Úrlausnir

Úrskurður um skráningu umdeildrar kröfu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf.

Mál nr. 2017/1620

25.1.2019

Kvartað var yfir að á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. hefðu verið færðar upplýsingar um nauðungarsölubeiðni vegna kröfu sem til umfjöllunar var hjá dómstólum. Í úrskurði Persónuverndar var litið til banns við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir samkvæmt starfsleyfi til að halda skrána. Var litið svo á að á grundvelli þessa banns hefði fyrirtækinu borið að eyða upplýsingunum af skránni þegar fyrir lá að efnislegur ágreiningur um gildi kröfunnar biði dómsúrlausnar. Ekki hefði því verið farið að lögum við umrædda vinnslu frá því að vitneskja um ágreininginn barst fyrirtækinu og þar til dómur Landsréttar féll.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 20. desember 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/1620:

 

I.

Málsmeðferð

1.

Kvörtun

Persónuvernd hefur borist kvörtun, dags. 9. nóvember 2017, frá [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“) yfir skráningu upplýsinga um beiðni Landsbankans hf. um nauðungarsölu á fasteign sem hann er meðeigandi að á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. Segir að nauðungarsölubeiðnin hafi byggst á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn […] 2017 í máli nr. […] um ógildingu á veðskuldabréfi þar sem frumrit þess fannst ekki, en samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heimilar slíkur ógildingardómur dómhafa að ráðstafa því sem skjalið hljóðar um eins og hann hefði skjalið undir höndum. Þá segir að hinn […] 2017 hafi lögmaður kvartanda farið fram á endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi, m.a. þar sem stefnan í málinu hefði ekki verið löglega birt. Fallist hafi verið á endurupptökubeiðnina hinn […] 2017. Nauðungaruppboði, sem auglýst hafi verið að yrði hinn […] s.á., hafi í kjölfar þess verið frestað til […] s.á. og aftur til […] s.á., en embætti sýslumanns hafi hins vegar ekki fallist á niðurfellingu málsins. Sama dag og fyrri frestunin á uppboðinu rann út hafi kvartandi mótmælt fyrrnefndri skráningu hjá Creditinfo Lánstrausti hf. með vísan til 3. mgr. greinar 2.1 í þágildandi leyfi fyrirtækisins til að halda umrædda skrá, dags. 28. febrúar 2017 (mál nr. 2016/1626), sbr. sömu grein í núgildandi starfsleyfi, dags. 29. desember s.á. (mál nr. 2017/1541). Hafi mótmælin byggst á því að um ræddi umdeilda kröfu samkvæmt leyfisákvæðinu og að ágreiningur um hana hefði ekki verið leystur með aðfararhæfum dómi. Eftir nánari tölvupóstsamskipti hafi svar borist frá Creditinfo Lánstrausti hf. hinn 6. nóvember 2017, þess efnis að kröfu um afskráningu nauðungarsölubeiðninnar væri hafnað, ásamt því að kvartanda hafi verið leiðbeint um rétt sinn til að kæra þá synjun til Persónuverndar innan þriggja mánaða. Í framhaldi af þessu segir meðal annars:

„Kvartandi telur að miðlun upplýsinga um hina meintu skuld sem hér hefur verið lýst sé óheimil þar sem fyrir liggur að hún er umdeild og óstaðfest. Jafnframt telur kvartandi að miðlun upplýsinga um nauðungarsölubeiðni á grundvelli hins umdeilda skuldabréfs sé óheimil enda liggur einnig fyrir að réttmæti þeirrar beiðni er umdeild. Gildir þá einu þó sýslumaður hafi neitað að taka afstöðu til kröfu kvartanda um niðurfellingu nauðungarsölumálsins, enda er það liður í þeim ágreiningi sem ríkir um hina meintu skuld og þá nauðungarsöluheimild sem hún er sögð byggjast á. Hafi skráning málsins í vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. verið heimil í öndverðu er að minnsta kosti ljóst að frá og með 1. nóvember 2017 er slík heimild ekki fyrir hendi. Kvartandi krefst þess því að Creditinfo Lánstraust hf. eyði hinni umdeildu skráningu og fer þess á leit að Persónuvernd úrskurði um þá kröfu.“

2.

Athugasemdir Creditinfo Lánstrausts hf.

Með bréfi, dags. 20. desember 2017, var Creditinfo Lánstrausti hf. veitt færi á að tjá sig um framkomna kvörtun. Fyrirtækið svaraði með bréfi, dags. 9. janúar 2018. Þar segir að hinn 1. nóvember 2017 hafi kvartandi gert athugasemd við færslu upplýsinga um umrædda kröfu á vanskilaskrá fyrirtækisins með vísan til þess að krafan væri greidd. Hafi réttmæti athugasemdar kvartanda verið athugað og þar sem þær upplýsingar hafi fengist frá umboðsmanni kröfuhafa að um ræddi kröfu í vanskilum og að nauðungarsala hefði ekki verið afturkölluð hafi afskráningu færslu um kröfuna verið hafnað. Kvartandi hafi þá óskað afskráningar á grundvelli þess að um ræddi umdeilda kröfu. Í framhaldi af þessu er vísað til þess að samkvæmt fyrrnefndu starfsleyfisákvæði er vinnsla upplýsinga um umdeildar kröfur óheimil. Þá segir:

„Í fylgiskjali með starfsleyfi dags. 28. febrúar 2017 (mál 2016/1626) er fjallað um hvað telst vera umdeild skuld í skilningi ákvæða í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. Í þeirri umfjöllun er bent á úrskurði Persónuverndar dags. 24. febrúar og 4. október 2016 (mál nr. 2015/1519 og 2016/303). Þar segir að í báðum úrskurðunum hafi verið fjallað um hvort í auglýsingu sýslumanns um nauðungarsölu samkvæmt 19. gr. laga nr. 90/2001 um slíka sölu, birtar eftir athugun á beiðninni og grundvelli hennar samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sömu laga, fælist réttargjörð sem staðfesti kröfuna. Þá segir ennfremur að litið hafi verið til þess að samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laganna skulu mótmæli af hendi gerðarþola að jafnaði ekki stöðva nauðungarsölu nema þau varði atriði sem sýslumanni bæri að gæta af sjálfsdáðum eða sýslumaður teldi annars valda því að óvíst væri að gerðarbeiðandi ætti rétt á að nauðungarsala færi fram. Þá segir ennfremur í umfjölluninni að í ákvæðinu segi að taki sýslumaður ekki til greina mótmæli gerðarþola stöðvi það ekki frekari aðgerðir að hlutaðeigandi lýsi því yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm, sbr. ákvæði XIV. kafla laganna. Í umfjöllun sinni vísar Persónuvernd til þess að samkvæmt athugasemdum við 2. mgr. 22. gr. í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/1991, gefi orðalag ákvæðisins líkindi fyrir niðurstöðu gerðarbeiðanda í hag, sem og að mótmæli gerðarþola gegn efnislegu réttmæti kröfu verði að vera studd verulega haldgóðum rökum til þess að sýslumanni sé rétt að stöðva frekari nauðungarsölu vegna þeirra.“

Í framhaldi af þessu er í bréfi Creditinfo Lánstrausts hf. meðal annars vísað til þeirra orða í umræddum úrskurðum Persónuverndar að þegar litið sé til framangreinds telji stofnunin þá ákvörðun sýslumanns að auglýsa nauðungarsölu, sem tekin sé eftir athugun hans samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/1991, fela í sér réttargerð sem staðfesti skuld í skilningi fyrrnefnds starfsleyfisákvæðis. Jafnframt segi hins vegar í úrskurðunum að fallist sýslumaður á mótmæli gerðarþola, t.d. á grundvelli þess að hann telji fyrirliggjandi réttarágreining eiga að hamla gerðinni, verði að líta svo á að ekki sé lengur í gildi réttargerð samkvæmt starfsleyfisákvæðinu. Af því leiði þá jafnframt samkvæmt úrskurðunum að hafi verið um að ræða umdeilda skuld, sem ekki mátti færa á skrá fram að birtingu auglýsingar um nauðungarsölubeiðni, beri að fjarlægja upplýsingar um beiðnina af umræddri vanskilaskrá.

Vísað er til þess í bréfi Creditinfo Lánstrausts hf. að embætti sýslumanns hafi auglýst fyrirtöku nauðungarsölu á eign kvartanda. Segir að fyrirtækið hafi því samkvæmt starfsleyfi sínu heimild til að skrá og miðla þeim opinberu upplýsingum samkvæmt grein 2.2.2 í starfsleyfi þess. Einnig segir að hvorki umboðsmaður kröfuhafa né sýslumaður hafi staðfest afturköllun nauðungarsölunnar og að samkvæmt gögnum málsins hafi sýslumaður ekki tekið til greina mótmæli kvartanda við framkvæmd hennar og ekki stöðvað hana. Verði því að telja að í þeirri ákvörðun sýslumanns að auglýsa nauðungarsölu, sem og að framhalda gerðinni, felist réttargjörð í skilningi 3. mgr. greinar 2.1 í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. og hafi fyrirtækinu því ekki verið skylt að afskrá færslu um nauðungarsöluna að beiðni kvartanda. Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni kröfuhafa hafi héraðsdómur verið kveðinn upp hinn […] 2017 sem ógilt hafi glatað veðskuldabréf útgefið af kvartanda til kröfuhafa og að nauðungarsölu verði framhaldið hinn […] 2018.

 

3.

Athugasemdir kvartanda

Með bréfi, dags. 16. janúar 2018, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Creditinfo Lánstrausts hf. Hann svaraði með bréfi, dags. 31. janúar s.á. Þar er því mótmælt að upphafleg andmæli hans við skráningu upplýsinga um umrædda kröfu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. hafi byggst á því að krafan hefði verið greidd heldur hafi frá upphafi verið vísað til þess að hún væri umdeild. Einnig segir að það sé fyrirliggjandi staðreynd að um ræði umdeilda kröfu, en til meðferðar sé ágreiningur um hvort hlutaðeigandi kröfuhafi eigi yfir höfuð nokkra kröfu á hendur kvartanda. Vísað er til þess í því sambandi að héraðsdómi, sem ógilt hafi veðskuldabréf útgefið af kvartanda til kröfuhafa, hafi verið áfrýjað til Landsréttar og krafan sé því enn umdeild. Að auki segir:

„Þá vekur athygli að varðandi héraðsdóm í ágreiningsmálinu byggi kvörtunarþoli á „upplýsingum frá umboðsmanni kröfuhafa“ sem hann heldur því fram að hafi borist sér án þess að styðja það neinum gögnum. Er þetta athyglisvert í ljósi þess að kvörtunarþoli hefur ekki gert neinn reka að því að afla sambærilegra upplýsinga frá kvartanda um framgang dómsmálsins eða nokkuð annað sem að máli þessu snýr. Kvartandi telur það háttalag sýna að kvörtunarþoli gæti alls ekki jafnræðis milli kröfuhafa og meintra skuldara, heldur stundi í raun einhliða hagsmunagæslu fyrir meintan kröfuhafa.“

Hvað varðar tilvísun Creditinfo Lánstrausts hf. til úrskurða, sem kveðnir hafa verið upp hjá Persónuvernd, segir að málavextir hafi þar verið allt aðrir en í því máli sem hér um ræðir. Í úrskurði í máli nr. 2015/1519 hafi ágreiningurinn snúist um endurútreikning á gengistryggðu láni og hafi þar ekki verið um að ræða beiðni um nauðungarsölu. Þá segir varðandi úrskurð í máli nr. 2016/303, sem kvartandi hafi sjálfur átt aðild að, að þar hafi ekki legið fyrir mikilvægar upplýsingar um málsgrundvöll sem að mati kvartanda hafi verulega þýðingu. Kemur fram að málið hafi varðað kröfu vegna sama veðskuldabréfs og hér um ræðir. Segir í því sambandi að hinn meinti kröfuhafi hafi ekki undir höndum frumrit viðkomandi skuldabréfs, auk þess sem önnur gögn bendi til þess að það kunni að skýrast af því að óvíst sé að hann eigi yfir höfuð lögmætt tilkall til þess eða kröfuréttinda sem kunni að byggjast á því. Um það súist sá ágreiningur sem til úrlausnar sé í umræddu dómsmáli sem hafi nú verið áfrýjað til Landsréttar. Þar með sé ljóst að ekki sé genginn endanlegur dómur um hvort kröfuhafinn eigi yfir höfuð hina meintu kröfu sem málið snúist um. Þá segir meðal annars:

„Í svarbréfi kvörtunarþola segir m.a. að „samkvæmt gögnum málsins tók sýslumaður ekki til greina mótmæli kvartanda við framkvæmd nauðungarsölunnar og stöðvaði ekki framkvæmd hennar.“ Þessari fullyrðingu er harðlega mótmælt þar sem hún rangfærir mikilvægar staðreyndir málsins. Hið rétta er að kvartandi beindi fyrrnefndum mótmælum til embættis sýslumanns sama dag og fyrirhugað var að taka beiðnina fyrir þar (sjá meðfylgjandi tölvupóst frá fullnustudeild sýslumannsembættisins). Þeirri fyrirtöku var frestað eins og hefur ítrekað verið gert frá því að nauðungarsölubeiðnin kom fram, einmitt vegna þess að ágreiningur um sjálfan grundvöll hennar er til úrlausnar fyrir dómstólum. Fyrir vikið hefur sýslumaður aldrei tekið afstöðu til mótmælanna þar sem málið hefur aldrei verið tekið efnislega fyrir af hálfu embættisins og er þessum röksemdum kvörtunarþola því hafnað.“

Tekið er fram að verði niðurstaðan af umræddum málarekstri á þá leið að kröfuhafi eigi í raun ekki umrædda kröfu muni hann jafnframt ekki geta krafist nauðungarsölu á veðandlaginu sem krafan sé tryggð með. Af því leiði að ekki sé aðeins sjálf krafan umdeild heldur einnig hvort hún sé yfir höfuð til staðar og hvort hún geti þar með veitt heimild til þeirrar nauðungarsölubeiðni sem skráning um hana á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. byggist á. Þar sem þessi ágreiningur hafi verið borinn undir dómstóla sé allur grundvöllur nauðungarsölumálsins umdeildur.

Að auki er vísað til grunnreglunnar um áreiðanleika persónuupplýsinga samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, 25. gr. sömu laga um leiðréttingu og eyðingu rangra og villandi persónuupplýsinga, sem og 1. mgr. 28. gr. laganna um andmælarétt hins skráða. Loks segir:

„Eins og framangreindar staðreyndir og gögn málsins bera með sér getur ekki leikið neinn vafi á því að sú krafa sem málið lýtur að er umdeild. Tilvísanir kvörtunarþola til formreglna laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 breyta ekki efnislegum staðreyndum málsins og ekki heldur að sýslumaður hafi forðast að taka afstöðu til ágreinings um atriði sem eru til úrlausnar fyrir dómstólum. Kvartandi ítrekar því þá kröfu sína að úrskurðað verði um óréttmæti og afmáningu hinnar umrættu skráningar.“

 

4.

Dómur Landsréttar

Fyrir liggur að hinn […] kvað Landsréttur upp dóm í máli nr. […] þar sem staðfest var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að ógilda umrætt skuldabréf.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Mál þetta varðar kvörtun, dags. 9. nóvember 2017, og lýtur að atvikum sem gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þann 15. júlí 2018. Er því hér byggt á ákvæðum eldri laga, nr. 77/2000, en ekki er um efnislegar breytingar að ræða í lögum nr. 90/2018 á þeim reglum laganna sem hér reynir á.

 

2.

Gildissvið – Ábyrgðaraðili að vinnslu

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Creditinfo Lánstraust hf. vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

3.

Niðurstaða

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hefur verið litið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti meðal annars átt sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar, þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, er söfnun og skráning slíkra upplýsinga um einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án leyfis Persónuverndar. Tekið er fram í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að handhafa slíks leyfis, sem nefndur er fjárhagsupplýsingastofa, sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.

Creditinfo Lánstraust hf. hefur haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli leyfa samkvæmt reglugerð nr. 246/2001, en þegar atvik máls þessa áttu sér stað í var í gildi slíkt leyfi til handa fyrirtækinu, dags. 28. febrúar 2017 (mál nr. 2016/1626), og síðar núgildandi leyfi, dags. 29. desember s.á. (mál nr. 2017/1541). Samkvæmt 2. mgr. greinar 2.1 í leyfunum er heimilt að vinna með upplýsingar sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum, en í máli þessu ræðir um slíkar upplýsingar, þ.e. um nauðungarsölubeiðni auglýsta af sýslumanni í samræmi við 19. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá segir meðal annars í 3. mgr. greinar 2.1 í leyfunum:

„Óheimil er vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir. Það á við ef skuldari hefur sannanlega komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og skuldin hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu. Fallist sýslumaður, að tekinni slíkri ákvörðun, á andmæli skuldara þannig að fullnustugerð nái ekki fram að ganga telst skuldin aftur vera umdeild.“

Fyrir liggur að hinn […] 2017 fór kvartandi fram á endurupptöku dóms sem krafa sú sem um ræðir í máli þessu var grundvölluð á. Líta ber svo á að í þeirri beiðni hafi falist andmæli við skuld sem fullnægi kröfum framangreinds leyfisákvæðis. Auk þess liggur fyrir að hinn 8. maí 2017 var fallist á endurupptökubeiðnina. Af 1. og 2. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiðir að eldri dómur í enduruppteknu máli telst aðfararhæfur nema sérstaklega sé úrskurðað um annað að kröfu stefnda. Ekki liggur fyrir að slík krafa hafi verið gerð af hálfu kvartanda. Samkvæmt tilvitnuðu starfsleyfisákvæði nægir hins vegar ekki að dómur sé aðfararhæfur til að krafa geti ekki talist umdeild heldur verður dómurinn jafnframt að fela í sér staðfestingu á kröfunni. Starfsleyfisákvæðið ber að túlka í ljósi þess markmiðs laga nr. 77/2000 að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Þegar litið er til þessa telur Persónuvernd dóm, sem ekki felur í sér endanlega úrlausn í dómsmáli eða sem sætt getur endurskoðun, ekki geta falið í sér staðfestingu á skuld í skilningi starfsleyfisákvæðisins. Á það jafnt við um dóm í máli sem fyrir liggur að verði endurupptekið, sem og dóm sem enn er unnt að áfrýja, en fyrir liggur að dómi í enduruppteknu máli, uppkveðnum […] 2017, var áfrýjað til Landsréttar.

Samkvæmt tilvitnuðu starfsleyfisákvæði telst ekki aðeins aðfararhæfur dómur heldur einnig aðfararhæf ákvörðun sýslumanns geta staðfest skuld þannig að krafa, sem andmælt hefur verið í skilningi ákvæðisins, teljist ekki vera umdeild. Fyrir liggur að embætti sýslumanns auglýsti að hinn […] 2017 færi fram nauðungarsala vegna umræddrar kröfu. Ber að líta á ákvörðun um slíka auglýsingu sem aðfararhæfa ákvörðun sýslumanns samkvæmt starfsleyfisákvæðinu. Með vísan til fyrrnefnds markmiðsákvæðis 1. mgr. 1. gr. laga nr. 77/2000, telst slík ákvörðun hins vegar ekki jafnframt fela í sér staðfestingu á kröfu ef höfðað hefur verið dómsmál þar sem komið getur til endurskoðunar kröfunnar. Tekið skal fram í þessu sambandi að sú aðstaða var ekki uppi í máli því sem lauk með úrskurði Persónuverndar, dags. 4. október 2016 (mál nr. 2016/303), og vísað er til í skýringum Creditinfo Lánstrausts hf. Þá skal að öðru leyti tekið fram að umfjöllun fyrirtækisins um fyrri úrskurði Persónuverndar um umdeildar kröfur tekur til ákvæða í eldri starfsleyfum sem tilgreindu ekki slíkar kröfur sem staðfestar hefðu verið með „ákvörðun sýslumanns“ heldur aðeins kröfur sem staðfestar hefðu verið með „réttargerð“ án nánari tilgreiningar. Rökstuðningur í úrskurðunum mótaðist af því orðalagi og á ekki lengur við í ljósi hins skýrara orðalags sem nú er viðhaft.

Í gögnum málsins kemur fram að kvartandi mótmælti umræddri skráningu við Creditinfo Lánstraust hf. hinn […] 2017, en telja verður bann umrædds starfsleyfisákvæðis við vinnslu upplýsinga um umdeildar skuldir virkjast við það að slík mótmæli berist fyrirtækinu. Með vísan til þess og annars framangreinds er niðurstaða Persónuverndar sú að óheimilt hafi verið að hafa upplýsingar um umrædda kröfu á vanskilaskrá fyrirtækisins frá þeim degi til […] 2018 þegar kveðinn var upp dómur Landsréttar um ógildingu skuldabréfs vegna kröfunnar og heimild til kröfuhafa að ráðstafa því sem skjalið hljóðar um eins og hann hefði hið glataða frumrit þess undir höndum.

Mál þetta hefur tafist vegna mikilla anna Persónuverndar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Óheimilt var að hafa upplýsingar um beiðni um nauðungarsölu vegna kröfu á hendur [A], sem ákvörðuð var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn […] 2017 í máli nr. […], á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. frá […] 2017 til […] 2018.Var efnið hjálplegt? Nei