Úrlausnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um meðferð sakamála

4.2.2008

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 26. nóvember 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um meðferð sakamála (þskj. 252, 233. mál á 135. löggjafarþingi). Verði frumvarpið að lögum munu hin nýju lög koma í stað núgildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í frumvarpinu eru fjölmörg ákvæði sem snerta með einum eða öðrum hætti friðhelgi einkalífs, þ. á m. meðferð persónuupplýsinga, enda er ljóst að rannsókn og dómsmeðferð sakamála hefur ávallt í för með sér íhlutun í einkalíf og frelsi sakaðs manns. Þá geta ýmsir þættir við rannsókn og dómsmeðferð falið í sér íhlutun í garð annarra, t.d. brotaþola. Má þar nefna sem dæmi þá aðstöðu þegar hann ber vitni um atvik máls, sem eftir atvikum geta verið viðkvæm, í opnu þinghaldi.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Telur stofnunin einkum eftirfarandi ákvæði tengjast friðhelgi einkalífs, þ. á m. vernd persónuupplýsinga: 1. mgr. 10. gr., a-, d- og g-liðir 1. mgr. 10. gr., 2. og 5. mgr. 10. gr., 11. gr., niðurlag 2. mgr. og 3. mgr. 13. gr., 3. og 4. mgr. 15. gr., 1., 3. og 4. mgr. 16. gr., 17. gr., 3. mgr. 35. gr., 1.–4. mgr. 37. gr., 47. gr., 54. gr., 2. og 3. mgr. 56. gr., 2. mgr. 58. gr., 2. og 3. mgr. 64. gr., 65. gr., 2. og 4. mgr. 66. gr., 67. gr., 68.–70. gr., 72. gr., 74.–79. gr., 80.–85. gr., 1. mgr. 86. gr., 87. gr., 89. gr., 2. mgr. 92. gr., 3. og 4. mgr. 93. gr., c- og d-liðir 1. mgr. og 2. og 3. mgr. 99. gr., 3. mgr. 100. gr., 4. mgr. 106. gr., 1. mgr. 118. gr., 2.–3. mgr. 119. gr., 2. og 5.–8. mgr. 122. gr., 123. gr., 2. og 4. mgr. 134. gr., 1. og 2. mgr. 136. gr., 137. gr., b–f-liðir 1. mgr. 152. gr., 154. gr., 1.–3. og 5. mgr. 156. gr., 2.–3. mgr. 183. gr., b–j-liðir, l-liður og n–p-liðir 1. mgr. og b- og c-liðir 2. mgr. 192. gr., 3. mgr. 209. gr., 225. gr., 226. gr. og 227. gr.

Persónuvernd telur ekki ástæðu til að fjalla um öll þessi ákvæði. Hins vegar er hér að neðan vikið sérstaklega að nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi eru rakin ýmis ákvæði í frumvarpinu sem telja má treysta réttarstöðuna hvað varðar friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga. Í öðru lagi lagi er vikið að því hvernig túlka beri ákvæði 89. gr. frumvarpsins um að Ríkissaksóknari skuli setja reglur um sérstök rannsóknarúrræði lögreglu. Og í þriðja lagi eru gerðar tillögur um breytingar og viðbætur við viss ákvæði frumvarpsins.

I.

Ákvæði sem styrkja réttarvernd

Rakin skulu nokkur ákvæði í frumvarpinu sem telja má til þess fallin að efla friðhelgi einkalífs, þ. á m. vernd persónuupplýsinga, í tengslum við meðferð sakamála.

Í 2. mgr. 10. gr. segir að við þingfestingu máls sé dómara heimilt að ákveða í eitt skipti fyrir öll að þinghöld í málinu skuli vera lokuð. Samkvæmt 8. gr. gildandi laga nr. 19/1991 getur dómari einnig lokað þinghaldi, en ekki er þar þó tekið fram að ákvörðun um slíkt geti gilt fyrir tiltekið mál í heild sinni.

Í 1. mgr. 11. gr. segir að óheimilt sé að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi, en dómari geti þó veitt undanþágu frá því banni í sérstökum tilvikum. Er þessa reglu einnig að finna í 1. mgr. 10. gr. gildandi laga. Í frumvarpsákvæðinu, en ekki í ákvæði laganna, er því hins vegar bætt við að hafi verið tekið upp hljóð eða teknar myndir í þinghaldi án leyfis dómara sé óheimilt að birta þær hljóðupptökur eða myndir.

Í 76. gr. er sett það skilyrði fyrir leit á sakborningi og öðrum, sem og líkamsleit á sakborningi, að rökstuddur grunur leiki á um að framið hafi verið brot sem varðað geti fangelsisrefsingu. Sé um að ræða leit í tengslum við rannsókn á broti gegn sérlögum þarf brotið að geta varðað tveggja ára fangelsisrefsingu. Þá þarf brotið að geta varðað sex ára fangelsi sé um að ræða líkamsleit. Í gildandi lögum er ekki að finna sambærileg skilyrði fyrir leit, sbr. 92. gr. laganna.

Í 3. mgr. 84. gr. segir að heimild til aðgerða samkvæmt 80.–82. gr. – þ.e. símahlustunar og sambærilegra tæknilegra rannsóknarúrræða, sem fela í sér eftirlit með tilteknum einstaklingum – skuli markaður ákveðinn tími í dómsúrskurði sem ekki má vera lengri en fjórar vikur hverju sinni. Sambærilegt ákvæði um afmörkun tíma er ekki að finna í gildandi lögum.

Í 1. mgr. 85. gr. er fjallað um skyldu til eyðingar gagna sem aflað er við beitingu rannsóknaraðgerða samkvæmt 80.–82. gr., t.d. símahlustunar. Þá er í 2. mgr. 85. gr. mælt fyrir um að lögreglustjóri skuli tilkynna þeim sem aðgerð beindist að um aðgerðina að henni lokinni svo fljótt sem verða megi, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins.

Ákvæði 85. gr. samsvara ákvæðum 88. gr. gildandi laga en skerpa auk þess á og styrkja réttindi þess sem aðgerð beinist að. Í 1. mgr. 85. gr. er þannig sérstaklega mælt fyrir um að afritum gagna skuli eytt á sama hátt og frumupplýsingum, en þannig er tekinn af allur vafi um þetta atriði. Þá er í 1. mgr. mælt fyrir um að hafi gögn að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn eða upplýsingar um eitthvert þeirra atriða, sem vitni er óheimilt að svara til um samkvæmt 2. mgr. 119. gr. frumvarpsins, skuli gögnunum eytt þegar í stað. Loks er í 2. mgr. 85. gr. mælt fyrir um að héraðssaksóknari – en stofnað verður til þess embættis verði frumvarpið að lögum – skuli fylgjast sérstaklega með því að lögreglustjórar sinni þeirri skyldu sinni að tilkynna þeim sem aðgerð hefur beinst að um aðgerðina. Þess er rétt að geta að í gildandi lögum er hvergi tekið fram hver skuli sinna þessari tilkynningarskyldu og er það atriði því gert skýrara í frumvarpinu.

Í 3. mgr. 99. gr. er mælt fyrir um að í dómsúrskurði megi ákveða, að kröfu sakbornings, að óheimilt sé að skerða þau réttindi sem honum sem gæsluvarðhaldsfanga eru áskilin í c–e-liðum 1. mgr. sömu greinar, s.s. til að taka við bréfum eða öðrum skjölum. Einnig er þar hins vegar mælt fyrir um hvernig skerða má þessi réttindi, s.s. með því að athuga efni bréfa og skjala sem sakborningi berast. Um umrædd réttindi gæsluvarðhaldsfanga og takmarkanir á þeim er fjallað í 108. gr. gildandi laga, en þar er hins vegar ekki mælt fyrir um að banna megi skerðingu þeirra með dómsúrskurði.

II.

Reglur Ríkissaksóknara um sérstök rannsóknarúrræði

Með 89. gr. frumvarpsins er lagt til að Ríkissaksóknari fái heimild til að setja reglur um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála sem ekki sé kveðið á um í lögum. Í reglunum skuli m.a. koma fram hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til þess að gripið verði til tiltekinnar aðferðar eða aðgerðar, hverjir séu bærir til að taka ákvörðun um hana og hvernig staðið skuli að framkvæmd hennar.

Persónuvernd telur þetta ákvæði til þess fallið að styrkja réttarvernd sakaðra manna, enda verði við setningu reglna samkvæmt því gætt meðalhófs. Skýr afmörkun á því hvað sé heimilt og hvað ekki getur, með öðrum orðum, girt fyrir að farið sé offari við rannsókn sakamála.

Jafnframt minnir Persónuvernd hins vegar á að viss rannsóknarúrræði má því aðeins telja lögmæt að þau séu sérstaklega heimiluð í lögum eða að öðrum kosti að dómari úrskurði um beitingu þeirra á grundvelli skýrrar lagastoðar, sbr. 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og þar kemur fram á þetta m.a. við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Öll notkun tækjabúnaðar til að hlera samtöl manna og afla upplýsinga um einkaathafnir þeirra með leynd má telja falla undir þetta og þarf því ávallt að vera mælt fyrir um slíkt í lögum.

