ábyrgðarpóst þegar um útsendingu viðkvæmra persónuupplýsinga væri að ræða.
Framleiðsluráð landbúnaðarins (99/464)
Hagstofa Íslands (98/424) Tölvunefnd kannaði hvort þörf væri á að safna jafn viðamiklum upplýsingum um konur sem kjósa að liggja sængurlegu heima og gert var og þá hvers vegna.
Háskóli Íslands (99/059) fékk tilmæli Tölvunefndar varðandi framkvæmd einkunnabirtingar við skólann eftir athugasemd frá Vöku fls. Tölvunefnd taldi miðlun upplýsinga um einkunnir ekki vera eðlilegan þátt í venjubundinni starfsemi Háskóla Íslands, umfram þá birtingu sem felst í því að kunngjöra niðurstöðuna þeim sem málið varðar.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (99/077). Tölvunefnd óskaði úrlausnar ráðuneytisins um lagalega stöðu Hjartaverndar, þ.e. hvort hún teljist vera "heilbrigðisstofnun" eða ekki.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (99/404) fékk fyrirspurn Tölvunefndar um hvort heilbrigðisyfirvöld hefðu gripið til einhverra sérstaka ráðstafana vegna fréttaflutnings um að hægt væri að ganga inn í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og sækja sér sjúkraskrár.
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur (99/404) fékk fyrirspurn Tölvunefndar vegna fréttaflutnings um að hægt væri að ganga inn í stofnunina og sækja sér sjúkraskrár. Fyrirspurnin laut að því hvernig Heilsuverndarstöðin hefur fullnægt lagaákvæði 32. gr. laga nr. 121/1989 og hvaða ástæður séu fyrir því að framangreindir atburðir hafi orðið að fréttaefni.
Hreyfing, heilsurækt (98/460) sendi Tölvunefnd umbeðnar upplýsingar um notkun búnaðar sem tekur fingraför af viðskiptavinum til að nota þau við að fylgjast með því að einungis handhafar gildra aðgangskorta noti líkamsræktarstöðina. Þ.e. hvaða upplýsingar séu tengdar við þau, hversu lengi upplýsingarnar séu varðveittar o.s.frv. Í svari Hreyfingar segir að fingraför séu ekki skráð í gagnagrunn fyrirtækisins heldur ber búnaðurinn saman fingrafar, talnarunu og viðskiptamannanúmer. Talnarununni er ekki hægt að breyta í mynd aftur og eina leiðin til að tengja hana við fingrafarið er þegar viðkomandi fingur er lagður í lesarann. Talnarunan og númerið eru varðveittar um óákveðinn tíma.
Lungnadeild Vífilsstaðaspítala (98/458) var krafin skýring á mótsögn í kynningarbréfi og framkvæmd alþjóðlegrar samanburðarrannsóknar á astma og ofnæmi.
Myndmark hf.(95/026) sendi Tölvunefnd ósk sína um breytingu á 5. lið starfsleyfisins, um að mega miða frest í tilkynningu um skráningu á vanskilaskrá við dagssetningu tilkynningarinnar í stað móttökudags. Var það samþykkt af Tölvunefnd.
Rósa Björk Barkardóttir sameindaerfðafræðingur (96/178) fékk frest til að gera gögn úr rannsókn á þætti erfða í myndun krabbameins í blöðruhálskirtli ópersónugreinanleg enda yrði samráð haft við tilsjónarmann Tölvunefndar um framkvæmd vinnslunnar. Heimilað var að veita eitt eintak greiningarlykils - ef tilsjónarmaðurinn annaðist varðveislu þess.
Samvinnunefnd banka og sparisjóða (99/001) sendi Tölvunefnd upplýsingar um fyrirhugaðar og væntanlegar breytingar á reglum banka og sparisjóða um tékkaviðskipti. Tölvunefnd gerði ekki athugasemdir við efni þeirra.
Tannlæknafélag Íslands (99/131). Að beiðni Tannlæknafélagsins kannaði Tölvunefnd hvort Tryggingastofnun ríkisins (TR) bryti lög með því að skrá persónutengdar upplýsingar um einstaklinga sem njóta endurgreiðslu á tannlæknareikningum. Í umsögn TR segir að upplýsingar af reikningunum hafi verið færðar inn í tölvukerfi sjúkratryggingasviðs og að upplýsingar úr kerfinu séu notaðar til að fá heildaryfirlit um málaflokkinn og beitingu einstakra tannlækna á gildandi gjaldskrá en ekki til að fá upplýsingar um einstaka sjúklinga. Tölvunefnd taldi að mikilvægt sé að TR safni ekki viðkvæmum upplýsingum umfram það sem nauðsyn krefur til að meta greiðsluhlutdeild stofnunarinnar..
Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (98/417) sendi Tölvunefnd umbeðnar öryggisreglur sem Þjónustumiðstöðin setti sér varðandi umgengi um þann búnað sem hún notar við vinnslu persónuupplýsingar, úthlutun og endurnýjun lykilorða, afritatöku og meðferð og geymslu afrita. Tölvunefnd fór efni reglnanna og staðfesti þær.
Þrek hf./World Class (98/460) sendi Tölvunefnd umbeðnar upplýsingar um notkun búnaðar sem tekur fingraför af viðskiptavinum til að nota þau við að fylgjast með því að einungis handhafar gildra aðgangskorta noti líkamsræktarstöðina. Þ.e. hvaða upplýsingar séu tengdar við þau, hversu lengi upplýsingarnar séu varðveittar o.s.frv. Í svari Hreyfingar kom fram að fingraför væru ekki skráð í gagnagrunn fyrirtækisins heldur bæri búnaðurinn saman fingrafar, talnarunu og viðskiptamannanúmer. Talnarununni væri ekki hægt að breyta í mynd aftur og eina leiðin til að tengja hana við fingrafarið væri þegar viðkomandi fingur væri lagður í lesarann. Talnarunan og númerið varðveittar um óákveðinn tíma.

3.12. Nánari greinargerð um einstakar afgreiðslur

3.12.1. Hjartavernd (97/113)

Tölvunefnd setti almenna skilmála um notkun þeirra heilsufarsupplýsinga sem Hjartavernd hafði aflað, þ.e.:
1. Skrá yfir kransæðastíflutilfelli á 10 ára tímabili meðal fólks á aldrinum 25-74 ára.
2. MedPed.
3. Heilsufarsupplýsingar.
a. Gögn sem safnað var í hóprannsókn á miðaldra fólki búsettu á Reykjavíkursvæðinu.
b. Gögn sem safnað var í rannsókn á fólki í Árnessýslu.
c. Gögn sem safnað var í rannsókn á "ungu fólki".

Umræddir skilmálar gerðu ráð fyrir færslu upplýsinganna í einn gagnagrunn og að hvorki mætti skrá, varðveita né nota persónuupplýsingar (þ.m.t. sýni) umfram það sem segði í upplýstu samþykki hins skráða. Í ákvörðun Tölvunefndar segir m.a.:
"Í grunninn má færa upplýsingar um kyn og aldur, upplýsingar sem fram koma á eyðublöðum fyrir heilsufarsupplýsingar (spurningalistum), upplýsingar um niðurstöður mælinga, um blóðrannsóknir, hjartalínurit, sjúkdómsgreiningar, röntgenmyndir o.fl. og eftir atvikum upplýsingar um önnur atriði sem Hjartavernd fær leyfi til að fá annars staðar frá, s.s. til að fylgjast með dánarorsökum. Sé til lífsýni úr hinum skráða skal það auðkennt með sýnanúmeri og í grunninum tilgreina númer þess og geymslustað. Heimilt er að auðkenna einstaklinga í grunninum m.t.t. þess úr hvaða skrá upplýsingar um þá koma.
Eftir færslu upplýsinga í þennan gagnagrunn skal tryggt að þær séu ekki vistaðar annars staðar á persónugreinanlegu formi. Skal frumskráningargagni/eyðublaði því eytt með tryggum hætti að færslu lokinni nema fyrir liggi að þátttakandi í viðkomandi rannsóknarverkefni hafi leyft varðveislu þess. Skal þá haga meðferð frumgagnsins í samræmi við reglur um sjúkraskrár, sbr. lög 74/1997.
Heimild þessi er bundin þeim skilmála að sá starfsmaður Hjartaverndar sem gegnir stöðu gagnagrunnsstjóra gegni jafnframt hlutverki trúnaðarmanns Tölvunefndar. Í því felst að hann ber ábyrgð á því gagnvart Tölvunefnd að notkun gagnagrunnsins sé í samræmi við umrædda skilmála. Verður honum afhent sérstakt erindisbréf þar sem lýst verður skyldum hans og hlutverki gagnvart Tölvunefnd.
Upplýsingar má slá inn í gagnagrunninn undir kennitölum, en nota skal hugbúnað sem sér til þess að upplýsingarnar kóðist um leið og þær vistast þannig að ekki verði úr þeim lesið nema hafa til þess sérstakan afkóðunarlykil. Gagnagrunnsstjóri varðveitir kóðunarlykil og stýrir afkóðun.
Varðveita má dulkóðuð öryggisafrit í læstum skáp. Nota skal hugbúnað sem tryggir rekjanleika allra uppflettinga og allrar skráningar.

