Allar spurningar og svör

Börn og persónuvernd

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar, þar sem þau eru almennt síður meðvituð um áhættu og afleiðingar í tengslum við vinnslu slíkra upplýsinga sem og eigin réttindi.

Hvað þarf að hafa í huga varðandi börn og persónuvernd þeirra?

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs rétt eins og fullorðnir, bæði innan heimilis og utan. Þessi réttur er tryggður í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, stjórnarskránni og persónuverndarlögunum. Persónuupplýsingar barna njóta jafnframt sérstakrar verndar, þar sem þau eru síður meðvituð um réttindi sín og áhættur og afleiðingar í tengslum við vinnslu slíkra upplýsinga. 

Börn eiga rétt á því að hafa skoðun og tjá sig og mikilvægt er að taka tillit til skoðana þeirra, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, ættu að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn og bera ábyrgð á velferð þeirra ættu að vera meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar og virða einkalíf þeirra. Þá skiptir miklu máli að fylgja ávallt meginreglum persónuverndarlaganna og skal sanngirni höfð að leiðarljósi við alla vinnslu. 

Einnig má nefna að réttur til eyðingar persónuupplýsinga er mjög ríkur gagnvart börnum. Þannig geta þau átt ríkari rétt en fullorðnir til þess að upplýsingum um þau geti verið eytt, t.d. af Netinu.

Hægt er að skipta birtingu myndefnis í tvo flokka en það er misjafnt hvort talin er þörf á samþykki fyrir birtingu eða ekki. Sjá nánar í kaflanum "myndbirtingar og umfjöllun um börn á Netinu".           

Hverju þurfa ábyrgðaraðilar að huga að varðandi vinnslu persónuupplýsinga barna?

Ábyrgðaraðilar bera ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga barna sem þeir vinna með, samrýmist persónuverndarlögum, og þeir þurfa að geta sýnt fram á það.
Persónuvernd hefur í samstarfi við umboðsmann barna og Fjölmiðlanefnd útbúið ítarlegar leiðbeiningar fyrir ábyrgðaraðila sem m.a. fjalla um hverju þarf að huga að varðandi vinnslu persónuupplýsinga barna.

Við hvaða heimild má styðja vinnslu persónuupplýsinga um börn?

Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum. Meðal þeirra heimilda eru samþykki, nauðsyn vegna framkvæmdar samnings, og lögmætir hagsmunir. Það er alltaf ábyrgðaraðila að ákveða hvort og þá hvaða heimild standi til hverrar vinnslu.

  • Þegar vinnsla er byggð á samþykki þarf að meta í hvert skipti hvort það er foreldri eða barnið sjálft sem á að veita það. Það er metið eftir aldri og þroska barnsins. Forsjárforeldri ræður persónulegum högum barnsins. Ef óskað er eftir samþykki barnsins þarf það að skilja hvað það er að samþykkja og allar upplýsingar þurfa að vera á einföldu og skýru máli.
  • Skólar og aðrir opinberir aðilar geta yfirleitt ekki byggt á samþykki nema um algerlega valfrjálsa þjónustu sé að ræða. Persónuverndarlög gera ráð fyrir því að slík vinnsla fari eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggir á lagaheimild.
  • Á Netinu geta börn yfir 13 ára aldri sjálf samþykkt þjónustu. Börn undir 13 ára aldri þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns. Þetta getur til dæmis átt við um notkun samfélagsmiðla, tölvuleiki á netinu og smáforrit þar sem skilmálar eru samþykktir í byrjun.
  • Samþykki foreldra eða forsjáraðila er ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.
  • Við framkvæmd samnings þarf barnið að skilja um hvað samningurinn er og þá getur aldur barns skipt miklu máli. Það er til dæmis ekki hægt að gera sömu kröfur til sjö ára barns og 17 ára unglings þegar kemur að samningsatriðum.
  • Þegar unnið er með persónuupplýsingar barna vegna lögmætra hagsmuna þarf ábyrgðaraðilinn að vega og meta áhættu og afleiðingar fyrir barnið og gera sérstakar ráðstafanir meðal annars með tilliti til aldurs barns. Lögmætir hagsmunir geta til dæmis verið bein markaðssetning, notkun eftirlitsmyndavéla á vinnustöðum o.fl. en meta þarf hverju sinni, eftir þroska barns, hversu miklar ráðstafanir þarf að gera. 