III.

Tillögur að viðbótum og breytingum

1.

Réttur almennings til gagna

Með 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins er m.a. lögð til sú regla að eftir þingfestingu máls sé dómara skylt gegn greiðslu að láta hverjum sem þess óskar í té staðfest afrit af ákæru, sem og greinargerð ákærða. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum nr. 19/1991 og þar er raunar hvergi gert ráð fyrir að ákærði sendi frá sér skriflega greinargerð í tengslum við meðferð sakamáls.

Auk framangreinds er með 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins m.a. lögð til sú regla að dómari skuli gegn greiðslu gjalds láta hvern sem þess óskar fá staðfest endurrit af dómum, sem og úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók. Ekki er að finna sambærilegt ákvæði í gildandi lögum. Í 3. mgr. 10. gr. þeirra laga, sem færð var í lögin með lögum nr. 36/1999, er þó gert ráð fyrir afhendingu dóma, úrskurða og ákvarðana til annarra en aðila máls. Ekki er þar beinlínis mælt fyrir um rétt til að fá slík gögn afhent. Hins vegar kemur þar fram að komi til slíkrar afhendingar skuli, ef sérstök ástæða sé til, afmá úr gögnunum atriði sem eðlilegt sé að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.

Sambærilegan fyrirvara er að finna bæði í 1. og 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Samkvæmt ákvæðunum ber því að synja um að láta í té afrit af þeim hlutum ákæru, greinargerð ákærða, dóms, úrskurðar eða ákvörðunar sem hafa að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga (eða lögpersóna, en vernd upplýsinga um þær fellur að öllu jöfnu utan verkefnasviðs Persónuverndar) sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Segir í f-lið 17. gr. frumvarpsins að Dómstólaráð eigi að setja nánari reglur í þessu sambandi, þ.e. bæði um aðgang að endurritum af dómum og úr þingbók, sem og framlögðum skjölum, þ.m.t. brottnám upplýsinga úr þeim.

Í 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins, sem fjallar um afhendingu afrita af dómum, ákvörðunum og úrskurðum, kemur fram að skylda til að afmá umrædd atriði stofnast ekki nema til þess sé sérstök ástæða, sbr. og framangreint ákvæði 3. mgr. 10. gr. gildandi laga. Ekki er hins vegar mælt fyrir um þessa takmörkun í 1. mgr. 16. gr. sem fjallar um afhendingu afrita af ákæru og greinargerð ákærða. Þá er hvergi í frumvarpinu vikið að birtingu dóma á vefsíðum dómstóla. Í ljósi þess að slík birting hefur nú tíðkast um nokkurt skeið má hins vegar telja æskilegt að um hana sé fjallað í lögum um meðferð sakamála.

Persónuvernd telur að skoða verði framangreind ákvæði í ljósi annars vegar þeirra hagsmuna sem af því eru að almenningur fái vitneskju um störf dómstólanna og hins vegar þeirra hagsmuna sem þeir einstaklingar, sem í hlut eiga í sakamálum, hafa af vernd persónuupplýsinga um sig og friðhelgi einkalífs.

Hvað fyrrnefndu hagsmunina varðar ber að hafa það sérstaklega í huga að dómstólarnir túlka lögin og því hafa úrlausnir þeirra réttaráhrif út fyrir þau einstöku mál sem til úrlausnar eru hverju sinni. Hvað síðarnefndu hagsmunina varðar ber að líta til þess að upplýsingar um meðferð sakamála lúta m.a. að því hvort tilteknir einstaklingar hafi verið grunaðir, kærðir, ákærðir eða dæmdir fyrir refsiverðan verknað. Samkvæmt b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru það viðkvæmar persónuupplýsingar. Að auki geta aðrar viðkvæmar persónuupplýsingar birst í dómum í sakamálum, t.d. um heilsuhagi, þ. á m. um lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, sbr. c-lið sama töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000.

Eins og gefur að skilja verður ekki undan því vikist að afhenda upplýsingar um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Að öðru leyti eru upplýsingar af viðkvæmu tagi, sem er að finna í gögnum frá dómstólum, t.d. um heilsuhagi, oft og einatt þess eðlis að rétt er að afmá þær úr gögnum dómstóla áður en þau eru afhent utanaðkomandi aðilum eða birt opinberlega. Er þá eðlilegt að litið sé til þess hvort þær séu nauðsynlegar þeim sem fær gögn afhent – eða kynnir sér dóm á t.d. vefsíðu – til að átta sig á því hvers vegna dómstóll hafi komist að tiltekinni niðurstöðu. Sem dæmi um tilvik, þar sem reynt getur á slíkt, má nefna þegar í dómum eru birtar mjög ítarlegar heilsufarsupplýsingar upp úr skýrslum lækna, s.s. um andlegt heilsufar ákærða eða áverka brotaþola í smæstu smáatriðum. Er þá álitamál hvort í raun þurfi að veita aðgang að þessum upplýsingum til að utanaðkomandi geti áttað sig á dómsforsendum.

