Fréttir

Árétting til allra sem koma að starfi með börnum - notkun á samfélagsmiðlum

26.6.2023

Persónuvernd áréttar tilmæli sín um að allir sem koma að starfi með börnum noti ekki Facebook eða sambærilega miðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um börn.

Tilmælin eiga við skóla, íþróttafélög, frístundaheimili og sumarfrístundanámskeið eins og t.d. leikja- og listanámskeið, skátanámskeið, sumarfrístund og sambærilega aðila.

Ef þörf er talin á að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti er æskilegt að til þess verði nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er. Facebook og sambærilegir miðlar uppfylla almennt ekki það skilyrði.

Þá er minnt á að almennt þarf að fá samþykki foreldris/forsjáraðila fyrir myndatöku og/eða miðlun ljósmynda af börnum. Börn geta einnig þurft að samþykkja sjálf að rætt sé um þau á samfélagsmiðlum eða að birtar séu af þeim myndir opinberlega, að teknu tilliti til aldurs þeirra og þroska.

Persónuvernd, Umboðsmaður barna og Fjölmiðlanefnd hafa gefið út leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs barna þar sem m.a. er fjallað um notkun samfélagsmiðla og myndbirtingar.

Hér má nálgast frekari fræðslu um börn og persónuvernd



Var efnið hjálplegt? Nei