Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga

28.11.2007

 

Hinn 19. nóvember sl. veitti Persónuvernd viðskiptanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga.

 

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingarsamninga


Persónuvernd vísar til bréfs viðskiptanefndar Alþingis, dags. 9. nóvember sl., þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, afmörkun á heimild til upplýsingaöflunar (þskj. 175, 163. mál, 135. löggjafarþing).

1.

Frumvarpið er til komið vegna þess að ekki var ljóst hvort 2. mgr. 82. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga heimilaði tryggingafélögum að óska eftir upplýsingum um heilsufar náinna skyldmenna vátryggingartaka og vátryggðra, en Persónuvernd taldi ákvæðið ekki nægilega skýrt til þess að fela í sér heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Aðkoma Persónuverndar að undirbúningi frumvarps sama efnis (þskj. 429 á 133. löggjafarþingi) sneri að því að færa með skýrari hætti í orð þann skilning sem fulltrúar SÍT og Fjármálaeftirlitsins kváðust hafa lagt í ákvæðið, en fól ekki í sér afstöðu stofnunarinnar til þess hvort upplýsingaöflunin sem um ræðir væri æskileg.

Í umsögnum Persónuverndar um fyrra frumvarp, dags. 12. febrúar og 2. mars sl., kom fram að stofnunin teldi að meginstefnu varhugavert út frá sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs að heimila aðilum utan heilbrigðiskerfisins umfangsmikla skráningu eða aðra meðferð heilsufarsupplýsinga, án þess að til kæmi upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Sú afstaða hefur ekki breyst, en eins og áður skal tekið fram að Persónuvernd gerir sér grein fyrir því að einnig verði að líta til annarra sjónarmiða. Það er löggjafans að vega og meta þessa ólíku hagsmuni og taka ákvörðun um hvorir skuli vega þyngra.

2.

Í frumvarpi því sem nú er til umfjöllunar er, í 4. málsl. 1. mgr. 1. gr., að finna það nýmæli að vátryggingartaki, eða eftir atvikum vátryggður, skuli „staðfesta að þær upplýsingar sem hann veitir um sjúkdóma foreldra eða systkina sinna séu veittar með þeirra samþykki, enda sé með sanngirni hægt að ætlast til að hann hafi getað aflað slíks samþykkis." Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð:

„Áfram er gert ráð fyrir að spurningar á umsóknareyðublaði séu með þeim hætti að tiltekinn sjúkdómur verði ekki tengdur tilteknum einstaklingi. Það vill segja að spyrja skal um foreldra og systkini sem eina heild, t.d.: Hefur foreldri eða systkini þitt fengið sjúkdóminn A? Ákvæðið gerir jafnframt ráð fyrir því að vátryggingartaka sé, af ýmsum ástæðum, ekki mögulegt að verða við þessum kröfum. Má þar taka sem dæmi að foreldri eða systkini hans séu látin, vátryggingartaki þekki í raun ekki blóðforeldra eða samband systkina hafi rofnað um svo langa hríð að vátryggingartaki hafi ekki tök á að afla samþykkis viðkomandi fyrir upplýsingagjöfinni. Gera má ráð fyrir að ákvæði málsliðarins kalli á endurskoðun á verklagi vátryggingarfélaga, þar á meðal á þeim umsóknareyðublöðum sem vátryggingartakar þurfa að útfylla."

Upplýsingar um heilsuhagi fólks er viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi c-liðar 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Til þess að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil verður eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laganna að vera uppfyllt. Á meðal þeirra skilyrða eru upplýst samþykki, sbr. 1. tölul., og sérstök heimild að lögum, sbr. 2. tölul.

Verði frumvarp þetta að lögum mun upplýsingavinnslan sem um ræðir í flestum tilvikum byggja á samþykki er gengur skemur en upplýst samþykki (hér á eftir nefnt „einfalt samþykki"), en skv. 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er með „upplýstu samþykki" átt við sérstaka ótvíræða yfirlýsingu sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. Í öðrum tilvikum, þ.e. þegar ekki er með sanngirni hægt að ætlast til þess að vátryggingartaki eða vátryggður hafi getað aflað þessa einfalda samþykkis, mun upplýsingavinnslan byggja á ákvæði 82. gr. laga nr. 30/2004 eingöngu. Hvort heldur sem er myndi upplýsingavinnsla sem þessi sækja stoð í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Telja verður að efni frumvarpsins sé í betra samræmi við grunnreglu persónuréttarins um sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins heldur en ef ekki væri leitað eftir samþykki. Persónuvernd lýsir þó yfir nokkrum áhyggjum af því hvernig ákvæði um „einfalt" samþykki komi til með að virka í framkvæmd, s.s. varðandi sönnun ef ágreiningur skapast á milli vátryggingartaka og skyldmennis um heimildir þess fyrrnefnda til að veita tryggingafélagi upplýsingar um þann síðarnefnda eða tilvik þar sem skyldmenni neitar að veita samþykki sitt til upplýsingavinnslunnar.




Var efnið hjálplegt? Nei