a. Grunnurinn skal varðveittur á frístandandi tölvu (ekki tengdur ytra umhverfi með nettengingu) og vera alveg ótengdur öðrum skrám Hjartaverndar.
b. Engir aðrir starfsmenn Hjartaverndar en þeir sem lúta boðvaldi gagnagrunnsstjóra skulu hafa aðgang að grunninum. Skal hver starfsmaður einungis fá aðgang að þeim hluta skrárinnar sem hann nauðsynlega þarf að hafa starfs síns vegna. Skal hver þeirra undirrita trúnaðaryfirlýsingu við ráðningu.
c. Sé fengin tölvuþjónusta frá aðila, sem ekki er starfsmaður Hjartaverndar, skal það vera aðili með starfsleyfi til tölvuþjónustu skv. 25. gr. laga nr. 121/1989. Gagnagrunnsstjóri skal sjá til þess að þeir starfsmenn slíks aðila sem sinna beinni þjónustu við gagnagrunninn undirriti trúnaðaryfirlýsingu. Slíkur aðili skal, sé þess nokkur kostur, einungis hafa aðgang að prófunarupplýsingum en ekki raunverulegum upplýsingum.
d. Gagnagrunnsstjóri ber ábyrgð á því að árlega sé gerð úttekt á öryggisþáttum gagnagrunnsins.
e. Gagnagrunnsstjóri skal sjá til þess að settar verði upp skjávarnir með lykilorðum sem afmá mynd af tölvuskjám innan 10 mínútna.
f. Gagnagrunnsstjóri gengur úr skugga um að undirmenn hans endurnýi aðgangs- og lykilorð á sex mánaða fresti. Stafafjöldi slíkra orða skal að lágmarki vera 8 stafir.
g. Gagnagrunnsstjóri skal varðveita allar tæknilegar upplýsingar í læstum peningaskáp. Hann geymir lykil þessa skáps og þess skáps þar sem varðveitt eru dulkóðuð öryggisafrit."

4. Fjölþjóðlegt samstarf.
4.1. Norrænt samstarf.
Árlegur fundur norrænna gagnaverndarstofnana var haldinn á Bornholm (Danmörku) dagana 7. - 9. júní. Af hálfu Tölvunefndar sóttu fundinn formaður og framkvæmdastjóri.

4.2. Evrópuráðið.
4.2.1. Sérfræðinganefndin (CJ-PD) um gagnavernd.
Sérfræðinganefndin hélt einn fundi á árinu, hann var haldinn 28. – 30. október. Hann var ekki sóttur.

4.2.2. Ráðgjafarnefnd (T-PD) gagnaverndarsamnings Evrópu.
Ráðgjafarnefndin hélt einn fund á árinu, 16. – 18. júní. Hann var ekki sóttur.

4.3. Alþjóðasamtök persónuverndarstofnana.
Haldinn var árlegur fundur alþjóðasamtaka stofnana um persónuvernd í Hong kong dagana 13. - 16. september. Hann sótti framkvæmdastjóri nefndarinnar.

4.4. Ráðstefna evrópskra persónuverndarstofnana.
Ráðstefna evrópskra persónuverndarstofnana var haldin í Helsinki dagana 13. - 16. apríl. Hann sóttu framkvæmdastjóri og formaður nefndarinnar.

4.5. Vinnuhópur samkvæmt 29. gr. ESB-tilskipunar um einstaklingsvernd í tengslum við vinnslu persónuupplysinga.
Haldnir voru 8 fundir í þessum vinnuhópi á árinu. Þeir voru haldnir í Brussel þann 5. janúar, 30. mars, 3. maí, 7. júní, 7. júlí, 9. sept., 15. okt. og 3. des. Framkvæmdastjóri sótti þá fundi sem haldir voru 30. mars, 3. maí og 3. desember. Aðrir fundir voru ekki sóttir.

4.6. Sameiginlega eftirlitsnefnd Schengen.
JSA hélt 7 fundi á árinu. Framkvæmdarstjóri sótti þann fund sem haldinn dagana 18. – 19. mars.5. Lög um skráningu og meðferð persónuupplysinga (Nr. 121 28. desember 1989) I. kafli.
Gildissvið laganna.
1. gr.

Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin. Lögin taka til skráningar af hálfu atvinnurekenda, fyrirtækja, félaga, stofnana og til skráningar á vegum opinberra aðila. [Jafnframt taka lögin til skýrslna sálfræðinga og félagsráðgjafa hvort sem þær teljast skrár í skilningi 2. mgr. eða ekki.] L. 76/1997, 2. gr.
Með kerfisbundinni skráningu upplysinga er átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplysinga í skipulagsbundna heild.
Með persónuupplýsingum er átt við upplysingar sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
Ákvæði laganna eiga við um upplysingar um einkamálefni er varða tiltekinn aðila, þótt hann sé ekki nafngreindur, ef hann er sérgreindur með nafnnúmeri, kennitölu eða öðru skráningarauðkenni sem unnt er að persónugreina með eða án greiningarlykils.

2. gr.

Skráning samkvæmt lögum nr. 30/1956 og skráning í þágu ættfræðirannsókna og æviskrárrita fellur utan marka laga þessara.

II. kafli.
Almennar reglur um heimild til skráningar.
3. gr.

Kerfisbundin skráning persónuupplysinga, er 1. gr. tekur til, er því aðeins heimil að skráningin sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og taki einungis til þeirra er tengjast starfi hans eða verksviði, svo sem viðskiptamanna, starfsmanna eða félagsmanna.

4. gr.

Óheimilt er að skrá eftirtaldar upplysingar er varða einkamálefni einstaklinga:

a. upplysingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð,
b. upplysingar um það hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað,
c. upplysingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun,
d. upplysingar um veruleg félagsleg vandamál,
e. upplysingar um svipuð einkalífsatriði og greinir í a?d.

Skráning upplysinga þeirra, er greinir í 1. mgr., er heimil standi til þess sérstök heimild samkvæmt öðrum lögum. Þá er skráning upplysinga skv. 1. mgr. og heimil ef hinn skráði hefur sjálfur látið upplysingar í té eða upplysinga er aflað með samþykki hans. Það er skilyrði slíkrar skráningar að upplysinga sé aflað við þær aðstæður að hinum skráða geti eigi dulist að ætlunin er að skrá viðkomandi upplysingar.
Þótt skilyrðum 2. mgr. sé eigi fullnægt getur tölvunefnd heimilað skráningu upplysinga þeirra er greinir í 1. mgr. ef ótvírætt er að skráningaraðila sé bryn nauðsyn vegna starfsemi sinnar að skrá upplysingarnar. Tölvunefnd bindur heimild til slíkrar skráningar þeim skilyrðum sem hún metur nauðsynleg hverju sinni.

III. kafli.
Um aðgang að skráðum upplýsingum.
5. gr.

Án sérstakrar heimildar í öðrum lögum er eigi heimilt að skyra frá upplýsingum þeim sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. nema með samþykki hins skráða eða einhvers er heimild hefur til að skuldbinda hann.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar greinar getur tölvunefnd þó heimilað að skyra megi frá upplýsingum þeim er greinir í 1. mgr. 4. gr. ef synt er fram á að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, þar með taldir hagsmunir hins skráða, krefjist þess. Skal þá ótvírætt að þörfin á að fá upplysingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að þeim sé haldið leyndum.
Öðrum upplýsingum, sem falla undir ákvæði laga þessara en þeim sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr., er því aðeins heimilt að skyra frá án samþykkis hins skráða að slík upplysingamiðlun sé eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans.
Án sérstakrar lagaheimildar er eigi heimilt að skyra frá upplýsingum um atvik sem eldri eru en fjögurra ára nema synt sé fram á að aðgangur að upplýsingunum geti haft úrslitaþýðingu við mat á tilteknu atriði sem upplysingarnar tengjast.
Heimilt er að skyra frá upplýsingum ef eigi er unnt að rekja þær til ákveðinna einstaklinga eða lögpersóna.
Samtenging skráa.

6. gr.

