Allar spurningar og svör

Börn og persónuvernd

Persónuupplýsingar barna njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga.

Hvað þarf að hafa í huga varðandi börn og persónuvernd þeirra?

Börn eiga rétt á friðhelgi einkalífs rétt eins og fullorðnir. Persónuupplýsingar barna eiga að njóta sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um áhættu, afleiðingar og réttindi sín í tengslum við vinnslu þeirra.

Það er því mikilvægt að hlúa vel að persónuvernd barna. Þá skiptir miklu máli að fylgja ávallt meginreglum persónuverndarlaganna, og skal sanngirni til dæmis höfð að leiðarljósi við alla vinnslu.

Eru nýjar reglur í nýrri persónuverndarlöggjöf varðandi persónuvernd barna?

Já, í nýju lögunum er börnum veitt sérstök vernd þar sem afla þarf samþykkis foreldra áður en börn undir 13 ára aldri skrá sig í þjónustu í upplýsingasamfélaginu.

Þá ættu hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Einnig má nefna að réttur til eyðingar persónuupplýsinga er mjög ríkur gagnvart börnum. Þannig geta þau átt ríkari rétt en fullorðnir til þess að upplýsingum um þá geti verið eytt, t.d. af Netinu.

Við hvaða heimild má styðja vinnslu persónuupplýsinga um börn?

Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum. Meðal þeirra heimilda eru samþykki, nauðsyn vegna framkvæmdar samnings, og lögmætir hagsmunir.

  • Ef óskað er eftir samþykki þarf barnið að skilja hvað það er að samþykkja og þurfa allar upplýsingar að vera á einföldu og skýru máli.
  • Við framkvæmd samnings þarf barn að skilja um hvað samningurinn er og þá getur aldur barns skipt mjög miklu máli. Það er til dæmis ekki hægt að gera sömu kröfur til sjö ára barns og 17 ára unglings þegar kemur að samningsatriðum.
  • Þegar unnið er með persónuupplýsingar barna vegna lögmætra hagsmuna þarf fyrirtækið að vega og meta áhættu og afleiðingarnar fyrir barnið og gera sérstakar ráðstafanir meðal annars með tilliti til aldurs barns. Lögmætir hagsmunir geta til dæmis verið bein markaðssetning, notkun eftirlitsmyndavéla á vinnustöðum o.fl. en meta þarf hverju sinni, eftir þroska barns, hversu miklar ráðstafanir þarf að gera.

 

Hvenær getur barn samþykkt vinnslu um sig?

Foreldrar og forráðamenn sjá yfirleitt um að samþykkja vinnslu persónuupplýsinga um börn sín.

Við þjónustu sem veitt er beint til barna á Netinu geta börn yfir 13 ára aldri samþykkt fyrir sig sjálf. Börn undir 13 ára aldri þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns.

Samþykki foreldra eða forráðamanna er þó ekki nauðsynlegt þegar um er að ræða forvarnar- eða ráðgjafarþjónustu sem barni er boðin beint.

Hvaða reglur gilda um markaðssetningu gagnvart börnum?

Fyrirtæki og stjórnvöld þurfa að hafa heimild til að vinna persónuupplýsingar. Bein markaðssetning telst almennt til lögmætra hagsmuna og því getur verið heimilt að hafa samband við börn til að bjóða tiltekna vöru eða þjónustu.

Börn eiga hins vegar að njóta sérstakrar verndar þegar persónuupplýsingar þeirra eru notaðar í markaðslegum tilgangi. Fyrirtæki og stjórnvöld eiga ekki að misnota þá staðreynd að börn kunna að vera síður meðvituð um hugsanlegar áhættur eða afleiðingar heldur en fullorðnir.

Þess vegna eiga hvers kyns upplýsingar og tilkynningar, þegar vinnsla beinist að barni, að vera á skýru og einföldu máli sem barnið getur auðveldlega skilið.

Ef barn eða forráðamaður andmæla  markaðssetningu þarf að fara að þeirri ósk.

Hvaða sjónarmið eiga við um myndbirtingar af börnum á Netinu?