Sjá nánar um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga í leiðbeiningum fyrir ábyrgðaraðila.

Myndbirtingar og umfjöllun um börn á Netinu

Í lögum og reglum er ekki að finna sérstök ákvæði um birtingu ljósmynda og myndbanda á Netinu. Almenna reglan er að ef hægt er að greina einstakling á mynd eða í myndbandi þarf að fara að persónuverndarlögunum. 

Fyrst og fremst þarf alltaf að vera til staðar heimild til að vinna með upplýsingarnar, til dæmis samþykki. Ef myndefnið sýnir viðkvæmar upplýsingar, eins og um heilsufar einstaklings, þarf að uppfylla tiltekin viðbótarskilyrði. Að auki verður alltaf að gæta þess að farið sé að meginreglum persónuverndarlaganna, til dæmis um að vinnsla persónuupplýsinga sé sanngjörn, málefnaleg og örugg.

Foreldrar og forsjáraðilar ættu að virða einkalíf barna sinna og fara varlega í að birta myndir og/eða upplýsingar um börn sín á opinberum vettvangi. Meðlimafjöldi á lokuðum síðum getur skipt hundruðum og jafnvel þúsundum. Það þarf því að gæta sérstakrar varúðar þegar birtar eru myndir af börnum þeirra eða aðrar upplýsingar um þau í lokuðum hópum á samfélagsmiðlum, sérstaklega ef um er að ræða börn í viðkvæmum aðstæðum. Börn ætti aldrei að sýna á niðrandi eða óviðeigandi hátt, t.d. þannig að þau séu nakin, fáklædd eða í erfiðum aðstæðum.

Höfum í huga að allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti. Því er rétt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á það síðar. Einfaldast er að óska eftir samþykki frá börnunum áður en rætt er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Börn geta haft skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingum af þeim, þrátt fyrir ungan aldur, og taka ber tillit til þeirra.

Áður en þú setur ljósmynd eða aðrar upplýsingar um barnið þitt (eða annarra) á samfélagsmiðla er gott að hafa eftirfarandi í huga:

  • Fáðu alltaf samþykki barnsins fyrir birtingu ljósmyndar eða annarra upplýsinga um það á samfélagsmiðlum.
  • Staldraðu við áður en þú setur inn efnið og veltu fyrir þér hvort þetta eigi yfirleitt erindi við aðra.
  • Myndir af nöktum eða fáklæddum börnum eiga ekki heima á Netinu, hvort sem myndin er tekin heima í baði eða á sólarströnd.
  • Ekki birta ljósmynd af barni sem líður illa, sýnir erfiða hegðun, er veikt eða er að öðru leyti í viðkvæmum aðstæðum.
  • Forðastu að birta upplýsingar og ljósmyndir af börnum í umræðuhópum á samfélagsmiðlum. Óskaðu frekar eftir spjalli við aðila í sömu sporum beint, t.d. í síma eða í einkaskilaboðum, frekar en í opnu spjalli.
  • Ekki ganga út frá því að börn séu hlynnt því að þú segir frá atvikum í lífi þeirra á samfélagsmiðlum. Spurðu barnið hvort þú megir segja frá t.d. sigrum á íþróttamótum eða góðum námsárangri, áður en þú gerir það.
  • Fullvissaðu þig um að friðhelgisstillingar þínar á samfélagsmiðlum séu þannig að ljósmyndir og aðrar upplýsingar um börnin þín séu ekki aðgengilegar öllum.
  • Áður en þú birtir ljósmyndir, kannaðu hvort þú þurfir að aftengja GPS hnit, þannig að ekki sé hægt að sjá hvar myndin er tekin.
  • Í öllum tilvikum, hugsaðu um það sem barninu er fyrir bestu, leitaðu eftir sjónarmiðum þess áður en þú birtir eitthvað um það á samfélagsmiðlum, og hugsaðu um hvaða áhrif það gæti haft á barnið til skemmri eða lengri tíma.