Eigi er heimilt að tengja saman skrár er falla undir ákvæði laga þessara nema um sé að ræða skrár sama skráningaraðila. Með sama aðila er hér átt við sama einstakling, fyrirtæki, félag eða stofnun hins opinbera. Með samtengingu skráa er jafnt átt við vélræna sem handunna færslu upplysinga milli skráa.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að tengja við skrá upplysingar um nafn, nafnnúmer, kennitölu, fyrirtækjanúmer, heimilisfang, aðsetur og póstnúmer enda þótt slíkar upplysingar séu sóttar í skrár annars aðila.
Tölvunefnd getur veitt undanþágu frá samtengingarbanni 1. mgr. ef fullnægt er skilyrðum þeim, sem fram koma í 2.-4. mgr. 5. gr., um heimild tölvunefndar til að veita aðgang að skráðum upplýsingum. Skal þá ótvírætt að þeir hagsmunir, sem ætlunin er að vernda með samtengingunni, vegi þyngra en tillitið til hagsmuna hinna skráðu. Tölvunefnd getur bundið heimild til samtengingar nánari skilyrðum, þar með talið skilyrðum um það hvernig upplysingarnar verði notaðar og að skyra beri hinum skráða frá því að samtenging kunni að fara fram.

7. gr.

Heimilt er að veita lækni eða tannlækni, er hefur mann til læknismeðferðar, upplysingar úr sjúkraskrá sjúkrahúss eða öðrum sjúklingaskrám varðandi hinn skráða. Þá er og heimilt, þegar læknir á í hlut, að veita upplysingar um aðra menn, einkum vandamenn hins skráða, þegar slíkt er talið skipta máli vegna læknismeðferðar á hinum skráða manni.

8. gr.

Nú synir tiltekinn aðili fram á að honum sé þörf á ákveðnum skráðum upplýsingum, er falla undir ákvæði laga þessara, vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja og getur tölvunefnd þá heimilað að þeim er slíka hagsmuni hefur verði látnar upplysingarnar í té, enda sé þá ótvírætt að þörfin á því að fá upplysingarnar vegi þyngra en tillitið til þess að upplýsingunum verði haldið leyndum. Þetta á þó ekki við um upplysingar sem þagnarskylda ríkir um samkvæmt sérstökum lagaákvæðum.

IV. kafli.
Um rétt skráðra aðila.
9. gr.

Telji aðili að persónuupplysingar um hann séu færðar í tiltekna skrá getur hann óskað þess við skrárhaldara að honum sé skýrt frá því sem þar er skráð. Er skylt að verða við þeim tilmælum án ástæðulausrar tafar.
Ákvæði 1. mgr. gilda ekki ef hagsmunir hins skráða af því að fá vitneskju um efni upplysinga þykja eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir ótvíræðum almannahagsmunum eða einkahagsmunum...11 L. 50/1996, 25. gr. Ef svo er háttað um nokkurn hluta upplysinga, en eigi aðra, skal beiðanda veitt vitneskja um þá hluta sem eigi þykir varhugavert að skýra frá.

10. gr.

[Um skyldu læknis og annarra sem færa sjúkraskrá til þess að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit skrárinnar, í heild eða að hluta, fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.]11 L. 76/1997, 3. gr.

11. gr.

Ákvæði 9. gr. taka ekki til skrár eða skráningar sem einvörðungu er stofnað til í þágu tölfræðilegra útdrátta. Tölvunefnd getur einnig ákveðið að aðrar skrár séu undanþegnar ákvæðum þessum ef ætla má að ákvæði 2. mgr. 9. gr. muni hafa í för með sér að tilmælum um upplysingar úr slíkum skrám verði almennt hafnað.

12. gr.

Upplysingar skv. 9. gr. skulu veittar skriflega ef þess er óskað. Skrárhaldari skal verða við tilmælum skráðs aðila og skýra honum frá því sem um hann er skráð sem fyrst og eigi síðar en innan tveggja vikna frá því að krafa um slíkt kom fram, en skýra ella hinum skráða skriflega frá ástæðum þess að tilmælum hans hefur eigi verið sinnt.

Ef skrárhaldari hafnar kröfum aðila um að skýra frá efni skráðra upplysinga, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 9. gr., er skrárhaldara skylt að vekja athygli hins skráða á rétti hans til þess að bera ágreininginn undir úrlausn tölvunefndar, sbr. ákvæði 13. gr.

13. gr.

Heimilt er að bera ágreining um rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt þessum kafla laganna undir tölvunefnd sem úrskurðar um ágreininginn.

14. gr.

Nú telur skráður aðili að upplysingar um hann í skrám, er lög þessi taka til, séu rangar eða villandi. Getur hann þá krafist þess að sá er ábyrgur er fyrir skráningu færi þær í rétt horf, afmái þær eða bæti við þær, eftir því sem við á hverju sinni. Hið sama gildir ef aðili telur að á skrá séu upplysingar sem eigi er heimilt að skrásetja eða upplysingar sem eigi hafa lengur þýðingu.
Nú neitar sá sem ábyrgur er fyrir skrá að fallast á kröfu um leiðréttingu skv. 1. mgr. eða hefur eigi svarað slíkri kröfu innan fjögurra vikna frá því að hún sannanlega kom fram og getur hinn skráði þá óskað þess við tölvunefnd að nefndin kveði á um það hvort og að hvaða marki taka beri til greina kröfu hans um að leiðrétta upplysingarnar eða afmá þær. Fallist tölvunefnd á kröfu manns um að afmá eða leiðrétta upplysingar leggur hún fyrir skrárhaldara að afmá upplysingarnar eða leiðrétta þær.
Í neitun skrárhaldara skv. 2. mgr. um leiðréttingu eða afmáun rangra eða villandi upplysinga skal hinum skráða gerð grein fyrir því að ágreining í þeim efnum geti hann borið undir tölvunefnd.
Þegar um upplysingar um fjárhagsmálefni og lánstraust skv. V. kafla er að ræða skal skrárhaldari senda án tafar öllum þeim, er fengið hafa slíkar upplysingar frá honum síðustu sex mánuði, svo og hinum skráða, skriflega leiðréttingu. Hinn skráði skal og fá í hendur greinargerð frá skrárhaldara um hverjir hafi móttekið rangar upplysingar og hverjum leiðréttingar hafi verið sendar. Tölvunefnd getur, þegar um aðrar upplysingar er að ræða, lagt fyrir skrárhaldara að senda öllum þeim skriflega tilkynningu um leiðréttinguna er á síðustu sex mánuðum, áður en krafa um leiðréttingu kom fram, fengu rangar upplysingar úr skrá. Skrárhaldari skal þá jafnframt upplýsa hinn skráða um það hverjir fengið hafa tilkynningu um slíka leiðréttingu.
Þegar sérstaklega stendur á getur tölvunefnd ákveðið að skylda skrárhaldara skv. 4. mgr. til þess að senda skriflega leiðréttingu er taki til lengri tíma en síðustu sex mánaða áður en krafa um leiðréttingu kom fram.

V. kafli.
Skráning upplysinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.
15. gr.

Söfnun og skráning upplysinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögpersóna, í því skyni að miðla öðrum upplýsingum um það efni, er óheimil án starfsleyfis er tölvunefnd veitir. Þeim einum má veita starfsleyfi sem að mati tölvunefndar er líklegur til að geta uppfyllt skyldur skrárhaldara samkvæmt lögum þessum.

16. gr.

Starfsleyfishafa skv. 15. gr. er einungis heimilt að skrá upplysingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá upplysingar þær sem nefndar eru í 1. mgr. 4. gr. laganna.
Upplysingar um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem eldri eru en fjögurra ára, er óheimilt að skrá eða miðla nema ótvírætt sé að viðkomandi upplysingar hafi verulega þýðingu við mat á fjárhag eða lánstrausti hins skráða. Áður en slíkar upplysingar eru skráðar eða þeim miðlað skal það tilkynnt viðkomandi aðila og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir innan tiltekins frests frá móttöku tilkynningar. Skal sá frestur að lágmarki vera ein vika frá móttöku tilkynningar. Beri aðili fram andmæli er skráning eða miðlun upplysinga aðeins heimil að fengnu samþykki tölvunefndar.

17. gr.

Eigi er heimilt að færa í skrá samkvæmt kafla þessum aðrar upplysingar en nafn manns eða fyrirtækis, heimilisfang, kennitölu, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer, stöðu og atvinnu eða aðrar upplysingar sem hægt er að fá úr opinberum skrám án þess að skýra hinum skráða frá því.

Ef önnur atriði en þau sem greind eru í 1. mgr. eru tekin á skrá ber starfsleyfishafa að skýra skráðum aðila, sem í fyrsta skipti er tekinn á skrá, frá því innan fjögurra vikna frá skráningu og greina honum frá heimild hans til þess að fá skýrslu um efni skráningar, sbr. 18. gr.

18. gr.

Nú telur aðili að upplysingar um hann séu skráðar skv. 15. gr. og er starfsleyfishafa þá skylt að skýra aðila sem fyrst, og eigi síðar en innan tveggja vikna frá því krafa kom fram um slíkt, frá því sem þar er skráð og því mati sem starfsleyfishafinn hefur látið frá sér fara á síðustu sex mánuðum varðandi hagi beiðanda.

Ef starfsleyfishafi skv. 15. gr. hefur í vörslum sínum frekari upplysingar um hinn skráða en þær sem beiðni skv. 1. mgr. lýtur að er honum skylt að gera beiðanda grein fyrir þeim og jafnframt fyrir rétti hins skráða aðila til þess að fá að kynna sér efni skrár af eigin raun.
Hinn skráði aðili getur gert kröfu til þess að fá skrifleg svör skv. 1. mgr. frá skrárhaldara, en skráður aðili á eigi kröfu til þess að honum sé skýrt frá hvaðan upplysingar eru fengnar.

19. gr.

Upplysingar um fjárhag og atriði, er varða mat á lánstrausti, má aðeins láta öðrum í té skriflega, sbr. þó 1. og 2. mgr. 18. gr. Þegar fastir viðskiptavinir eiga í hlut er þó heimilt að veita almennar upplysingar munnlega eða á annan svipaðan hátt, en nafn og heimilisfang fyrirspyrjanda skal þá skráð og gögn um það varðveitt í a.m.k. sex mánuði.
Upplysingarit um fjárhagsmálefni og lánstraust mega aðeins geyma almennar upplysingar og þau má aðeins senda til áskrifenda. Áður en starfsleyfishafi birtir nafn tiltekins aðila í slíku upplysingariti skal starfsleyfishafi að eigin frumkvæði tilkynna viðkomandi aðila skriflega um það að upplysingar um hann muni birtast í næstu útgáfu ritsins.
Upplysingar um skuldastöðu manna má því aðeins veita öðrum að um sé að ræða almennt aðgengilegar upplysingar eða gjaldfallna skuld eða skuldir sama aðila við tiltekinn kröfuhafa sem eru a.m.k. 20.000,00 kr. eða hærri og skuldari hefur með aðfararhæfri sátt fallist á að greiða eða verið dæmdur til greiðslu hennar eða önnur réttargerð hafin til fullnustu hennar. Dómsmálaráðherra getur að fenginni umsögn tölvunefndar breytt með reglugerð framangreindri fjárhæð.
Upplysingar um skuldastöðu aðila má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu annars en þess er upplysingarnar varðar.

20. gr.

Um leiðréttingu eða afmáun rangra og villandi upplysinga um fjárhagsmálefni og lánstraust gilda ákvæði 14. gr.

VI. kafli.
Nafnalistar og nafnáritanir. Markaðs- og skoðanakannanir.
21. gr.

Sala eða önnur afhending úr skrám á nöfnum og heimilisföngum tiltekinna hópa einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða félaga er óheimil án starfsleyfis sem tölvunefnd veitir. Þá er og óheimilt án slíks starfsleyfis að annast um fyrir aðra áritanir nafna og heimilisfanga, svo sem með límmiðaáritun, eða aðra útsendingu tilkynninga til þeirra sem greinir í fyrri málslið þessarar málsgreinar.
Starfsleyfishafi skv. 1. mgr. má aðeins hafa á skrám sínum eftirtaldar upplysingar:

1. nafn, heimilisfang, kennitölu, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer og starf,
2. upplysingar sem almennur aðgangur er að í opinberum skrám, svo sem fyrirtækjaskrám.

Dómsmálaráðherra getur, að fenginni umsögn tölvunefndar, í reglugerð reist frekari skorður við því hvað greina megi í skrám þessum.

22. gr.

Ef skrá skv. 21. gr. er notuð til áritunar og útsendingar bréfa, tilkynninga, dreifirita eða þess háttar er skylt að fram komi á áberandi stað á útsendu efni að því sé dreift eftir skrá í vörslu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Enn fremur að þeir sem kynnu að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum framvegis geti skrifað eða hringt til þessa aðila og fengið nöfn sín afmáð af útsendingarskrá.
Skylt er skrárhaldara að verða tafarlaust við beiðnum um að nöfn einstaklinga eða fyrirtækja séu máð af útsendingarskrá, sbr. 1. mgr. Ef beiðni um að má nafn af útsendingarskrá berst sendanda ofangreinds pósts er honum skylt að koma slíkri kröfu á framfæri við skrárhaldara.
Tölvunefnd getur sett reglur um merkingar skv. 1. mgr.

23. gr.

Nú fær skrárhaldari skv. 21. gr. í hendur félagaskrár eða skrár yfir fasta viðskiptamenn eða svipaðar skrár og er honum þá óheimilt án samþykkis þess sem afhent hefur gögnin að láta þau af hendi við aðra eða skýra öðrum frá upplýsingum sem í skránum eða gögnunum felast.

24. gr.

Þeir sem í atvinnuskyni annast markaðs- og skoðanakannanir um atriði, sem falla undir ákvæði laga þessara, skulu hafa til þess starfsleyfi, sem tölvunefnd veitir. Starfsleyfishafi skal, a.m.k. sjö sólarhringum áður en könnun er framkvæmd, senda tölvunefnd lýsingu á fyrirhugaðri könnun ásamt spurningalista.
Öðrum en starfsleyfishöfum skv. 1. mgr. er óheimilt að annast kannanir þær, sem um ræðir í 1. mgr., án heimildar tölvunefndar.
Þeim sem annast markaðs- og skoðanakannanir skv. 1. og 2. mgr. ber við framkvæmd könnunar að gæta eftirtalinna atriða:

a. Gera skal þeim sem spurður er grein fyrir því að honum sé hvorki skylt að svara einstökum spurningum né spurningalistanum í heild.
b. Ef svör eru ekki eyðilögð að könnun lokinni skulu þau geymd þannig frágengin að ekki megi rekja þau til ákveðinna aðila.
c. Aldrei skal spyrja annarra spurninga en þeirra sem hafa greinilegan tilgang með hliðsjón af viðfangsefni því sem verið er að kanna.
d. Óheimilt er að nota upplysingar þær, sem skráðar hafa verið, til annars en þess sem var tilgangur könnunar.
e. Óheimilt er að veita öðrum aðgang að upplýsingum þeim sem skráðar hafa verið.

Tölvunefnd setur frekari skilyrði um framkvæmd slíkra kannana, meðferð og varðveislu gagna ef hún telur það nauðsynlegt.

VII. kafli.
Um tölvuþjónustu.
25. gr.

Þeim sem annast tölvuþjónustu fyrir aðra er óheimilt án starfsleyfis, sem tölvunefnd veitir, að varðveita eða vinna úr eftirtöldum upplýsingum um einkamálefni:

a. upplýsingum sem falla undir ákvæði 1. mgr. 4. gr.,
b. upplýsingum sem falla undir ákvæði V. kafla,
c. upplýsingum sem falla undir ákvæði 3. mgr. 6. gr.

Með tölvuþjónustu er átt við sérhvern starfsþátt í sjálfvirkri gagnavinnslu með tölvutækni.
Starfsleyfishafa skv. 1. mgr. er, án samþykkis frá skráreiganda, óheimilt að nota upplysingar þær, sem hann hefur veitt viðtöku, til annars en að framkvæma þá þjónustu sem samningur hans og skráreiganda varðar eða afhenda öðrum upplysingarnar til vinnslu eða geymslu. Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna skyndilegrar bilunar í tölvubúnaði, er aðila þó heimilt að láta framkvæma tölvuvinnslu hjá öðrum enda þótt síðargreindi aðilinn hafi ekki starfsleyfi til slíkrar vinnslu. Gögnin og vinnslan skulu þó eftir sem áður vera á ábyrgð þess sem upphaflega tók að sér verkið að því er varðar ákvæði laga þessara.
Starfsleyfishafa er skylt að beita viðeigandi ráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir að upplysingar verði misnotaðar eða þær komist í hendur óviðkomandi. Dómsmálaráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um vörslu og meðferð tölvugagna hjá þeim sem annast tölvuþjónustu fyrir aðra.

26. gr.

Starfsmenn í þjónustu starfsleyfishafa skv. 25. gr. eru þagnarskyldir um atriði sem þeir komast að við störf sín og skulu þeir undirrita þagnarheit áður en þeir taka til starfa.
Nú vinnur tölvuþjónustufyrirtæki, sem ekki er rekið af opinberum aðila, að verkefnum fyrir slíkan aðila og eru starfsmenn þess þá þagnarskyldir um þau atriði, sem þeir komast að við framkvæmd verkefnisins, með sama hætti og þeir opinberu starfsmenn sem unnið hafa að því. Brot starfsmanns varðar, þegar svo stendur á, refsingu skv. 136. gr. almennra hegningarlaga.

