Úrlausnir

Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra

Mál nr. 2021051199

10.7.2023

Stjórnvöld mega ekki vinna með upplýsingar um refsiverða háttsemi einstaklinga nema það sé nauðsynlegt í þágu lögbundinna verkefna þeirra. Samkvæmt barnalögum ber öllum þeim aðilum sem sýslumaður leitar til að láta honum í té afrit af þeim gögnum sem sýslumaður telur nauðsynleg fyrir úrlausn máls. Í þessu tilfelli hafði sýslumaður talið þörf á að afla upplýsinga úr málaskrá kvartanda hjá lögreglu í tengslum við rannsókn máls er varðaði umgengni barns og hafði ríkislögreglustjóri afhent sýslumanni málaskrá kvartanda í heild sinni.

----

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við málsmeðferð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í umgengnismáli kvartanda hjá embættinu. Nánar tiltekið var kvartað yfir vinnslu embættisins við öflunar upplýsinga um kvartanda í málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra (LÖKE) og frekari vinnslu upplýsingana hjá embættinu sem og miðlun ríkislögreglustjóra á málaskrá kvartanda úr LÖKE til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að vinnsla Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum hafi samrýmst ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Miðlun ríkislögreglu á persónuupplýsingum hafi einnig samrýmst ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Úrskurður


um kvörtun yfir vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra í máli nr. 2021051199:

I.
Málsmeðferð
1.
Tildrög máls

Hinn 26. maí 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [B] lögmanni f.h. [A] (hér eftir kvartandi) yfir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við málsmeðferð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í umgengnismáli kvartanda hjá embættinu. Kvörtunin lýtur annars vegar að þeirri vinnslu embættisins að afla upplýsinga um kvartanda úr málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra (hér eftir LÖKE) og frekari vinnslu þeirra upplýsinga hjá embættinu og hins vegar að miðlun ríkislögreglustjóra á málaskrá kvartanda úr LÖKE til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Persónuvernd bauð Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra að tjá sig um kvörtunina með bréfum, dags. 23. mars 2022, og bárust svör ríkislögreglustjóra 29. apríl s.á. og svör sýslumannsins 19. maí s.á. Þá var kvartanda veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör sýslumannsins og ríkislögreglustjóra með bréfi, dags. 3. júní 2022, og bárust þær með tölvupósti 23. júlí s.á. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Meðferð málsins hefur tafist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.

2.
Sjónarmið kvartanda

Hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu lýtur kvörtunin að því að kvartandi hafi verið látinn skrifa undir samþykki fyrir því að upplýsinga yrði aflað úr málaskrá lögreglu. Hann hafi hins vegar ekki verið upplýstur um hvers konar gögn væri um að ræða eða hvaða reglur giltu um meðferð þeirra. Þá er einnig kvartað yfir því að Sýslumaðurinn hafi óskað eftir upplýsingum um kvartanda úr LÖKE frá ríkislögreglustjóra án þess að afmarka beiðnina og því fengið allar upplýsingar úr málaskrá kvartanda í heild sinni, eða um 30 ár aftur í tímann. Vísað er til þess að í málaskránni séu fjölmörg dæmi um mál sem ekki snerti umgengnismálið á nokkurn hátt. Þá nái hún til allra mála, sama hvort um sé að ræða mál sem hafi farið í ákærumeðferð, verið felld niður eða atvik sem kvartandi sjálfur hafi tilkynnt. Byggir kvartandi á því að ekki verði séð hvernig atvik sem orðið hafi í lífi hans allt að 17 árum fyrir fæðingu barns hans geti haft þýðingu í máli hans um umgengni við barnið hjá sýslumanni. Þá vísar kvartandi ennfremur til þess að sýslumannsembættið hafi afhent lögmönnum gagnaðila, eða gagnaðila sjálfum, málaskrá kvartanda úr LÖKE. Aðilar máls í umgengnismálum fái þannig nákvæmar upplýsingar um öll tilvik þar sem fyrrverandi maki hafi komið við sögu lögreglu áratugi aftur í tímann. Við það skapist hætta á að málsaðilar misnoti þær upplýsingar sem aflað sé við málsmeðferð sýslumanns, m.a. í umgengnismálum eða forsjármálum.

Hvað varðar þann hluta kvörtunarinnar er snýr að miðlun ríkislögreglustjóra á málaskrá kvartanda til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er kvartað yfir því að málaskráin hafi verið afhent í heild sinni, athugasemdalaust af hálfu ríkislögreglustjóra, án þess að mat hafi verið lagt á hvað teldist til nauðsynlegra gagna.

