Allar spurningar og svör

Börn og persónuvernd

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.

Hvað þarf að hafa í huga varðandi börn og persónuvernd þeirra?

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimils og utan. Persónuupplýsingar barna eiga að njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu þeirra.

Börn eiga rétt á því að hafa skoðun og tjá sig og mikilvægt er að taka tillit til skoðana þeirra, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska.

Það er mikilvægt að hlúa vel að persónuvernd barna. Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn og bera ábyrgð á velferð þeirra eiga að vera meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar og ber að virða einkalíf þeirra. Þá skiptir miklu máli að fylgja ávallt meginreglum persónuverndarlaganna, og skal sanngirni til dæmis höfð að leiðarljósi við alla vinnslu.

Eru nýjar reglur í nýrri persónuverndarlöggjöf varðandi persónuvernd barna?

Já, í nýju lögunum er börnum veitt sérstök vernd þar sem afla þarf samþykkis foreldra áður en börn undir 13 ára aldri skrá sig í þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

Þá ættu hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Einnig má nefna að réttur til eyðingar persónuupplýsinga er mjög ríkur gagnvart börnum. Þannig geta þau átt ríkari rétt en fullorðnir til þess að upplýsingum um þá geti verið eytt, t.d. af Netinu.

Við hvaða heimild má styðja vinnslu persónuupplýsinga um börn?

Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum. Meðal þeirra heimilda eru samþykki, nauðsyn vegna framkvæmdar samnings, og lögmætir hagsmunir.

  • Ef óskað er eftir samþykki þarf barnið að skilja hvað það er að samþykkja og þurfa allar upplýsingar að vera á einföldu og skýru máli.
  • Við framkvæmd samnings þarf barn að skilja um hvað samningurinn er og þá getur aldur barns skipt mjög miklu máli. Það er til dæmis ekki hægt að gera sömu kröfur til sjö ára barns og 17 ára unglings þegar kemur að samningsatriðum.
  • Þegar unnið er með persónuupplýsingar barna vegna lögmætra hagsmuna þarf fyrirtækið að vega og meta áhættu og afleiðingarnar fyrir barnið og gera sérstakar ráðstafanir meðal annars með tilliti til aldurs barns. Lögmætir hagsmunir geta til dæmis verið bein markaðssetning, notkun eftirlitsmyndavéla á vinnustöðum o.fl. en meta þarf hverju sinni, eftir þroska barns, hversu miklar ráðstafanir þarf að gera.

 

Hvenær getur barn samþykkt vinnslu um sig?

Foreldrar og forráðamenn sjá yfirleitt um að samþykkja vinnslu persónuupplýsinga um börn sín.

Við þjónustu sem veitt er beint til barna á Netinu geta börn yfir 13 ára aldri samþykkt fyrir sig sjálf. Börn undir 13 ára aldri þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns.

Samþykki foreldra eða forráðamanna er þó ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.


Hvaða sjónarmið eiga við um myndbirtingar og umfjöllun um börn á Netinu?

i.     Hvaða reglur gilda um myndbirtingar af börnum?

Í lögum og reglum er ekki að finna sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda á Netinu. Hins vegar gilda um slíkt almennar reglur. Í því felst að ef hægt er að greina einstakling á mynd eða í myndbandi þarf að fara að persónuverndarlögunum. Fyrst og fremst þarf alltaf að vera til staðar heimild til að vinna með upplýsingarnar, til dæmis samþykki. Ef myndefnið sýnir viðkvæmar upplýsingar, eins og um heilsufar einstaklings, þarf að uppfylla tiltekin viðbótarskilyrði. Að auki verður alltaf að gæta þess að farið sé að meginreglum persónuverndarlaganna, til dæmis um að vinnsla persónuupplýsinga sé sanngjörn, málefnaleg og örugg.

ii.     Hvenær má birta ljósmyndir af börnum?

