Úrlausnir

Úrskurður um hljóðupptöku á veitingastaðnum Klaustri

Mál nr. 2018/1741

23.5.2019

Kvartað var yfir leynilegri hljóðupptöku á samtali alþingismanna á veitingastað. Fjallað er um málið í ljósi meðal annars undantekningar frá gildissviði persónuverndarlaga vegna fréttamennsku sem samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins tekur ekki eingöngu til fjölmiðla sem slíkra, en sá einstaklingur sem tók upp samtalið er ekki starfsmaður fjölmiðils. Jafnframt er hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi grunnreglunnar um friðhelgi einkalífs sé ekki hægt að skýra undantekninguna svo að undir hana geti fallið slík leynileg upptaka og um ræðir í málinu og að hún hafi því brotið í bága við lög. Hvað varðar álagningu sektar, sem farið er fram á af hálfu kvartenda, er tekið fram að aðilar að kvörtunarmálum hafi ekki forræði á hvort lögð verði á sekt. Þá er litið til kringumstæðna í málinu og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem fram kemur að stjórnmálamenn njóta minni einkalífsverndar en aðrir sem almannapersónur. Með hliðsjón af framangreindu er komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu efni til að leggja á sekt. Jafnframt er hins vegar mælt fyrir um eyðingu hljóðupptökunnar.

Rétt er að taka fram að upphaflega var ráðgert að birta úrskurðinn sama dag og hann var kveðinn upp. Hins vegar taldi Persónuvernd, við nánari athugun, að gefa þyrfti lögmönnum málsaðila frekara tóm til að kynna úrskurðinn fyrir umbjóðendum sínum.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 22. maí 2019 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2018/1741:

I.

Málsmeðferð

 

1.

Tildrög máls

Hinn 5. desember 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] hrl. hjá Lögmönnum Lækjargötu þar sem farið er fram á rannsókn á leynilegri hljóðupptöku sem fyrir liggur að átti sér stað í tæpar fjórar klukkustundir á veitingastaðnum Klaustri þriðjudagskvöldið 20. nóvember 2018 á samræðum sex alþingismanna, þ. á m. umbjóðenda lögmannsins, þeirra [B], [C], [D] og [E] (hér eftir sameiginlega nefnd „kvartendur“). Þá segir að brotið hafi verið gegn tilgreindum ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og er farið fram á að Persónuvernd beiti viðeigandi úrræðum, en í því sambandi er vísað sérstaklega til stjórnvaldssekta, sbr. 46. gr. laganna.

Eftir að framangreind kvörtun barst Persónuvernd var greint frá því í fjölmiðlum að gagnaðili í máli þessu, [F], hefði lýst því yfir að hún hefði tekið upp umræddar samræður. Í því ljósi óskaði Persónuvernd þess með bréfi til lögmanns kvartenda, dags. 10. desember 2018, að upplýst yrði hvort enn væri farið fram á rannsókn málsins. Svarað var í tölvupósti samdægurs, en í svarinu segir meðal annars að enn sé á huldu hvernig atvik hafi verið nákvæmlega og hvað [F] hafi gengið til. Þá segir að þess sé því enn óskað að atvik máls verði rannsökuð til hlítar og að Persónuvernd beiti, að lokinni rannsókn, heimildum sínum til álagningar stjórnvaldssekta.

2.

Bréfaskipti vegna rannsóknar á málsatvikum

Í tengslum við kröfu um rannsókn máls hafa Lögmenn Lækjargötu farið fram á öflun ýmissa gagna og hefur Persónuvernd við athugun sína að nokkru fallist á kröfur þar að lútandi. Rannsókn á málsatvikum lauk með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 29. apríl 2018, þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að þau væru nægilega leidd í ljós til að unnt væri að taka málið til efnislegrar úrlausnar. Var það þó bundið þeim fyrirvara að ekki yrði fallist á fyrirliggjandi frávísunarkröfu sem gerð var fyrir hönd [F] í bréfum, dags. 7. janúar, 20. febrúar og 9. apríl 2019, frá [G] hdl. hjá Rétti – Aðalsteinsson & Partners, en efni þessara bréfa er rakið hér síðar. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu um sönnun í málinu var kröfum um frekari gagnaöflun en þegar hafði átt sér stað hafnað í ákvörðuninni. Bréfaskipti um gagnaöflun eru þar rakin og er hér vísað til þeirrar umfjöllunar í því sambandi.

3.

Bréfaskipti um efnishlið máls

3.1.

Nánar um upphaflegt erindi

Í fyrrgreindu erindi lögmanns kvartenda, dags. 5. desember 2018, segir meðal annars að umræddar samræður hafi verið einkasamtal sem átt hafi sér stað í horni áðurnefnds veitingastaðar. Aðliggjandi borð muni hafa staðið auð og muni engir aðrir gestir hafa verið nálægir. Hafi kvartendur mátt treysta því og átt réttmætar væntingar til þess að samræður þeirra sættu ekki njósnum, upptöku eða annarri vinnslu utanaðkomandi. Hafi upptakan á samræðunum strítt gegn öllum meginreglum um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. II. kafla laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og til dæmis verið ólögmæt, ósanngjörn og ógagnsæ, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, og farið fram án þess að samþykkis væri aflað, sbr. 1. tölul. 9. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna. Önnur ákvæði laganna kunni einnig að hafa verið brotin, en að auki megi vísa til allra samsvarandi ákvæða reglugerðar (ESB) 2016/679 sem hafi lagagildi hér á landi. Þá er tekið fram að óhugsandi sé að um hafi verið að ræða gáleysisbrot. Virðist sem um alvarlegt ásetningsbrot hafi verið að ræða gegn persónuvernd og friðhelgi einkalífs kvartenda og er í því sambandi vísað til heimildar Persónuverndar samkvæmt 46. gr. laga nr. 90/2018 til að leggja á stjórnvaldssektir eins og fyrr greinir.

3.2.

Skýringar af hálfu [F]

Með bréfi, dags. 21. desember 2018, veitti Persónuvernd lögmanni [F] færi á að tjá sig um framangreint bréf lögmanns kvartenda, en eins og áður segir hafði [F] þá lýst því yfir að hún hefði tekið upp umræddar samræður. Samkvæmt umfjöllun fjölmiðla mun tilefni þess hafa verið að hún hafi talið ummæli í samræðunum hafa þýðingu í ljósi stöðu þátttakenda í þeim sem þingmanna, auk þess sem hún mun hafa verið á Klaustri fyrir tilviljun. Svarað var með bréfi, dags. 7. janúar 2019. Þar segir meðal annars að með vísan til laga og fordæma heyri málið ekki undir Persónuvernd heldur frekar dómstóla með þeim afleiðingum að vísa skuli því frá. Um það vísist einkum til þess í fyrsta lagi að samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 gildi lögin ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fari í tengslum við störf Alþingis. Samkvæmt athugasemdum við ákvæðið í því frumvarpi sem varð að lögunum sé hér fyrst og fremst litið til verkefna Alþingis sem leidd séu af stjórnarskrá og útfærð í lögum nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis. Sé í því sambandi vísað til þess að samræðurnar hafi einkum og á ýmsan hátt varðað störf þingsins, m.a. val á þingflokksformanni Miðflokksins, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 55/1991. Sé því rétt að Persónuvernd taki til athugunar hvort vísa eigi málinu frá á þessum grundvelli.

Í öðru lagi segir að málið heyri undir dómstóla fremur en Persónuvernd á þeim grundvelli að það lúti að álitaefnum tengdum tjáningarfrelsi [F], auk þeirra fjölmiðla sem fjallað hafi um umrædda hljóðupptöku, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018, 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í því sambandi er vísað til fjölmiðlaumfjöllunar þess efnis að upphaflega hljóðupptakan hafi átt sér stað í eitt tiltekið skipti og hafi ætlunin upphaflega ekki verið að dreifa henni lengra. Hins vegar hafi [F] eftir um viku umhugsun deilt upptökunum með tveimur fjölmiðlum þar sem um ræddi málefni sem vörðuðu almenning. Hafi hún talið að þær aðgerðir nytu verndar framangreindra tjáningarfrelsisákvæða. Því til stuðnings er vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. mars 2007 í máli nr. 278/2006 og dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. október 2009 í máli nr. E-12027/2008 þar sem tekist hafi verið á um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Í báðum málunum hafi ráðið úrslitum hvort umfjöllunarefnið teldist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu.

Að auki er í þessu samhengi vísað til fjögurra úrlausna Persónuverndar, þ.e. ákvörðunar, dags. 18. janúar 2011 (mál nr. 2011/18); ákvörðunar, dags. 6. desember 2016 (mál nr. 2015/1015); ákvörðunar, dags. 26. október 2016 (mál nr. 2016/581); og ákvörðunar, dags. 18. janúar 2006 (mál nr. 2005/460). Segir að í öllum þessum úrlausnum hafi niðurstaða Persónuverndar orðið sú að þrátt fyrir að í málunum ræddi um persónuupplýsingar lyti kjarni úrlausnarefnisins að álitaefnum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Þar sem slíkur ágreiningur ætti undir dómstóla skyldi málunum vísað frá stofnuninni. Eigi sömu sjónarmið við í máli því sem hér sé til úrlausnar þar sem beiðni gagnaðila um rannsókn lúti einkum að því hvort [F] hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns, sbr. einkum fyrrgreinda ákvörðun Persónuverndar, dags. 18. janúar 2011, sem varðað hafi miðlun persónuupplýsinga um opinberan starfsmann til yfirmanns, þ.e. eins konar uppljóstrun. Telji [F] sig njóta aukinnar tjáningarfrelsisverndar sem uppljóstrari, en fyrir liggi dómaframkvæmd hjá Mannréttindadómstól Evrópu þar um.

Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að þó svo að framangreindar úrlausnir Persónuverndar séu úr gildistíð eldri persónuverndarlaga nr. 77/2000 eigi þær enn við þar sem 6. gr. núgildandi laga nr. 90/2018 samsvari því ákvæði sem byggt var á í úrlausnunum, þ.e. 5. gr. eldri laga. Þá segir meðal annars að í ljósi alls framangreinds eigi Persónuvernd að vísa málinu frá.

3.3.

Athugasemdir af hálfu kvartenda

Eins og fyrr greinir urðu bréfaskipti um gagnaöflun í málinu sem lauk með ákvörðun Persónuverndar þar að lútandi hinn 29. apríl 2019. Þessi bréfaskipti stóðu yfir þegar framangreint bréf lögmanns [F] barst Persónuvernd og þar sem það varðaði einkum efnishlið málsins var það ekki sent sérstaklega til andmæla á þessu stigi. Bréfið var hins vegar sent lögmanni kvartenda í tölvupósti samhliða sendingu þess til Persónuverndar. Í framhaldi af fyrirspurn Persónuverndar til lögmanns kvartenda í tölvupósti hinn 25. janúar 2019, um hvort máli um sönnunarfærslu fyrir dómi vegna umræddrar upptöku væri lokið, barst bréf frá lögmanninum, dags. 1. febrúar s.á., þess efnis að svo væri, auk þess sem vikið er að efnisatriðum úr áðurnefndu bréfi lögmanns [F]. Segir meðal annars í bréfi lögmanns kvartenda að sýnt þyki að málið falli undir valdsvið Persónuverndar og er um það meðal annars vísað til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Fyrir liggi að gagnaðili málsins viðurkenni að hafa tekið upp samræður kvartenda með aðstoð hugbúnaðar í síma. Í þeim samræðum hafi komið fram margvíslegar upplýsingar um þá og margvísleg viðhorf þeirra til manna og málefna þótt þau hafi vissulega verið sett fram í hálfkæringi og án alvöru. Þessi samtöl viðurkenni gagnaðili að hafa varðveitt í tölvuskrám á vísum stað í síma sínum svo að unnt væri að finna þær aftur, yfirfært þær síðar á tölvu í sinni eigu og loks miðlað til fjölmiðla. Vafalaust megi heita að þetta hafi falið í sér vinnslu persónuupplýsinga í skilningi tilvitnaðra ákvæða. Söfnun, varðveisla, vistun í tölvu og miðlun upplýsinganna hafi farið fram með sjálfvirkum hætti samkvæmt ákvæðunum, enda í öllu tilliti stuðst við tölvutækni. Hið eina sem samkvæmt frásögn gagnaðila hafi ekki gerst sjálfvirkt hafi verið sú aðgerð að styðja á upptökuhnapp á símtækinu sem notað var. Af þessum sökum virðist málið ótvírætt falla undir efnislegt gildissvið laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679 og þar með undir valdsvið Persónuverndar.

Einnig er því mótmælt að 5. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, um undantekningu frá gildissviði laganna þegar um ræðir vinnslu persónuupplýsinga á vegum Alþingis og stofnana þess, eigi við í málinu. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglu sem sæta beri þröngri skýringu, auk þess sem samsvarandi ákvæði sé ekki að finna í reglugerð (ESB) 2016/679 nema að mjög takmörkuðu leyti í a-lið 2. mgr. 2. gr. hennar. Þá komi meðal annars fram í athugasemdum við 5. mgr. 4. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 90/2018, að ákvæðið eigi við um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fari í tengslum við lögbundin verkefni Alþingis. Hér sé ekki um slíkt að ræða og eigi því umrædd undantekning ekki við í málinu.

Að auki reyni ekki á sjónarmið um tjáningarfrelsi í málinu. Gagnaðili í málinu sé ekki fréttamaður og varði málið aðeins brot hennar á friðhelgi einkalífs kvartenda í andstöðu við lög nr. 90/2018 en ekki það að hún hafi tjáð sig um málið á opinberum vettvangi, né heldur að fjölmiðlar hafi birt um það fréttir. Réttur gagnaðila til tjáningar hafi því enga þýðingu í málinu. Er tekið fram í því sambandi að þótt fréttamönnum sé óskylt að gefa upp heimildarmenn sína njóti heimildarmaður, sem brjóti lög við öflun upplýsinga, einskis samsvarandi réttar eins og skýrt birtist í dómaframkvæmd um vernd heimildarmanna. Hafi þar verið lagt til grundvallar að sá sem með ólögmætum hætti afli og afhendi fjölmiðli upplýsingar kunni að þurfa að axla á því refsiábyrgð án tillits til sjónarmiða um tjáningarfrelsi eins og fram komi til dæmis í dómi Hæstaréttar frá 16. júní 2014 í máli nr. 403/2014.

Samkvæmt þessu geti 6. gr. laga nr. 90/2018 um tengsl laganna við grunnregluna um tjáningarfrelsi ekki átt við í málinu. Hvað varðar undanþágu frá gildissviði laganna vegna fréttamennsku, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, er tekið fram að einungis fréttamenn geti fallið þar undir. Gagnaðili sé ekki fréttamaður, en þó megi nefna að Persónuvernd hafi í áliti, dags. 4. júlí 2005 (mál nr. 2005/381), tekið fram að ólögmætar hljóðupptökur geti ekki fallið undir umrædda undanþágu.

Hvað varðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018, um heimild til að víkja frá ákvæðum laganna og reglugerðar (ESB) 2016/679 í þágu meðal annars fjölmiðlunar, er takið fram að kjarni úrlausnarefnis þurfi að lúta að tjáningarfrelsi svo að heimildin eigi við eins og fram komi í ákvörðun Persónuverndar, dags. 18. janúar 2011, í máli nr. 2011/18. Þá þurfi umtalsvert til að koma svo að Persónuvernd vísi frá málum á grundvelli þessarar heimildar eins og fram komi í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 29. október 2004 (mál nr. 2004/529), þar sem stofnunin hafi beitt valdheimildum sínum til að stöðva birtingu lista á vefsíðu um meinta fíkniefnasala. Ekki sé gerð krafa um að Persónuvernd gangi jafn langt og í þessu máli þar sem yfirstandandi tjáning hafi verið stöðvuð og þar með beitt nokkurs konar ritskoðun. Þess í stað sé aðeins gerð krafa um að stofnunin beiti valdi sínu til að leggja stjórnvaldssekt á gagnaðila, en vandkvæðin sem því tengist með hliðsjón af tjáningarfrelsi séu engin samanborið við þau vandkvæði sem ætla má að hafi verið uppi í áðurnefndri ákvörðun frá 2004.

Vísað er til þess að samkvæmt fræðikenningum sé stjórnvöldum skylt að taka þær ákvarðanir sem lög feli þeim nema slíkt feli í sér ótvírætt brot á stjórnarskrá. Segir að álagning stjórnvaldssekta sé liður í virkri réttarvernd fyrir ólögmætum inngripum í friðhelgi einkalífs og megi ætla að Persónuvernd sé skylt að leggja þær á nema álagning þeirra teldist ótvírætt brot á rétti til tjáningarfrelsis. Samrýmist slík niðurstaða hefðbundnum hugmyndum um þrígreiningu ríkisvalds, en sá sem þurfi að þola sektarálagningu geti ávallt borið mál undir dómstóla. Sá sem hafi þurft að þola brot á friðhelgi einkalífs geti hins vegar ekki gert kröfu um það að dómstóll leggi á stjórnvaldssekt hafi Persónuvernd vísað málinu frá sér. Eigi sú aukna einkalífsvernd sem stjórnvaldssektir eigi að stuðla að ekki að vera orðin tóm sé því mikilvægt að sektum verði beitt jafnvel þótt hinn brotlegi beri fyrir sig tjáningarfrelsi samkvæmt stjórnarskrá nema álagning sekta teldist ótvírætt brot á rétti til tjáningar.

Í framhaldi af þessu fjallar lögmaður kvartenda um ákvörðun Persónuverndar, dags. 26. október 2016 (mál nr. 2016/581), sem lögmaður [F] hafði vísað til. Segir nánar tiltekið að telja verði það mál hafa verið sérstaks eðlis þar sem kjarni þess hafi verið tjáning einstaklings á Facebook-síðu sinni og vinnsla persónuupplýsinga hreint aukaatriði, en einnig megi draga í efa fordæmisgildi málsins eftir lögfestingu heimilda Persónuverndar til álagningar stjórnvaldssekta. Hvað varðar ákvarðanir stofnunarinnar frá 18. janúar 2011 (mál nr. 2011/18) og 6. desember 2016 (mál nr. 2015/1015) er auk þess tekið fram að málsatvik hafi þar verið töluvert frábrugðin þeim sem hér um ræði. Annars vegar hafi verið fjallað um meðferð þingmanns á tölvuskeyti sem kvartandinn hafði sjálfur sent þingmanninum og hins vegar meðferð bókasafns á opinberum upplýsingum við framkvæmd lögbundinna skyldna. Ekkert í þessum málum veki upp svo mikið sem hugrenningatengsl við málsatvik hér.

3.4.

Frekari athugasemdir af hálfu [F]

Með bréfi, dags. 5. febrúar 2019, veitti Persónuvernd lögmanni [F] færi á að tjá sig um framangreint bréf lögmanns kvartenda og barst svar með bréfi, dags. 20. s.m. Þar segir meðal annars að skilningur kvartenda á 5. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018 standist enga skoðun og sé rangt að ákvæðið eigi samkvæmt orðanna hljóðan aðeins við um vinnslu á vegum stofnana þingsins. Þá segir að túlkun kvartenda á gildissviði 1. og 2. mgr. 6. gr. laganna standist heldur ekki skoðun. Ekki sé rétt að orðalag ákvæðanna sé afdráttarlaust um að einungis fréttamenn geti notið góðs af viðkomandi undantekningum og er í því sambandi áréttuð tilvísunin til þeirra dómafordæma sem tilgreind eru í fyrrgreindu bréfi lögmanns [F], dags. 7. janúar 2019.

Að auki er því mótmælt að málið varði eingöngu friðhelgi einkalífs kvartenda en ekki tjáningarfrelsi [F]. Sé í því sambandi vísað til þeirra lagaákvæða og fordæma sem tilgreind eru í bréfi lögmanns hennar frá 7. janúar 2019. Þá styðji tilvísun kvartenda til ákvörðunar Persónuverndar frá 29. október 2004 (mál nr. 2004/529) málstað [F] þar sem Persónuvernd hafi talið að í málinu reyndi á tjáningarfrelsi en fallist á að taka það til meðferðar þar sem í viðkomandi tjáningu hafi falist viðvarandi ásakanir um refsiverða háttsemi án dóms og laga.

Í framhaldi af þessu segir að kjarnaatriði úrlausnarefnis málsins sé hvort vegi þyngra, tjáningarfrelsi og borgaraleg skylda til að uppljóstra um atferli þingmanna annars vegar eða vernd friðhelgi einkalífs þingmannanna hins vegar. Er í því sambandi vísað til ákvörðunar Persónuverndar frá 18. janúar 2011 (mál nr. 2011/18) þar sem máli var vísað frá þar sem kjarni þess var talinn snúa að mörkum friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis.

Með vísan til þess sem fyrr er rakið, sem og þess að gagnaðilar hafi ítrekað lýst því yfir að þeir hyggist höfða einkamál gegn [F], er áréttuð krafa um frávísun og þeirri afstöðu lýst að næst eigi að taka ákvörðun um hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar. Fallist stofnunin á slíka meðferð sé gerður sérstakur áskilnaður um að greina frekar frá málsástæðum að því loknu.

3.5.

Frekari athugasemdir af hálfu kvartenda

Að fengnu framangreindu bréfi lögmanns [F] urðu bréfaskipti sem ekki hefur þýðingu að rekja hér þar sem þau lutu að rannsókn á málsatvikum, en eins og fyrr greinir lauk þeim þætti málsins með ákvörðun Persónuverndar hinn 29. apríl 2019. Jafnframt var Lögmönnum Lækjargötu hins vegar veittur kostur á athugasemdum vegna efnismeðferðar málsins, þ.e. með bréfi Persónuverndar, dags. 11. apríl 2019, ítrekuðu með bréfi, dags. 2. maí s.á. Svar barst með bréfi [H] hdl., dags. 8. maí 2019. Þar er ítrekað að kvartendur telji sig þolendur skýlauss brots gegn ákvæðum laga nr. 90/2018 og að öll efni standi því til að ákvarða gagnaðila í málinu stjórnvaldssekt á grundvelli einkum 1. tölul. 3. mgr. 46. gr. laganna. Þá mæli fjölmörg atriði með því að beita fremur þyngri viðurlögum en vægari á grundvelli sjónarmiða samkvæmt 47. gr. laganna, en kvartendur hafi átt samtal í réttmætu trausti þess að um einkasamtal væri að ræða. Hafi fáir gestir verið á veitingastaðnum og lengst af hafi enginn fyrir utan gagnaðila verið í sama rými og kvartendur. Í þessu sambandi kemur fram af hálfu lögmanns kvartenda að samkvæmt rannsókn á málsatvikum hafi gagnaðili gengið til verksins af ráðnum hug og fumlaust. Hún hafi skipulagt aðgerðir sínar í þaula, framkvæmt þær með leynd og gert sér far um að viðhalda þeirri tiltrú kvartenda að ekki væri með þeim fylgst, auk þess sem hún hafi notast við sérstakan búnað. Þá segir að brotið hafi varað um langa stund og hún síðan gert sér far um að gera skaðvænlegar afleiðingar þess eins víðtækar og framast hafi verið unnt með því að dreifa upplýsingum sem hún aflaði með njósnum sínum. Eins skuli nefnt að samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun hafi hún haft að minnsta kosti 40.000 króna ávinning af brotinu, en þar sé um að ræða greiðslu frá Sýn hf. sem hún muni hafa fengið fyrir afhendingu myndbandsupptöku og mynda sem hún hafi aflað sér meðan á brotinu stóð. Miðað við þá vitneskju sem liggi fyrir um fjárhag gagnaðila þyki þó kvartendum ef til vill óþarft að leggja á hærri sekt en sem nemi sektarlágmarkinu, þ.e. 100.000 krónum.

3.6.

Veittur kostur á frekari athugasemdum af hálfu [F]

Með bréfi, dags. 10. maí 2019, veitti Persónuvernd lögmanni [F] færi á frekari athugasemdum vegna málsins. Svarað var með bréfi, dags. 15. s.m. Þar segir meðal annars að hún hafi orðið vitni að samskiptum sex alþingismanna á Klaustri þegar hún hafi dvalið þar til að fá sér kaffibolla milli fundar og æfingar sem hafi farið fram þar nálægt. Mjög fljótt eftir að hún hafi komið í sama rými og þingmennirnir hafi hún metið það svo að samræðurnar sem þeir áttu væru vafasamar af hálfu valdhafa, þ.e. kjörinna fulltrúa sem í þessu tilfelli hefðu verið á almannafæri. Hún sé nokkuð hvatvís og hafi því ákveðið að hefja upptöku til eigin nota til að geta betur glöggvað sig á orðfæri þingmannanna. Eftir því sem á hafi liðið hafi henni hins vegar þótt umræðuefnin verða alvarlegri. Því hafi hún ákveðið að halda upptökunum áfram og eftir nokkurra daga umhugsun og vangaveltur um siðferðisleg álitaefni málsins hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að það væri borgaraleg skylda hennar að koma hljóðupptökunni á framfæri við fjölmiðla þannig að þeir gætu upplýst almenning um þá hluta samtals þingmannanna sem þeir mætu svo að ættu erindi við almenning. Telji [F] ljóst af umfjöllun innlendra og erlendra fjölmiðla og þeirri umræðu sem á eftir fylgdi að margt úr upptökunum hafi átt slíkt erindi. Auk þess hafi margt sem þingmennirnir ræddu snert hana beint þar sem hún tilheyri þjóðfélagshópum sem komið hafi við sögu í samtalinu og hafi hún lengi staðið í baráttu fyrir réttindum þeirra. Hafi hún litið til þess að þátttakendur í samtalinu ráði miklu um stöðu hennar sem öryrkja. Þá kemur fram að hún hafi talið samtalið sýna vanvirðingu fyrir tilteknum þjóðfélagshópum almennt, sem og að umræðurnar vörpuðu ljósi á viðhorf þess hóps sem stýri málefnum þeirra sem minna mega sín hérlendis og veittu þannig almenningi mikilvæga innsýn. Sérstaklega skuli tekið fram í því sambandi að [F] hafi aðeins veitt fjölmiðlum aðgang að umræddum hljóðupptökum og síðar Persónuvernd og lagaskrifstofu Alþingis. Fjölmargir aðrir hafi óskað eftir að kaupa upptökurnar af henni en siðferðiskennd hennar bannað það. Þá er tekið fram að meint leynd yfir aðgerðum hennar hafi ekki verið meiri en svo að hún hafi setið í návígi við samræðurnar allan tímann og er meðal annars lýst þeim skilningi, út frá hljóðupptökunni og rannsókn málsins, að þingmennirnir hafi veitt henni athygli.

Hvað varðar heimild til beitingar stjórnvaldssekta áréttar lögmaðurinn þá afstöðu að málið eigi ekki undir Persónuvernd. Segir að sérstaklega sé í því sambandi vísað til úrskurðar Persónuverndar, dags. 27. mars 2019 (mál nr. 2018/1529), um beitingu 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018. Einnig segir að telji Persónuvernd að í háttsemi [F] felist vinnsla persónuupplýsinga sé á því byggt að öll vinnsla hennar hafi átt undir þetta ákvæði og verið í þágu fréttamennsku. Auk frávísunarheimilda samkvæmt ákvæðinu sé bent á að samkvæmt því séu meðal annars ákvæði um sektarheimildir undanþegnar gildissviði laga nr. 90/2018 þegar svo hátti til. Jafnframt falli gildissvið laganna illa að því að framkvæma hljóðupptöku á veitingastað, í eitt afmarkað skipti með almannahagsmuni að markmiði, en þar megi hafa til hliðsjónar 5. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Þá er vísað til þess að samkvæmt ákvörðun Persónuverndar, dags. 27. mars 2019 (mál nr. 2018/1507), leiði það af grunnreglunni um skýrleika og fyrirsjáanleika varðandi beitingu refsiheimilda að kröfur sem gera verði til álagningar stjórnvaldssekta séu strangari en þær sem gildi um fyrirmæli varðandi vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli tiltekinna ákvæða laganna. Segir að í umræddu máli hafi ekki verið lögð á sekt þó svo að um ræddi hagnaðardrifna vinnslu persónuupplýsinga og að Persónuvernd hafi áður komist að niðurstöðu um ólögmæti hennar. Þetta mál lúti að háttsemi félags sem sé öllu alvarlegri en háttsemi [F] og sýni það að skilyrði fyrir álagningu sektar séu ekki heldur fyrir hendi í máli hennar, einkum vegna kröfunnar um skýrleika og fyrirsjáanleika við beitingu refsiheimilda, en auk þess séu allir töluliðir 1. mgr. 47. gr. laga nr. 90/2019 henni í hag. Þá myndi niðurstaða um annað en frávísun eða refsileysi brjóta gegn tjáningarfrelsi og rétti hennar til verndar sem uppljóstrara. Um það sé til víðtæk dómaframkvæmd og eru nefnd þrjú dómafordæmi í því sambandi, þ.e. dómur Hæstaréttar frá 22. mars 2019 í máli nr. 29/2018, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. febrúar 2008 í máli [I] gegn Moldavíu nr. 14277/04, sem og dómur sama dómstóls frá 28. júní 2018 í máli M.L. og W.W. gegn Þýskalandi nr. 60798/10 og 65599/10.

3.7.

Veittur kostur á frekari athugasemdum af hálfu kvartenda

Með bréfi, dags. 16. maí 2019, veitti Persónuvernd lögmanni kvartenda færi á athugasemdum við framangreint bréf [F]. Svarað var með bréfi, dags. 21. s.m. Þar segir að það veki sérstaka eftirtekt í frásögn gagnaðila að hún viðurkenni að hafa hafið upptökur sínar mjög fljótt eftir að hún kom inn; að hún skýri með engu móti hver sá búnaður var, hlutir og snúrur, sem hún meðhöndlaði meðan á aðgerðum stóð; og að hún mótmæli því í engu að hún hafi leitast við að skapa þær væntingar hjá kvartendum að þau ræddust við án þess að með þeim væri fylgst eða á þau hlustað. Ekkert sem þau ræddu virðist því geta réttlætt þá ákvörðun að hefja upptöku á samtali þeirra og njósnir hennar um það. Allt sem hún vitni til að þau hafi sagt á upptökunni til réttlætingar henni hafi verið sagt eftir að sú ákvörðun hafi verið tekin, strax við komu hennar á staðinn, auk þess sem réttmætar væntingar kvartenda hafi staðið til þess að um einkasamtal væri að ræða.

Vísað er í þessu sambandi til álits siðanefndar Alþingis frá 27. mars 2019. Segir að sú niðurstaða nefndarinnar sé verulegum annmörkum háð að upptakan hafi átt sér stað á opinberum vettvangi. Hafi nefndin þar litið til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 22. febrúar 2018 í máli [J] gegn Grikklandi nr. 72562/10 þar sem fjallað hafi verið um myndbandsupptökur af þingmanni án hljóðritunar samtals þar sem hann hafi verið á ferð á opinberum vettvangi, sem og hljóðupptökur af samtali sem hann hafi átt í einrúmi. Hafi dómstóllinn talið töku mynda af þingmanninum hafa verið heimila, en hljóðupptökur af samtali við hann án vitneskju hans hafi verið álitnar óheimilar. Hafi þá engu skipt þótt blaðamaðurinn, sem tók samtalið upp, hafi verið þátttakandi í samtalinu. Hljóðupptökurnar hafi einfaldlega verið taldar mun freklegra inngrip í einkalíf þingmannsins en myndbandsupptakan. Hafi gríska ríkinu því verið talið heimilt að grípa til ráðstafana í tilefni af hljóðupptökunum. Megi af þessu álykta að myndataka á opinberum vettvangi sé talin tiltölulega vægt inngrip en að sé hins vegar um að tefla hljóðupptökur samtala án vitneskju hlutaðeigandi sé inngrip talið mun freklegra. Á þessu kjarnaatriði virðist siðanefndin ekki hafa áttað sig. Þannig virðist hún telja sig geta dregið þá ályktun af dóminum að öll samtöl þingmanna á veitingahúsum teljist fara fram án væntinga um vernd einkalífs. Slíkt verði þó með engu móti af dóminum ráðið. Þvert á móti verði helst ályktað af honum að einkasamtöl, eins og kvartendur tóku þátt í, verðskuldi friðhelgi líkt og einkalíf þeirra almennt.

Í framhaldi af þessu er áréttuð sú afstaða að málið falli undir valdsvið Persónuverndar og að nýlegir úrskurðir, sem lögmaður gagnaðila vitni til, samrýmist þeim sjónarmiðum sem áður hafi komið fram af hálfu kvartenda. Segir auk þess að alvanalegt sé að stjórnvöld túlki og skýri nýjar sektarheimildir og fyrirbyggi ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar um skýrleika refsiheimilda ekki að sektarheimildum sé beitt, en að öðrum kosti væri framþróun laganna heft með óhæfilegum hætti. Þá er því mótmælt að tjáningarfrelsi gagnaðila geti náð til þess að framkvæma ólögmætar upptökur af einkasamtölum. Skipti þá engu þótt á upptöku kunni að koma fram upplýsingar sem gætu vakið áhuga almennings og virðist dómur Hæstaréttar frá 22. mars 2019 í máli nr. 29/2018, þar sem fjallað sé um rétt blaðamanna til að vernda nöfn uppljóstrara sinna, engu breyta þar um, en þar sem gagnaðili hafi sjálf ljóstrað upp um nafn sitt verði hún að axla ábyrgð gerða sinna. Sé því mótmælt að hún geti talist uppljóstrari í eiginlegum skilningi. Til þeirra teljist aðeins þeir sem hafi löglega aflað sér eða fengið vitneskju sem þeir ljóstri síðar upp. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. febrúar 2008 í máli [I] gegn Moldavíu nr. 14277/04 hafi ekki þýðingu hér þar sem hann lúti að slíkum eiginlegum uppljóstrara. Þá hafi dómur Mannréttindadómstólsins frá 28. júní 2018 í máli M.L. og W.W. gegn Þýskalandi nr. 60798/10 og 65599/10 hér enga þýðingu.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Almennt gildissvið laga nr. 90/2018

Gildissvið laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar (ESB) 2016/679, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna og 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Þá er með vinnslu átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Mál þetta lýtur að upptöku á samræðum á veitingastaðnum Klaustri hinn 20. nóvember 2018. Ljóst er að þar er um vinnslu persónuupplýsinga að ræða. Fyrir liggur að [F] tók samræðurnar upp og telst hún því vera ábyrgðaraðili að vinnslunni, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 og 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að með ábyrgðaraðila sé átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga.

2.

Um undantekningar frá gildissviði – Lögmæti vinnslu

Á það reynir í málinu hvort umrædd vinnsla falli utan gildissviðs laga nr. 90/2018. Af hálfu [F] er farið fram á frávísun málsins á grundvelli fyrirmæla 5. mgr. 4. gr. laganna um að þau gildi ekki um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fari í tengslum við störf Alþingis og stofnana og rannsóknarnefnda þess. Samkvæmt athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögunum er því ætlað að ná til vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við lögbundin verkefni Alþingis. Segir að fyrst og fremst sé þá litið til verkefna Alþingis sem leidd séu af stjórnarskrá og útfærð frekar í lögum nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis, þ.e. einkum lagasetningar, fjárstjórnarvalds og eftirlits með framkvæmdarvaldinu, en þó aðeins að því leyti sem þingið sjálft og nefndir þess sinni eftirlitsstarfinu. Verður af þessu ályktað að vinnsla persónuupplýsinga á vegum annarra en Alþingis, í þessu tilviki vinnsla [F] á persónuupplýsingum um alþingismenn, geti ekki fallið undir umrædda undantekningu frá gildissviði laganna. Er því ekki fallist á kröfu um frávísun á þeim grundvelli.

Því er einnig borið við af hálfu [F] að umrædd atvik falli utan gildissviðs laga nr. 90/2018 vegna ákvæðis 2. mgr. 6. gr. laganna, þess efnis að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu meðal annars fréttamennsku eigi aðeins við tiltekin ákvæði laganna, en ákvæði um valdheimildir Persónuverndar eru ekki þar á meðal. Í þessu sambandi vísast til 85. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 þar sem lögð er sú skylda á aðildarríki að samræma réttinn til verndar persónuupplýsinga réttinum til tjáningar- og upplýsingafrelsis, þ. á m. vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku, eins og greinir í 1. mgr. ákvæðisins. Fram kemur í 153. lið formála reglugerðarinnar að með tilliti til mikilvægis réttarins til tjáningarfrelsis í hverju lýðræðisþjóðfélagi sé nauðsynlegt að túlka hugtök vítt á þessu sviði. Var einnig um þetta fjallað í eldri Evrópulöggjöf um vernd persónuupplýsinga, þ.e. tilskipun 95/46/EB, en í 9. gr. tilskipunarinnar var mælt fyrir um skyldu til að mæla fyrir um undanþágur frá persónuverndarlöggjöf í þágu meðal annars fréttamennsku. Um túlkun þess ákvæðis er fjallað í dómi Evrópudómstólsins frá 14. febrúar 2019 í máli nr. C-345/17, en atvik þess máls sem þar var til úrlausnar gerðust í gildistíð hinnar eldri Evrópulöggjafar. Atvik voru þau að í Lettlandi hafði einstaklingur tekið upp myndband þegar hann gaf yfirlýsingu á lögreglustöð í tengslum við mál sem rekið var á hendur honum og sáust lögreglumenn að störfum í myndbandinu, en í kjölfarið birti hlutaðeigandi einstaklingur myndbandið á Netinu. Komst lettneska persónuverndarstofnunin að þeirri niðurstöðu að um hefði rætt ólögmæta upptöku og var sú niðurstaða borin undir dómstóla. Í tengslum við dómsmeðferð var óskað forúrskurðar Evrópudómstólsins um meðal annars það álitaefni hvort hér ræddi um vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku í skilningi umrædds ákvæðis tilskipunar 95/46/EB. Í dóminum er í því sambandi vísað til dómaframkvæmdar þess efnis að túlka beri hugtök tengd tjáningarfrelsi, þ. á m. hugtakið fréttamennsku (e. journalism), rúmt og tekið fram að undir undanþágu vegna fréttamennsku falli ekki aðeins fjölmiðlafyrirtæki heldur allir sem komi að fréttamennsku (51. og 52. mgr. dómsins). Með vísan til þessa er komist að þeirri niðurstöðu að þegar atvik séu með þeim hætti og í málinu sem um ræðir í dóminum geti myndbandsupptaka og birting hennar talist eingöngu fara fram í þágu fréttamennsku, enda sé ljóst af myndbandinu að eini tilgangurinn með upptöku og birtingu þess sé sá að miðla upplýsingum, viðhorfum eða hugmyndum til almennings.

Við mat á því hvernig framangreint fordæmi Evrópudómstólsins horfir við þeirri hljóðupptöku sem um ræðir í máli þessu ber að líta til tímalengdar upptökunnar, sem var tæpar fjórar klukkustundir, og þess að hún laut að samtölum annarra. Þá ber að líta til þess að hún fór fram með leynd. Þótt upptaka án samþykkis kunni að fara fram í þágu fréttamennsku eins og lýst var að framan ber að skýra undantekningu frá gildissviði laga nr. 90/2018 á þeim grundvelli í samræmi við önnur ákvæði sömu laga sem veita sérstaka vernd fyrir ákveðnum aðferðum við vinnslu og í ljósi grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Verður þar að líta til 14. gr. laga nr. 90/2018 þar sem fjallað er um rafræna vöktun, þ.e. vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fram fer á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 9. tölul. 3. gr. laganna. Kemur fram í 1. mgr. 14. gr. laganna að svo að rafræn vöktun sé heimil verði hún að fara fram í málefnalegum tilgangi, auk þess sem í 4. mgr. ákvæðisins er tekið fram að þegar rafræn vöktun fari fram á vinnustað eða á almannafæri skuli með merki eða á annan áberandi hátt gera glögglega viðvart um vöktunina og hver sé ábyrgðaraðili. Telur Persónuvernd ljóst, þegar litið er til tímalengdar umræddrar upptöku, að hún hafi falið í sér rafræna vöktun í skilningi þessa ákvæðis. Þá telur Persónuvernd, þegar litið er til fyrrnefnds stjórnarskrárákvæðis, að ekki sé unnt að túlka 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018 svo rúmt að það geti fallið undir fréttamennsku, eins og hér háttar til, að viðhafa slíka vöktun með leynd svo lengi sem raun bar vitni í umrætt sinn. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, skal þess ávallt gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða. Getur hljóðupptaka eins og hér um ræðir, sem fram fer með leynd, ekki talist samrýmast þessu ákvæði og telur Persónuvernd samkvæmt því, sem og í ljósi áðurnefnds ákvæðis 4. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018, að umrædd upptaka hafi farið í bága við fyrrgreind ákvæði laganna og reglugerðar (ESB) 2016/679.

3.