3.
Sjónarmið Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu er byggt á því að embættið hafi óskað eftir gögnum frá ríkislögreglustjóra á grundvelli 1. mgr. 72. gr. barnalaga nr. 76/2003. Í ákvæðinu komi fram að aðilum máls beri að afla þeirra gagna sem sýslumaður telji þörf á til úrlausnar máls og að sýslumaður geti aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefji, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísað er til þess að það hvíli rík rannsóknarskylda á sýslumanni og hann meti að eigin frumkvæði hvaða gagna og upplýsinga hann telji nauðsynlegt að afla við úrvinnslu máls. Í ákvæðinu sé ekki afmörkun á því hvers konar gögn sýslumanni sé heimilt að sækja á grundvelli þess. Þá er vísað til þess að ákvæði 72. gr. barnalaga hafi verið breytt með lögum nr. 61/2012 og í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpinu segi að tekið sé af skarið um að sýslumaður eigi rétt á að aðgangi að öllum þeim gögnum um aðila og börn þeirra sem hann telji nauðsynleg fyrir úrlausn máls með tilliti til hagsmuna barnsins. Jafnframt er byggt á því að sýslumanni beri að taka ákvarðanir byggðar á því sem barni sé fyrir bestu og það séu brýnir hagsmunir barns að sýslumaður geti rannsakað mál eins vel og hægt sé áður en tekin sé ákvörðun í máli þess. Þá fari það eftir eðli færslna úr málaskrá hve langt aftur í tímann þær verða taldar geta skipt máli. Í máli kvartanda hafi verið ljóst að nauðsyn væri á ítarlegri rannsókn af hálfu sýslumanns áður en ákvörðun yrði tekin, m.a. vegna upplýsinga sem komið höfðu fram á fyrri stigum málsins.

Varðandi afhendingu gagna máls er á það bent að báðir foreldrar barns séu aðilar máls hjá sýslumanni og eigi samkvæmt 75. gr. barnalaga og 15.-19. gr. stjórnsýslulaga rétt á að fá aðgang að gögnum málsins, með þröngum undantekningum. Að öðrum kosti geti aðili máls ekki nýtt andmælarétt sinn og upplýst um málið af sinni hálfu. Í svarbréfi sýslumanns er tekið fram að ekki hafi borist beiðni frá móður um afhendingu þessara gagna og þar leiðandi hafi þau ekki verið afhent henni.

4.
Sjónarmið ríkislögreglustjóra

Byggt er á því að miðlun ríkislögreglustjóra á málaskrá kvartanda til sýslumannsins hafi byggst á 72. gr. barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins beri öllum þeim sem sýslumaður leiti til að láta honum endurgjaldslaust í té afrit af gögnum sem hann telji nauðsynleg fyrir úrlausn máls. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum sé áréttað að um sé að ræða afrit af gögnum sem þegar liggi fyrir en ákvæðið feli ekki í sér skyldu annarra til að meta mál sérstaklega eða útbúa ný gögn. Með vísan til þeirra athugasemda bendir ríkislögreglustjóri á að erfitt sé að sjá hvernig það samræmist ákvæðinu að ríkislögreglustjóri leggi mat á það hvaða gögn séu nauðsynleg sýslumanni. Þar sem ríkislögreglustjóri hafi ekki málsgögn eða málsástæður og engar forsendur í þeim málum sem séu til meðferðar hjá sýslumanni sé embættið ekki í neinni aðstöðu til þess að meta hvort afmá eigi tiltekin mál eða tiltekna tegund mála af málaskráryfirliti. Sama gildi um forsendur embættisins til að meta hversu langt aftur upplýsingarnar eigi að ná. Almennt óski sýslumaður eftir yfirliti yfir öll mál einstaklings vegna máls sem sé til meðferðar hjá embættinu til að geta lagt mat á hvort frekari gögn séu talin nauðsynleg og ef svo er sé óskað eftir þeim sérstaklega. Ríkislögreglustjóri hafi því lagt það til grundvallar að afmá ekki upplýsingar sem mögulega gætu skipt máli fyrir meðferð máls hjá sýslumanni. Í svarbréfi ríkislögreglustjóra er á það bent að verklagið sem viðhaft sé í dag sé almennt með þeim hætti að sýslumaður afmarki beiðni sína við ákveðið tímabil og ríkislögreglustjóri fari að fullu eftir mati sýslumanns í þeim efnum, enda sé það eingöngu sýslumaður sem sé í þeirri aðstöðu að meta hvaða upplýsingar séu honum nauðsynlegar.