Einfaldast er að óska eftir samþykki frá barninu áður en rætt er um þau á samfélagsmiðlum eða birtar af þeim myndir, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska. Hafa ber í huga að börn kunna að hafa skoðun á umfjöllun um þau eða myndbirtingum af þeim, þrátt fyrir ungan aldur, og taka ber tillit til skoðana þeirra. 

Foreldrar, forsjáraðilar og aðrir sem annast börn og bera ábyrgð á velferð þeirra eiga að vera meðvitaðir um réttindi barna til persónuverndar. Brýnt er að hafa í huga að allt sem birt er á Netinu má finna síðar og getur haft áhrif á líf barnsins með ýmsum ófyrirséðum hætti. Er því rétt að setja sig í spor barnsins og hugsa um hvaða áhrif umfjöllun eða myndir geta haft á barnið síðar. 

Hafa ber í huga að öryggi mynda á Netinu verður aldrei fulltryggt. Sá möguleiki er alltaf fyrir hendi að myndum eða umfjöllun verði dreift, jafnvel af lokuðum síðum. Einnig er áríðandi að upplýsingar um staðsetningu og GPS-hnit fylgi ekki myndum sem deilt er af börnum á samfélagsmiðlum þannig að óviðkomandi aðilum verði ekki kunnugt um staðsetningu þeirra.

Hvaða reglur gilda um vinnslu persónuupplýsinga um börn í skólum?

i.     Hvaða reglur gilda um rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín?

Foreldrar eiga rétt á aðgangi að upplýsingum um börn sín. Að meginreglu skal birta foreldrum allar upplýsingar sem skráðar eru í rafræn upplýsingakerfi. Réttur foreldra er þó takmarkaður að því marki að þegar sérstaklega stendur á er heimilt að takmarka aðgang að gögnum ef hagsmunir viðkomandi af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. 

Foreldri sem ekki fer með forsjá barns á rétt á að fá aðgang að skriflegum gögnum um barnið frá skólum og leikskólum. Það foreldri á einnig rétt á að fá munnlegar upplýsingar um barnið frá öðrum aðilum sem fara með mál þess, svo sem sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Þó skal vakin athygli á því að í þessu felst ekki réttur til þess að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris. 

ii.     Hvernig mega grunnskólar skrá persónuupplýsingar um nemendur?

Áður en persónuupplýsingar um nemendur eru skráðar í rafrænt upplýsingakerfi, t.d. Mentor eða Innu, verður að gæta þess að heimild sé til að skrá upplýsingarnar samkvæmt persónuverndarlögum. Oftast liggur lagaskylda á viðkomandi skóla að skrá ýmsar upplýsingar í slík upplýsingakerfi og svo lengi sem skráningin er innan þeirra marka telst hún heimil.

Auk þess verður öll skráning persónuupplýsinga að samrýmast grunnkröfum persónuverndarlaga,  þ. á m. um að persónuupplýsingar skuli unnar sanngjörnum hætti, tilgangur skal vera skýr auk þess sem gæta þarf meðalhófs. Loks þarf að gæta að því að þær séu réttar og áreiðanlegar.

iii.     Má nota smáforrit (öpp) í kennslu?

Skólastjórnendur og kennarar þurfa að vera meðvitaðir um að hin ýmsu smáforrit, sem hægt er að nota í kennslu, geta safnað persónuupplýsingum um nemendur á meðan á kennslu stendur. Þess þarf þá að gæta að heimild sé fyrir þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram með notkun smáforritsins. Foreldrar og börn, eftir því sem við á, þurfa að fá fræðslu um þá vinnslu sem fer fram um börnin með notkun smáforritsins. Þá þurfa skólar einnig að ganga úr skugga um að öryggi upplýsinganna sé tryggt. Einnig þurfa skólastjórnendur að athuga hvort persónuupplýsingar séu fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið (til dæmis þegar þær persónuupplýsingar sem forritið safnar eru hýstar hjá fyrirtæki í Bandaríkjunum), en ef svo er þá þarf að ganga úr skugga um að fullnægjandi heimildir séu til flutningsins samkvæmt persónuverndarlögum. Var efnið hjálplegt? Nei