Úrlausnir

Rafræn vöktun hjá Strætó

Mál nr. 2020010581

27.10.2021

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem kvartað var yfir skorti á merkingum og fræðslu um rafræna vöktun í strætisvögnum Strætó bs. Persónuvernd fór í tvær vettvangsathuganir til að kanna hvernig merkingum og fræðslu væri háttað í strætisvögnum Strætó bs. Niðurstaða fyrri athugunarinnar var að merkingum með viðvörunum um að fram færi rafræn vöktun væri ábótavant fyrir þá sem gengju inn um miðdyr vagnanna og að frekari fræðsla væri ófullnægjandi. Við síðari vettvangsathugun Persónuverndar, sem fór fram rúmu ári síðar, kom í ljós að úr þessu hafði verið bætt og var það niðurstaða stofnunarinnar að merkingar og fræðsla um rafræna vöktun í strætisvögnunum samrýmdist þá persónuverndarlögum.

Úrskurður

Hinn 21. október 2021 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020010581 (áður mál nr. 2019010150):

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Hinn 28. janúar 2019 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir merkingum um rafræna vöktun í strætisvögnum Strætó bs. 

Með bréfi 6. mars 2019, ítrekuðu 3. apríl s.á., var Strætó bs. boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Svarað var með bréfi 17. apríl 2019. Með bréfi 21. maí sama ár var kvartanda gefinn kostur á að koma að athugasemdum við sjónarmið Strætó bs. Athugasemdir kvartanda bárust með tölvupósti 1., 5. og 11. júní 2019. Með bréfi 12. sama mánaðar óskaði Persónuvernd skýringa Strætó bs. á tilteknum atriðum og bárust skýringar fyrirtækisins 27. þess mánaðar. Frekari athugasemdir kvartanda bárust Persónuvernd með tölvupósti 18. mars 2020. Persónuvernd óskaði frekari upplýsinga frá Strætó bs. með bréfi 30. mars 2020 og tilkynnti jafnframt um fyrirhugaða vettvangsathugun. Strætó bs. svaraði með bréfi 16. apríl sama ár. Persónuvernd veitti kvartanda kost á að gera athugasemdir við þau svör Strætó bs. með bréfi 4. maí 2020 og bárust Persónuvernd svör hans 11. sama mánaðar.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna þótt ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Meðferð þessa máls hefur dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.

2.

Sjónarmið kvartanda

Kvartandi telur að merkingar Strætó bs. um eftirlitsmyndavélar í vögnum sínum fari í bága við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og varði jafnframt við 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, um friðhelgi einkalífs. Byggir kvartandi á því að merkingar inni í strætisvögnum séu ekki nægilegar til að vara farþega við eftirlitsmyndavélunum. Merkingar séu aðeins við framhurðir vagnanna og því ekki sýnilegar þeim farþegum sem ganga inn um vagnana miðja, til dæmis þeim sem séu með barnavagna, gæludýr eða hjól. Af þeim sökum sé meðal annars hætta á að farþegar skrái sig í netbanka eða noti önnur lykilorð í snjallsímum sínum án þess að átta sig á því að það geti sést í upptökum myndavélanna. Kvartandi sendi Persónuvernd ljósmyndir af vögnum Strætó bs. máli sínu til stuðnings.

3.

Sjónarmið Strætó bs.

