Úrlausnir

Úrskurður Persónuverndar varðandi afturköllun leyfis

27.10.2009

I.

Þann 17. desember 2008 barst Persónuvernd umsókn um leyfi til aðgangs að sjúkraskrám á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 74/1997 vegna rannsóknar sem bar yfirskriftina „...“. Að rannsókn stóðu A, læknir hjá heilsugæslunni og B, yfirlæknir á heilsugæslunni. Samkvæmt leyfisumsókninni var tilgangur verkefnisins að taka saman ýmis atriði er vörðuðu heilsugæsluna, til að mynda fjölda koma, fjölda símtala, fjölda starfsmanna á vakt, hvaða úrlausn sjúklingum væri boðið upp á og fleiri atriði. Á umsókn staðfesti B að hann hefði samþykkt að veita aðgang að sjúkraskrám vegna rannsóknarinnar.

Leyfi var gefið út þann 22. janúar 2009 (mál 2009/2). Með tölvubréfi, dags. 20. júlí 2009, óskaði E, forstjóri heilsugæslunnar, eftir upplýsingum um framangreinda leyfisveitingu m.a. hvaða sjúkraskrám hefði verið veittur aðgangur að og hvort leitað hefði verið eftir heimild hjá heilsugæslunnar og þá hjá hverjum. Persónuvernd veitti umbeðnar upplýsingar með tölvubréfi, dags. 29. júlí 2009. Með tölvubréfi, dags. 6. ágúst 2009, óskaði E síðan eftir því að leyfið yrði afturkallað. Í bréfi hans sagði:

 

„Ástæða þessa er sú, að sá er áritar umsóknina sem ábyrgðarmaður sjúkraskráa H, þ.e. B, læknir, er ekki ábyrgðarmaður sjúkraskráa hjá stofnuninni og hefur hvorki óskað eftir né verið falið umboð til undirritunar rannsóknarbeiðna“.

 

Málið var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar, dags. 13. ágúst 2009, þar sem ákveðið var að gefa B og A kost á að tjá sig um afturköllunarbeiðni E, forstjóra heilsugæslunnar. Var rannsakendum gefinn kostur á að koma framfæri athugasemdum sínum með bréfi, dags. 13. ágúst 2009. Þann 20. ágúst 2009 kom annar rannsakenda, A, á skrifstofu Persónuverndar og kvað umrædda rannsókn hafa byrjað.  Andmæli B bárust með tölvubréfi, dags. 24. ágúst 2009, þar sagði m.a. að það hefði verið í góðri trú sem yfirlæknir, B, hefði samþykkt aðgang að sjúkraskrám heilsugæslunnar og að rannsóknin væri þegar „fallin um sig“, þar sem einungis hefði verið sótt um rannsóknina en hún aldrei hafist og afturkallaði B rannsóknina sjálfur með bréfi sínu. :

 

Þann 18. september sendi Persónuvernd B bréf og tilkynnti honum að þar sem engin frekari andmæli hefðu borist myndi stofnunin taka umrætt erindi til efnislegrar meðferðar. Því bréfi svaraði B með tölvubréfi, dags. 18. september 2009, en þar kom fram að fullyrðingar forstjóra heilsugæslunnar, um að lækningaforstjóri hefði ekki vitað af umræddri rannsókn, væru rangar auk þess sagði í bréfinu:

 

„Ma  vel  vera  at  hans  nafn  hefdi  att a t  satanda i  reitnum abyrgdarmadur  en seins og  lögin  hljoma  sem  thu  vitnar i er  that  yfirlaeknir. Ef tat  stangast  a  vid  thssi  bref [E] og [S]  tha  verdur a t  utskurda um  that  hvort  vegur  thyngra  lögin og  hefdir  td. inna heislugaslunnar  td i Reykjavik.  Hver  er  abrygdarmadur  sjukraskar hverrar  stödvar?“

 

II.

A samþykkti afturköllun umræddrar rannsóknar munnlega þegar hann mætti á skrifstofu Persónuverndar þann 20. ágúst sl. Hefur rannsóknin því verið afturkölluð hvað hann varðar. B samþykkti einnig afturköllun rannsóknarinnar með tölvubréfi sínu, dags. 24. ágúst 2009. B fór hins vegar fram á úrskurð stofnunarinnar í síðara tölvubréfi sínu, dags. 18. september 2009, og því hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að taka málið til úrskurðar.

 

Um starf heilsugæslustöðva gildir IV. kafla laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 (kafli um almenna heilbrigðisþjónustu). Samkvæmt 14. gr. laganna skal í hverju heilbrigðisumdæmi starfrækt heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem hafa með höndum starfrækslu heilsugæslustöðva og umdæmissjúkrahúsa sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í umdæminu.

 

Ábyrgðaraðili sjúkraskráa er sá aðili sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinga sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000. Þegar um sjúkraskrárupplýsingar er að ræða hefur Persónuvernd litið svo á að ábyrgðaraðili sjúkraskráa sé lækningaforstjóri sjúkrastofnunar, nema yfirstjórn viðkomandi sjúkrastofnunar hafi gefið aðrar leiðbeiningar, en slíkt hafði ekki verið gert hjá H. Er sú túlkun í samræmi við 3. gr. verklagsreglna nr. 340/2003, um afgreiðslu umsókna um aðgang að sjúkraskrám. Var ákvörðun um aðgang að sjúkraskrá því ekki tekin af bærum aðila. Af þessum sökum var ákvörðun Persónuverndar byggð á röngum forsendum um þetta ófrávíkjanlega skilyrði fyrir útgáfu leyfisins og er ákvörðunin því haldin verulegum efnisannmarka og verður af þeim sökum afturkölluð.

 

Leyfi nr. 2009/2, dags. 22. janúar 2009 vegna rannsóknarinnar „...“ er hér með afturkallað.Var efnið hjálplegt? Nei