Úrlausnir

Dreifing myndefnis úr eftirlitsmyndavélum

1.6.2006

Hinn 13. september 2005 komst stjórn Persónuverndar að svohljóðandi niðurstöðu í máli nr. 2005/107:

I.

Persónuvernd vísar til bréfs stofnunarinnar til A, dags. 20. júlí 2005, af tilefni ábendingar, sem stofnunin fékk, um að myndir úr öryggismyndavélum í verslunum félagsins, sem taldar væru veita tilefni til grunar um þjófnað, væru sendar úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva félagsins og sýndar starfsmönnum. Er í bréfinu óskað skýringa A á því hvers vegna umræddum myndum úr öryggismyndavélum sé dreift með framangreindum hætti og hvernig það sé talið samrýmast ákvæði 3. gr. reglna nr. 888/2004 um rafræna vöktun á vinnustöðum, í skólum og á öðrum svæðum þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í framangreindu ákvæði reglnanna segir: "Við alla rafræna vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt."


A svaraði með bréfi, dags. 10. ágúst 2005. Þar segir:

"Yfirmenn starfsmanna [A] hafa fengið myndir af þeim sem grunaðir eru um þjófnað í verslunum fyrirtækisins til að sýna sínum starfsmönnum. Markmiðið er að starfsmenn séu betur vakandi ef viðkomandi aðilar koma inn í verslunina sem þeir starfa í. Dæmi eru um að sömu aðilar komi margsinnis í verslanir [A] til að stela.


Að mati fyrirtækisins er slík miðlun upplýsinga þannig beinlínis nauðsynleg til þess að vernda eignir fyrirtækisins.


Telur fyrirtækið að efni úr eftirlitskerfi þess hafi ekki verið dreift til óviðkomandi og að yfirmenn verslana [A] hafi haft málefnalega ástæðu til aðgangs að umræddum upplýsingum. Var fyrirtækið þannig í þeirri trú að miðlun þeirra persónuupplýsinga sem hér um ræðir til framangreindra aðila teldist sanngjörn notkun persónuupplýsinga."

II.
1.

Samkvæmt 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er með "rafrænni vöktun" í lögunum átt við vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði. Í ákvæðinu kemur einnig fram að um vöktun, sem fellur undir lögin, er að ræða hvort sem hún fer fram á almannafæri eða á svæði, sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, og óháð því hvort um sé að ræða:

1. vöktun sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga; eða
2. sjónvarpsvöktun sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.


Í ljósi ofangreinds telst sú vöktun, sem hér um ræðir, til rafrænnar vöktunar í skilningi laga nr. 77/2000. Það í hve ríkum mæli þau lög gilda um vöktunina veltur á því hvort um sjónvarpsvöktun er að ræða eða vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Vöktun af fyrrnefnda taginu lýtur aðeins nánar tilgreindum ákvæðum laganna, sbr. 3. mgr. 4. gr., en vöktun af síðarnefnda taginu á undir þau öll eins og almennt gildir um rafræna vinnslu persónuupplýsinga, auk handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 3. gr.


Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er með "persónuupplýsingum" í lögunum átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er og með "vinnslu" persónuupplýsinga átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með slíkar upplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn. Þar undir falla m.a. söfnun, geymsla, notkun, miðlun, dreifing og birting, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, sem og b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB.


Af þessu er ljóst að sú rafræna vöktun, sem fram fer í verslunum A, sem og meðferð þess myndefnis, sem til verður við vöktunina, telst vinnsla persónuupplýsinga og fer samkvæmt reglum laga nr. 77/2000 um slíka vinnslu.

2.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000 er rafræn vöktun ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sé jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram. Um slíka vöktun hefur Persónuvernd sett reglur nr. 888/2004 um rafræna vöktun á vinnustöðum, í skólum og á öðrum svæðum þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Í 1. mgr. 3. gr. þeirra reglna er kveðið á um að rafræn vöktun verði að fara fram í málefnalegum tilgangi, s.s. í öryggis- eða eignavörsluskyni. Lítur stofnunin svo á að sú vöktun, sem fram fer í verslunum A, verði að fullnægja skilyrðum þessara reglna.


Sú vinnsla, sem fram fer í tengslum við þessa vöktun, verður, eins og önnur vinnsla persónuupplýsinga, að styðjast við eitthvert af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Af ákvæðum þeirrar greinar kemur einkum til álita 7. tölul. 1. mgr. um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.


Samkvæmt b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 eru upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað viðkvæmar persónuupplýsingar. Slík vinnsla verður, auk einhvers af skilyrðum 8. gr., að fullnægja einhverju af skilyrðum 9. gr. laganna. Sé um að ræða rafræna vöktun reynir þá á hvort kröfum 2. mgr. 9. gr. sé fullnægt. Þar er kveðið á um að heimilt sé, í tengslum við framkvæmd rafrænnar vöktunar, að safna efni með viðkvæmum persónuupplýsingum, sem verður til við vöktunina, að því gefnu að:

1. vöktunin sé nauðsynleg og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni;
2. það efni, sem til verður við vöktunina, verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt sé þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað, en þá skuli þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu; og
3. því efni, sem safnast við vöktunina, verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar standi til frekari varðveislu, sbr. og 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 888/2004.


 

Auk þess sem heimild þarf að vera til vinnslu í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 ber að gæta ákvæða 7. gr. laganna í hvívetna. Þar er m.a. kveðið á um að persónuupplýsingar skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum og að óáreiðanlegar eða ófullkomnar persónuupplýsingar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.).