Strætó bs. byggir á því að samkvæmt viðmiðum og gátlista Strætó bs. skuli vera límmiðar í öllum strætisvögnum með merkingu um að rafræn vöktun fari fram. Í upphaflegum svörum Strætó bs. kemur fram að merking skuli vera á þremur stöðum en í seinna svari kemur fram að merking skuli vera á tveimur stöðum og er vísað til gátlista þar um. Í gátlista kemur fram að límmiði skuli vera annars vegar í „framhluta-inni“, staðsetningin: „að framanverðu, sýnilegt öllum“, og hins vegar í „farþegarými“, staðsetningin: „Í miðju farþegarými, sýnilegt öllum“. Í svörum Strætó bs. kemur einnig fram að allir farþegar skuli ganga inn um framdyr strætisvagnanna og að ekki sé boðið upp á að gengið sé inn um aðrar dyr þeirra. Þá vísar Strætó bs. til þess að eftirlitsmenn séu á ferð á höfuðborgarsvæðinu sem sinni gæðaeftirliti. Hluti þess eftirlits sé að fylgjast með að límmiðar séu í samræmi við viðmið Strætó bs. Auk þess fari fram eftirlit í mars og september ár hvert, þar sem farið sé yfir merkingar og búnað í vögnum. Nokkuð hafi borið á því að farþegar hafi plokkað límmiða burt úr vögnunum en reynt sé eftir fremsta megni að endurnýja þá eftir þörfum.

4.

Vettvangsathugun 15. maí 2020

Persónuvernd gerði vettvangsathugun vegna rannsóknar málsins við Hlemm í Reykjavík 15. maí 2020. Tilgangur athugunarinnar var að kanna hvernig merkingum um rafræna vöktun væri háttað í strætisvögnum Strætó bs. og þá fyrst og fremst hvort merkingar um rafræna vöktun væru farþegum ljósar þegar gengið væri inn í vagnana, bæði að framan og fyrir miðju. Viðstaddir voru tveir starfsmenn Persónuverndar og tveir starfsmenn Strætó bs.

Í vettvangsathuguninni voru skoðaðir fimmtán strætisvagnar. Skoðunin fór fram með þeim hætti að valdir voru strætisvagnar af handahófi sem áttu leið um Hlemm. Vagnarnir voru skoðaðir eftir því sem kostur var að innan og utan með tilliti til þess hvort og þá hvar merkingar um rafræna vöktun væru og hvernig þær væru. Starfsmenn Persónuverndar skráðu framangreindar upplýsingar niður og tóku ljósmyndir. Niðurstaða vettvangsathugunarinnar var að merki um rafræna vöktun væri jafnan að finna við framhurðir strætisvagnanna en ekki við miðhurðir þeirra. Jafnframt gætti misræmis í merkingum inni í vögnunum. Með vísan til þess var ekki talið hafið yfir vafa að farþegum væri ávallt ljóst að rafræn vöktun færi fram í strætisvögnunum þegar þeir gengju inn um miðhurðir vagnanna. Þá voru jafnan ekki veittar aðrar upplýsingar en að rafræn vöktun færi fram auk þess sem ráða mátti af merkingunum að vöktunin færi fram á vegum Strætó bs. Fræðslan þótti að þessu leyti ófullnægjandi.

5.

Bréfaskipti í kjölfar vettvangsathugunar 15. maí 2020

Með bréfi 25. júní 2020 tilkynnti Persónuvernd Strætó bs. að stofnunin hefði til skoðunar að leggja sekt á fyrirtækið vegna ófullnægjandi merkinga um rafræna vöktun í strætisvögnum þess, með vísan til 46. gr. laga nr. 90/2018 og 83. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 4. mgr. 14. gr. og 17. gr. laganna og 13. gr. reglugerðarinnar.

Af hálfu Strætó bs. var svarað með bréfi 13. júlí 2020 og fyrirhugaðri sekt andmælt, meðal annars með vísan til þess að fyrirtækið hefði ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um framkvæmd eða niðurstöður vettvangsathugunar Persónuverndar. Einnig var á því byggt að í bréfi Persónuverndar væri um mögulega sekt vísað til 4. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 en um sektarheimild vísað til þess að samkvæmt 46. gr. laganna og 83. gr. reglugerðarinnar væri heimilt að leggja stjórnvaldssekt á hvern þann sem bryti gegn tilgreindum ákvæðum reglugerðarinnar, þar á meðal 13. gr. hennar. Af þessum tilvísunum væri ekki ljóst hvort Strætó bs. bæri skylda til að veita sérhverjum farþega fræðslu samkvæmt 13. gr. reglugerðarinnar til viðbótar við þá almennu fræðslu sem kveðið sé á um í 4. mgr. 14. gr. laganna. Væri þá um að ræða stefnubreytingu hjá stofnuninni sem hefði áður greint á milli fræðsluskyldu gagnvart annars vegar starfsfólki ábyrgðaraðila eða öðrum sem hafi bein tengsl við það svæði þar sem vöktun fari fram samkvæmt 13. gr. reglugerðarinnar, sbr. 17. gr. laganna, og hins vegar almenningi eða þeim sem ábyrgðaraðili sé ekki að jafnaði í beinu sambandi við samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laganna.