Almennt má segja að hægt sé að skipta birtingu myndefnis í tvo flokka. Annars vegar birtingu þjóðlífs- og hversdagsmynda, með almenna skírskotun, t.d. af opinberum hátíðarhöldum eða af hópi áhorfenda á íþróttaleik, og hins vegar birtingu mynda þar sem einstaklingurinn er aðalmyndefnið. Í fyrra tilvikinu er litið svo á að ekki þurfi endilega samþykki viðkomandi einstaklinga fyrir myndbirtingunni en það sé alla jafna skilyrði í síðara tilvikinu, þegar þeir eru aðalefni myndarinnar. Svigrúm til birtingar á myndefni þrengist síðan til muna ef um er að ræða birtingu sem sýnir aðstæður sem geta talist með einhverjum hætti viðkvæmar eða ef birtingin getur talist meiðandi. Á það við hvort heldur sem um ræðir fyrrnefndar myndir með almenna skírskotun eða myndir af tilteknum einstaklingum.

iii.     Hvaða reglur gilda um myndbirtingar og umfjöllun um börn á Netinu, t.d. á samfélagsmiðlum?

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar og þau eiga rétt á friðhelgi einkalífs og persónuvernd rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Foreldrar og forsjáraðilar þurfa að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta myndir og/eða upplýsingar um börn sín á opinberum vettvangi. Börn ætti aldrei að sýna á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin, klæðalítil eða í erfiðum aðstæðum.

Brýnt er að hafa í huga að allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti. Er því rétt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á barnið síðar.

Börn eiga rétt á því að hafa skoðun og tjá sig. Einfaldast er að óska eftir samþykki frá börnunum áður en rætt er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Hafa ber í huga að börn geta haft skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingum af þeim, þrátt fyrir ungan aldur, og taka ber tillit til skoðana þeirra.

iv.     Hvaða sjónarmið gilda um öryggi upplýsinga á Netinu?

Hafa ber í huga að öryggi mynda á Netinu verður aldrei fulltryggt. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum. Þá skal hafa í huga að meðlimafjöldi á lokuðum síðum getur skipt hundruðum og jafnvel þúsundum og þannig er verið að deila upplýsingum, jafnvel viðkvæmum heilsufarsupplýsingum, með ófyrirséðum fjölda einstaklinga. Foreldrar þurfa því að gæta sérstakrar varúðar þegar birtar eru myndir af börnum þeirra eða aðrar upplýsingar um þau í lokuðum hópum á samfélagsmiðlum, sérstaklega ef um er að ræða börn í viðkvæmum aðstæðum. Þess utan er ávallt verið að deila efninu með þeim miðli sem upplýsingarnar eru birtar á. Samfélagsmiðlar og smáforrit deila í síauknum mæli persónuupplýsingum sín á milli. Þeir sem nota samfélagsmiðla og smáforrit hafa því sjaldnast fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Einnig er áríðandi að upplýsingar um staðsetningu og GPS-hnit fylgi ekki myndum sem deilt er af börnum á samfélagsmiðlum þannig að óviðkomandi aðilum verði ekki kunnugt um staðsetningu þeirra.

v.     Hvaða reglur gilda um myndbirtingar í fjölmiðlum?

Sérstök sjónarmið gilda um myndbirtingar fjölmiðla, þar sem ákvæði persónuverndarlaganna gilda ekki nema að takmörkuðu leyti um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku. Ekki er því alltaf nauðsynlegt fyrir fjölmiðla að afla samþykkis fyrir myndbirtingum, hafi þær fréttagildi og eigi erindi við almenning.

Hvaða reglur gilda um vinnslu persónuupplýsinga um börn í skólum?

i.     Hvaða reglur gilda um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín?

Foreldrar eiga rétt á aðgangi að upplýsingum um börn sín. Að meginreglu skal birta foreldrum allar upplýsingar sem skráðar eru í rafræn upplýsingakerfi. Réttur foreldra er þó takmarkaður að því marki að þegar sérstaklega stendur á er heimilt að takmarka aðgang að gögnum ef hagsmunir viðkomandi af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. 

Foreldri sem ekki fer með forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Þó skal vakin athygli á því að í þessu felst ekki réttur til þess að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. 

ii.     Hvernig mega grunnskólar skrá persónuupplýsingar um nemendur?

Áður en persónuupplýsingar um nemendur eru skráðar í rafrænt upplýsingakerfi, t.d. Mentor eða Innu, verður að gæta þess að heimild sé til að skrá upplýsingarnar samkvæmt persónuverndarlögum. Oftast liggur lagaskylda á viðkomandi skóla að skrá ýmsar upplýsingar í slík upplýsingakerfi og svo lengi sem skráningin er innan þeirra marka telst hún heimil.

Auk þess verður öll skráning persónuupplýsinga að samrýmast grunnkröfum persónuverndarlaga,  þ. á m. um að persónuupplýsingar skuli unnar sanngjörnum hætti, tilgangur skal vera skýr auk þess sem gæta þarf meðalhófs. Loks þarf að gæta að því að þær séu réttar og áreiðanlegar.

iii.     Má nota smáforrit (öpp) í kennslu?

Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit, sem hægt er að nota í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur. Þess þarf þá að gæta að heimild sé fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram með notkun smáforritsins. Foreldrar og börn, eftir því sem við á, þurfa að fá fræðslu um þá vinnslu sem fer fram um börnin með notkun smáforritsins. Þá þurfa skólar einnig að ganga úr skugga um að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Einnig þurfa skólastjórnendur að athuga hvort persónuupplýsingar séu fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið (til dæmis þegar þær persónuupplýsingar sem forritið safnar eru hýstar hjá fyrirtæki í Bandaríkjunum), en ef svo er þá þarf að ganga úr skugga um að fullnægjandi heimildir séu til flutningsins samkvæmt persónuverndarlögum.

iv.     Mega skólarnir nota samfélagsmiðla, t.d. Facebook?

Persónuvernd hefur beint þeim tilmælum til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga um notkun á samfélagsmiðlum að nota ekki Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða. Miðlun persónuupplýsinga um börn í gegnum samfélagsmiðla, svo sem Facebook, í skóla- og frístundastarfi telst til vinnslu persónuupplýsinga. Ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, t.d. fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og ekkert því til fyrirstöðu að nýta slíka miðla til að dreifa þeim upplýsingum. Þá verður almennt ekki gerð athugasemd við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis.

Í skilmálum Facebook, sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Þá liggur fyrir að Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við nánar tilgreindar aðstæður. Þeir sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Ef það er talið nauðsynlegt að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti hjá skólum er æskilegt að til þess sé nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum (t.d. skólum, frístundaheimilum og öðrum) fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er. Einnig þarf að tryggja að upplýsingunum verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, þær verði ekki unnar í öðrum tilgangi en lagt var upp með, og að öryggis þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti. Þá þarf alltaf að ganga úr skugga um það áður en vinnsla hefst að heimild sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.

v.     Hvaða myndir má birta í skólastarfi?

Sérhver skóli, frístundaheimili og íþróttafélag, sem vinnur persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, ber ábyrgð á slíkri vinnslu. Það er ávallt hlutverk þessara aðila, þ.e. ábyrgðaraðila, að gæta að því að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við persónuverndarlög. Ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Nauðsynlegt er að fá samþykki foreldris/forsjáraðila fyrir myndatöku og/eða miðlun ljósmynda af börnum. Börn geta einnig þurft að samþykkja sjálf að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Þau eiga rétt á að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða birtingu mynda af þeim á Netinu og taka þarf tillit til skoðana þeirra, jafnvel þó að þau séu ung.

Almennt verður ekki gerð athugasemd við að birtar séu myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir árganga. Það er hlutverk hvers skóla að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en það mat getur þó sætt endurskoðun Persónuverndar berist henni kvörtun frá einstaklingi vegna myndbirtingar.

Hvaða reglur gilda um markaðssetningu gagnvart börnum?

Fyrirtæki og stjórnvöld þurfa að hafa heimild til að vinna persónuupplýsingar. Bein markaðssetning telst almennt til lögmætra hagsmuna og því getur verið heimilt að hafa samband við börn til að bjóða tiltekna vöru eða þjónustu.

Börn eiga hins vegar að njóta sérstakrar verndar þegar persónuupplýsingar þeirra eru notaðar í markaðslegum tilgangi. Fyrirtæki og stjórnvöld eiga ekki að misnota þá staðreynd að börn kunna að vera síður meðvituð um hugsanlegar áhættur eða afleiðingar heldur en fullorðnir.

Þess vegna eiga hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Ef barn eða forráðamaður andmæla markaðssetningu þarf að fara að þeirri ósk.

Bæklingar og meiri fræðsla um persónuvernd barna

Spurðu áður en þú sendir! - Fræðsla fyrir börn 8-12 ára

Persónuvernd barna - Upplýsingar til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum

Hver eru þín einkamál? - Til umhugsunar fyrir 13-17 ára

Tilmæli Persónuverndar til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga um notkun á samfélagsmiðlum

Ábending frá Persónuvernd vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga

Leiðbeiningar til íþróttafélaga, tómstunda- og æskulýðsfélaga og annarra aðila sem starfa með börnumVar efnið hjálplegt? Nei