Úrlausnir

Dreifing á myndefni úr eftirlitsmyndavélum

13. september 2005

13.9.2005

Persónuvernd fékk ábendingu um að myndir úr öryggismyndavélum í verslunum tiltekins fyrirtækis, sem taldar væru veita tilefni til grunar um þjófnað, væru sendar úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva fyrirtækisins og sýndar starfsmönnum.

Persónuvernd fékk ábendingu um að myndir úr öryggismyndavélum í verslunum tiltekins fyrirtækis, sem taldar væru veita tilefni til grunar um þjófnað, væru sendar úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva fyrirtækisins og sýndar starfsmönnum.

Enginn vafi var talinn leika á að fyrirtækinu væri heimilt, í ljósi öryggis- og eignavörslusjónarmiða, að hafa öryggismyndavélakerfi í verslunum sínum. Þá var talið heimilt að safna myndefni í tengslum við framkvæmd hinnar rafrænu vöktunar. Hins vegar var talið að myndefnið ætti ekki að vera aðgengilegt öðrum en þeim nauðsynlega þurfa á aðgangi að því að halda. Við mat á þeirri nauðsyn yrði m.a. að líta til þess að myndefni sem talið er veita tilefni til grunar um þjófnað felur ekki ávallt í sér staðfestingu á að brot hafi í raun verið framið. Ályktun um þjófnað kann að vera röng og myndskeið eru ekki í öllum tilvikum óyggjandi sönnunargögn. Tildrög atvika geta enda verið af misjöfnum toga og ekki alltaf sjálfgefið hvaða ályktanir draga megi af myndbroti.

Það var mat Persónuverndar að of langt væri gengið með því að miðla myndefninu úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva fyrirtækisins og sýna þær starfsmönnum. Talið var að eingöngu tilgreindir starfsmenn, sem bera ábyrgð á öryggisvörslu í viðkomandi verslun, ættu að skoða myndirnar og að þær skyldu engum afhentar að slíkri skoðun lokinni nema lögreglu. Væri gengið lengra væri verið að koma því til skila, án þess að dómstólar hefðu fjallað um mál og komist að rökstuddri niðurstöðu um sekt eða sýknu, að viðkomandi einstaklingar hefðu engu að síður framið refsivert brot. Væri það til þess fallið að valda viðkomandi einstaklingum tjóni, jafnvel fullkomlega að tilefnislausu, svo sem vegna rangs orðróms um meint refsivert athæfi sem rætur ætti að rekja til einhvers af þeim mörgu starfsmönnum fyrirtækisins sem séð hefðu myndirnar.

Í ljósi þess var þeim fyrirmælum beint til fyrirtækisins að láta af umræddri dreifingu mynda úr öryggismyndavélum.

Niðurstöðuna má lesa hér.





Var efnið hjálplegt? Nei