Um álagningu sektar – Fyrirmæli

Þess er krafist af hálfu kvartenda að lögð verði stjórnvaldssekt á [F] samkvæmt 46. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 83. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, en í ljósi þess brots gegn ákvæðum laganna og reglugerðarinnar sem fyrr er lýst yrði lögð á sekt á grundvelli 1. tölul. 2. mgr. 46. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir að sérhvert brot varði sekt heldur er ráð fyrir því gert í 1. mgr. 47. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 83. gr. reglugerðarinnar, að ákvörðun um hvort lögð skuli á sekt skuli tekin á grundvelli tiltekinna viðmiða. Þá er ljóst að aðili að kvörtunarmáli sem er til meðferðar hjá Persónuvernd hefur ekki forræði á því hvort stjórnvaldssekt sé lögð á ábyrgðaraðila eða hver fjárhæð hennar eigi að vera. Er slík ákvörðun háð mati stofnunarinnar á grundvelli alvarleika brots og fyrrgreindra viðmiða.

Eins og hér háttar til reynir á 1. tölul. 1. mgr. 47. gr. laganna, þess efnis að litið skuli til alvarleika brots og tjóns sem af því hlaust, en ljóst er að um ræðir verulega íhlutun í friðhelgi einkalífs kvartenda í máli þessu. Á hinn bóginn ber einnig að líta til annarra þátta sem haft geta áhrif á ákvörðun um beitingu sektarheimildar, sbr. 11. tölul. 1. mgr. 47. gr. laganna. Í því sambandi er til þess að líta að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um hvort takmörkun á rétti fjölmiða til að birta hljóð- og myndupptökur sem gerðar hafa verið með leynd fari í bága við 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar hefur einkum reynt á stöðu og hlutverk fjölmiðla í lýðræðisþjóðfélagi við að miðla upplýsingum andspænis friðhelgi einkalífs þeirra sem upptökur beinast að en ekki beint á álitamál um viðurlög gagnvart þekktum heimildamönnum sem hafa staðið fyrir upptökum með ólöglegum hætti. Af dómum Mannréttindadómstólsins verður þó ályktað að þýðing þess að birta upplýsingar, sem fengist hafa með ólöglegum upptökum sem starfsmenn fjölmiðils hafa sjálfir framkvæmt og snerta einstaklinga sem gegna opinberum stöðum, geti verið slík að tjáningarfrelsi vegi þyngra en friðhelgi einkalífs. Hér verður þó að meta kringumstæður allar.

Vísbendingar um þetta mat er meðal annars að finna í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 22. febrúar 2018 í máli [J] gegn Grikklandi nr. 72562/10 þar sem fjallað var um mörk friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis í tengslum við leynilegar myndbandsupptökur af þingmanni. Upptökurnar höfðu verið gerðar af starfsmönnum sjónvarpsstöðvar og voru sýndar þar og hafði sjónvarpsstöðinni verið gert að greiða stjórnvaldssektir vegna birtingarinnar. Voru upptökurnar alls þrjár og sýndi sú fyrsta þingmanninn, sem var formaður þingnefndar um rafræn fjárhættuspil, ganga inn í spilasal og taka þátt í fjárhættuspili, en hinar tvær sýndu fundi með fulltrúum sjónvarpsstöðvarinnar um þá háttsemi. Mannréttindadómstóllinn vísaði til dómaframkvæmdar sinnar, þess efnis að almannapersónur njóti minni einkalífsverndar en aðrir. Þá er komist að þeirri niðurstöðu að viðurlög grískra yfirvalda vegna tveggja af upptökunum hafi ekki falið í sér brot gegn tjáningarfrelsi þar sem þær hafi átt sér stað á einkafundum í lokuðu rými. Á hinn bóginn benti dómstóllinn á að upptakan úr spilasalnum fór fram í rými opnu almenningi. Tekur dómstóllinn fram að með því að ganga þangað inn hafi umræddur þingmaður fengið lögmætt tilefni til að ætla að fylgst væri nákvæmlega með hegðun hans og að hún væri jafnvel tekin upp, einkum í ljósi stöðu hans sem almannapersónu. Voru því viðurlög grískra yfirvalda vegna birtingar umrædds fjölmiðils á upptökunni talin hafa brotið gegn grunnreglu 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi (78. mgr. dómsins).

Ljóst er að málsatvik í því máli sem hér er til úrlausnar eru ekki að öllu leyti sambærileg atvikum í framangreindum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, einkum þannig að ekki reynir hér á álitamál um viðurlög gagnvart fjölmiðlum eða starfsmönnum þeirra og að mál þetta lýtur að mjög langri hljóðupptöku á samtali. Líkt og í fyrrgreindum dómi fór upptakan fram í rými sem almenningur hafði aðgang að, þótt hún færi úr hófi fram, samanborið við málsatvik í dóminum, vegna þess langa tíma sem hún stóð yfir eins og fyrr hefur verið lýst. Í því sambandi verður einnig að líta til þeirra skýringa sem komið hafa fram af hálfu [F] að hún hafi tekið umræddar samræður upp þar sem hún hafi talið ummæli í þeim hafa þýðingu í ljósi stöðu þátttakenda í þeim sem þingmanna, sem og að hún hafi verið stödd á Klaustri fyrir tilviljun. Þá hafa samræðurnar orðið tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa, auk þess sem rannsókn málsins, sbr. ákvörðun Persónuverndar í máli þessu, dags. 29. apríl 2019, hefur ekki, með þeim úrræðum sem stofnuninni eru búin, leitt í ljós einhvers konar samverknað sem til þess væri fallinn að hafa íþyngjandi áhrif, né heldur skapað forsendur til að taka afstöðu af eða á til réttmætis áðurnefndra skýringa.

Þegar litið er til alls framangreinds, einkum tilgangs vinnslunnar og kringumstæðna að öðru leyti, eru ekki efni að mati Persónuverndar til að leggja á sekt á grundvelli 46. gr. laga nr. 90/2018. Hins vegar mælir Persónuvernd fyrir um að [F] skuli eyða upptökunni, sbr. 4. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018. Staðfesting á að það hafi verið gert skal berast Persónuvernd eigi síðar en 5. júní nk.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Leynileg hljóðupptaka [F] á samræðum á veitingastaðnum Klaustri hinn 20. nóvember 2018 fór í bága við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð (ESB) 2016/679. Skal [F] eyða upptökunni og senda Persónuvernd staðfestingu á að svo hafi verið gert eigi síðar en 5. júní nk.Var efnið hjálplegt? Nei