Úrlausnir

Úrskurður Persónuverndar um birtingu heimilisfangs á brotavettvangi

Mál nr. 2017/1799

5.7.2018

Persónuvernd hefur úrskurðað að birting heimilisfangs ásamt húsnúmeri á brotavettvangi, í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, á vefsíðu dómstólsins, hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Birtingin gangi gegn verndun þeirra hagsmuna sem ætlunin sé að vernda með reglum um nafnleynd og samrýmist vinnslan því ekki því meðalhófsreglu 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

 

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 31. maí 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2017/1799:

 

I.
Málsmeðferð

 

1.
Tildrög máls

Þann 30. nóvember 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [X] (hér eftir nefnd kvartandi) vegna vinnslu persónuupplýsinga um hana hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Í kvörtuninni segir meðal annars að heimilisfang hennar hafi verið birt í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2017, en dóminn megi finna á heimasíðu dómstólsins. Um er að ræða refsidóm vegna innbrots en brotist var inn á heimili kvartanda. Segir í kvörtuninni að umræddar upplýsingar séu persónuupplýsingar um þá sem þar búa og með birtingu á heimilisfanginu séu heimilismenn tengdir við sakarefni, sem þeir hafi ekkert forræði yfir eða aðkomu að.

Jafnframt segir í kvörtuninni að birtingin á þessum upplýsingum sé ekki í samræmi við meginreglur laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Heimilismenn hafi ekki samþykkt að þessar persónuupplýsingar yrðu birtar opinberlega. Þá hafi hvorki verið sanngjarnt né eðlilegt að birta þær enda skipti þær engu máli varðandi sakarefnið sem slíkt eða efnislega niðurstöðu þess og auðvelt sé að bera kennsl á heimilismenn með tengingu við heimilisfangið.

Enn fremur segir í kvörtuninni að birtingin hafi ekki verið til þess fallin að vernda brýna hagsmuni heimilismanna. Þá hafi hún ekki verið nauðsynlegur liður í framkvæmd dómstólsins á starfsskyldum sínum.

 

2.
Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 24. janúar 2018, var Héraðsdómi Reykjavíkur boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Í svarbréfi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 30. janúar 2018, kemur meðal annars fram að um birtingu dóma fari nú eftir reglum dómstólasýslunnar nr. 3/2018. Fyrri reglur nr. 1/2016 hafi verið samhljóða um það efni að gæta skuli nafnleyndar um þá sem þar séu greindir, þó ekki ákærða hafi hann verið sakfelldur. Þó skuli gæta nafnleyndar um ákærða ef annað teldist andstætt hagsmunum brotaþola. Af þessu leiði að heimilisföng þeirra sem þar séu tilgreindir séu einnig afmáð, eðli máls samkvæmt.

 

Í bréfinu segir jafnframt:

 

„Frá því reglur um birtingu dóma tóku fyrst gildi hefur, svo sem að framan greinir, tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng þeirra sem nafnleyndar er gætt um. Ekki hefur almennt tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng á brotavettvangi, hvort sem háttsemi á undir 244. gr. laga nr. 19/1940 eða önnur ákvæði refsilaga. Gildir það hvort eð er um heimilisföng lögpersóna eða einstaklinga.“

 

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2018, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Héraðsdóms Reykjavíkur til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi kvartanda segir meðal annars að af hálfu hennar sé ekkert komið fram sem breyti því mati hennar að birting upplýsinga um hvar ákærði braust inn til þess að stela munum í eigu heimilismanna feli í sér brot á meginreglum laga nr. 77/2000. Varla verði séð að heimilisfangið hafi í sjálfu sér haft úrslitaþýðingu í niðurstöðu dómstólsins vegna brots ákærða. Af þeim sökum hafi ekki borið nauðsyn til þess að birta heimilisfangið.

Einnig kemur fram að byggt sé á því að afmá hefði átt upplýsingar um heimilisfang vegna sjónarmiða um persónuvernd þeirra sem búa þar sem brotist var inn. Slík vinnubrögð séu einnig í samræmi við meginregluna um friðhelgi einkalífs. Kvartandi telji brýnt að dómstólar hagi framkvæmd við birtingu dóma þannig að þessara mikilvægu hagsmuna sé gætt.

 

II.
Forsendur og niðurstaða

 

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Með vísan til ákvæða stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvalds eru rík takmörk sett við því að hvaða marki Persónuvernd, sem handhafi framkvæmdarvalds, geti hlutast til um mál sem eru á forræði annarra sjálfstæðra handhafa ríkisvaldsins, Alþingis og dómstóla. Þótt valdsvið Persónuverndar geti ekki náð til vinnslu dómstóla á persónuupplýsingum þegar þeir fara með dómsvald sitt er það mat stofnunarinnar að birting dóma á Netinu, sbr. meðal annars núgildandi 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla, feli ekki í sér dómsathöfn. Slík ákvörðun lýtur enda ekki að efni dómsins sjálfs heldur einungis að því hvaða upplýsingar skuli birtar á Netinu. Framangreindu var meðal annars slegið föstu í úrskurði Persónuverndar frá 16. júní 2017 í máli nr. 2016/1783. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna.

Samkvæmt þágildandi 2. gr. reglna dómstólaráðs, sbr. tilkynningu nr. 1/2016, sbr. einnig núgildandi 2. gr. reglna dómstólasýslunnar nr. 3/2018, skal dómsúrlausn birt af hálfu skrifstofu dómstóls. Með vísan til framangreinds er Héraðsdómur Reykjavíkur ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem fólst í birtingu umrædds dóms dómstólsins frá 15. nóvember 2017.

 

2.
Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þá er vinnsla einnig heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. ákvæðisins.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er m.a. mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.) og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Við beitingu laga nr. 77/2000 verður að auki að líta til ákvæða í annarri löggjöf sem við á hverju sinni. Um birtingu dóma og úrskurða héraðsdómstóla er fjallað í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla þar sem segir að dómstólasýslan setji reglur og hafi umsjón með útgáfu dóma og úrskurða héraðsdómstóla. Þá er í 3. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála mælt fyrir um að ef dómur sé birtur skuli, ef sérstök ástæða sé til, afmá úr honum atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Í 2. mgr. 17. gr. sömu laga segir að dómstólasýslan setji nánari reglur um tiltekin atriði og þeirra á meðal aðgang almennings að endurritum af dómum, þ.m.t. brottnám upplýsinga úr þeim, sbr. f-lið ákvæðisins. Dómstólasýslan hefur sett reglur um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu héraðsdómstólanna, sbr. reglur nr. 3/2018. Í 1. gr. reglnanna segir að dómar skuli birtir á sameiginlegri vefsíðu dómstólanna með þeim undantekningum og takmörkunum sem kveðið er á um í reglunum.

Af framangreindu leiðir að héraðsdómstólum er heimilt að birta úrlausnir sínar, að gefnu tilliti til þeirra undantekninga og takmarkana sem kveðið er á um í fyrrgreindum reglum dómstólasýslunnar um birtingu.

Í 4. gr. reglna dómstólasýslunnar um birtingu dóma, nr. 3/2018, er fjallað um í hvaða tilvikum skuli gæta nafnleyndar við birtingu. Segir að í dómum í sakamálum skuli gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur. Þá segir í 1. mgr. 5. gr. reglnanna að við útgáfu dóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags-, eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt sé að leynt fari. Jafnframt segir í 2. mgr. 5. gr. reglnanna að áður en dómari sendi dóm eða úrskurð til birtingar meti hann hvort afmá beri atriði úr úrlausninni í samræmi við önnur ákvæði reglnanna og gæta skuli þess að það sem eftir standi sé ekki hægt að tengja þeim hagsmunum sem ætlunin sé að vernda. Fyrri reglur sem í gildi voru þegar umræddur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var kveðinn upp, sbr. tilkynning dómstólaráðs nr. 1/2016, eru samhljóða núgildandi reglum hvað þetta varðar.

Í bréfi Héraðsdóms Reykjavíkur segir að frá því að reglur um birtingu dóma tóku fyrst gildi hafi tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng þeirra sem nafnleyndar er gætt um en ekki hafi almennt tíðkast að afmá úr dómum heimilisföng á brotavettvangi.

Að mati Persónuverndar getur birting á heimilisfangi brotavettvangs í dómum talist nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna og þannig samrýmst 5. tl. 8. gr. laga nr. 77/2000. Aftur á móti telur Persónuvernd upplýsingar um götuheiti ásamt húsnúmeri á brotavettvangi vera þess eðlis, eins og hér háttar til, að þær séu persónugreinanlegar, þar sem um ræðir heimili og unnt er að tengja heimilisfang við þá sem þar búa. Ekki er slíkur eðlismunur á heimilisfangi þeirra sem nafnleyndar er gætt um og heimilisfangi á brotavettvangi að það réttlæti að gæta nafnleyndar í fyrra tilvikinu en ekki því síðara. Með birtingu heimilisfangs með húsnúmeri á brotavettvangi er gengið gegn verndun þeirra hagsmuna sem ætlunin er að vernda með reglum um nafnleynd. Þannig er um að ræða upplýsingar sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til einkahagsmuna þeirra sem þar eru búsettir og ber því að afmá við útgáfu dóma, sbr. 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglna dómstólasýslunnar nr. 3/2016.

Með vísan til framangreinds verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að birta heimilisfang kvartanda með húsnúmeri í umræddum dómi, enda verður ekki séð að slíkar upplýsingar varði sakarefnið sem slíkt eða niðurstöðu dómsins og séu nauðsynlegar miðað við tilgang vinnslunnar. Samkvæmt því samrýmdist umrædd vinnsla Héraðsdóms Reykjavíkur ekki því skilyrði 3. tölul 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 að vinnsla persónuupplýsinga skal ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Birting Héraðsdóms Reykjavíkur á heimilisfangi með húsnúmeri á brotavettvangi við birtingu dóms í máli nr. […] frá […] 2017 samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Héraðsdómur Reykjavíkur skal, eigi síðar en 30. júní 2018, senda Persónuvernd staðfestingu á því að upplýsingar um heimilisfang kvartanda með húsnúmeri hafi verið afmáðar úr þeirri útgáfu dómsins, sem birt er á heimasíðu dómstólsins.

 Var efnið hjálplegt? Nei