Allar spurningar og svör

Eftirlitsmyndavélar

Notkun eftirlitsmyndavéla þarf að fara fram í skýrum og málefnalegum tilgangi. Fræðsla til þeirra sem sæta vöktuninni er skilyrði og ekki má varðveita efni lengur en 90 daga.

Hvað þarf að hafa í huga þegar setja á upp eftirlitsmyndavélar?

Tilgangurinn þarf að vera skýr

Rafræn vöktun, þ. á m. vöktun með eftirlitsmyndavélum, verður að fara fram í skýrum og málefnalegum tilgangi, s.s. í þágu öryggis- og eignavörslu. Þá ber ávallt að gæta þess að ganga ekki lengra heldur en þörf krefur miðað við þann tilgang sem stefnt er að.

Gæta skal þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktuninni og forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Auk þess skal ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með vöktuninni sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

Vöktun með vinnuskilum starfsmanna - sérstök þörf

Ef vakta á vinnuskil starfsmanna þarf að vera sérstök þörf fyrir vöktunina, s.s. vegna þess að ekki sé unnt að koma á verkstjórn með öðrum hætti, að án vöktunarinnar sé ekki hægt tryggja öryggi á vinnustaðnum eða að hún sé nauðsynleg vegna samkomulags um launakjör, s.s. þegar laun eru byggð á afkastatengdu eða tímamældu launakerfi.

Ekki má varðveita efni lengur en 90 daga

Almenna reglan er að upplýsingar sem verða til við rafræna vöktun má ekki varðveita lengur en 90 daga nema lög heimili. Þetta á ekki við um upplýsingar sem verða til við atburðaskráningu, upplýsingar sem geymdar eru á öryggisafritum eða upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja.

Fræðsla til starfsmanna eða annarra sem sæta vöktun

Ábyrgðaraðila vöktunar ber að veita fræðslu til þeirra sem að jafnaði eru á vöktuðum svæðum, s.s. nemenda eða starfsmanna.

Fræðslan skal taka til tilgangs vöktunarinnar, hverjir hafa eða kunna að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær verða varðveittar. Einnig getur, eftir því sem við á, þurft að fræða viðkomandi um hvaða búnaður er notaður; rétt til að andmæla vöktuninni og hverjar geti verið afleiðingar þess; rétt viðkomandi til að fá að vita hvaða upplýsingar verða til um hann og til að fá upplýsingar leiðréttar eða þeim eytt; og önnur atriði, að því marki sem þörf krefur með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, svo að viðkomandi geti gætt hagsmuna sinna.

Þá verður jafnframt að gera glögglega viðvart um vöktunina, og hver sé ábyrgðaraðili, með merki eða á annan áberandi hátt.

Réttur til að skoða gögn

Sá sem sætt hefur rafrænni vöktun á rétt á að skoða gögn, s.s. fá að hlusta á hljóðupptökur, sem verða til um hann við vöktunina, en slíka beiðni má hvort heldur sem er setja fram munnlega eða skriflega. Þetta á þó ekki við ef réttur þess sem sætt hefur vöktuninni til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hagsmunum annarra eða hans eigin.

Er heimilt að afhenda öðrum efni vöktunarinnar, s.s. myndbandsupptöku?

Athygli er vakin á því að ef um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, þarf að gæta sérstaklega að því að myndefni berist ekki óviðkomandi. Sem dæmi má nefna að ef myndavélar eru settar upp í öryggis- og eignarvörsluskyni er óheimilt að vinna með efnið frekar nema með samþykki þess sem upptakan er af eða með ákvörðun Persónuverndar; heimilt er þó að afhenda lögreglu efnið en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu.

Þetta felur einnig í sér að almennt á ekki að birta efni úr eftirlitsmyndavélum nema með samþykki einstaklingsins sem á upptökunni er.

Bæklingur Persónuverndar um eftirlitsmyndavélar

Þá má til hliðsjónar hafa bækling Persónuverndar um rafræna vöktun, sem gefinn var út í gildistíð eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei