Allar spurningar og svör

Tjáning einstaklinga á Netinu

Flestum kvörtunum vegna tjáningar, þ.m.t. á samfélagsmiðlum, er vísað frá Persónuvernd og málsaðilum leiðbeint um að bera ágreininginn undir dómstóla. Ástæðan er sú að í slíkum málum reynir á mörk stjórnarskrárvarinna réttinda; tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar.

Ef einstaklingur birtir upplýsingar úr gögnum eða gagnagrunnum sem hafa að geyma persónuupplýsingar getur Persónuvernd í ákveðnum tilvikum fjallað efnislega um málið, þó að birtingunni fylgi tjáning af einhverju tagi.

Hér má lesa álit Persónuverndar um tjáningu einstaklinga á Netinu.

Hér er hægt að lesa meira um þá þætti sem falla utan við valdsvið Persónuverndar. 

 

Annar einstaklingur skrifaði texta um mig sem mér líkar ekki og birti á samfélagsmiðlum/á Netinu. Get ég kvartað til Persónuverndar?

Persónuvernd getur ekki fjallað um skrif einstaklinga á Netinu, þar sem þau fela í sér tjáningu viðkomandi. Kvörtunum yfir slíkum skrifum er því vísað frá. Bæði tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs eru stjórnarskrárvarin réttindi og því eru það dómstólar sem fjalla um mörkin á milli þeirra. Það getur verið ráðlegt að leita til lögmanns til að kanna hvort er ástæða til að fara með málið fyrir dóm.

Hvað get ég gert ef ég vil ekki að myndir af mér séu birtar á Netinu?

Ef myndir af þér eru birtar á Netinu er best að leita fyrst til þess sem birti þær og óska eftir því að þær verði fjarlægðar. Ef þú kvartar yfir birtingu mynda hjá einhverjum sem þú þekkir og tengist er líklegt að Persónuvernd fjalli ekki um kvörtunina. Ef myndirnar eru birtar hjá einhverjum sem þú þekkir ekki og þeim fylgir enginn texti getur hins vegar verið að Persónuvernd taki kvörtunina til skoðunar.  

Um myndbönd og hljóðupptökur gildir það sama og um ljósmyndir. Ef ekki er hægt að sjá eða heyra hver er á myndum, myndböndum eða hljóðupptökum eru það hins vegar ekki persónuupplýsingar og falla því ekki undir gildissvið persónuverndarlöggjafarinnar.

Persónuupplýsingar um mig eru birtar á síðu á Netinu. Get ég kvartað til Persónuverndar?

Já, Persónuvernd getur almennt fjallað um birtingu persónuupplýsinga, t.d. símanúmers, heimilisfangs, bankaupplýsinga eða heilsufarsupplýsinga um þig, jafnvel þó að þær birtist með texta þar sem einhver tjáir skoðanir sínar. Þá er ekki fjallað um skrifin sjálf, heldur bara birtingu upplýsinganna sjálfra. Stundum eru þessi atriði þó svo nátengd að kvörtun yrði vísað frá, en Persónuvernd metur það í hverju tilviki fyrir sig.

Má birta gögn um aðra á Netinu?

Almennt séð máttu birta eigin gögn á Netinu, t.d. bréf sem þú hefur skrifað, þó að þau varði aðra einstaklinga. Þau yrðu oftast talin fela í sér tjáningu á skoðunum þínum. Þetta getur þó þurft að meta í hverju tilviki fyrir sig. Einnig þarf að hafa í huga að birtingin gæti brotið gegn öðrum lögum en persónuverndarlögunum, en það er ekki hlutverk Persónuverndar að meta það. 

Það sama gildir hins vegar ekki um gögn frá öðrum einstaklingum, þau má almennt ekki birta nema viðkomandi samþykki birtinguna eða ef einhver önnur heimild í persónuverndarlöggjöfinni kemur til greina, t.d. lögmætir hagsmunir.




Var efnið hjálplegt? Nei