II.
Forsendur og niðurstaða
1.
Lagaumhverfi

Mál þetta lýtur að öflun, vinnslu og miðlun persónuupplýsinga um kvartanda. Varðar það því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu telst vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem fólst í að afla upplýsinga um kvartanda frá ríkislögreglustjóra og frekari vinnslu þeirra við úrvinnslu máls hjá embættinu. Ríkislögreglustjóri telst vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem fólst í að miðla persónuupplýsingum um kvartanda til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að beiðni þess síðarnefnda, sbr. lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að falla undir eitthvert af heimildarákvæðum 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Má þar nefna að vinna má með persónuupplýsingar ef vinnslan er byggð á samþykki hins skráða, sbr. 1. tölul. laganna og a-lið reglugerðarákvæðisins. Stjórnvöld geta hins vegar almennt ekki byggt heimild til vinnslu persónuupplýsinga á samþykki þegar þau starfa innan valdheimilda sinna þar sem þá er til staðar valdaójafnvægi á milli ábyrgðaraðila og hins skráða og því ekki tryggt að samþykki sé veitt af fúsum og frjálsum vilja.

Verður því ekki litið svo á að samþykki það er undirritað var af kvartanda hjá sýslumanninum til upplýsingaöflunar hafi verið eiginlegt samþykki í skilningi persónuverndarlaga, sem uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í lögunum, og verður því ekki fallist á að unnt hafi verið að styðja umrædda vinnslu persónuupplýsinga við þá heimild. Hins vegar er heimilt að vinna persónuupplýsingar ef það er nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið 1. mgr. reglugerðarákvæðisins, eða ef það er nauðsynlegt vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með, sbr. 5. tölul. lagaákvæðisins og e-lið reglugerðarákvæðisins.

Að auki verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 1. mgr. 11. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt b-lið 3. tölul. 3. gr. laganna teljast heilsufarsupplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar sem varða líkamlegt eða andlegt heilbrigði einstaklings vera viðkvæmar, en af kvörtun verður ráðið að í málaskrá kvartanda séu skráðar upplýsingar um atvik tengd veikindum eða slysum. Eins og hér háttar til kemur þá einkum til skoðunar 6. tölul. 1. mgr. 11. gr., þess efnis að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að unnt sé að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur, sbr. f-lið 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2018 er kveðið á um að stjórnvöld megi ekki vinna með upplýsingar um refsiverða háttsemi einstaklinga nema það sé nauðsynlegt í þágu lögbundinna verkefna þeirra. Þá er í 2. mgr. kveðið á um að upplýsingum samkvæmt 1. mgr. megi ekki miðla nema að uppfylltu einhverju þeirra fjögurra skilyrða sem tilgreind eru í ákvæðinu. Nánar tiltekið má ekki miðla upplýsingunum nema því aðeins að hinn skráði hafi gefið afdráttarlaust samþykki sitt fyrir miðluninni, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 12. gr., miðlunin sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna hins opinbera eða einkaaðila sem auðsjáanlega vega þyngra en þeir hagsmunir sem eru af leynd um upplýsingarnar, þar á meðal hagsmunir hins skráða, sbr. 2. tölul., miðlunin sé nauðsynleg í þágu lögbundinna verkefna viðkomandi stjórnvalds eða til að unnt sé að taka stjórnvaldsákvörðun, sbr. 3. tölul., eða miðlunin sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna sem auðsjáanlega vega þyngra en grundvallarréttindi og frelsi hins skráða, sbr. 4. tölul.

Auk heimildar samkvæmt framangreindu verður vinnsla persónuupplýsinga að samrýmast öllum meginreglum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Meginreglurnar kveða meðal annars á um að persónuupplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins og a-lið reglugerðarákvæðisins, og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tölul. lagaákvæðisins og c-lið reglugerðarákvæðisins.

Við mat á heimild til vinnslu verður einnig að líta til ákvæða í öðrum lögum sem við eiga hverju sinni. Í 1. mgr. 72. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir að aðilum máls beri að afla þeirra gagna sem sýslumaður telur þörf á til úrlausnar máls og að sýslumaður geti aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvæði 72. gr. var breytt með lögum nr. 61/2012 og í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum segir að tekið sé af skarið um að sýslumaður eigi rétt á að aðgangi að öllum þeim gögnum um aðila og börn þeirra sem hann telji nauðsynleg fyrir úrlausn máls með tilliti til hagsmuna barnsins. Nauðsynlegt þyki að tryggja sýslumanni aðgang að frekari gögnum en gert hafi verið ráð fyrir í þágildandi lögum. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að öllum þeim sem sýslumaður leiti til beri að láta honum endurgjaldslaust í té afrit af gögnum sem hann telji nauðsynleg fyrir úrlausn máls. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögunum er áréttað að um sé að ræða afrit af gögnum sem þegar liggi fyrir en ákvæðið feli ekki í sér skyldu annarra til að meta mál sérstaklega eða útbúa ný gögn.

2. 
Lögmæti vinnslu
2.1 Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, sbr. framangreint, er ljóst að á sýslumanni hvílir rík rannsóknarskylda þegar kemur að úrvinnslu mála hjá embættinu, en sú úrvinnsla sem hér um ræðir varðar hagsmuni barns. Þá er jafnframt ljóst að heimilt er að vinna persónuupplýsingar ef það er nauðsynlegt við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með, sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og e-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá er stjórnvöldum heimilt að vinna með upplýsingar um refsiverða háttsemi sé það nauðsynlegt í þágu lögbundinna verkefna þeirra, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2018.

Um fræðsluskyldu, gagnsæi og rétt hins skráða til upplýsinga er fjallað í 17. gr. laga nr. 90/2018. Samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins á hinn skráði rétt til upplýsinga um vinnslu, hvort sem persónuupplýsinga er aflað hjá honum sjálfum eða ekki, samkvæmt fyrirmælum 13.-15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þegar persónuupplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða sjálfum ber almennt að veita honum fræðslu í samræmi við 14. gr. reglugerðarinnar. Sú fræðsluskylda á þó ekki við ef skýrt er mælt fyrir um öflun eða miðlun upplýsinganna í lögum, sbr. c.-lið 5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Af hinni almennu gagnsæiskröfu 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. jafnframt a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, getur þó leitt að veita þurfi upplýsingar um vinnslu þegar þeim tilvikum sem falla undir 13. og 14. gr. reglugerðarinnar sleppir. Eins og fram kemur í 60. lið formálsorða reglugerðarinnar felst í umræddri meginreglu krafa um að skráðum einstaklingi sé tilkynnt um að vinnsluaðgerð standi yfir og hver sé tilgangur hennar. Þá er vísað til þess að ábyrgðaraðili ætti að veita hinum skráða frekari upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að tryggja að gætt sé sanngirni og gagnsæis við vinnslu persónuupplýsinga, með tilliti til þeirra sérstöku aðstæðna og samhengis sem eiga við vinnslu þeirra. Þó að ekki hafi þurft samþykki kvartanda fyrir vinnslu persónuupplýsinga hjá sýslumannsembættinu, sbr. fyrri umfjöllun, verður að mati Persónuverndar talið að upplýsa hafi átt kvartanda um fyrirhugaða öflun gagna og vinnslu þeirra svo að hún samrýmdist sanngirnis- og gagnsæiskröfu 1. tölul. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 14. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Af fyrirliggjandi gögnum í málinu verður ráðið að í eyðublaði, sem kvartandi ritaði undir hjá sýslumanni og ber heitið „Samþykki fyrir öflun upplýsinga“, komi fram að upplýsinga verði aflað frá tilteknum aðilum vegna vinnslu við umsögn er varði umgengnismál, m.a. upplýsinga frá ríkislögreglustjóra úr málaskrá lögreglu. Sem fyrr segir er ekki að mati Persónuverndar um að ræða eiginlegt samþykki fyrir vinnslu upplýsinga, heldur verður litið svo á að hér sé í raun um að ræða fræðslu til kvartanda um fyrirhugaða öflun upplýsinga. Þrátt fyrir að yfirskrift eyðublaðsins sé misvísandi verður ekki annað séð en að í því komi fram hvaða gagna verði aflað um kvartanda og í hvaða tilgangi. Persónuvernd beinir þeim tilmælum til sýslumannsembættisins að endurskoða heiti eyðublaðsins með hliðsjón af framangreindu.