Að auki er það mikið álitamál hversu langt skuli ganga í að afhenda eða birta persónuauðkenni sakborninga, brotaþola og vitna, s.s. nöfn og kennitölur, og hvort slíkt sé í raun almennt nauðsynlegt til að tilganginum með því að gera gögn dómstóla aðgengileg verði náð. Sé ákærði mjög ungur að árum getur verið sérstaklega umdeilanlegt að gera persónuaðkenni hans aðgengileg. Sé um að ræða sifjaspell getur og birting nafna og kennitalna verið mjög viðkvæm, en til þess og ýmissa fleiri atriða hefur raunar lengi verið litið við birtingu dóma hér á landi.

Hvað birtingu dóma varðar er rétt að líta til þeirra reglna sem gilda um sakaskrá. Í reglugerð nr. 569/1999 um sakaskrá ríkisins, sem sett er með stoð í 1. mgr. 19. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála, sbr. og 2. mgr. 225. gr. frumvarpsins, er kveðið á um takmarkanir við afhendingu upplýsinga úr sakaskrá, bæði til stjórvalda og einkaaðila, sbr. IV. og V. kafla reglugerðarinnar.

Er óheimilt að veita upplýsingar til þeirra sem ekki er tekið fram um í reglugerðinni að hafi heimild til aðgangs að sakaskrá nema þeir hafi lögvarða hagsmuni af að fá upplýsingarnar, sbr. 12. og 15. gr. Eigi að veita upplýsingar til einkaaðila verða hagsmunirnir og að vera greinilega ríkari en hagsmunirnir af að halda upplýsingunum leyndum, sbr. 15. gr. Ekki aðeins í þessum ákvæðum reglugerðar nr. 569/1999 er gert ráð fyrir að aðgangur að sakaskrá skuli vera takmarkaður. Þetta kemur einnig fram í lögum, en í 36. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er sérstaklega kveðið á um að tilteknir aðilar skuli hafa rétt til slíks aðgangs. Löggjafinn hefur því tekið þá afstöðu með setningu þessa ákvæðis að aðgangurinn skuli vera takmarkaður, a.m.k. hvað varðar þær upplýsingar sem falla undir gildissvið ákvæðisins.

Spyrja má sig að því hvort ákvæði um hverjir skuli hafa aðgang að sakaskrá nái tilgangi sínum ef persónuauðkenni eru birt í dómum í sakamálum á vefsíðum dómstóla, enda hafa þá allir þennan aðgang hvað varðar verulegan hluta upplýsinga á skránni. Séu persónuauðkenni ekki afmáð úr gögnum, sem afhent eru utanaðkomandi, leikur og einnig vafi á hvort þessum tilgangi verði náð.

Í ljósi framangreinds, auk þeirra hagsmuna, sem vegast á í tengslum við afhendingu og birtingu dóma og annarra gagna í sakamálum, gerir Persónuvernd eftirfarandi tillögur að breytingum og viðbótum við ákvæði 16. og 17. gr. frumvarpsins:

Innskotið „ef sérstök ástæða er til" í 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. verði fellt út. Hafa ber hér í huga að þessi málsgrein hefur að geyma þá vísireglu að ekki skuli afhenda upplýsingar sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Telja verður að um slíkar upplýsingar sé að ræða þegar hagsmunir þess einstaklings, sem í hlut á, vega þyngra en hagsmunir annarra af að fá að þeim aðgang, m.a. þar eð þær séu ekki nauðsynlegar til að átta sig á forsendum dóms. Er þá óeðlilegt að gera viðbótarskilyrði um sérstaka ástæðu fyrir því að upplýsingar séu ekki afhentar.

Við 3. mgr. 16. bætist svohljóðandi málsliður: „Hið sama á við þegar dómar eru birtir opinberlega, s.s. á vefsíðum dómstóla." Er með því gert skýrt að þær takmarkanir, sem gilda um afhendingu dóma í ljósi m.a. einkalífshagsmuna, gilda einnig um opinbera birtingu þeirra.

