Úrlausnir

Ákvörðun um notkun sjúkraskrárupplýsinga; frávísun

12.6.2009

Persónuvernd vísaði frá máli manns sem kvartaði yfir notkun sjúkraskrárupplýsinga í ágreiningsmáli milli hans og LSH. Frávísun byggðist á því að málið er til umfjöllunar hjá héraðsdómi.

Ákvörðun

Hinn 9. júní 2009 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2008/819:

I.

Bréfaskipti

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni kvörtunar A (hér eftir nefndur „kvartandi"), dags. 19. desember 2008, yfir meðferð á sjúkraskrám sem færðar voru á Landspítala. Samkvæmt kvörtuninni voru afrit af upplýsingum úr sjúkraskrá hans send Lögmannsstofu Jóns Egilssonar í tengslum við meðferð réttarágreinings. Nánar tiltekið er um að ræða skjöl í tengslum við notkun öndunarvélar sem bera titlana „Patient Follow-ups" og „Meðferðarseðill – Lungnalækning".

Fram kom í kvörtuninni að mál vegna miðlunar umræddra gagna var til meðferðar hjá Landlæknisembættinu. Því máli lauk með bréfum Landlæknisembættisins til kvartanda og spítalans, dags. 26. janúar 2009, en kvartandi kom afritum af þeim til Persónuverndar hinn 4. febrúar s.á. Í bréfi Landlæknisembættisins til spítalans segir m.a.:

„Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að lögmanni Landspítalans var afhent í heilu lagi sjúkraskýrsla um [...], án þess að fyrir lægi samþykki hans eða ljóst væri að leggja þyrfti fram sjúkraskýrsluna í heild. Er hér um ræða brot á lögum um réttindi sjúklinga og læknalögum [sbr. 12. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 1. mgr. 15. gr. læknalaga nr. 53/1988]. Landlæknisembættið beinir þeim tilmælum til Landspítalans að gæta að lagaákvæðum um þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna."

Í framhaldi af þessu sendi Persónuvernd Landspítalanum og Lögmannsstofu Jóns Egilssonar bréf, dags. 6. mars 2009. Þar var þessum aðilum veittur kostur á að tjá sig um málið:

Lögmannsstofa Jóns Egilssonar svaraði með bréfi, dags. 20. mars 2009. Þar segir:

„[...] hefur haft afnot af C-PAP öndunarvél frá Landspítala háskólasjúkrahúsi um margra ára skeið. Árið 2003 var reglugerð um afnot vélanna breytt á þann veg að notendur greiða nú kr. 1.500 á mánuði vegna fylgihluta og þjónustu vegna tækjanna. [...] vildi ekki greiða fyrir afnotin og leigugjaldið er til innheimtu hér.

Í máli sem höfðað var gegn [...] fyrir Héraðsdómi Reykjaness hélt [...] því fram að hann notaði enga fylgihluti eða þjónustu vegna vélarinnar. Málinu var vísað frá dómi vegna formsatriða en reynt að ræða við lögmann [...] um greiðslu. Þar sem því var haldið fram að hann hefði ekki fengið neina fylgihluti var nauðsynlegt að fá upplýsingar um það frá Landspítala. Gögn frá Landspítala sýndu fram á að [...] hafði margsinnis nýtt sér þjónustu vegna öndunarvélarinnar og hefur undir höndum fylgihluti vegna hennar. Þegar [...] neitaði enn að greiða þrátt fyrir að sannað væri að hann notaði fylgihluti og þjónustu var málinu stefnt á ný. Þegar hin umdeildu skjöl, patient follow-ups og meðferðarseðill, voru lögð fyrir héraðsdóm var strikað yfir allar upplýsingar sem sneru að líðan [...] og einungis kemur fram hvaða fylgihluti hann hefur undir höndum og hvenær hann nýtti sér þjónustu vegna vélarinnar.

Það samrýmist ekki tilgangi persónuverndarlaga að viðkomandi geti nýtt sér lögin til að komast hjá greiðslu. Það getur ekki samrýmst tilgangi laganna að notandi öndunarvélar geti komist hjá greiðslu með því að segjast ekki nýta þjónustu og fylgihluti þar sem ekki sé unnt að leggja fram yfirlit yfir fylgihluti og nýtta þjónustu.

Þá er því mótmælt að um sjúkraskrá í heild sinni sé að ræða og í skjalinu koma ekki fram viðkvæmar upplýsingar um notandann. Sé ekki unnt að nota skjölin hvernig getur Landspítali sýnt fram á að viðkomandi hafi undir höndum fylgihluti og nýtt sér þjónustu.

