Allar spurningar og svör

Hvað getur Persónuvernd ekki gert?

Persónuvernd hefur almennt eftirlit með allri vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Þó eru því eftirliti takmörk sett og er því hér að finna lista yfir atriði sem Persónuvernd getur ekki tekið afstöðu til. 

1. Vinnsla persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi

Í þessu felst að þegar dagblöð, tímarit, netmiðlar eða sjónvarpsþættir fjalla um eða birta myndir af einstaklingum fellur það í flestum tilfellum utan verksviðs Persónuverndar. Í því sambandi bendir Persónuvernd á að slík mál geta í einhverjum tilvikum varðað siðareglur blaðamanna eða ákvæði fjölmiðlalaga. Fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með að farið sé að fjölmiðlalögum.

Þá má víkja frá ákvæðum persónuverndarlaganna að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar í þágu fjölmiðlunar, lista og bókmennta.

2. X-merking við símanúmer í símaskrá

Persónuvernd getur ekki fjallað um mál er varða svokallaða x-merkingu (bannmerkingu) í símaskrá heldur er það hlutverk Póst- og fjarskiptastofnunar. Ef haft er samband við einstakling í þágu beinnar markaðssetningar, þrátt fyrir slíka x-merkingu, getur viðkomandi einstaklingur snúið sér til þeirrar stofnunar með fyrirspurn eða kvörtun.

Vefsíða Póst og fjarskiptastofnunar.

Ef einstaklingur er hins vegar bannmerktur í þjóðskrá getur Persónuvernd fjallað um málið.

3. Mál til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi eða dómstóli

Ef sama mál er til meðferðar hjá öðru stjórnvaldi eða dómstólum tekur Persónuvernd slík mál allajafna ekki til meðferðar fyrr en viðkomandi stjórnvald/dómstóll hefur lokið sinni málsmeðferð. Er þessi framkvæmd viðhöfð á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.

4. Ákvörðun um refsingar eða skaðabætur

Persónuvernd getur ekki kveðið á um refsingar eða skaðabætur í úrskurðum sínum en slík ákvörðun er í höndum dómstóla. Persónuvernd hefur þó heimild til að leggja á dagsektir og stjórnvaldssektir við tilteknar aðstæður. Slíkar sektir renna í ríkissjóð.

5. Aðgangur að gögnum stjórnvalds

Að öllu jöfnu getur Persónuvernd ekki úrskurðað um heimild aðila máls eða almennings til aðgangs að gögnum í vörslu stjórnvalda á grundvelli stjórnsýslulaga eða upplýsingalaga. Hægt er að snúa sér til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál ef synjað er um afhendingu gagna hjá stjórnvöldum. Persónuvernd getur hins vegar tekið til skoðunar ágreining varðandi aðgang einstaklinga að eigin persónuupplýsingum samkvæmt persónuverndarlögum.

Vefsíða Úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

6. Vinnsla persónuupplýsinga hjá dómstólum

Persónuvernd fjallar ekki um mál sem varða vinnslu persónuupplýsinga dómstóla þegar þeir fara með dómsvald sitt. Persónuvernd getur hins vegar fjallað um mál er varða stjórnsýslu dómstólanna, t.d. birtingu upplýsinga í dómum á vefsíðum þeirra.

7. Meiðyrði

Almennt verða menn að höfða svokallað einkarefsimál vegna ærumeiðinga, en í því felst að lögregla og ákæruvald hafa ekki afskipti af málinu. Frá því er þó m.a. gerð undantekning hafi ærumeiðandi aðdróttun verið borin fram skriflega en annaðhvort nafnlaust eða með rangri eða tilbúinni undirskrift. Ef þú vilt höfða einkarefsimál vegna ærumeiðinga getur þú þurft að leita til lögmanns.

8. Leit á mönnum og í munum þeirra

Mál er varða líkamsrannsóknir, s.s. áfengispróf, eða leit á mönnum eða í munum þeirra, svo sem í starfsmannaskápum, heyra almennt ekki undir Persónuvernd. Getur slíkt varðað við ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs en mál er varða brot á stjórnarskrá skulu almennt borin undir dómstóla.

Ef rafræn vinnsla á persónuupplýsingum fer fram í tengslum við slíka leit getur sú vinnsla heyrt undir Persónuvernd.

9. Opnun persónulegra bréfa eða þegar farið er inn á aðgang einstaklings á samfélagsmiðli eða einkatölvupósthólf í leyfisleysi

Almennt fjallar Persónuvernd ekki um hvort einhverjum hafi verið heimilt að opna sendibréf annars manns eða þegar farið er inn á aðgang einstaklings á samfélagsmiðli eða einkatölvupósthólf í leyfisleysi. Slík háttsemi er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum og teljast mál vegna hennar til svokallaðra einkarefsimála. Einstaklingur getur höfðað slíkt mál fyrir dómstólum.Var efnið hjálplegt? Nei