VIII. kafli.
Söfnun upplýsinga hér á landi til úrvinnslu erlendis.
27. gr.

Kerfisbundin söfnun og skráning persónuupplysinga hér á landi til geymslu eða úrvinnslu erlendis er óheimil. Tölvunefnd getur þó heimilað hana ef sérstaklega stendur á.
Skrá eða frumgögn, sem geyma upplysingar þær sem greinir í 1. mgr. 4. gr., má eigi láta af hendi til geymslu eða úrvinnslu erlendis nema samþykki tölvunefndar komi til.
Leyfi skv. 1. og 2. mgr. má því aðeins veita að tölvunefnd telji að afhending skráa eða gagna skerði ekki til muna þá vernd sem lög þessi búa skráðum mönnum eða lögpersónum.
Dómsmálaráðherra getur, að fenginni umsögn tölvunefndar, ákveðið í reglugerð að ákvæði 1. og 2. mgr. eigi ekki við um tilteknar skrár eða upplysingasvið eða gagnvart tilteknum löndum ef slíkt er nauðsynlegt til efnda á þjóðréttarskuldbindingum eða tillit til alþjóðlegrar samvinnu á þessu sviði mælir með því.

IX. kafli.
Skráning upplysinga og varðveisla þeirra.
28. gr.

Beita skal virkum ráðstöfunum er komi í veg fyrir að upplysingar séu misnotaðar eða komist til óviðkomandi manna.
Afmá skal skráðar upplysingar sem vegna aldurs eða af öðrum ástæðum hafa glatað gildi sínu miðað við það hlutverk sem skrá er ætlað að gegna. Skrár, sem sífellt eru í notkun, skulu geyma upplysingar sem á hverjum tíma eru réttar, en úreltar upplysingar skal afmá.
Tölvunefnd getur leyft að afrit eða útskriftir úr skrám verði varðveittar í Þjóðskjalasafni eða öðrum skjalasöfnum með nánari ákveðnum skilmálum.

29. gr.

Nú geyma tilteknar skrár upplysingar sem líklegt þykir að muni hafa notagildi fyrir erlend ríki og skal þá koma við öryggisráðstöfunum sem gera kleift að eyðileggja skrár án tafar ef styrjöld brýst út eða uggvænt þykir að til styrjaldarátaka komi.

X. kafli.
Um eftirlit með lögum þessum.
30. gr.

Til þess að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglum settum samkvæmt þeim skal dómsmálaráðherra skipa fimm manna nefnd sem kölluð er tölvunefnd í lögum þessum. Nefndina skal skipa til fjögurra ára í senn. Formaður nefndarinnar, varaformaður og einn nefndarmaður að auki skulu vera lögfræðingar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja skilyrðum til að vera dómari. Einn nefndarmanna skal vera sérfróður um tölvu- og skráningarmálefni. Hann skal tilnefndur af Skýrslutæknifélagi Íslands. Varamenn skal skipa með sama hætti til fjögurra ára í senn og skulu þeir fullnægja sömu skilyrðum og aðalmenn.
Tölvunefnd er að höfðu samráði við dómsmálaráðherra heimilt að ráða nefndinni nauðsynlegt starfslið.

31. gr.

Tölvunefnd hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Nefndin hefur að eigin frumkvæði, eða eftir ábendingum frá skráðum aðilum, eftirlit með því að til skráningar sé stofnað og skrár notaðar með þeim hætti sem fyrir er mælt í lögum þessum. Tölvunefnd veitir, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum þessum, starfsleyfi, heimildir eða samþykki til einstakra athafna. Þá úrskurðar nefndin í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma.
Úrlausnir tölvunefndar samkvæmt lögum þessum verða eigi bornar undir aðrar stjórnvaldsstofnanir.

32. gr.

Tölvunefnd getur krafið skrárhaldara og þá er á hans vegum starfa allra þeirra upplysinga sem nefndinni eru nauðsynlegar til þess að rækja hlutverk sitt, þar með taldar upplysingar til ákvörðunar um það hvort tiltekin starfsemi falli undir ákvæði laganna.
Tölvunefnd og starfslið hennar hefur vegna eftirlitsstarfa sinna án dómsúrskurðar aðgang að húsnæði þar sem skráning fer fram eða þar sem skráningargögn eru varðveitt eða þau eru til vinnslu.

33. gr.

Tölvunefnd getur lagt fyrir aðila að hætta skráningu eða láta ekki öðrum í té upplysingar úr skrám sínum eða gögnum, enda gangi skráning eða upplysingagjöf í berhögg við ákvæði laga þessara að mati tölvunefndar. Þá getur tölvunefnd og, að sömu skilyrðum fullnægðum, mælt svo fyrir að upplysingar í skrám verði afmáðar eða skrár í heild sinni eyðilagðar.
Tölvunefnd getur lagt fyrir skráningaraðila að afmá skráningu um einstök atriði eða leiðrétta hana, enda sé um atriði að ræða sem annaðhvort er óheimilt að taka á skrá eða tölvunefnd telur röng eða villandi.
Tölvunefnd getur lagt fyrir skráningaraðila að afmá eða leiðrétta upplysingar sem skráðar hafa verið fyrir gildistöku laga þessara ef skráning þeirra gengur í berhögg við ákvæði laga þessara eða upplysingarnar eru rangar eða villandi.
Tölvunefnd getur, ef sérstaklega stendur á, lagt fyrir skráningaraðila að afmá upplysingar sem vegna aldurs eða af öðrum ástæðum hafa glatað gildi sínu.
Tölvunefnd getur bannað skráningaraðila að viðhafa tiltekna aðferð við söfnun og skráningu upplysinga og miðlun þeirra, enda telji nefndin að sú aðferð, sem viðhöfð er, hafi í för með sér verulega hættu á að skráning eða upplysingamiðlun verði röng eða villandi. Sömu heimild hefur tölvunefnd ef hún telur hættu á að teknar verði á skrá eða miðlað verði úr skrám upplýsingum sem óheimilt er að skrá eða miðla.
Tölvunefnd getur lagt fyrir skráningaraðila að koma við sérstökum úrræðum til tryggingar því að eigi verði tekin á skrá atriði sem óheimilt er að skrá eða miðlað verði upplýsingum um slík atriði. Hinu sama gegnir um atriði sem eru röng eða villandi. Með sama hætti getur tölvunefnd lagt fyrir skráningaraðila að koma við ráðstöfunum til tryggingar því að skráðar upplysingar verði ekki misnotaðar eða komist til vitundar óviðkomandi aðila.
Ef aðili sinnir eigi fyrirmælum tölvunefndar skv. 1.-6. mgr. þessarar greinar getur tölvunefnd afturkallað starfsleyfi, samþykki eða heimild sem hún hefur veitt samkvæmt ákvæðum laga þessara þar til úr hefur verið bætt að hennar mati með fullnægjandi hætti.

34. gr.

Dómsmálaráðherra getur í reglugerð kveðið á um samstarf tölvunefndar við erlendar eftirlitsstofnanir um geymslu eða úrvinnslu hér á landi á gögnum er safnað hefur verið erlendis, þar á meðal um sérstaka tilkynningarskyldu á slíku.

35. gr.

Tölvunefnd getur sett reglur um form og efni tilkynninga og umsókna samkvæmt lögum þessum.
Nú er tölvunefnd ætlað að veita starfsleyfi samkvæmt lögum þessum eða samþykki til einstakra aðgerða og er henni þá heimilt að binda starfsleyfið eða samþykkið skilyrðum eða tímabinda það.
Dómsmálaráðherra getur ákveðið gjald er greiða skal fyrir veitingu starfsleyfa og einstakra heimilda.

36. gr.

Tölvunefnd skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal birta yfirlit yfir þau starfsleyfi, samþykki og heimildir sem nefndin hefur veitt, reglur sem hún hefur sett og úrskurði sem hún hefur kveðið upp. Í ársskýrslunni skal og greina frá þeirri starfsemi nefndarinnar annarri sem ætla má að almenningur láti sig varða eða hafi hagsmuni af að vita.

XI. kafli.
Um refsingar og önnur viðurlög.
37. gr.

Brot á eftirtöldum ákvæðum laga þessara varða fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum:
a. brot á 3.?6. gr.,
b. brot á 9. og 12. gr.,
c. brot á 2. og 4. mgr. 14. gr.,
d. brot á 15.?20. gr.,
e. brot á 21.?24. gr.,
f. brot á 26., 27. og 1. mgr. 32. gr.
Sömu refsingu varðar að vanrækja að fara að fyrirmælum tölvunefndar skv. 33. gr.
Sömu refsingu varðar enn fremur að virða ekki skilyrði sem sett eru fyrir starfsleyfi, heimild eða samþykki samkvæmt lögum þessum eða stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim, svo og að sinna ekki boði eða banni sem sett hefur verið samkvæmt lögunum eða stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim.
Dæma má lögaðila jafnt sem einstaklinga til greiðslu sekta vegna brota á lögum þessum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda skv. 38. gr., enda sé brot drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.

38. gr.