Persónuvernd veitti skýringar varðandi framangreindar athugasemdir Strætó bs. með bréfi 26. ágúst 2021. Var um leið boðað til nýrrar vettvangsathugunar með vísan til þess dráttar sem hefði orðið á meðferð málsins.

6.

Vettvangsathugun 16. september 2021

Í samræmi við framangreint gerði Persónuvernd nýja vettvangsathugun í þágu rannsóknar málsins og þá aftur við Hlemm í Reykjavík. Tilgangur athugunarinnar, sem fór fram 16. september 2021, var að athuga hvernig merkingum um rafræna vöktun væri háttað í strætisvögnum Strætó bs. og hvort þær væru farþegum ljósar þannig að þeir gætu vitað, áður en þeir gengju inn á myndsvið eftirlitsmyndavéla, að (i) vöktun færi fram, (ii) hver væri ábyrgðaraðili og (iii) hvar mætti nálgast frekari upplýsingar. Viðstaddir voru tveir starfsmenn Persónuverndar og tveir starfsmenn Strætó bs.

Vettvangsathugunin fór fram með þeim hætti að valdir voru tíu strætisvagnar af handahófi sem áttu leið um Hlemm og skoðaðir eftir því sem kostur var að innan og utan með tilliti til framangreindra sjónarmiða. Starfsmenn Persónuverndar skráðu framangreindar upplýsingar niður og tóku ljósmyndir af vögnunum.

Niðurstaða vettvangsathugunarinnar var að á öllum tíu strætisvögnunum voru eins merkingar við framhurð og miðhurð þar sem fram kom að myndavélavöktun væri í gangi. Á merkingunum var merki Strætó bs. auk þess sem fram kom vefslóðin „strætó.is“. Jafnframt voru eins merkingar hjá vagnstjóra í hverjum vagni þar sem fram kom að CCTV-upptaka væri í gangi. Þar sagði jafnframt: „Frekari upplýsingar um persónuverndarstefnu Strætó má nálgast hér:“ og beint fyrir neðan sami texti á ensku. Þar fyrir neðan var QR-kóði sem leiðir inn á persónuverndarstefnu Strætó bs. Loks kom fram neðst á merkingunni að Strætó bs. væri ábyrgðaraðili.

Í persónuverndarstefnu Strætó bs. sem QR-kóðinn leiðir á koma meðal annars fram upplýsingar um ábyrgðaraðila, samskiptaupplýsingar persónuverndarfulltrúa, að rafræn vöktun með öryggis­mynda­vélum í strætisvögnum sé í öryggis- og eignavörsluskyni og að sú vinnsla byggist á heimild í 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Þá segir í persónuverndarstefnunni að upplýsingar sem verði til við rafræna vöktun séu ekki varðveittar lengur en í 90 daga nema lög eða dómsúrskurður kveði á um annað og að lögð sé áhersla á að aðgangur að upplýsingum sé takmarkaður við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfi aðgang til að ná fram tilgangi vinnslu. Starfsfólk Strætó bs. sé jafnframt upplýst um skyldu sína til að viðhalda trúnaði og tryggja öryggi persónuupplýsinga við upphaf starfa sinna.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Afmörkun máls og gildissvið

Mál þetta varðar gagnsæi og fræðslu vegna rafrænnar vöktunar í strætisvögnum Strætó bs. og fellur þar af leiðandi undir gildissvið laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar (ESB) 2016/679, eins og það er skilgreint í 1. mgr. 4. gr. laganna, sbr. 2. og 4. tölul. 3. gr. laganna og 1. og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.