Ákvæði persónuverndarlaganna gilda ekki nema að takmörkuðu leyti um myndbirtingar fjölmiðla, þar sem vinnslan fer fram í þágu fjölmiðlunar og fréttamennsku. Ef myndirnar þykja hafa fréttagildi og eiga erindi við almenning er ekki alltaf nauðsynlegt að afla samþykkis fyrir myndbirtingum í fjölmiðlum.

Hér má finna nánari upplýsingar um persónuvernd og tjáningarfrelsi fjölmiðla.

Leiðbeiningar fyrir foreldra um Netið, samfélagsmiðla og persónuvernd.

Hvaða reglur gilda um vinnslu persónuupplýsinga um börn í skólum?

i. Hvaða reglur gilda um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín?

Foreldrar eiga rétt á aðgangi að upplýsingum um börn sín. Að meginreglu skal birta foreldrum allar upplýsingar sem skráðar eru í rafræn upplýsingakerfi. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að takmarka aðgang foreldra að gögnum, t.d. ef almanna- eða einkahagsmunir annarra ganga fyrir. Til dæmis gæti þurft að takmarka aðgangsupplýsingar foreldra barns sem er aðili að eineltismáli vegna einkahagsmuna annarra barna að því máli. Ábyrgðaraðili skal þó ávallt leggja mat á það hverju sinni hvort og þá hvaða gögnum skuli takmarka aðgang að. Það mat getur sætt endurskoðun hjá Persónuvernd ef kvörtun berst um efnið. 

Foreldri sem ekki fer með forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Þó skal vakin athygli á því að í þessu felst ekki réttur til þess að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.

ii. Hvernig mega grunnskólar skrá persónuupplýsingar um nemendur?

Grunnskólar þurfa líkt og aðrir ábyrgðaraðilar að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist persónuverndarlögum og þeir þurfa að geta sýnt fram á það. Í þessu felst m.a. að vinnslan þarf að styðjast við heimild í lögum, uppfylla meginreglur laganna, veita viðeigandi fræðslu um vinnsluna eftir því sem við á og meta hvort gera þurfi mat á áhrifum á persónuvernd.

Skólar, eins og aðrir opinberir aðilar, geta yfirleitt ekki byggt á samþykki nema um sé að ræða algerlega valfrjálsa þjónustu. Persónuverndarlög gera ráð fyrir því að slík vinnsla fari almennt eingöngu fram ef hún er nauðsynleg og byggi á lagaheimild. Skólinn þarf að sýna fram á hver sú nauðsyn er fyrir hverja vinnslu fyrir sig.

Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit og stafrænar lausnir, eins og upplýsingatæknikerfi, sem nýta má í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur.

Áður en persónuupplýsingar um nemendur eru skráðar í stafrænt upplýsingakerfi verður að gæta þess að heimild sé fyrir því samkvæmt persónuverndarlögum. Oftast liggur lagaskylda á viðkomandi skóla að skrá ýmsar upplýsingar í slík upplýsingakerfi og svo lengi sem skráningin er innan þeirra marka telst hún heimil. Ábyrgðaraðilar að vinnslu persónuupplýsinga (t.d. skólar) þurfa að ganga úr skugga um að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Til dæmis þarf að athuga hvort persónuupplýsingar séu fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið (hvort þær séu hýstar hjá fyrirtæki í Bandaríkjunum t.d.), en það eru sérstök ákvæði í lögunum um flutning persónuupplýsinga. Öll skráning persónuupplýsinga verður að samrýmast grunnkröfum persónuverndarlaga, þ. á m. um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum hætti, tilgangur skal vera skýr auk þess sem gæta þarf meðalhófs. Loks þarf að gæta að því að þær séu réttar og áreiðanlegar.

Þannig ættu einstakir starfsmenn, svo sem kennarar, ekki að taka smáforrit, upplýsingatæknikerfi eða aðrar tæknilausnir í notkun án þess að vera vissir um að það sé öruggt og heimildir séu til staðar til að vinna persónuupplýsingar barna í þeim, t.d. með því að bera það undir stjórnendur sem geta tekið ákvarðanir um notkunina. Það að taka í notkun nýja tækni eins og smáforrit eða upplýsingatæknikerfi, getur kallað á framkvæmd svokallaðs mats á áhrifum á persónuvernd og/eða ráðgjöf frá persónuverndarfulltrúa. Foreldrar og börn, eftir því sem við á, eiga rétt á að fá fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga barna sem fer fram með notkun búnaðarins.

Sjá nánar um notkun upplýsingatæknikerfa og stafrænna lausna í skóla- og frístundastarfi í leiðbeiningum fyrir ábyrgðaraðila á vef Persónuverndar.

iii. Hvað eru stafræn fótspor og hvernig myndast þau í skólastarf?

Með stafrænu fótspori er átt við þær upplýsingar sem settar eru um einstakling á Netið, viljandi eða óviljandi. Má þar nefna myndir sem við deilum, athugasemdir, blogg og jafnvel þau myndbönd sem við horfum á. Allt sem við leitum að á Netinu og það sem við kaupum skilur eftir stafrænt fótspor.

Stafræn fótspor mynduð í skólastarfi
Í skýrslu ráðgefandi nefndar Evrópuráðsins um persónuvernd frá árinu 2019 er vakin athygli á ýmsum áhættum sem eru fyrir hendi við rafræna vinnslu persónuupplýsinga barna í skólastarfi og í því sambandi m.a. vísað til þess að margt er enn órannsakað um heilsu barna í tengslum við tæknivæðingu í skólastarfi. 

Í skýrslunni er jafnframt fjallað um sjálfsákvörðunarrétt barna hvað varðar persónuupplýsingar þeirra og á það bent, að þegar skóli eða sveitarfélag hefur tekið ákvörðun um hvaða persónuupplýsingar skuli vinna og í hvaða forriti, þá hafi börnin í raun ekkert um það að segja. Því sé brýnt að skólarnir missi ekki stjórn á persónuupplýsingum barnanna og gagnasöfnun á að halda í lágmarki. 

Í skýrslunni er einnig á það bent að horfa verði heildstætt á þær tæknilausnir sem eru notaðar í skólastarfi og hvaða fótspor notkun þeirra skilur eftir sig, bæði stafrænt fótspor og umhverfisfótspor, í lífi hvers og eins barns, t.a.m. samspil tækja og forrita og hvaða upplýsingar fara þar á milli.

iv. Má nota upplýsingatæknikerfi og smáforrit (öpp) í kennslu?

Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit og stafrænar lausnir, eins og upplýsingatæknikerfi, sem nýta má í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur. Passa þarf upp á að heimild sé fyrir þeirri vinnslu. Foreldrar og börn, eftir því sem við á, þurfa að fá fræðslu um þá vinnslu sem fer fram um börnin með notkun smáforritsins.

Þá þurfa skólar að ganga úr skugga um að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Þáttur í því að tryggja öryggi þeirra er að athuga hvort persónuupplýsingar séu fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið.

Það að taka í notkun nýja tækni eins og smáforrit eða upplýsingatæknikerfi, getur kallað á framkvæmd svokallaðs mats á áhrifum á persónuvernd og/eða ráðgjöf frá persónuverndarfulltrúa. Persónuvernd hefur gefið út leiðbeiningar um innleiðingu upplýsingatæknikerfa til að vinna með persónuupplýsingar barna.

v. Mega skólarnir nota samfélagsmiðla?

Persónuvernd hefur beint því til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga að nota ekki Facebook eða sambærilega miðla sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn. Slíkt telst til vinnslu persónuupplýsinga. Ljósmyndir af einstaklingum teljast til persónuupplýsinga.

Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, t.d. fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og því má nýta slíka miðla til að dreifa þeim upplýsingum. Almennt verða því ekki gerðar athugasemdir við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæms eðlis.

