Málsmeðferðartími hjá Persónuvernd

Í samræmi við málsmeðferðarreglur Persónuverndar er áætlaður málsmeðferðartími mismunandi málategunda hjá stofnuninni birtur hér á vefsíðunni. Afgreiðslutími getur þó lengst umfram áætlun í einhverjum tilvikum, svo sem ef mál eru sérstaklega flókin eða umfangsmikil. Forgangsmál geta tekið skemmri tíma. 

Persónuvernd hefur eftirlit með allri vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir persónuverndarlöggjöfina. Undir eftirlit Persónuverndar getur því fallið vinnsla á persónuupplýsingum hjá fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og samtökum.  

Á hverjum degi tekur Persónuvernd á móti fjölda erinda er varða löggjöfina frá fjölbreyttum hópi aðila, svo sem einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum og ráðuneytum. Erindin geta verið í formi fyrirspurna, kvartana, álitsbeiðna, umsagnarbeiðna, beiðna um fund o.fl. 

Öll þau mál sem berast Persónuvernd eru sett í viðeigandi farveg og er málsaðilum eftir atvikum tilkynnt um það þegar málin eru tekin til meðferðar. Málum er forgangsraðað eftir mikilvægi þeirra hverju sinni. Staða Persónuverndar hefur verið erfið um nokkurt skeið en nýskráðum málum hjá stofnuninni hefur fjölgað mjög hratt undanfarin misseri. Persónuvernd hefur auk þess lengi glímt við alvarlega undirmönnun og er því jafnframt að eiga við uppsafnaðan vanda vegna mikils fjölda óafgreiddra mála. Á meðan Persónuvernd tekst á við afleiðingar undirmönnunar og mikinn málafjölda eru tafir á málsmeðferð og svörum til málsaðila óhjákvæmilegar. 

Persónuvernd birtir mánaðarlega yfirlit yfir helstu tölur í starfsemi stofnunarinnar neðst á forsíðu vefsíðunnar

Í samræmi við málsmeðferðarreglur Persónuverndar er áætlaður málsmeðferðartími mismunandi málategunda hjá stofnuninni birtur hér á vefsíðunni. Til stendur að uppfæra áætlaðan málsmeðferðartíma í upphafi hvers árs. Miðað er við að 80% mála verði lokið innan áætlaðs tíma, sbr. neðangreint. Afgreiðslutími getur þó lengst umfram áætlun í einhverjum tilvikum, svo sem ef mál eru sérstaklega flókin eða umfangsmikil. Forgangsmál geta tekið skemmri tíma. 

Þá þarf að hafa í huga að ef mál varðar vinnslu persónuupplýsinga yfir landamæri getur málsmeðferðartími lengst umtalsvert, en málsaðilar eru sérstaklega upplýstir um það. 

Málategund og áætlaður málsmeðferðartími:

 

Ábending

Innan mánaðar

Álitsbeiðni

Innan sex mánaða

Beiðni um fund

Innan mánaðar

Beiðni um kynningu

Innan mánaðar

Eftirfylgnimál

Innan fjögurra mánaða

Frumkvæðismál

Innan sex mánaða

Fyrirspurn

Innan 20 daga

Fyrirframsamráð

Lögbundinn frestur er átta vikur (+ sex vikur með hliðsjón af því hversu flókin vinnslan er). Frestur byrjar að líða þegar öll gögn hafa borist.

Kvörtun

Innan 18 mánaða

Tilkynning um öryggisbrest

Innan tíu vikna

Umsókn um leyfi

Innan þriggja mánaða

Úttekt

Pappírsúttektir: Innan átta vikna.
Úttektir með vettvangsathugun og aðkomu sérfræðings: Innan fimm mánaða.

 Beiðni um endurupptöku

Innan fjögurra mánaða 

 

 



Var efnið hjálplegt? Nei