Strætó bs. telst vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laganna og 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

2.

Lagaumhverfi

Til að rafræn vöktun sé heimil verður hún að fara fram í málefnalegum tilgangi auk þess sem rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, er háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við rafræna vöktun uppfylla önnur ákvæði laganna.

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að byggjast á heimild í 9. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Almennt hefur verið talið að rafræn vöktun sé heimil teljist hún nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem vega þyngra en réttindi og frelsi hins skráða, sbr. 6. tölul. 9. gr. laganna og f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.
Auk heimildar samkvæmt framangreindu verður vinnsla persónuupplýsinga að samrýmast öllum meginreglum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Er þar meðal annars kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna og a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þessi krafa felur meðal annars í sér að einstaklingum á að vera það ljóst þegar persónuupplýsingum um þá er safnað eða þær notaðar, skoðaðar eða unnar á annan hátt, að hvaða marki þær eru eða munu verða unnar og í hvaða tilgangi. Til þess að vinnsla persónuupplýsinga fullnægi þessari kröfu þurfa ábyrgðaraðilar að gera sérstakar ráðstafanir sem lúta að fræðslu til hins skráða.

Hvað snertir rafræna vöktun er að finna reglu um slíka fræðslu í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018, þess efnis að glögglega skuli gera viðvart um rafræna vöktun sem fram fer á vinnustað eða á almannafæri með merki eða á annan áberandi hátt og hver ábyrgðaraðili vöktunar er. Reglugerð ESB/2016/679 hefur ekki að geyma sambærilegt ákvæði og hafa aðildarríki svigrúm til að móta reglur um vöktun sjálf innan ramma reglugerðarinnar.

Meðal þeirra ákvæða sem þar reynir á er 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, sem kveður á um að ábyrgðaraðili skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að láta skráðum einstaklingi í té þær upplýsingar sem í 13. og 14. gr. reglugerðarinnar greinir og skulu upplýsingar veittar skriflega eða á annan hátt, t.d. á rafrænu formi. Í tengslum við rafræna vöktun ber um fræðslu að líta til 13. gr. reglugerðarinnar, eins og fram kemur í leiðbeiningum Evrópska persónuverndarráðsins frá 29. janúar 2020 nr. 3/2019 (útgáfu 2) um vinnslu persónuupplýsinga við rafræna vöktun.

Í 13. gr. reglugerðarinnar er fjallað um fræðslu og upplýsingar sem ábyrgðaraðila ber að veita hinum skráða þegar persónuupplýsinga er aflað hjá honum sjálfum. Kemur meðal annars fram í ákvæðinu að skýra ber hinum skráða frá því hver ábyrgðaraðilinn er, samskiptaupplýsingum persónuverndarfulltrúa ef við á, tilgangi vinnslunnar og lagagrundvelli, viðtakendum eða flokkum viðtakenda persónuupplýsinganna og ef heimild til vinnslu byggist á því að hún sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna, hvaða lögmætu hagsmunir það eru.

Í framangreindum leiðbeiningum Evrópska persónuverndarráðsins er áréttað mikilvægi þess að hinum skráða sé með skýrum viðvörunarmerkjum gerð grein fyrir því að rafræn vöktun fari fram, svo og til hvaða svæða hún nái. Jafnframt er tekið fram að frekari fræðslu samkvæmt 13. gr. reglugerðarinnar megi veita með öðrum hætti en slíkum viðvörunarmerkjum en að hún þurfi eftir sem áður að vera fyrir hendi og aðgengileg.

Ætla má að það geti ráðist af aðstæðum og atvikum hverju sinni hvaða kröfur verða gerðar til nánari fræðslu samkvæmt þessu. Ef vöktun er óvenju viðamikil eða íþyngjandi er þörf ítarlegrar fræðslu. Ef hins vegar um hefðbundna öryggisvöktun er að ræða, sem ekki er umfram það sem almennt tíðkast, getur verið nóg að vísa til reglna sem Persónuvernd setur um rafræna vöktun, sbr. nú reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við slíka vöktun, sem gilda meðal annars um rafræna vöktun sem fer fram á svæðum sem takmarkaður hópur fólks fer að jafnaði um, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglnanna. Samkvæmt 10. gr. þeirra skal ábyrgðaraðili rafrænnar vöktunar veita fræðslu til þeirra sem henni sæta.

3.

Niðurstaða

Sem fyrr greinir var það niðurstaða fyrri vettvangsathugunar Persónuverndar að merkingar um rafræna vöktun á vögnum Strætó bs. væru með þeim hætti að ekki væri hafið yfir vafa að farþegum sem gengju inn um miðhurðir vagnanna væri ávallt ljóst að rafræn vöktun færi þar fram. Byggðist sú niðurstaða á því að merkingar vantaði jafnan við miðhurðir strætisvagnanna og að misræmis gætti í merkingum inni í vögnunum. Þá voru jafnan ekki veittar aðrar upplýsingar en að rafræn vöktun færi fram auk þess sem ráða mátti af merkingunum að vöktunin væri á vegum Strætó bs. Þótti fræðslan að þessu leyti ófullnægjandi.

Í svörum Strætó bs. kom fram að allir farþegar skyldu ganga inn um framdyr strætisvagnanna og að ekki væri boðið upp á að gengið væri inn um aðrar dyr þeirra. Persónuvernd getur ekki fallist á framangreint þar sem ljóst er að farþegar með barnavagna og hjól fara jafnan inn í strætisvagna um miðdyr þeirra. Þá var þeim tilmælum beint til farþega Strætó bs., í miðjum COVID-19-faraldri, að ganga inn um miðdyr vagnanna.

Með hliðsjón af framangreindu samrýmdust merkingar og fræðsla Strætó bs. ekki ákvæðum 4. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna, sbr. og 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna og a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Er þessi niðurstaða í samræmi við úrskurð Persónuverndar frá 15. júní 2021 í máli nr. 2020010545.

Niðurstaða síðari vettvangsathugunar Persónuverndar var á hinn bóginn að merkingar á vögnum Strætó bs. væru með þeim hætti að farþegum mætti vera ljóst, áður en þeir gengju inn í vagnana, að framan eða fyrir miðju, að rafræn vöktun færi þar fram, auk þess sem ljóst mætti vera af merkingunum að vöktunin færi fram á vegum Strætó bs. og að nálgast mætti nánari upplýsingar á „strætó.is“. Þá var það niðurstaða athugunarinnar að farþegum væri einnig gert það ljóst með merkingum hjá vagnstjóra að rafræn vöktun færi fram, auk þess sem þeim væri með sömu merkingum gert ljóst að Strætó bs. væri ábyrgðaraðili og gert auðvelt að nálgast persónuverndarstefnu fyrirtækisins með notkun QR-kóða, þar sem fram kæmu meðal annars upplýsingar um ábyrgðaraðila, samskiptaupplýsingar persónuverndar­fulltrúa, tilgang rafrænnar vöktunar með öryggismyndavélum í strætisvögnum og að sú vinnsla byggðist á heimild í 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Með hliðsjón af síðari vettvangsathugun Persónuverndar er það niðurstaða Persónuverndar að merkingar og fræðsla um rafræna vöktun í vögnum Strætó bs. sé nú með þeim hætti að samrýmist skyldum Strætó bs. samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 12. gr. og 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, sbr. og 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna og a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

Það athugast þó að þessi niðurstaða byggist á athugun á aðeins tíu strætisvögnum og áréttar Persónuvernd því við Strætó bs. að gæta þess að merkingar og fræðsla í öllum strætisvögnum á vegum fyrirtækisins uppfylli framangreindar kröfur.

4.

Sektarheimild og beiting hennar

Líkt og að framan greinir tók Persónuvernd til skoðunar að leggja sekt á Strætó bs. með hliðsjón af niðurstöðu vettvangsathugunar 15. maí 2020 og því hversu umfangsmikil rafræn vöktun er í strætisvögnum fyrirtækisins.

Persónuvernd getur lagt stjórnvaldssektir á þá sem brjóta gegn einhverju þeirra ákvæða reglugerðarinnar og laganna sem talin eru upp í 2. og 3. mgr. 46. gr. laga nr. 90/2018, sbr. 1. mgr. þeirrar lagagreinar. Samkvæmt 1. og 2. tölul. 3. mgr. 46. gr. eru þar á meðal ákvæði um grundvallarreglur vinnslu, m.a. samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar, og um réttindi skráðra einstaklinga, m.a. samkvæmt 12. og 13. gr. reglugerðarinnar. Þar sem niðurstaða Persónuverndar felur í sér að Strætó bs. braut gegn þessum ákvæðum reglugerðarinnar á tilteknum tíma reynir hér á framangreindar sektarheimildir. Við ákvörðun um hvort þeim skuli beitt, sem og um fjárhæð sektar, ber að líta til 1. mgr. 47. gr. laga nr. 90/2018 þar sem kveðið er á um þau atriði sem ýmist geta verið metin hlutaðeigandi til málsbóta eða honum í óhag. Meðal þeirra atriða sem líta ber til eru hvers eðlis, hversu alvarlegt og langvarandi brotið er, með tilliti til eðlis, umfangs eða tilgangs vinnslunnar og fjölda skráðra einstaklinga og hversu alvarlegu tjóni þeir urðu fyrir (1. tölul.); umfang samvinnu við Persónuvernd til þess að bæta úr broti og draga úr mögulegum skaðlegum áhrifum þess (6. tölul.); og aðrir íþyngjandi eða mildandi þættir sem varða kringumstæður málsins (11. tölul.).

Með hliðsjón af þessum ákvæðum er til þess að líta að vöktun á vegum Strætó bs. er umfangsmikil og að rafræn vöktun er í eðli sínu talsvert inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra einstaklinga sem henni sæta. Á hinn bóginn skal bent á að þrátt fyrir að kröfum 13. gr. reglugerðarinnar hafi ekki verið fullnægt þegar Persónuvernd fór í fyrri vettvangsathugun sína, voru merkingar með viðvörun um rafræna vöktun í öllum tilvikum við framdyr strætisvagnanna. Má því ætla að farþegum strætisvagnanna hafi almennt verið ljóst að rafræn vöktun færi fram á vegum Strætó bs. þegar þeir gengu inn um framdyr vagnanna, eins og almennt er venjan.

Jafnframt er litið til þess að þegar Persónuvernd fór í síðari vettvangsathugun sína hafði Strætó bs. bætt úr ágöllum á fræðslu, sem þótti þá fullnægja kröfum 13. gr. reglugerðarinnar.

Með vísan til fyrrgreindra ákvæða 1. mgr. 47. gr. laga nr. 90/2018 er það niðurstaða Persónuverndar að þegar framangreind atriði eru virt í heild sinni séu ekki forsendur til beitingar umræddrar sektarheimildar.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Merkingar og fræðsla Strætó bs. um rafræna vöktun í strætisvögnum fyrirtækisins samrýmdust ekki lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð (ESB) 2016/679 hinn 15. maí 2020.

Merkingar og fræðsla Strætó bs. um rafræna vöktun í strætisvögnum fyrirtækisins samrýmdust lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 hinn 16. september 2021.


Persónuvernd, 21. október 2021

Ólafur Garðarsson

formaður

Björn Geirsson                      Sindri M. Stephensen

Vilhelmína Haraldsdóttir                            Þorvarður Kári ÓlafssonVar efnið hjálplegt? Nei