Starfsleyfishafa skv. 15., 21., 24. og 25. gr. má auk refsingar skv. 37. gr. með dómi svipta starfsleyfi ef sök er mikil. Að öðru leyti eiga hér við ákvæði 1. og 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Gera má upptæk með dómi tæki sem stórfelld brot á lögum þessum hafa verið framin með, svo og hagnað af broti, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

39. gr.

Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

XII. kafli.
Lagaframkvæmd og gildistaka.
40. gr.

Dómsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.
6. Nafnaskrá
A.Þ. (99/121)
Aðalskoðun hf. (99/337)
Aðalbjörn Þorsteinsson (99/058)
ALMA (98/426)
Andri Konráðsson deildarlæknir (99/127)
Ann Hermansson (99/447)
Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri (99/147)
Anna Björg Jónsdóttir (99/084)
Anna Björk Magnúsdóttir (99/447)
Anna Gunnarsdóttir deildarlæknir (99/051)
Anna Kristín Gunnarsdóttir skipulagsstjóri (99/439).
Anna Lilja Sigfúsdóttir (99/465)
Anna Margrét Halldórsdóttir læknir (99/472)
Anna Þóra Einarsdóttir sérkennari (99/190)
Arna Skúladóttir hjúkrunarfræðingur (99/156)
Arna Skúladóttir hjúkrunarfræðingur (99/091)
Arnar Hauksson yfirlæknir (99/142)
Atli Dagbjartsson (99/486)
Axel Sigurðsson (99/232)
Á.I. (99/005)
Á.I. (99/393)
Árni Árnason sjúkraþjálfari (99/487)
Árni Kjalar Kristjánsson (99/369)
Árni Kristinsson yfirlæknir (99/232)
Ársæll Kristjánsson (99/388)
Ásdís Björk Kristinsdóttir (99/267)
Ásdís Frímannsdóttir (99/178)
Ásdís Kristjánsdóttir sjúkraþjálfi (99/399)
Ásgeir Haraldsson læknir (99/310)
Ásgeir Haraldsson prófessor (99/038)
Ásgeir Haraldsson prófessor (99/034)
Ásgeir Jónsson (99/232)
Ásgeir Theodór (99/374)
Ásrún Matthíasdóttir kennari (99/109).
Ásta Guðmundsdóttir nemi (99/298)
Ásta Snorradóttir hjúkrunarfræðingur (99/074)
Ásthildur Bj. Snorradóttir talmeinafræðingur (99/007)
Ástráður B. Hreiðarsson yfirlæknir (99/353)
Ástríður Stefánsdóttir (99/265)
B.B. (99/347)
B.F. (99/090)
Bandalag íslenskra skáta (99/342)
Berglind Eva Ólafsdóttir nemi (99/075)
Bergný Jóna Sævarsdóttir nemi (99/101).
Bertrand Lauth (99/246)
Bjarni Hannesson yfirlæknir (99/455)
Bjarni Torfason dósent (99/399)
Bjarni Þjóðleifsson (99/369)
Bjarni Þjóðleifsson (99/176)
Bjarnveig Höskuldsdóttir (99/257)
Björg Sigurðardóttir (99/015)
Björn Finnsson (99/344)
Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (99/247)
Borgarbókasafnið (99/214)
Bryndís Guðmundsdóttir yfirtalmeinafræðingur (99/299)
Brynhildur Briem lektor (99/054)
Brynhildur Briem lektor (99/471)
Brynhildur Smáradóttir (99/122)
Brynja Dröfn Jónsdóttir (99/015)
Brynja Ragnarsdóttir læknanemi (99/092)
Brynjólfur Mogensen læknir (99/022)
Brynjólfur Y. Jónsson trúnaðarlæknir (99/456)
Council of Europe (99/281)
Davíð Gíslason (99/307)
Davíð Gunnarsson (99/339)
Dóms- og kirkjumálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir (99/418)
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (99/100)
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (99/345)
Dómsmálaráðuneytið (99/443)
Dómsmálaráðuneytið (99/344).
Dómsmálaráðuneytið (98/416)
Dóra Björk Gunnarsdóttir (99/416)
Drífa Björk Guðmundsdóttir (99/383)
Dögg Pálsdóttir hrl. (99/020)
E.Á. (98/494)
Eiður Alfreðsson (99/181)
Einar Árnason (99/201).
Einar Sindrason yfirlæknir (99/472)
Einar Stefánsson (99/076)
Einar Stefánsson prófessor (99/239)
Einar Stefánsson prófessor (99/066)
Einkaleyfastofan (99/411)
Eiríkur Jónsson (99/319)
Eiríkur Jónsson (99/211)
Eiríkur Líndal sálfræðingur (99/509)
Eiríkur Líndal sálfræðingur (99/220)
Eiríkur Örn Arnarson dósent (98/507)
Electronic Privacy Information Center (99/270)
Elías Ólafsson taugasérfræðingur (99/113)
Elín Bjarnadóttir nemi (99/128)
Elín Borg, Inga A. Valdimarsdóttir (99/017)
Elín Guðjónsdóttir bókasafnsfræðingur (99/258)
Elín Margrét Hallgrímsdóttir (99/426)
Elín Sigurgeirsdóttir tannlæknir (99/371)
Elín Þöll Þórðardóttir lektor (99/366)
Elísa G. Halldórsdóttir nemi (99/026)
Elísabet H. Pálmadóttir nemi (99/231)
Elísabet Hjörleifsdóttir (99/349)
Elísabet S. Guðmundsdóttir deildarlæknir (99/135)
Ellen Svava Guðlaugsdóttir nemi (99/040)
Emil L. Sigurðsson læknir (99/080)
Eric P. Baumer (98/351)
Erla Dóris Halldórsdóttir (98/447)
Erla Guðlaug Sigurðardóttir (99/122)
Erla Kolbrún Svavarsdóttir (99/450)
Erla Kolbrún Svavarsdóttir lektor (99/263)
Erna Haraldsdóttir (99/359)
European commission (99/163).
Eva Kristjánsdóttir (99/115)
Evald Sæmundsen (99/246)
Evald Sæmundsen (99/209)
Eyjólfur Þ. Haraldsson læknir (99/293)
Eyþing (99/153)
Eyþór Björnsson (99/307)
Fangelsismálastofnun (98/465)
Félag íslenskra flugumferðarstjóra (99/030)
Finnur Þór Vilhjálmsson fréttamaður (99/433)
Fjármálaráðuneytið (99/064)
Fjölvar Darri Rafnsson (99/266)
Fjölvar Darri Rafnsson sérfræðingur (99/240).
Flugmálastjórn (99/284)
Framleiðsluráð landbúnaðarins (99/370)
Friðbert Jónasson yfirlæknir (99/239)
Friðbert Jónsson (99/076)
Friðjón R. Friðjónsson (99/304)
Friðrik K. Guðbrandsson læknir (99/497)
Friðrik K. Guðbrandsson sérfræðingur (99/472)
Friðrik Vagn Guðjónsson (99/080)
Friðrik Yngvason sérfræðingur (99/079)
Friðþjófur Már Sigurðsson og Helga Hansdóttir (99/136)
G.I.K. (98/416)
G.J. (99/311)
Gagnalind hf. (98/471).
Gestur Pálsson (99/486)
Gestur Pálsson (99/369)
Girsh Hirlekar (99/058)
Gísli H. Guðjónsson réttarsálfræðingur (99/196)
Grétar Þór Eyþórsson (99/426)
Guðjón Axelsson prófessor (99/371)
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri (99/056)
Guðlaug Þórsdóttir læknir (99/359)
Guðmundur Bjarnason (99/051)
Guðmundur Bjarnason yfirlæknir (99/135)
Guðmundur Björnsson (99/408)
Guðmundur Geirsson (99/255)
Guðmundur K. Jónmundsson (99/310)
Guðmundur Oddsson (99/232)
Guðmundur Oddsson (99/516)
Guðmundur Þorgeirsson (99/232)
Guðmundur Þorgeirsson (99/076)
Guðmundur Þorgeirsson (98/415)
Guðríður Egilson (99/179)
Guðríður Helga Ólafsdóttir ættfræðingur (99/095)
Guðríður Linda Karlsdóttir nemi (99/165)
Guðrún Á. Einarsdóttir (99/456)
Guðrún Árnadóttir (97/224).
Guðrún Bjarnadóttir kennari (99/406)
Guðrún Kristjánsdóttir (99/423)
Guðrún Pálsdóttir (99/465)
Guðrún S. Eyjólfsdóttir forstöðumaður (99/308)
Guðrún Schmidt (99/033).
Guðrún Ýr Sigbjörnsdóttir nemi (99/061).
Gunnar B. Gunnarsson (99/069)
Gunnar Guðmundsson (99/373)
Gunnar Guðmundsson sérfræðingur (99/079)
Gunnar Sigurðsson (98/415)
Gunnar Sigurðsson læknir (99/315)