Í 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 888/2004 er ákvæði um meðalhóf sem nátengd er ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 þar að lútandi. Samkvæmt framangreindu ákvæði reglnanna skal þess gætt við alla rafræna vöktun að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skuli þess gætt að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum vægari, raunhæfum úrræðum.

3.

Persónuvernd telur engan vafa leika á að A sé heimilt, í ljósi öryggis- og eignavörslusjónarmiða, að hafa öryggismyndavélakerfi í verslunum sínum. Í ljósi hættu á þjófnaði í verslununum ber að líta á það sem málefnalegan tilgang, sem og að sérstök þörf sé á myndavélavöktun í ljósi þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sbr. skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000 þar að lútandi, sbr. og 3. gr. reglna nr. 888/2004 þar sem kveðið er á um að öryggis- og eignavarsla sé málefnalegur tilgangur.


Auk þess sem Persónuvernd telur vöktunina sem slíka heimila telur hún leyfilegt að safna persónuupplýsingum við framkvæmd hennar, þ.e. myndefni. Styðst sú upplýsingasöfnun við áðurnefnt skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um heimild til vinnslu persónuupplýsinga vegna lögmætra hagsmuna sem vega þyngra en réttindi og frelsi hins skráða. Þá styðst hún við áðurnefnt ákvæði 2. mgr. 9. gr. um heimild til söfnunar myndefnis með viðkvæmum persónuupplýsingum við framkvæmd rafrænnar vöktunar að tilteknum skilyrðum fullnægðum, þ. á m. að myndefni sé eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til varðveislu þess, sbr. 3. tölul., sbr. og 2. mgr. 4. gr. reglna nr. 888/2004.


Eins og fyrr greinir skal þess ávallt gætt við vinnslu persónuupplýsinga að ekki sé unnið með meira af slíkum upplýsingum en nauðsyn krefur, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, sbr. og 2. mgr. 3. gr. reglna nr. 888/2004 sem hefur að geyma sams konar reglu um meðalhóf. Í ljósi þessa má myndefni, sem heimilt er að varðveita, ekki vera aðgengilegt öðrum en þeim sem nauðsynlega þurfa á aðgangi að því að halda.


Við mat á nauðsyn á aðgangi telur Persónuvernd að líta verði til hagsmuna hins skráða af vernd um persónuupplýsingar. Ber í því sambandi að líta til þess að friðhelgi einkalífs telst meðal grundvallarmannréttinda og nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig ber að líta til þess að myndefni, sem talið er veita tilefni til grunar um þjófnað, felur ekki ávallt í sér staðfestingu á að brot hafi í raun verið framið. Ályktun um þjófnað kann að vera röng og myndskeið eru ekki í öllum tilvikum óyggjandi sönnunargögn. Tildrög atvika geta enda verið af misjöfnum toga og ekki alltaf sjálfgefið hvaða ályktanir draga megi af myndbroti. Ber hér að líta til 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 þar sem kveðið er á um meginregluna um áreiðanleika persónuupplýsinga.


Á þeim sjónarmiðum um meðalhóf og áreiðanleika við vinnslu persónuupplýsinga, sem hér hafa verið rakin, er byggt í 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þar er kveðið á um, eins og fyrr greinir, að efni, sem til verður við vöktun, skuli ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt sé þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað, en þá skuli þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu. Lítur Persónuvernd svo á að með orðinu "öðrum" í þessu ákvæði sé vísað til allra þeirra sem ekki er nauðsyn á að hafa aðgang að vöktunarefni vegna starfa sinna, þ. á m. starfsmanna lögaðila, sem viðhefur vöktun í öryggis- og eignavörsluskyni, sem ekki bera ábyrgð á öryggisvörslu.


Þegar litið er til þessa, og alls framangreinds, telur Persónuvernd of langt gengið með því að miðla myndum úr öryggismyndavélum í verslunum A, sem taldar eru veita tilefni til grunar um þjófnað, úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva félagsins og sýna þær starfsmönnum. Vakni upp grunur um að þjófnaður hafi verið framinn í verslun félagsins eiga eingöngu tilgreindir starfsmenn, sem bera ábyrgð á öryggisvörslu í viðkomandi verslun, að skoða myndirnar og þær skulu engum afhentar að slíkri skoðun lokinni nema lögreglu. Sé gengið lengra er verið að koma því til skila, án þess að dómstólar hafi fjallað um mál og komist að rökstuddri niðurstöðu um sekt eða sýknu, að viðkomandi einstaklingar hafi engu að síður framið refsivert brot. Er það til þess fallið að valda viðkomandi einstaklingum tjóni, jafnvel fullkomlega að tilefnislausu, svo sem vegna rangs orðróms um meint refsivert athæfi sem rætur á að rekja til einhvers af þeim mörgu starfsmönnum A sem séð hafa myndirnar.


Í ljósi þess hefur Persónuvernd ákveðið að beina þeim fyrirmælum til A, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000, að láta af umræddri dreifingu mynda úr öryggismyndavélum.


Á k v ö r ð u n a r o r ð:

A skal láta af dreifingu mynda úr öryggismyndavélum í verslunum félagsins, sem taldar eru veita tilefni til grunar um þjófnað, úr viðkomandi starfsstöð til allra annarra starfsstöðva fyrirtækisins. Eingöngu tilgreindir starfsmenn, sem ábyrgð bera á öryggisvörslu í viðkomandi verslun, mega sjá myndir og þær skulu engum afhentar öðrum en lögreglu að lokinni skoðun þeirra á myndefni af tilefni grunar um þjófnað



Var efnið hjálplegt? Nei