Úrlausnir

Kvörtun yfir meðferð starfsmanna Landspítala á heilsufarsupplýsingum í tengslum við vinnu dómkvaddra matsmanna

21.7.2009

Beiðni um endurupptöku máls hefur verið hafnað þar sem það er enn til meðferðar dómara.

1.

Persónuvernd vísar til erindis K hrl. f.h. umbjóðanda hans, B, dags. 27. maí 2009, í tengslum við meðferð starfsmanna Landspítala á heilsufarsupplýsingum um hann í tengslum við vinnu dómkvaddra matsmanna í matsmálinu M-76/2008 sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Nánar tiltekið varðar erindið bréf Persónuverndar, dags. 19. desember 2008, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri, að svo stöddu, ástæða til að aðhafast frekar af tilefni kvörtunar framangreinds lögmanns f.h. B, dags. 15. september s.á., vegna meðferðar umræddra upplýsinga.

Í áðurnefndu erindi, dags. 27. maí 2009, er þess óskað að Persónuvernd endurskoði þessa afstöðu og taki kvörtun, dags. 15. september 2009, til efnislegrar meðferðar. Um þetta segir í erindinu:

„Í erindi Persónuverndar er komist að þeirri niðurstöðu að kvörtunarefni umbjóðanda míns fái skoðun hjá dómara, þar sem dómari úrskurði lögum samkvæmt um atriði varðandi framkvæmd matsgerðar, sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála (eml.), sbr. 1. mgr. 77. gr. og 1. mgr. 79. gr. sömu laga. Um það er ekki deilt að dómari úrskurði um atriði varðandi framkvæmd matsgerðar. Umbjóðandi minn telur hins vegar að kvörtunarefni hans lúti ekki að þeirri endurskoðun.

Í 2. mgr. 62. gr. eml. segir að matsmanni sé rétt að afla sér gagna til afnota við matið, en aðilum sé þó gefinn kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum. Þá segir í 3. mgr. 62. gr. sömu laga að þeim sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að sé skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Telji aðili matsmann ekki hafa sinnt þessari skyldu eða öðrum áþekkum skyldum kann það að koma í hlut dómara skv. 1. mgr. 66. gr. eml. að úrskurða um álitamálið. Dómari úrskurðar hins vegar ekki um hvort aðili hafi brotið gegn lögum með því að taka sjálfur saman gögn um gagnaðila sinn og vinna úr þeim, þrátt fyrir að gögn þessi lúti ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (pvl.). Slík háttsemi heyrir tvímælalaust undir gildissvið pvl., óháð því hvort hin ólögmæta háttsemi sé framkvæmd í tengslum við matsmál eða einhver önnur mál sem síðar verður fjallað um fyrir dómi.

Mikilvægt er að greina hér á milli þess álitaefnis sem matsmálið lýtur að og þess álitaefnis sem lýtur að mögulegu broti gegn ákvæðum pvl. Það verður einfaldlega ekki umfjöllunarefni héraðsdóms hvort íslenska ríkið hafi með ólögmætum hætti aflað gagna sem lögð voru fyrir matsmann, heldur lýtur umfjöllunarefni fyrir dómi einvörðungu að kröfu umbjóðanda míns um greiðslu skaðabóta vegna þess tjóns sem rekja má til athafna og athafnaleysis starfsmanna Landspítalans við meðhöndlun á umbjóðanda mínum þegar hann fékk hjartaáfall. Er það því eftir sem áður hlutverk Persónuverndar að skera úr um það álitaefni sem hér er til umfjöllunar.

Líkt og umbjóðandi minn rökstuddi í upphaflegri kvörtun sinni til Persónuverndar, þá var freklega vegið að stjórnarskrárvörðum rétti hans til friðhelgi einkalífs. Hvergi er að finna í lögum heimild til handa starfsmönnum heilbrigðisstofnana að nálgast, safna saman og vinna úr upplýsingum af því tagi sem hér um ræðir og er Persónuvernd því að mati umbjóðanda míns ekki stætt á því að víkja sér undan því að taka efnislega afstöðu til umkvörtunarefnisins."

2.

Við mat á þeirri kröfu að Persónuvernd endurskoði þá afstöðu, sem fram kemur í áðurnefndu bréfi, dags. 19. desember 2008, ber að líta til þeirra reglna sem gilda um hvenær vinna má með viðkvæmar persónuupplýsingar, en upplýsingar um heilsuhagi eru viðkvæmar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. laga nr. 77/2000 fyrir vinnslu slíkra upplýsinga. Þá þarf að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. sömu laga eins og ávallt við vinnslu persónuupplýsinga, viðkvæmra sem annarra.

Í 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er mælt fyrir um að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Þá segir í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Auk þess verður að hafa í huga ákvæði í réttarfarslöggjöfinni, en samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómkvöddum matsmönnum rétt að afla sér gagna til afnota við matið.

Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga vegna vinnu dómkvaddra matsmanna gæti einkum stuðst við framangreind ákvæði. Að auki verður að fara að grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, en þar er m.a. mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær séu fengnar í skýrum, yfirlýstum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Störf dómkvaddra matsmanna eru þáttur í málsmeðferð fyrir dómi. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um þrígreiningu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Kemur fram að dómendur fara einir með dómsvaldið. Þá segir í 59. gr. stjórnarskrárinnar að skipun dómsvaldsins verði eigi ákveðin nema með lögum. Í þessu felst að handhöfum framkvæmdarvalds er óheimilt að hlutast til um meðferð mála sem eru fyrir dómi. Úrlausn Persónuverndar um það hvort heimilt sé, m.a. í ljósi framangreindra ákvæða laga nr. 77/2000, að afla tiltekinna gagna vegna máls sem er til meðferðar fyrir dómi, þ. á m. matsmáls, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, myndi fela í sér slíka íhlutun.

Ein af grunnreglum einkamálaréttarfars er sú að dómari leysi úr þeim ágreiningi sem undir hann er borinn. Í samræmi við það er mælt fyrir um það í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 að dómari leysi úr ágreiningi sem varðar framkvæmd matsgerðar. Í bréfi K hrl., dags. 27. maí 2009, segir að dómari úrskurði ekki um lögmæti gagnaöflunar vegna matsgerðar samkvæmt þessu ákvæði. Ef gagnaöflun á ekki undir ákvæðið má hins vegar ætla að hún falli undir 2. mgr. 66. gr. þar sem segir að dómari leggi mat á önnur atriði varðandi matsgerð en þau sem falla undir 1. mgr. sömu greinar þegar leyst sé að öðru leyti úr máli. Í því sambandi má geta þess að fyrir því eru fordæmi að dómarar átelji gagnaframlagningu sem talin hefur verið ómálefnaleg, sbr. m.a. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júní 2002 í máli nr. E-7564/2001.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd ekki ástæðu til að endurskoða þá afstöðu sem fram kemur í bréfi hennar, dags. 19. desember 2008, þ.e. að lögmæti umræddrar gagnaöflunar verði ekki tekið til endurskoðunar að svo stöddu. Ekki er því fallist á framkomna kröfu þar að lútandi, en sú niðurstaða er í samræmi við ákvörðun stjórnar Persónuverndar frá 9. júní 2009 í máli nr. 2008/819. Hjálögð er útprentun af þeirri ákvörðun af heimasíðu Persónuverndar.

Var efnið hjálplegt? Nei