Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og Þjóðskrár Íslands

Mál nr. 2021122346

8.11.2022

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir innbroti Tryggingastofnunar ríkisins og Þjóðskrár Íslands í tölvupósthólf kvartanda. Nánar tiltekið var kvartað yfir innbroti í tölvupósthólf og eyðingu á um 40 tölvupóstum er vörðuðu samskipti kvartanda við framangreindar stofnanir í því skyni að eyða sönnunargögnum.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að ósannað þótti að vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda hafi brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Úrskurður


um kvörtun yfir innbroti í tölvupósthólf og eyðingu tölvupósta af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins og Þjóðskrár Íslands í máli nr. 2021122346:

I.
Málsmeðferð

Hinn 8. desember 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A], áður [...], (hér eftir kvartandi) yfir innbroti Tryggingastofnunar ríkisins og Þjóðskrár Íslands í tölvupósthólf hans og eyðingu á um 40 tölvupóstum er vörðuðu samskipti hans við framangreindar stofnanir í því skyni að eyða sönnunargögnum.

Persónuvernd bauð Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands að tjá sig um kvörtunina með bréfum, dags. 21. september 2022. Svör Þjóðskrár Íslands bárust með bréfi, dags. 12. október s.á, og svör Tryggingastofnunar ríkisins bárust með bréfi, dags. 3. nóvember s.á. Ekki var talin sérstök þörf á að veita kvartanda kost á að koma á framfæri athugasemdum við svör Tryggingastofnunar ríkisins eða Þjóðskrár Íslands.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

___________________

Ágreiningur er um hvort innbrot hafi átt sér stað í tölvupósthólf kvartanda og um 40 tölvupóstum hafi verið eytt er vörðuðu samskipti kvartanda við Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands.

Kvartandi telur að Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands hafi brotist inn í tölvupósthólf hans og eytt þar um 40 tölvupóstum er vörðuðu samskipti hans við stofnanirnar í því skyni að eyða sönnunargögnum.

Tryggingastofnun ríkisins hafnar alfarið ásökunum kvartanda um að starfsmenn stofnunarinnar hafi brotist inn í tölvupósthólf hans og eytt þar út tölvupóstum.

Þjóðskrá Íslands telur að enginn fótur sé fyrir kvörtun kvartanda og þeim ávirðingum sem þar koma fram er alfarið hafnað. Í svarbréfi Þjóðskrár Íslands er jafnframt vísað til þess að kvörtunin sé ekki rökstudd eða studd neinum gögnum, svo sem atburðalýsingu eða upplýsingum um tilteknar IP-tölur, notendareikninga og tímasetningar aðgangs. Ekkert slíkt hafi fylgt kvörtun kvartanda.

II.
Niðurstaða

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Kvartandi telur að Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands hafi brotist inn í tölvupósthólf hans og eytt þar um 40 tölvupóstum er vörðuðu samskipti hans við stofnanirnar í því skyni að eyða sönnunargögnum. Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands hafna hins vegar alfarið ásökunum kvartanda og telja að enginn fótur sé fyrir kvörtuninni.

Með vísan til þessa liggur ekki fyrir að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem brýtur gegn lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679. Þá telur Persónuvernd ekki tilefni til þess að stofnunin beiti frekari valdheimildum, sem henni eru fengnar í lögum nr. 90/2018, til þess að rannsaka það nánar.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Ósannað er að átt hafi sér stað vinnsla persónuupplýsinga um [A] hjá Tryggingastofnun ríkisins og Þjóðskrá Íslands sem braut gegn lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Persónuvernd, 8. nóvember 2022

Helga Sigríður Þórhallsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei