Þínar upplýsingar - þín réttindi

Útgefnir bæklingar

Þínar upplýsingar – Þín réttindi

Er verið að vinna með þínar persónuupplýsingar?

Þá átt þú rétt á að vita:

  • Hver vinnur þær?
  • Hvenær eru þær unnar?
  • Hvers vegna?

 

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til þín sem einstaklings, t.d. nafn, kennitala, staðsetningargögn, IP-tölur/netauðkenni eða ljósmynd.

Persónuupplýsingar eru upplýsingar um fólk, ekki fyrirtæki eða dýr.

Það er ekki skilyrði að unnið sé með upplýsingar sem er hægt að tengja beint við þig, einar og sér, heldur getur þetta verið samansafn upplýsinga sem saman leiða til þess að upplýsingarnar eiga eingöngu við um þig.

Hvað er vinnsla persónuupplýsinga?

Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingarnar þínar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki.

Vinnsla persónuupplýsinga getur til dæmis falist í söfnun, skráningu, varðveislu, skoðun, miðlun og eyðingu þeirra.

Upplýsingaréttur

 

Áður en vinnsla hefst og upplýsinga er aflað um þig átt þú rétt á að fyrirtækið eða stjórnvaldið sem vinnur með upplýsingarnar veiti þér fræðslu, m.a. um:


  • hvers vegna er verið að vinna með upplýsingarnar
  • hver lagagrundvöllur vinnslunnar er
  • hvaða tegundir upplýsinga eru notaðar
  • hvaðan upplýsingarnar eru fengnar, ef þær koma frá öðrum en þér
  • hversu lengi á að varðveita upplýsingarnar
  • hvort miðla eigi upplýsingunum til þriðja aðila og þá til hvers og hvers vegna
  • hvort flytja eigi upplýsingarnar úr landi, og þá hvert og hvað eigi að gera við þær
  • hvort nota eigi upplýsingarnar við gerð persónusniðs
  • rétt þinn til að kvarta til Persónuverndar

Þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en þér sjálfum þarf ekki að veita fræðslu ef skýrt er mælt fyrir um öflun eða miðlun upplýsinganna í lögum.

Aðgangsréttur

Þú átt rétt á því að fá að vita hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig. Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá getur þú ekki gætt annarra réttinda sem þú átt, t.d. með því að láta eyða upplýsingum eða leiðrétta þær.

 

Þú átt rétt á að fá aðgang að persónuupplýsingum sem fyrirtæki eða stjórnvald vinnur með um þig. Í því felst að fá:


  • staðfestingu á því að unnið sé með persónuupplýsingarnar þínar
  • aðrar upplýsingar um vinnsluna, t.d. tilgang hennar, viðtakendur upplýsinganna, hversu lengi er fyrirhugað að varðveita persónuupplýsingarnar, uppruna upplýsinganna ef þær koma frá öðrum en þér og upplýsingar um rétt til leiðréttingar, eyðingar, takmörkunar og til að andmæla vinnslunni
  • afrit af þeim persónuupplýsingum um þig sem unnið er með

Þú átt að fá þessar upplýsingar á hnitmiðuðu, skiljanlegu og aðgengilegu formi og á skýru og einföldu máli.

Fyrirtækinu eða stjórnvaldinu ber almennt að veita upplýsingarnar innan mánaðar frá því þú biður um þær. Þær má afhenda skriflega eða á annan hátt, t.d. rafrænt.

Vissar takmarkanir geta átt við um aðgangsréttinn. Telji fyrirtækið eða stjórnvaldið sig ekki geta afhent þér upplýsingarnar átt þú rétt á því að fá að vita hver ástæða þess er.

Ný persónuverndarlöggjöf veitir þér ýmis önnur réttindi. Til dæmis getur þú líka átt rétt til:

  • að láta eyða upplýsingum um þig við tilteknar aðstæður
  • að láta leiðrétta upplýsingar um þig sem eru rangar eða ófullkomnar
  • að takmarka vinnslu upplýsinga um þig

 

Hlutverk Persónuverndar

Persónuvernd gætir hagsmuna almennings þannig að mannréttindi séu ekki brotin við meðferð og vinnslu persónuupplýsinga.

Allan ágreining um vinnslu persónuupplýsinga getur þú borið undir Persónuvernd. Einnig er öllum frjálst að bera ágreining af þessu tagi undir dómstóla.

Hér má nálgast bæklinginn á PDF-formi.


Fáni EvrópusambandsinsÞessi bæklingur var fjármagnaður af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Efni þessa bæklings er unnið af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á því. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei