Úrlausnir

Rafræn vöktun í fjöleignarhúsi samræmdist ekki lögum

Mál nr. 2021010073

2.11.2021

Persónuvernd barst kvörtun þess efnis að nágranni kvartanda hafði komið fyrir þremur eftirlitsmyndavélum við fjöleignarhús. Náði sjónsvið myndavélanna m.a. til sameignar eiganda hússins sem og til svæðis á almannafæri. Ábyrgðaraðili sýndi ekki fram á nauðsyn vöktunarinnar og var það því niðurstaða Persónuverndar að vöktunin samrýmdist ekki lögum. Persónuvernd fór fram á að látið verði af vöktuninni og að öllu uppteknu efni sem safnast hefur við vöktunina verði eytt.

Úrskurður

Hinn 27. október 2021 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2021010073.

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Hinn 10. janúar 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir notkun eftirlitsmyndavéla af hálfu nágranna síns, [B].

Með bréfi, dags. 10. júní 2021, var [B] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með tölvupósti þann 30. júní 2021.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim að öllu leyti í eftirfarandi úrskurði.

2.

Sjónarmið kvartanda

Kvartandi býr á neðri hæð í tvíbýlishúsi við [...]en [B] er eigandi íbúðar á efri hæð hússins. Af hálfu kvartanda hefur komið fram að [B] hafi komið fyrir þremur eftirlitsmyndavélum á ytra byrði fjöleignarhússins. Ein myndavél hið minnsta sé á snúningsás og því hægt að snúa henni á ýmsa kanta. Þannig beinist vöktunin að sameiginlegum garði við húsið, bílastæði kvartanda, nærliggjandi lóðum, sem og að götu og gangstétt fyrir framan húsið. Ekki hafi verið leitað samþykkis annarra eigenda í fjöleignarhúsinu fyrir uppsetningu myndavélanna. Þá séu engar viðvörunarmerkingar til staðar um að rafræn vöktun fari fram við húsið og engar upplýsingar hafi verið veittar um hvernig myndavélarnar virka, svo sem um hvort þær fara í gang og taka myndskeið þegar þær skynja hreyfingu.

3.

Sjónarmið [B]

Af hálfu [B] hefur komið fram að tilgangur vöktunarinnar sé að tryggja öryggi þar sem mikið hafi verið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Um sé að ræða þrjár eftirlitsmyndavélar. Myndavélarnar vakti innganga að eignarhluta hans sem og trampólín í garði. Þá séu myndavélarnar á upptöku sem fari á harðan disk og eyðist eftir tvær vikur. Myndavélarnar séu mjög sjáanlegar og ekki í felum. Ekki hafi verið búið að setja upp límmiða en þeir séu í prentun. Þá sé ekki starfrækt húsfélag en haldnir séu húsfundir. Nágrannar hafi verið látnir vita að til stæði að setja upp myndavélar. Þá fylgdu svari [B] skjáskot úr öllum þremur eftirlitsmyndavélunum.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið – Ábyrgðaraðili

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Mál þetta lýtur að rafrænni vöktun með eftirlitsmyndavélum. Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 9. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018. Hugtakið tekur meðal annars til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2018, sbr. c-lið 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar, gilda lögin og reglugerðin ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota. Í máli þessu liggur fyrir að sjónsvið eftirlitsmyndavélanna nær bæði til svæða sem teljast til sameignar eigenda hússins og til svæða á almannafæri. Er vöktunin því ekki takmörkuð við yfirráðasvæði [B] eða fjölskyldu hans. Myndbandsupptaka í eftirlitsskyni sem nær út fyrir yfirráðasvæði ábyrgðaraðila getur ekki talist vera til einkanota framangreindum skilningi, sbr. m.a. úrskurði Persónuverndar í málum nr. 2020010548 og 2020010691. Í ljósi framangreinds telst vinnsla [B] á persónuupplýsingunum sem til verða við vöktunina falla undir gildissvið laga nr. 90/2018, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. framangreint.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Eins og hér háttar til telst [B] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

2.

Lögmæti vinnslu og niðurstaða

Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018. Þar er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Einnig verður meðal annars að gæta að því við rafræna vöktun að með merki eða á annan áberandi hátt sé gert glögglega viðvart um vöktunina og hver sé ábyrgðaraðili hennar, sbr. 4. mgr. sömu greinar.

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 90/2018 og 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, að vera fullnægt. 

Eins og hér háttar til kemur þá einkum til skoðunar 6. tölul. 9. gr. laganna, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra. Við mat á því hvort umrædd heimild getur átt við þarf þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf vinnslan að fara fram í þágu lögmætra hagsmuna ábyrgðaraðila eða þriðja aðila. Í öðru lagi er áskilið að vinnslan sé nauðsynleg í þágu þeirra hagsmuna, en við það mat þarf að kanna hvort að hægt er að ná sama markmiði með öðrum og vægari úrræðum. Í þriðja lagi mega hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga ekki vega þyngra en hinir lögmætu hagsmunir sem vísað er til. 

Fyrir liggur að ábyrgðaraðili setti upp eftirlitsmyndavélar í öryggis- og eignarvörsluskyni. Skjáskot úr eftirlitsmyndavél á framanverðu húsinu sýnir að sjónsvið myndavélarinnar nær til sameignar tvíbýlishússins við [...] sem og að hluta til til svæðis sem er á almannafæri. Sjónsvið myndavélar í bakgarði ábyrgðaraðila nær til sameignar eigenda hússins sem og til svæðis sem er á almannafæri. 

Það er mat Persónuverndar að ábyrgðaraðilar kunni að hafa lögmæta hagsmuni af því að vakta svæði utan sinnar séreignar séu skilyrði þar um fyrir hendi, meðal annars með tilliti til yfirvofandi hættu sem að þeim eða eignum þeirra steðjar. Hins vegar þarf ávallt að leggja mat á það hvort hagsmunir séu til staðar sem réttlæta vöktun út fyrir séreign ábyrgðaraðila. Það er mat Persónuverndar að eins og hér háttar til hafi ábyrgðaraðili ekki sýnt fram á nauðsyn þess að vakta svæði utan lóðamarka eignarinnar til að ná tilgangi vöktunarinnar. 

Við mat á því hvort vöktun sameiginlegrar lóðar getur stuðst við heimild í áðurnefndu ákvæði 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 þarf að líta til ákvæða laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Samkvæmt þeim þarf ákvörðun um að setja upp eftirlitsmyndavélar í fjöleignarhúsi að vera tekin á löglega boðuðum húsfundi, en það hefur ekki verið gert í því tilviki sem hér um ræðir. Með vísan til þess telur Persónuvernd að vöktun sameiginlegrar lóðar hafi ekki getað stuðst við heimild í 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. 

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða Persónuverndar sú að umrædd vöktun, með því sjónsviði sem hún tekur til, samrýmist ekki 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Þegar af þeirri ástæðu telst vöktunin ekki samrýmast lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679.

Með vísan til 6. og 7. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018, sbr. f- og g- lið 2. mgr. 58. gr. reglugerðarinnar, er hér með lagt fyrir ábyrgðaraðila að láta af allri rafrænni vöktun, sem beinist að svæðum sem eru í sameign eigenda hússins að [...] og á almannafæri, og eyða öllu uppteknu efni sem safnast hefur við vöktunina. 

Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 26. nóvember 2021.

Ú r s k u r ð a r o r ð:


Vinnsla [B] á persónuupplýsingum vegna rafrænnar vöktunar að [...] samrýmist ekki lögum nr. 90/2018, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Lagt er fyrir [B] að stöðva hina rafrænu vöktun og eyða öllu uppteknu efni sem safnast hefur við vöktunina. Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 26. nóvember 2021.


F.h. Persónuverndar,

Helga Þórisdóttir                         Helga Sigríður Þórhallsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei