Úrlausnir

Úrskurður um birtingu gagna um uppreist æru

Mál nr. 2017/1282

31.1.2019

Kvartað var yfir birtingu dómsmálaráðuneytisins á gögnum um uppreist æru. Af hálfu ráðuneytisins var vísað til þess að í ljósi þá nýfallins úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefði ráðuneytinu verið skylt að veita aðgang að slíkum gögnum. Var komist að þeirri niðurstöðu að birtingin hefði ekki farið í bága við ákvæði laga nr. 77/2000.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 20. desember 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/1282:

 

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Þann 13. september 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) vegna fyrirhugaðrar afhendingar dómsmálaráðuneytisins á gögnum um alla þá sem hefðu fengið uppreist æru. Í kvörtuninni segir m.a. að til standi, samkvæmt vef ráðuneytisins, að birta þessi gögn en það varði við hegningarlög að yfirleitt ræða mál einstaklings opinberlega sem hafi fengið æru sína uppreista.

Við meðferð málsins upplýsti dómsmálaráðuneytið Persónuvernd um að ráðuneytið hefði þegar afhent fjölmiðlum umrædd gögn.

 

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 17. október 2017, var dómsmálaráðuneytinu tilkynnt um kvörtunina og veittur kostur á að tjá sig um hana. Svar barst með bréfi, dags. 15. nóvember s.á. Þar segir að þegar umrætt erindi Persónuverndar hafi borist ráðuneytinu hafi þegar verið búið að afhenda fjölmiðlum gögn um uppreist æru sem sumir hafi birt þau á heimasíðum sínum, þ. á m. gögn í máli kvartanda. Ráðuneytið hafi sent Persónuvernd bréf, dags. 25. september 2017, þar sem athygli hafi verið vakin á afhendingu gagnanna og þau sjónarmið rakin sem lögð hafi verið til grundvallar við ákvörðun um hvaða upplýsingar skyldu birtar og hvaða upplýsingar skyldu afmáðar úr gögnunum. Þá segir einnig að felldar hafi verið út upplýsingar um nöfn einstaklinga sem hlotið hafi dóma þar sem dómari hafi ákveðið að dómur skyldi birtur án nafns hins sakfellda. Með vísan til þess sjónarmiðs hafi gögn er vörðuðu umsókn kvartanda um uppreist æru verið afhent en nafn hans og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar verið afmáðar, sem og aðrar upplýsingar sem leynt eigi að fara samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. einnig c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Að öðru leyti vísar ráðuneytið í svarbréfi sínu til fyrrgreinds bréfs til Persónuverndar, dags. 25. september 2017, þar sem segir að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál þann 11. september s.á. hafi verið kveðið á um að dómsmálaráðuneytinu væri skylt að veita Ríkisútvarpinu aðgang að gögnum sem lögð höfðu verið fram með umsókn einstaklings um uppreist æru. Í úrskurðinum sé kveðið á um hvaða gögnum skuli veittur aðgangur að og hvaða gögn, eða hlutar gagna, skuli afmáðir. Í framhaldi af fyrrgreindum úrskurði hafi verið krafist aðgangs að sambærilegum gögnum allra þeirra sem fengið höfðu uppreist æru síðastliðin 22 ár. Hafi ráðuneytið talið sér vera skylt að verða við þeirri beiðni með vísan til fyrrgreinds úrskurðar og hafi útbúið gagnapakka þar sem umrædd gögn hafi verið tekin saman fyrir hvern einstakling en upplýsingar um heilsuhagi felldar brott ásamt öðrum upplýsingum sem taldar voru falla undir það að vera viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá hafi jafnframt verið felldar brott upplýsingar um nöfn einstaklinga sem hlotið hafi dóma þar sem dómari hafi ákveðið að dómur skyldi birtur án nafns hins sakfellda af tillitsemi við brotaþola. Í framhaldi af afhendingu gagnanna hafi einhverjir fjölmiðlar birt gögnin og í einhverjum tilvikum hafi fjölmiðlar ákveðið að virða ekki fyrrgreindar ákvarðanir um nafnbirtingu sem teknar hafi verið við birtingu dóma viðkomandi. Ráðuneytið hafi uppfyllt skyldu sína til að veita aðgang að gögnum í samræmi við fyrrgreindan úrskurð en muni ekki hafa frekari afskipti af því hvernig þau verði meðhöndluð af þeim sem hafi fengið aðgang að þeim. Þá telji ráðuneytið óhjákvæmilegt að vekja athygli Persónuverndar á þeirri víðtæku birtingu gagna sem hafi átt sér stað og að athuga hvort undanþáguákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 eigi við um þá víðtæku vinnslu og birtingu upplýsinga sem hér um ræði og hvort uppfyllt séu þau ákvæði sem talin séu upp í niðurlagi þeirrar greinar.

Með bréfi, dags. 24. nóvember 2017, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna framkominna skýringa dómsmálaráðuneytisins. Svarað var með bréfi, dags. 9. desember 2017. Þar er rakin forsaga málsins um að dómsmálaráðuneytið hafi einhliða ákveðið að opinbera trúnaðargögn nokkurra einstaklinga sem hafi sótt um uppreist æru skv. almennum hegningarlögum nr. 19/1940 í kjölfar dóma sem þeir höfðu hlotið. Ráðuneytið vísi til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem kveðinn hafi verið upp í kjölfar kæru frá fréttamanni Ríkisútvarpsins. Ekki hafi verið haft samband við hlutaðeigandi málsaðila. Einnig séu útskýringar ráðuneytisins um að yfirstrikað hafi verið yfir persónugreinanlegar upplýsingar í þeim gögnum sem hafi verið gerð opinber haldlitlar vegna smæðar landsins […]. […]. Hafi þetta ástand leitt til þess að […] börn kvartanda hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu skólafélaga sinna. Þá rekur kvartandi ákvæði m.a. almennra hegningarlaga, stjórnarskrárinnar og laga nr. 77/2000. Vísað er til þess að málsvörn ráðuneytisins byggist á tveim atriðum aðallega: Annars vegar að tilkynnt hafi verið um tilvonandi brotastarfsemi ráðuneytisins og hins vegar að niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi samþykkt birtingu. Tekur kvartandi fram í því sambandi að úrskurður nefndarinnar geti aldrei verið rétthærri en landslög og stjórnarskráin. Að lokum segir að niðurstaða kvartanda sé að dómsmálaráðuneytið hafi brotið alvarlega á rétti hans sem borgara sem hlotið hafi uppreist æru. Tjónið sé mikið og alvarlegt og hafi haft áhrif á líf hans og fjölskyldu.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Mál þetta varðar kvörtun sem barst Persónuvernd þann 13. september 2017 og lýtur að atvikum sem gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þann 15. júlí 2018. Umfjöllun og efni þessa úrskurðar verða því byggð á ákvæðum eldri laga, nr. 77/2000. Hafa ber í huga að í gildistíð þeirra laga voru upplýsingar um hvort maður hefði verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað taldar til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna, og ber að leysa úr málinu á þeim grundvelli að því leyti sem upplýsingar um kvartanda varða refsiverða háttsemi.


2.

Afmörkun máls og gildissvið laga nr. 77/2000

Ábyrgðaraðili

Í kvörtuninni sem barst Persónuvernd þann 13. september 2017 var kvartað yfir fyrirhugaðri afhendingu dómsmálaráðuneytisins á gögnum um alla þá sem fengið höfðu uppreist æru síðustu 22 árin. Við meðferð málsins var upplýst um að dómsmálaráðuneytið hafði þegar afhent umrædd gögn. Þar sem úrlausn í kvörtunarmáli getur aðeins lotið að atriðum, sem kvartandinn hefur sérstaka og einstaklingsbundna hagsmuni sem aðili máls af að skorið sé úr um, verður hér eingöngu fjallað um afhendingu dómsmálaráðuneytisins á gögnum er varða kvartanda en ekki alla þá sem hafa fengið uppreist æru.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna.

Þau gögn um kvartanda sem dómsmálaráðuneytið afhenti voru nafnhreinsuð en í þeim kom fram málsnúmer þess refsidóms sem hann hafði hlotið. Dómurinn er einnig nafnhreinsaður en í honum koma þó fram nánari atvikalýsingar. Í gögnunum sem afhent voru komu jafnframt fram nöfn og kennitölur meðmælenda með umsókn kvartanda um uppreist æru. Þá liggur fyrir að í kjölfar afhendingarinnar birtust umfjallanir um kvartanda í fjölmiðlum landsins. Eins og fyrr greinir teljast upplýsingar persónugreinanlegar ef unnt er að rekja þær til tiltekins einstaklings, hvort sem er beint eða óbeint. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst dómsmálaráðuneytið ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.


3.

Lögmæti vinnslu

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Að því marki sem hér kann að vera um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða verður einnig að líta til 9. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um viðbótarskilyrði fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Sem fyrr segir ber að hafa í huga í því sambandi að í gildistíð laga nr. 77/2000 voru upplýsingar um hvort maður hefði verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað taldar til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

Það ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, sem hér kemur einkum til álita, er 3. tölul. 1. mgr., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þá kemur helst til greina af ákvæðum 9. gr. laganna 2. tölul. 1. mgr., þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil standi til hennar sérstök heimild samkvæmt öðrum lögum.

Við mat á lögmæti vinnslu persónuupplýsinga getur eftir atvikum þurft að líta til ákvæða í sérlögum, sem við eiga hverju sinni. Eins og hér háttar til reynir einkum á upplýsingalög nr. 140/2012, en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þeirra laga taka þau til allrar starfsemi stjórnvalda og því ljóst að þau eiga við um starfsemi dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er þeim sem lögin ná til skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna, en auk þess kemur fram í 11. gr. laganna að heimilt sé að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt sé, enda standi aðrar lagareglur því ekki í vegi, þ. á m. ákvæði laga um þagnarskyldu og persónuvernd. Tekið er fram í 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000 að þau lög takmarki ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum.

Á meðal takmarkana á rétti almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum er sú regla 9. gr. laganna að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 140/2012, segir meðal annars að engum vafa sé undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undanþegnar aðgangi almennings samkvæmt ákvæðinu.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 11. september 2018, í máli nr. 704/2017, sem varðaði sambærileg gögn og þau er um ræðir í máli kvartanda, segir að þegar tekin sé afstaða til þess hvort ákvæði 9. gr. upplýsingalaga taki til umbeðinna gagna verði að líta til þess að við setningu núgildandi upplýsingalaga var sérstaklega tekið fram að ekki væru efni til að víkja frá þeirri stefnu sem þegar hefði verið mörkuð um einkamálefni í gildistíð fyrri laga, nr. 50/1996. Þá er í úrskurðinum jafnframt vísað til þeirrar túlkunar sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál lagði til grundvallar á ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sem svarar til núgildandi ákvæðis 9. gr. upplýsingalaga, við mat á því hvort upplýsingar um refsidóm féllu undir einkamálefni sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 4. júlí 1997 í máli nr. A-16/1997. Í þeim úrskurði komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að þeirri niðurstöðu að gögn um meðferð dómsmálaráðuneytisins á umsókn einstaklings um náðun, sem dæmdur hafði verið fyrir nauðgun samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga, féllu ekki undir undanþágu um einkamálefni einstaklinga þrátt fyrir að tengjast úrlausn ráðuneytisins um réttaráhrif refsidóms. Gögn með upplýsingum um sakaferil einstaklingsins og heilsuhagi voru hins vegar talin falla undir 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Í úrskurðinum segir þá að með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafi verið um uppreist æru telji úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki ástæðu til þess að upplýsingar um refsidóminn fari leynt.

Við afhendingu dómsmálaráðuneytisins á gögnum segir í bréfi þess, dags. 25. september 2018, að upplýsingar um heilsuhagi hafi verið felldar brott ásamt öðrum upplýsingum sem taldar voru falla undir það að vera viðkvæmar persónuupplýsingar. Jafnframt hafi verið felldar brott upplýsingar um nöfn einstaklinga sem hlotið hefðu dóma þar sem dómari hefði ákveðið að dómur skyldi birtur án nafns hins sakfellda. Þá liggur fyrir að afhendingin byggðist á upplýsingalögum, að um var að ræða sams konar gögn og úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði talið skylt að afhenda samkvæmt áðurnefndum úrskurði nefndarinnar, sem og að í samræmi við það sem fyrr segir voru gögnin engu að síður nafnhreinsuð í tilviki kvartanda, ólíkt því sem gert var ráð fyrir í úrskurðinum. Þegar litið er til alls framangreinds, þ. á m. fyrrgreindra ákvæða upplýsingalaga, sbr. einnig 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000, er niðurstaða Persónuverndar sú að afhending dómsmálaráðuneytisins á gögnum úr máli vegna umsóknar kvartanda um uppreist æru hafi ekki farið í bága við lög nr. 77/2000.

Meðferð máls þessa hefur dregist vegna mikilla anna Persónuverndar.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Afhending dómsmálaráðuneytisins á gögnum vegna umsóknar [A] um uppreist æru fór ekki í bága við lög nr. 77/2000.Var efnið hjálplegt? Nei