Allar spurningar og svör

Hvenær má vinna með persónuupplýsingar?

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að byggjast á heimild í persónuverndarlögum. Það fer eftir tilgangi vinnslunnar hvaða heimild getur átt við í hvert sinn. Engin ein heimild er rétthærri, mikilvægari eða betri en önnur.

Þegar unnar eru persónuupplýsingar um þig þarf alltaf að byggja einhverri af eftirfarandi sex heimildum til þess að vinnslan teljist lögmæt:

  1. Samþykki þínu fyrir vinnslunni í þágu eins eða fleiri tiltekinna markmiða.
  2. Vinnslan er nauðsynleg til að efna samning sem þú ert aðili að eða að til að gera ráðstafanir að þinni beiðni áður en samningur er gerður.
  3. Vinnslan er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á þeim sem ákveður vinnsluna (ábyrgðaraðila).
  4. Vinnslan er nauðsynleg til að vernda brýna hagsmuni þína eða annars einstaklings.
  5. Vinnslan er nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með.
  6. Vinnslan er nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða einhver annar gætir, nema hagsmunir þínir eða grundvallarréttindi og frelsi, sem krefjast verndar persónuupplýsinga, vegi þyngra, einkum ef þú ert barn.

Ef sú heimild sem byggt er á gerir kröfu um að vinnslan sé nauðsynleg þarf að gæta að því hvort unnt sé að ná sömu markmiðum án þess að vinna persónuupplýsingar. Ef það er hægt þá er vinnslan ekki heimil.

Það fer eftir tilgangi vinnslunnar hvaða heimild getur átt við í hvert sinn. Engin ein heimild er mikilvægari eða betri en önnur.

Gilda sérstakar reglur um stjórnvöld?

Séu stjórnvöld að vinna um þig persónuupplýsingar mega þau almennt ekki byggja á samþykki þínu (1) eða á lögmætum hagsmunum (6) þegar þau sinna lögbundnu hlutverki sínu. Hins vegar getur stjórnvöldum í mörgum tilvikum verið heimilt að vinna um þig persónuupplýsingar til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á þeim (3).Var efnið hjálplegt? Nei