Allar spurningar og svör

Eftirlitsmyndavélar

Heimilt að vakta lóðir til að tryggja öryggi og eignir. Þó þarf alltaf að gera viðvart um eftirlitsmyndavélarnar með merkingum og fræða þá sem fara reglulega um svæðið, t.d. starfsmenn.

Hvenær má vinnuveitandi setja upp eftirlitsmyndavélar á vinnustað?

Til að heimilt sé að setja upp eftirlitsmyndavélar, t.d. á vinnustöðum, þarf að uppfylla tiltekin skilyrði. Sá sem ber ábyrgð á vöktuninni, þ.e. vinnuveitandinn, þarf að ákveða í hvaða tilgangi hann viðhefur vöktunina. Tilgangurinn verður að vera skýr, málefnalegur og lögmætur, t.d. til að koma í veg fyrir þjófnað eða til að tryggja öryggi manna og muna. Óheimilt er að nýta myndefnið í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Sem dæmi má nefna að ef upphaflegur tilgangur var að tryggja öryggi á vinnustaðnum þá er óheimilt að nota efnið í öðrum tilgangi,  t.d. til að fylgjast með því hvenær starfsmenn mæta til vinnu eða hvernig þeir haga sér á vinnustað, án þess að starfsmenn hafi verið fræddir um breyttan tilgang áður en upptakan varð til.

Vinnuveitandinn þarf jafnframt að gæta þess að ganga ekki lengra en þörf krefur við vöktunina og honum ber að forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra sem sæta vöktuninni. Þannig hefur Persónuvernd talið óheimilt að setja upp eftirlitsmyndavélar á kaffistofum starfsmanna þar sem lögbundinn hvíldartími er nýttur, auk þess sem almennt telst ekki málefnalegt að vakta búnings- og/eða salernisaðstöðu starfsmanna eða sambærileg rými.

Má vinnuveitandi fylgjast með mínum vinnuskilum?

Vöktun með vinnuskilum er eingöngu heimil í ákveðnum tilvikum. Sérstök þörf þarf að vera fyrir slíka vöktun, s.s. vegna þess að ekki sé unnt að koma við verkstjórn með öðrum hætti, án vöktunarinnar sé ekki unnt að tryggja öryggi á viðkomandi svæði eða að hún sé nauðsynleg vegna ákvæða kjarasamnings eða annars konar samkomulags um launakjör.

Þess vegna þarf vinnuveitandinn fyrst að meta hvort hægt sé að ná sama tilgangi með öðrum og vægari aðgerðum, t.d. með því að hafa vaktstjóra á staðnum, sem hefur það hlutverk að fylgjast með starfseminni. Almennt eiga starfsmenn ekki að þurfa sæta því að vera ávallt undir vökulu auga vinnuveitanda í gegnum eftirlitsmyndavélar, þó svo að vissulega geti aðstæður krafist slíks í afmörkuðum tilvikum. Það getur til dæmis átt við á ákveðnum tegundum vinnustaða, svo sem þar sem finna má hættulegar vélar eða efni eða þegar unnið er með matvæli.

Þarf ekki samþykki mitt sem starfsmanns til að setja upp eftirlitsmyndavél á vinnustaðnum?

Starfsmenn geta aldrei veitt gilt samþykki fyrir vöktun á vinnustað þar sem aðstöðumunur milli þeirra og vinnuveitanda er almennt talinn vera slíkur að samþykkið geti ekki talist gefið af fúsum og frjálsum vilja. Vinnuveitandi þarf hins vegar að fræða starfsmenn um þá vöktun sem á sér stað, tilgang hennar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær eru varðveittar. Auk þess þarf hann að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að viðkomandi einstaklingar geti gætt hagsmuna sinna. Mikilvægt er að fræðslan sé veitt með sannanlegum hætti, eftir atvikum með setningu reglna.

Vöktun með leynd er því alfarið bönnuð, nema hún styðist við lagaheimild eða úrskurð dómara.

Þarf ekki að setja upp límmiða um að vöktun fari fram?

Ef vöktun fer fram á almannafæri eða á stöðum sem aðrir hafa aðgang að en eingöngu starfsmenn viðkomandi ábyrgðaraðila þarf glögglega að gera viðvart um að vöktun sé í gangi, svo sem með viðvörunarskiltum eða límmiðum á augsýnilegum stöðum.

Má ég fá að skoða upptökurnar?

Þú átt rétt á að skoða gögn, s.s. upptökur, sem verða til um þig við vöktunina, en slíka beiðni má hvort sem heldur setja fram munnlega eða skriflega. Þetta á þó ekki við ef réttur þess sem sætt hefur vöktuninni (þ.e. réttur þinn) til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hagsmunum annarra eða þínum eigin.

Má vinnuveitandi birta myndir úr eftirlitsmyndavél á samfélagsmiðlum? Hvað má hann geyma upptökurnar lengi?

Vinnuveitandi má ekki varðveita myndefni lengur en 90 daga nema sérstakar ástæður krefjist þess, t.d. vegna rannsóknarhagsmuna. Honum er heimilt að afhenda lögreglu myndefni en ekki birta það t.d. á samfélagsmiðlum eða á Netinu án samþykkis þeirra sem á upptökunni eru. Ef myndefni er afhent lögreglu skal þess gætt að öðrum eintökum sé þá eytt.

Bæklingur Persónuverndar um eftirlitsmyndavélar.

Þá má til hliðsjónar hafa bækling Persónuverndar um rafræna vöktun, sem gefinn var út í gildistíð eldri laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.Var efnið hjálplegt? Nei