Því er mótmælt að afhending gagnanna sé brot gegn 15. gr. l. nr. 53/1988 enda rökstudd ástæða til að rjúfa þagnarskyldu. Þá má líta til 4. mgr. 15. gr. um að læknir verði leiddur fram sem vitni í einkamáli gegn vilja sjúklings ef ætla má að úrslit málsins velti á vitnisburði hans. Í því máli sem hér um ræðir ræðst málið af því hvort [...] hefur undir höndum fylgihluti og nýti sér þjónustu. Leggja þarf gögnin fram til að sýna fram á að svo sé og því hægt að jafna atvikum til vitnisburðar fyrir dómi.

Meðfylgjandi eru hin umdeildu skjöl, í upprunalegu horfi og eins og þau voru lögð fyrir héraðsdóm."

Hinn 31. mars 2009 barst Persónuvernd tölvubréf frá kvartanda, en í viðhengi með því var bréf til Persónuverndar, dags. s.d. Þar segir m.a.:

„Það er erfitt að gæta réttar síns þegar bæði LHS og Lögmannsstofa Jóns Egilssonar standa fyrir lögbrotum í málarekstri fyrir dómstólum, með því að nota ólöglega fengin gögn, þ.e. sjúkraskrána.

Við framlagningu gagnanna í Héraðsdómi Reykjaness fór undirritaður fram á að gögnin yrðu innsigluð þar sem viðurkennt væri að þau væru ólöglega fengin. Dómari (Sandra) hafnaði þessu og neitaði undirrituðum um að afhenda réttinum gögn frá landlækni og Persónuvernd varðandi gögnin. (Þessa fyrirtöku tók undirritaður upp á vídeó og get ég sýnt það ef þess er óskað)

Undirritaður telur að hér séu tilgreind gróf brot Landspítala háskólasjúkrahúss (LHS) og Lögmannstofu Jóns Egilssonar á lögum sem eiga að tryggja persónuvernd og trúnað í heilbrigðiskerfinu. Viðurkenning landlæknis, á að hann telji að svo sé, er framkomin í bréfi hans frá 26. jan 2009."

Með vísan til þessa fer kvartandi fram á að öllum sjúkragögnum um hann í vörslu Lögmannsstofu Jóns Egilssonar verði eytt þar sem þeirra hafi verið aflað með ólögmætum hætti, að af sömu ástæðu skuli þeim eintökum umræddra gagna eytt sem lögmannsstofan lagði fram í Héraðsdómi Reykjaness, sem og að öll notkun gagnanna verði könnuð, þ. á m. hverjir hafi notað þau, þar sem kvartandi hyggist höfða einkamál á hendur starfsmönnum Landspítalans og Lögmannsstofu Jóns Egilssonar.

Með bréfum, dags. 15. apríl 2009, veitti Persónuvernd Landspítala og Lögmannsstofu Jóns Egilssonar kost á að tjá sig um framangreint bréf kvartanda. Einnig veitti Persónuvernd kvartanda, með bréfi, dags. 15. apríl 2009, færi á að tjá sig um áðurnefnt bréf Lögmannsstofu Jóns Egilssonar, dags. 20. mars s.á. Ekki hafa borist svör frá Landspítala og kvartanda, en svar, dags. 22. maí 2009, hefur borist frá Lögmannsstofu Jóns Egilssonar. Þar segir:

„Að gefnu tilefni skal tekið fram að gagnaframlagning til lögmanns telst ekki til miðlunar í skilningi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og þegar af þeirri ástæðu telur undirrituð [... hdl.] málið ekki brot gegn persónuverndarlögum.

Þá ber að líta til 7. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laganna um að vinnsla sé heimil sé hún nauðsynleg til að krafa verið afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja en upplýsingarnar voru fengnar þar sem [...] neitaði að hafa notið þjónustu LSH.

Að öðru leyti er vísað til fyrra bréfs, dags. 20. mars 2009."

II.

Ákvörðun

1.

Forsendur

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000.

Þær upplýsingar, sem hér um ræðir, lúta að heilsuhögum. Slíkar upplýsingar eru viðkvæmar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Svo að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 9. gr. laganna. Þá verður að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. og 9. gr. laganna.

Fyrir liggur að Landspítalinn hefur lagt umrædd gögn fram í ágreiningsmáli sem nú er í meðförum dómstóla. Í 7. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er mælt fyrir um að vinna megi með viðkvæmar persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Þá segir í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. að vinna megi með persónuupplýsingar sé vinnslan nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Með vísan til þess að umrædd vinnsla persónuupplýsinga fór fram í tengslum við rekstur máls sem rekið er fyrir dómstóli, og að ekki liggur fyrir hvort hann muni taka efnislega afstöðu til þess hvort meðferð umræddra gagna sé lögmæt, þykja ekki vera, að svo stöddu, efni til að aðhafast frekar í málinu. Þegar fallin er dómur í málinu mun Persónuvernd eftir atvikum taka mál þetta til frekari afgreiðslu, verði þess óskað.

2.

Niðurstaða

Með vísan til framangreinds hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að ekki skuli, eins og á stendur, aðhafst frekar af tilefni kvörtunar [...], dags. 19. desember 2008.

Var efnið hjálplegt? Nei