Kemur þá til skoðunar meðalhófsregla 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018. Kvartað er yfir því að aflað hafi verið yfirlits yfir málaskrá kvartanda í heild sinni án þess að beiðnin hafi verið afmörkuð frekar, svo sem við tegund mála eða tímabil. Ljóst er að 72. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur að geyma víðtæka heimild sýslumanns til þess að kalla eftir gögnum ef hann telur það nauðsynlegt við úrlausn máls. Engu að síður ber sýslumanni við úrlausn máls að gæta að öllum reglum stjórnsýslulaga, þ. á m. meðalhófs. Að virtri heimild sýslumanns samkvæmt 72. gr. barnalaga og málsgögnum að öðru leyti er það mat Persónuverndar að eins og hér háttar til sé ekki tilefni til að endurskoða það mat Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að nauðsynlegt hafi verið að óska eftir yfirliti yfir öll mál þar sem kvartandi var skráður í LÖKE.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd þá vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda hjá Sýslumanninum í Reykjavík, sem kvörtun þessi tekur til, hafa stuðst við heimild samkvæmt 5. tölul. 9. gr. og 1. mgr. 12. gr. laga nr. 90/2018. Þá verður ekki séð að brotið hafi verið gegn grunnkröfum 1. mgr. 8. gr. sömu laga, né heldur öðrum ákvæðum laganna, og telst vinnslan því hafa samrýmst þeim.

2.2 Vinnsla persónuupplýsinga af hálfu ríkislögreglustjóra

Í því máli sem hér er til úrlausnar liggur fyrir að ríkislögreglustjóri afhenti Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu afrit af yfirliti yfir öll mál þar sem kvartandi var skráður í LÖKE. Yfirlitið sýnir málsnúmer, stutta lýsingu á því hvað brot eða atvik varðaði, tengsl aðila við málið, stöðu málsins í LÖKE, stöðu máls í málaskrá ákæruvaldsins ef það fór í ákærumeðferð, dagsetningu ferils, dagsetningu áætlaðs brots eða atviks, vettvang og hjá hvaða embætti málið var síðast til meðferðar.

Samkvæmt 1. og 3. mgr. 72. gr. barnalaga, nr. 76/2006, ber ríkislögreglustjóra að láta sýslumanni í té afrit af gögnum sem sýslumaður telur nauðsynleg fyrir úrlausn máls. Ljóst er að ákvæðið hefur að geyma víðtæka heimild sýslumanns til að krefjast upplýsinga og gagna. Með vísan til þess að um var að ræða tiltekið mál sem var til meðferðar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hvíldi lagaskylda á ríkislögreglustjóra að afhenda embættinu gögn í samræmi við beiðni þar að lútandi. Mat á því hvaða gögn væri nauðsynlegt að afhenda lá hjá sýslumanni en að mati Persónuverndar verður sú skylda ekki lögð á ríkislögreglustjóra enda hefur ríkislögreglustjóri ekki forsendur til að framkvæma slíkt mat. Þá er jafnframt til þess að líta að eingöngu var afhent yfirlit á kennitölu kvartanda úr málaskrá sem hafði að geyma takmarkaðar upplýsingar, en sýslumaður þarf að óska sérstaklega eftir tilteknum færslum ef hann metur það nauðsynlegt fyrir úrvinnslu máls.

Líkt og fram kemur í kafla II.2. er fjallað um fræðsluskyldu, gagnsæi og rétt hins skráða til upplýsinga í 17. gr. laga nr. 90/2018. Samkvæmt 2. tölul. ákvæðisins á hinn skráði rétt til upplýsinga um vinnslu, hvort sem persónuupplýsinga er aflað hjá honum sjálfum eða ekki, samkvæmt fyrirmælum 13.-15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þegar persónuupplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða ber almennt að veita honum fræðslu í samræmi við 14. gr. reglugerðarinnar. Þannig ber ábyrgðaraðila, sem hyggst vinna persónuupplýsingar frekar í öðrum tilgangi en þeim sem lá að baki söfnun þeirra, veita hinum skráða upplýsingar um hinn nýja tilgang, ásamt öðru, áður en vinnslan hefst, sbr. 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Í 19. gr. laga nr. 90/2018 kemur hins vegar fram sú undanþága að upplýsingaskyldan samkvæmt 4. gr. 14. gr. reglugerðarinnar gildi ekki þegar stjórnvald miðlar persónuupplýsingum til annars stjórnvalds í þágu lögbundins hlutverks við framkvæmd laga og upplýsingum er miðlað aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til að rækja lagaskyldu stjórnvalds.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða Persónuverndar að afhending ríkislögreglustjóra á yfirliti yfir öll mál þar sem kvartandi var skráður í LÖKE til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hafi samrýmst lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum um [A] samrýmdist ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679, um vinnsluheimild, gagnsæi og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga.

Miðlun ríkislögreglustjóra á persónuupplýsingum um [A] samrýmdist ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679, um vinnsluheimild, gagnsæi og meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga.

Persónuvernd, 10. júlí 2023

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                            Edda Þuríður Hauksdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei