Erlent samstarf

Facebook og Instagram sektað vegna persónusniðinna auglýsinga

6.1.2023

Írska persónuverndarstofnunin (DPC) tilkynnti í vikunni niðurstöður rannsóknar sinnar í tveim málum varðandi vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Meta Platforms Ireland Limited (Meta Ireland) í tengslum við Facebook og Instagram. Varðar ákvörðunin notkun fyrirtækisins á persónuupplýsingum við gerð persónusniðinna auglýsinga fyrir notendur miðlanna tveggja og að fyrirtækið hafi ekki unnið persónuupplýsingar með sanngjörnum og gagnsæjum hætti. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að Meta Ireland geti ekki byggt vinnslu persónuupplýsinga í þágu persónusniðinna auglýsinga á lögmætum hagsmunum.

Sektaði stofnunin Meta Ireland því um 210 milljónir evra fyrir brot gegn persónuverndarreglugerðinni (GDPR) vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá Facebook og 180 milljónir evra vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá Instagram. Þá var lagt fyrir Meta Ireland að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga færi fram í samræmi við persónuverndarreglugerðina innan þriggja mánaða.

Framangreind ákvörðun er tekin eftir að hafa farið í gegnum samræmingarkerfi persónuverndarreglugerðarinnar, sem Persónuvernd á Íslandi tekur einnig þátt í. Lauk því ferli með bindandi ákvörðun Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) í desember á síðasta ári.

Ítarlegri umfjöllun um ákvörðunina má finna á vefsíðu írsku persónuverndarstofnunarinnar.Var efnið hjálplegt? Nei