Bréf Persónuverndar til heilbrigðisráðherra vegna aðgangs læknanema að rafrænum sjúkraskrám á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Persónuvernd hefur nú um nokkurt skeið haft til skoðunar erindi frá Landspítala – Háskólasjúkrahúsi (LSH) varðandi aðgang læknanema að rafrænum sjúkraskrám innan sjúkrahússins. Í erindinu greindi LSH stofnuninni frá því að veita ætti læknanemum sama aðgang að slíkum skrám og læknum, þ.e. læknanemar ættu að fá aðgang að öllum hefðbundnum sjúkraskrárupplýsingum innan allra skipulagskjarna sjúkrahússins.

Á fundi stjórnar stofnunarinnar hinn 19. febrúar 2007 komst hún að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægilega skýr lagagrundvöllur undir aðgang læknanema til að unnt væri að komast að niðurstöðu um hvort nægilegs öryggis væri gætt við veitingu slíks aðgangs. Væri það enda forsenda þess að tekin væri afstaða til öryggis persónuupplýsinga að lögmæti vinnslunnar lægi ljóst fyrir. Með bréfi Persónuverndar, dags. í dag, var LSH greint frá þessu. Hjálagt er afrit af bréfinu.

Af tilefni framangreinds var ákveðið að koma þeirri ábendingu á framfæri við yður að reglur skortir um aðgang læknanema að sjúkraskrám.





Var efnið hjálplegt? Nei