Erlent samstarf

Fundur EDPB í desember

7.12.2022

72. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 5. desember síðastliðinn.

Á fundinum samþykkti EDPB þrjár bindandi ákvarðanir varðandi Meta Platforms Ireland Limited (Meta IE – Facebook, Instagram og Whatsapp) á grundvelli persónuverndarreglugerðarinnar. Ákvarðanirnar þrjár taka á mikilvægum lagalegum álitaefnum í drögum að þremur ákvörðunum írsku persónuverndarstofnunarinnar sem er forystustjórnvald (LSA) gagnvart Meta IE (Facebook, Instagram og WhatsApp). Bindandi ákvarðanir EDPB gegna lykilhlutverki við að tryggja rétta og samræmda beitingu persónuverndarlöggjafarinnar af innlendum eftirlitsyfirvöldum.

Forsaga málsins er sú að írska persónuverndarstofnunin gaf út drög að ákvörðunum í kjölfar rannsókna á vinnslu persónuupplýsinga hjá miðlunum þremur. Ákvörðunardrög írsku stofnunarinnar varðandi Facebook og Instagram varða einkum lögmæti og gagnsæi vinnslu vegna persónusniðinna auglýsinga. Drög að ákvörðun um WhatsApp varða einkum lögmæti vinnslu í þeim tilgangi að bæta þjónustu. Nokkrar persónuverndarstofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu settu fram andmæli við drögin að ákvörðunum írsku stofnunarinnar. Lutu andmælin meðal annars að heimildum til vinnslu persónuupplýsinga (6. gr. GDPR), meginreglum persónuverndarreglugerðarinnar (5. gr. GDPR), og beitingu valdheimilda, þar á meðal stjórnvaldssekta.

Þar sem ekki náðist samstaða um þessi andmæli var EDPB beðið um að leysa deiluna milli stjórnvaldanna innan tveggja mánaða eins og persónuverndarreglugerðin gerir ráð fyrir.

Í ákvörðunum EDPB er meðal annars fjallað um hvort að vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli samnings sé heppilegur lagagrundvöllur fyrir gerð persónusniðinna auglýsinga hjá Facebook og Instagram og til að bæta þjónustu hjá WhatsApp.

Írska persónuverndarstofnunin skal sem forystueftirlitsyfirvald samþykkja endanlegar ákvarðanir sínar sem varða Meta IE á grundvelli ákvörðunar EDPB, í síðasta lagi einum mánuði eftir að EDPB hefur tilkynnt um ákvörðun sína. EDPB mun birta ákvarðanir sínar á vefsíðu sinni þegar forystustjórnvaldið hefur tilkynnt ábyrgðaraðilum um sína ákvörðun.

Tengill a frétt EDPBVar efnið hjálplegt? Nei