Í skilmálum Facebook, sem notendur samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við ákveðnar aðstæður. Notendur slíkra samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Ef talið er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti hjá skólum er æskilegt að til þess sé nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum (t.d. skólum, frístundaheimilum og öðrum) fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er. 

Einnig þarf að tryggja að upplýsingunum verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, þær verði ekki unnar í öðrum tilgangi en lagt var upp með, og að öryggis þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti. Þá þarf alltaf að ganga úr skugga um það áður en vinnsla hefst, að heimild sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.

Hafa þarf í huga að starfsmenn skóla- og frístundastarfs eru líkt og foreldrar, fyrirmyndir barna og því skiptir máli að vanda eigin umgengni um samfélagsmiðla, tölvuleiki og aðrar tæknilausnir meðal barnanna. Gæta þarf að því að börnum bregði ekki fyrir á samfélagsmiðlum starfsmanna sem kunna að vera notaðir meðan á starfi stendur, t.d. á myndum eða í myndskeiðum.

Viðmið umboðsmanns barna, Barnaheilla, Fjölmiðlanefndar, Heimilis og skóla, Unicef og SAFT vegna umfjöllunar um börn á samfélagsmiðlum.

Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs barna.

vi. Hvaða myndir má birta í skólastarfi?

Sérhver skóli, frístundaheimili og íþróttafélag, sem vinnur persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, ber ábyrgð á slíkri vinnslu. Það er ávallt hlutverk þessara aðila, þ.e. ábyrgðaraðila, að gæta að því að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við persónuverndarlög.

Nauðsynlegt er að fá samþykki foreldris/forsjáraðila fyrir myndatöku og/eða miðlun ljósmynda af börnum. Börn geta einnig þurft að samþykkja sjálf að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega.

Á samþykkiseyðublaði geta foreldrar samþykkt að veita heimild til birtingar á ljósmyndum af barninu, en aðskilja þarf mismunandi form birtingar, t.d. hvort það sé á vefsíðu skóla, samfélagsmiðlum eða í fréttabréfum. 

Það er mikilvægt að allir sem vinna með börnum hugi að því hvort samþykki hafi verið veitt fyrir hvert og eitt barn fyrir birtingu mynda. 

Venjulega er í lagi að birta myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga, nema þær sýni aðstæður sem geta verið viðkvæmar. Það sama getur átt við um bekkjarmyndir. Það er hlutverk hvers skóla að meta hvað teljist til opinna viðburða á hans vegum, en ef Persónuvernd berst kvörtun frá einstaklingi vegna slíkrar myndbirtingar getur stofnunin komist að annarri niðurstöðu en skólinn.

Gátlisti um myndatökur og myndbirtingar af börnum í skólum, frístund og íþróttastarfi

  • Sérhver skóli og aðrir ábyrgðaraðilar sem vinna persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, bera ábyrgð á að öll vinnslan, þ. á m. myndatökur og myndbirtingar, sé í samræmi við persónuverndarlög.
  • Þegar óskað er eftir samþykki sem heimild fyrir myndatökum og myndbirtingum, þarf ábyrgðaraðilinn að veita foreldrum/forsjáraðilum barns, og eftir atvikum barninu sjálfu, fullnægjandi fræðslu, svo sem um tilgang, og viðtakendur upplýsinganna áður en samþykki er veitt. Að öðrum kosti telst fræðslan ekki í samræmi við persónuverndarlög.
  • Gæta þarf hófs í myndatökum þannig að réttur barna til friðhelgi einkalífs sé tryggður.
  • Meta þarf hverju sinni hvort samþykki þurfi fyrir myndatöku út frá umfjöllunarefninu, eðli upplýsinganna og stöðu þess sem í hlut á og því samhengi sem myndefnið er sett í.
  • Um myndatökur á viðburðum á vegum skóla gildir almennt að skólar, sem opinberar stofnanir, geti ekki lagt bann við því að foreldrar taki ljósmyndir af börnum sínum enda gilda persónuverndarlögin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru aðeins ætlaðar til persónulegra nota.