Gunnlaugur Haraldsson ritstjóri (99/288)
Gunnlaugur Sigfússon (99/386)
Gyða Baldursdóttir (99/091)
Hafdís M. Magnúsdóttir nemi (99/049).
Hafdís Skúladóttir lektor (99/067)
Hafsteinn G. Hafsteinsson (99/193)
Hagaskóli (99/437)
Hagstofa Íslands (98/424)
Halla Dís Hallfreðsdóttir (99/115)
Halldór Jónsson læknir (99/408)
Halldór Kolbeinsson (99/083)
Halldóra Björnsdóttir( 99/232)
Hallfríður Erla Guðjónsdóttir nemi (99/381)
Hallgrímur Guðjónsson (99/369)
Hannes Petersen (99/299)
Hannes Petersen yfirlæknir (99/029)
Hannes Petersen yfirlæknir (99/029).
Háskóli Íslands (99/114)
Háskóli Íslands (99/462)
Háskóli Íslands (99/059)
Háskólinn á Akureyri (99/008)
Heiðarskóli (99/495)
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (99/077).
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (99/404)
Heilbrigðisráðuneytið (99/468)
Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík (99/256)
Heilsuverndarstöð Reykjavíkur (99/404)
Helena Símonardóttir (99/416)
Helga Bragadóttir (99/184)
Helga Guðrún Loftsdóttir nemi (99/041)
Helga Haraldsdóttir (99/046)
Helga Lára Helgadóttir lektor (99/228)
Helga M. Ögmundsdóttir yfirlæknir (99/514).
Helga Sif Friðjónsdóttir nemar (99/122)
Helgi Gunnlaugsson (98/351)
Helgi Ísaksson (99/255)
Helgi Sigvaldason tölfræðingur (99/095)
Helgi Valdimarsson prófessor (99/414)
Herdís Gunnarsdóttir (99/091)
Herdís Gunnarsdóttir (99/423)
Herdís Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur (99/173)
Hildur Guðmundsdóttir (99/451)
Hildur Kristín Sveinsdóttir (99/037)
Hildur Lilja Jónsdóttir nemi (99/301)
Hildur Ýr Guðmundsdóttir (99/096)
Hilmar Kjartansson (99/516)
Hjalti Már Þórisson læknanemi (99/455)
Hjartavernd (98/397)
Hjartavernd (97/113)
Hjartavernd, Vilmundur Guðnason (99/080)
Hjartavernd, Vilmundur Guðnason (99/113)
Hjálmar Freysteinsson (99/426)
Hjördís Smith (99/408)
Hjördís Þorgeirsdóttir kennari (99/413).
Hólmfríður Einarsdóttir nemi (99/087).
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir sérfræðingur (98/456)
Hólmfríður Þóra Guðjónsdóttir (99/187)
Hrafn Tulinius prófessor (96/299)
Hrafn Tulinius yfirlæknir (99/095)
Hrafnhildur G. Sigurðardóttir (99/490)
Hrafnhildur Ragnarsdóttir prófessor (99/116)
Hreyfing, heilsurækt (98/460)
Hrólfur Einarsson stud.med. (99/142)
Hrönn Baldursdóttir (99/144)
Hrönn Birgisdóttir (99/465)
Hrönn Kristjánsdóttir (99/219).
Hrönn Thorarensen nemar (99/115)
Hulda Pálsdóttir nemar (99/015)
Hulda Sólrún Guðmundsdóttir nemi (99/089)
Höskuldur Kristvinsson (99/127)
Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur (99/081)
Inger María Ágústsdóttir (99/017)
Ingibjörg B. Frímannsdóttir nemi (99/244).
Ingibjörg H. Elíasdóttir (99/091)
Ingibjörg Hinriksdóttir (99/299)
Ingibjörg Hjaltadóttir (99/091)
Ingibjörg Sigurjónsdóttir (99/449).
Ingibjörg Þórhallsdóttir lektor (99/052).
Ingibjörg Þórhallsdóttir lektor (99/052)
Ingimundur Gíslason læknir (99/066)
Ingo Lehmann (99/197)
Ingvar Bjarnason (99/176)
Ingveldur Ólafsdóttir (99/179)
Í.P. (99/043)
Ída Braga Ómarsdóttir nemi (99/098).
Íslandsbanki hf. (99/314)
Íslandspóstur hf. (99/501)
Íslensk erfðagreining ehf. (99/229)
Íslensk erfðagreining ehf. (99/415)
NN (99/385)
J.I.Þ. (98/502)
J.K.F. (98/499)
NN (99/318)
John Maling prófessor (99/103)
Jóhann Ragnarsson hjartasérfræðingar (99/232)
Jóhann Tómasson læknir (98/504)
Jóhann Tómasson læknir (99/431)
Jóhanna Bernharðsdóttir lektor (99/074)
Jóhanna Eiríksdóttir (99/006)
Jóhanna Margrét Sveinsdóttir (99/465)
Jóhanna Valgeirsdóttir (99/053)
Jóhanna Þórunn Ingimarsdóttir nemi (99/191).
Jón Friðrik Sigurðsson sálfræðingur (99/196)
Jón G. Jónasson (99/369)
Jón G. Stefánsson yfirlæknir (99/220)
Jón Gunnlaugur Jónasson (99/092)
Jón Gunnlaugur Jónasson meinafræðingur (99/095)
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/070).
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/073).
Jón Jóhannes Jónsson dósent (99/149).
Jón Óttar Ólafsson nemi (99/329)
Jón R. Kristinsson sérfræðingar (99/310)
Jón Snædal læknir (99/380)
Jón Vilberg Guðjónsson (99/185)
Jóna V. Guðmundsdóttir deildarstjóri (99/147)
Jónas Hallgrímsson forstöðulæknir (99/338)
Jónas Hallgrímsson prófessor (99/055).
Jónas Magnússon skurðlæknar (99/051)
Jónas Magnússon yfirlæknir (99/338)
Jónas Pálsson (99/132).
Jórunn E. Eyfjörð erfðafræðingur (99/095)
Júlíus K. Björnsson forstöðumaður (99/200)
K.G.B. (99/097)
K.V. (99/302)
Karl Andersen (99/232)
Karl Andersen (99/516)
Karl Andersen sérfræðingur (99/172)
Karl G. Kristinsson (99/069)
Karl G. Kristinsson dósent (99/038)
Karl G. Kristinsson yfirlæknir (99/447)
Karl Ægir Karlsson (99/266)
Karólína M. Vilhjálmsdóttir (99/068)
Katla Sóley Skarphéðinsdóttir (99/009)
Katrín Davíðsdóttir (99/176)
Kirkjugarðar Akureyrar (KGA) (99/152)
Kjartan Kjartansson sérfræðingur (99/083)
Kjartan Magnússon (99/211)
Kjartan Örvar sérfræðingar (99/374)
Krabbameinsfélag Íslands (99/485)
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir (99/469)
Kristinn B. Jóhannsson sérfræðingur (99/261)
Kristinn Einarsson stundakennari (99/410)
Kristinn Guðmundsson yfirlæknir (99/455)
Kristinn Sigvaldason læknar (99/058)
Kristín Bergsdóttir (99/451)
Kristín Hannesdóttir B.Sc. (99/194)
Kristín Jóna Magnúsdóttir nemi (99/110).
Kristín Siggeirsdóttir iðjuþjálfar (99/456)
Kristján Guðmundsson háls- nef- og eyrnalæknar (99/299)
Kristleifur Kristjánsson læknir (99/174)
Kristófer Þorleifsson geðlæknir (99/112)
Kristrún Kristinsdóttir (98/351)
Kristrún Kristinsdóttir lögfræðingur (98/351)
Kristrún L. Ástvaldsdóttir (99/053)
Landlæknisembættið (99/159)
Landlæknisembættið (99/519)
Landssíminn (99/138)
Landssíminn, Þróunardeild (99/441)
Landsspítalinn (99/310)
Landsspítalinn (99/408)
Laufey Tryggvadóttir faraldsfræðingur (99/095)
Lánasjóður íslenskra námsmanna (99/430)
Lánstraust hf. (99/248)
Lánstraust hf. (99/445)
Lánstraust hf. (99/445)
Lárus Jón Guðmundsson bsc. (99/356)
Lilja Kristjánsdóttir nemar (99/053)
Linn O. Getz læknir (99/294)
LÍN (99/146)
Lungnadeild Vífilsstaðaspítala (98/458)
Lúðvík Gröndal (99/147)
Lögregluskóli ríkisins (99/262)
M.Í. (99/043)
Magnús Halldórsson (99/184)
Magnús Hjaltalín Jónsson (99/211)
Marga Thome dósent (99/156)
Margaret E. Wilson dósent (99/228)
Margrét Björnsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjórar (99/091)
Margrét Dóra Ragnarsdóttir (99/379)
Margrét Gunnarsdóttir (99/006)