Fjarkennsla

Ljóst er að þær sérstöku aðstæður sem hafa verið uppi vegna kórónuveirufaraldursins hafa valdið breyttu starfs- og námsumhverfi þar sem mikilvægt er að geta nýtt tæknilausnir, bæði til heimanáms, kennslu, próftöku og samskipta skóla og heimilis, en mikilvægt er að slíkar lausnir uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögum.

Á vef Persónuverndar má finna leiðbeiningar um helstu atriði sem hafa ber í huga við nýtingu tæknilausna í fjarkennslu.

Hvaða reglur gilda um markaðssetningu gagnvart börnum?

Fyrirtæki og stjórnvöld þurfa að hafa heimild til að vinna persónuupplýsingar. Bein markaðssetning getur talist til lögmætra hagsmuna og því getur verið heimilt að hafa samband við börn til að bjóða tiltekna vöru eða þjónustu.

Börn eiga hins vegar að njóta sérstakrar verndar þegar persónuupplýsingar þeirra eru notaðar í markaðssetningu. Ef um er að ræða persónuupplýsingar barna á að byggja á því sem er barni fyrir bestu. Notkun á persónuupplýsingum barna í markaðsskyni á sér t.d. stað með auglýsingum á samfélagsmiðlum, borðum á vefsíðum eða auglýsingum í tölvuleikjum. Fyrirtæki og stjórnvöld eiga ekki að misnota þá staðreynd að börn kunna að vera síður meðvituð um hugsanlegar áhættur eða afleiðingar heldur en fullorðnir.

Þess vegna eiga hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Ef barn eða forráðamaður andmæla markaðssetningu þarf að fara að þeirri ósk.

Hvaða reglur gilda um aldurstakmörk?

Það er mikilvægt að foreldrar og þeir sem starfa með börnum virði þau aldurstakmörk sem gilda um kvikmyndir, tölvuleiki og samfélagsmiðla.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að aldurstakmörk eru sett til verndar börnum, og byggja m.a. á því að börn undir 13 ára aldri hafa ekki tekið út fullan andlegan og félagslegan þroska og búa því ekki endilega yfir hæfni til þess að átta sig á því hvaða áhrif samskipti á Netinu geta haft og hvernig þau eru öðruvísi en önnur samskipti.

Þá ber að virða að það er eingöngu í höndum foreldra og forsjáraðila að veita börnum leyfi til þess að víkja frá settum aldurstakmörkum. 

Á Íslandi er aldurstakmark fyrir þátttöku barna í upplýsingasamfélaginu, t.d. á samfélagsmiðlum, 13 ár og þurfa yngri börn því samþykki foreldra t.d. fyrir því að skrá sig sem notendur á samfélagsmiðlum, óháð þeim aldurstakmörkunum sem miðlarnir sjálfir setja fyrir sína notendur.
Margar leikjasíður falla undir skilgreininguna samfélagsmiðill, t.d. Roblox.

Leiðbeiningar fyrir foreldra um Netið, samfélagsmiðla og persónuvernd.

Bæklingar og meiri fræðsla um persónuvernd barna

Leiðbeiningar fyrir foreldra um Netið, samfélagsmiðla og persónuvernd

Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs barna

Leiðbeiningar fyrir ábyrgðaraðila um vernd barna í stafrænu umhverfi

Spurðu áður en þú sendir! - Fræðsla fyrir börn 8-12 ára

Persónuvernd barna - Upplýsingar til foreldra, forráðamanna og þeirra sem vinna með börnum

Hver eru þín einkamál? - Til umhugsunar fyrir 13-17 ára

Tilmæli Persónuverndar til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga um notkun á samfélagsmiðlum

Ábending frá Persónuvernd vegna misskilnings í skólasamfélaginu um gildissvið nýrra persónuverndarlaga

Leiðbeiningar til íþróttafélaga, tómstunda- og æskulýðsfélaga og annarra aðila sem starfa með börnum




Var efnið hjálplegt? Nei