Margrét S. Gunnarsdóttir nemar (99/006)
María Dóra Björnsdóttir (99/144)
María Guðsteinsdóttir (99/027)
María Haraldsdóttir leikskólakennari (99/078)
María K. Jónsdóttir taugasálfræðingur (99/162)
María Muller hjúkrunarfræðingar (99/017)
María Ragnarsdóttir sjúkraþjálfi (99/071)
María Ragnarsdóttir yfirsjúkraþjálfari (99/399)
María Sigurjónsdóttir (99/265)
Markhúsið ehf. (99/445)
Markhúsið ehf. (99/445)
Matthías Þorvaldsson (99/266)
Málfríður Þórarinsdóttir nemi (99/028)
Már Kristjánsson sérfræðingar (99/069)
Melkorka Árný Kvaran nemar (99/009)
Menntamálaráðuneytið (99/391)
Michael Clausen (99/034)
Morgunblaðið (99/278)
Myndmark hf.(95/026)
Nanna Friðriksdóttir stoðhjúkrunarfræðingar (99/359)
Neyðarlínan (99/479)
Neytendasamtökin (99/376)
Nicholas J. Cariglia (99/369)
og Gunnar Frímannsson (99/349)
Ólafur Ó. Guðmundsson (99/246)
Ólafur Ó. Guðmundsson (99/209)
Ólöf Sigríður Arngrímsdóttir kennari (99/268)
Óskar Þórðarson (99/139)
Páll Ásgeirsson yfirlæknar (99/083)
Páll Helgi Möller (99/123)
Páll Helgi Möller skurðlæknar (99/127)
Páll Magnússon (99/246)
Páll Magnússon (99/209)
Páll Torfi Önundarson yfirlæknir (99/407)
Pálmi V. Jónsson yfirlæknir (99/129)
Peter Holbrook (99/142)
Pétur Ingvi Pétursson læknir (99/343).
Póst- og fjarskiptastofnun (98/464)
Póst- og fjarskiptastofnun (98/491)
R.E. (99/057)
Rafn Benediktsson (98/415)
Ragna Gústafsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/179)
Ragnar F. Ólafsson kennari (98/470)
Ragnar Pétur Ólafsson deildarsérfræðingur (99/085)
Ragnar S. Halldórsson (98/496)
Ragnheiður Erlendsdóttir (99/091)
Ragnheiður H. Friðriksdóttir nemar (99/096)
Ragnheiður Karlsdóttir (99/224).
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir (99/264)
Ragnhildur I. Guðbjartsdóttir nemar (99/046)
Rakel Valdimarsdóttir (99/295)
Rannsóknarstofa H.Í. í ónæmisfræði (99/188).
Rannsóknarstofan í Mjódd sf. (99/182)
Rannsóknarstöð Hjartaverndar (99/155)
Rannveig Þöll Þórsdóttir hjúkrunarfræðingur (99/074)
Rauði kross Íslands, Garðabæjardeild (99/148)
Ráðgarður hf. (99/118)
Reiknistofa lífeyrissjóða (99/333)
Rekstrardeild Háskólans á Akureyri (99/160).
Reykjavíkurborg (99/175)
Reynir Tómas Geirsson prófessor (99/294)
Reynir Tómas Geirsson prófessorar (99/142)
Richard A. Wright (98/351)
Ríkislögreglustjórinn (99/048)
Ríkisskattstjóri (99/444)
Rósa Björk Barkardóttir sameindaerfðafræðingur (96/178)
Runólfur Smári Steinþórsson (99/469)
Rúnar Vilhjálmsson thD prófessor (98/321)
S.ehf. (99/303)
S.S.P. (99/313)
SAF (99/105)
Samvinnunefnd banka og sparisjóða (99/001)
Sesselja Hauksdóttir nemi (99/130)
Siðfræðistofnun H.Í. (99/400).
Sif Einarsdóttir lektor (99/334).
Sigríður D. Benediktsdóttir (99/167)
Sigríður Einarsdóttir nemar (99/037)
Sigríður Einarsdóttir nemi (99/378)
Sigríður Lóa Jónsdóttir (98/110)
Sigríður Lóa Rúnarsdóttir deildarstjóri (99/056)
Sigríður Sigurjónsdóttir dósent (99/103)
Sigríður Síta Pétursdóttir (99/490)
Sigríður Teitsdóttir sérkennari (99/050)
Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/091)
Sigrún Helgadóttir tölfræðingur (99/371)
Sigrún Ingvarsdóttir nemi (99/243)
Sigrún Magnúsdóttir (99/359)
Sigurbjörn Birgisson læknir (99/354)
Sigurður Árnason læknir (99/503)
Sigurður Ingvarsson dósent (99/222).
Sigurður Kristjánsson (99/034)
Sigurður Ólafsson læknar (99/092)
Sigurður Sverrir Stephensen (99/386)
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/499).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/500).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/504).
Sigurveig Þ. Sigurðardóttir læknir (99/504).
Sjálfsbjörg – Landssamband fatlaðra (98/506)
Sjúkraflutningaráð (99/226)
Sjúkrahús Reykjavíkur (99/218)
Sjúkrahús Reykjavíkur (99/203)
Skjár einn (99/397)
Smáraskóli (99/287)
Sonja S. Guðjónsdóttir (99/068)
Sóley D. Davíðsdóttir sálfræðingar (99/167)
Sóley S. Bender lektor (99/044)
Sólrún Jónsdóttir sjúkraþjálfari (99/273
Sólveig Hallgrímsdóttir nemi (99/351)
Starfsmaður sýslumannsembættisins í Kópavogi (98/462)
Starfsmannahald RSP (99/323)
Stefán Hreiðarsson (99/246)
Stefán Hreiðarsson (99/209)
Stefán Yngvason yfirlæknir (99/420)
Steingrímur Davíðsson læknir (99/292)
Steinn Jónsson forstöðulæknir (98/436)
Steinn Jónsson læknir (98/436)
Steinn Jónsson sérfræðingur dósent (99/079)
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (99/332)
Svandís Íris Hálfdánardóttir (99/359)
Svava Grönfeldt lektor (99/316).
Sverrir Bergmann sérfræðingur (99/220)
Sænska sendiráðið (98/287)
Tannlæknafélag Íslands (99/131).
Tinna Traustadóttir nemar (99/304)
Tollstjóraembættið (98/209).
Torfi Höskuldsson læknanemi (99/252)
Tómas Jónsson (99/123)
Trausti Hrafnsson og Valgeir Sigurðsson nemar (99/104)
Trausti Þorsteinsson framkvæmdastjóri (99/452).
Trausti Þorsteinsson framkvæmdastjóri (99/502).
Tryggingastofnun ríkisins (99/409)
TölvuMyndir ehf. (99/143)
Umboðsmaður Alþingis (99/171)
Una Jóhannesdóttir nemi (99/102).
Unnur Óttarsdóttir nemi (99/205)
Úlfur Agnarsson (99/176)
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/346)
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/346)
Vaka – félag lýðræðissinnaðra stúdenta (99/489)
Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir (99/359)
Verkfræðistofa Snorra Ingimarssonar (99/250).
Vigfús Þorsteinsson læknir (99/086).
Vilborg Sveinsdóttir félagsfræðingur (99/196)
Vilhjálmur Rafnsson prófessor (99/461)
Vilmundur Guðnason (98/415)
Vilmundur Guðnason forstöðulæknir (99/063)
Vilmundur Guðnason læknar (99/076)
Þjóðskjalasafn Íslands (99/241)
Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna (98/417)
Þorbjörg Guðbrandsdóttir hjúkrunarfræðingar (99/068)
Þorsteinn Blöndal (99/307)
Þorvarður Elíasson (99/216)
Þór Eysteinsson lífeðlisfræðingur (99/066)
Þóra Einarsdóttir nemar (99/027)
Þóra Jónsdóttir nemi (99/161)
Þóra Margrét Pálsdóttir (99/295)
Þórarinn Gíslason (99/307)
Þórarinn Gíslason (99/373)
Þórður Þórkelsson læknar (99/486)
Þórir Sturla Ragnarsson (99/455)
Þórkatla Þórisdóttir nemi (99/039)
Þórólfur Guðnason barnalæknar (99/034)
Þórunn M. Lárusdóttir hjúkrunarfræðingar (99/359)
Þórunn Rafnar fræðimaður (99/227)
Þórunn Rafnar ónæmisfræðingur (99/107)
Þrek hf./World Class (98/460)
Þróunarsvið Reykjavíkurborgar (99/453)
Þuríður J. Jónsdóttir yfirtaugasálfræðingur (99/194)
Ættfræðiþjónustan ehf. (99/458)
Öldutúnsskóli (99/024)Var efnið hjálplegt? Nei