Í f-lið 17. gr. verði orðalagi breytt þannig að stafliðurinn hljóði svo að settar skuli reglur um: „f. birtingu dóma og aðgang að endurritum af dómum, úr þingbók og af framlögðum skjölum, sem og brottnám persónuauðkenna og upplýsinga um heilsuhagi og önnur einkalífsatriði." Með þessu kæmi það skýrlega fram að setja skyldi reglur um ekki aðeins afhendingu gagna heldur einnig birtingu dóma að frumkvæði dómstólanna sjálfra, sem og að reglur um slíkt skyldu m.a. lúta að brottnámi persónauðkenna eftir því sem nauðsynlegt væri.

2.

Aðgangur verjanda að gögnum

Með 3. mgr. 37. gr. frumvarpsins er lögð til sú regla að lögregla geti synjað verjanda um aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum meðan á rannsókn máls stendur ef öryggi ríkisins eða almennings er í húfi. Bera megi þá synjun undir dómara.

Telja má ljóst að þau gögn, sem hér um ræðir, hafi alla jafna að geyma persónuupplýsingar um sakaðan mann. Einn þátturinn í vernd persónuupplýsinga er að hinn skráði, í þessu tilviki sakaður maður, hafi aðgangur að slíkum upplýsingum sem unnið er með um hann sjálfan. Ljóst er að margvísleg sérsjónarmið gilda í tengslum við persónuupplýsingar sem unnið er með við meðferð sakamála, enda skipta þar miklu máli þeir hagsmunir sem af því eru að rannsókn máls spillist ekki.

Í athugasemdum við 3. mgr. 37. gr. kemur m.a. fram að ákvæðinu er einkum ætlað að nýtast í baráttu gegn hryðjuverkum og annarri skipulagðri brotastarfsemi sem ógnar öryggi almennings. Segir að í þeirri baráttu sé rétt að láta hagsmuni verjanda og sakbornings af því að fá aðgang að einstökum skjölum og öðrum gögnum á rannsóknarstigi víkja fyrir þeim mikilvægu almannahagsmunum sem hér séu í húfi. Jafnframt er tekið fram að þar sem um undantekningarákvæði sé að ræða beri að skýra það þröngt. Samkvæmt því sé einungis heimilt að grípa til þess ef rannsókn beinist að afbrotum á borð við landráð eða brotum gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, sbr. X. og XI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ellegar alvarlegum brotum sem hafa í för með sér almannahættu, sbr. XVIII. kafla sömu laga.

Séreðli þeirra brota, sem hér um ræðir, kann að vera þess eðlis að réttlæti takmarkanir á aðgangi verjanda að gögnum máls. Hins vegar bendir stofnunin á að í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um neinar tímatakmarkanir á hindrunum á aðgangi. Í 1. og 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við tilteknar aðstæður megi takmarka aðgang verjanda að skjölum og gögnum um tiltekið skeið, þ.e. í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar telji hún aðgang geta skaðað rannsókn máls. Þá er hægt að framlengja þann frest í allt að fimm vikur sé það nauðsynlegt til að ljúka skýrslutöku fyrir dómi að kröfu lögreglu.

Ekki kemur fram í frumvarpinu hvers vegna ekki sé gert ráð fyrir ákveðnum tímafresti við takmarkanir á aðgangi að gögnum samkvæmt 3. mgr. Persónuvernd telur eðlilegt að afmarka slíkan frest. Sé það talið nauðsynlegt mætti hugsa sér að þegar þessi frestur væri liðinn mætti framlengja hann með jafnlöngum fresti, en að öðrum kosti skuli gögn gerð aðgengileg verjanda og þar með skjólstæðingi hans, sbr. 4. mgr. 37. gr.

Umrætt ákvæði takmarkar ekki aðeins aðgang verjanda að gögnum þegar öryggi ríkisins eða almennings er í húfi heldur einnig þegar brýnir einkahagsmunir annarra en skjólstæðings hans standa í vegi fyrir aðgangi að gögnum. Til slíkra hagsmuna má m.a. telja þá hagsmuni sem einstaklingar hafa af vernd persónuupplýsinga um sig. Hins vegar skipta hér einnig máli hagsmunir sakaðs manns af að fá aðgang að persónuupplýsingum sem unnið er með um hann við rannsókn sakamáls, en þær kann að vera að finna í gögnum sem falla undir umrædda takmörkun. Í ljósi þess telur Persónuvernd eðlilegt að umræddur tímafrestur gildi einnig við þessar aðstæður.

Með vísan til framangreinds leggur stofnunin til að heimild til að synja verjanda um aðgang að gögnum samkvæmt 3. mgr. 37. gr. frumvarpsins verði ávallt afmörkuð við tiltekinn tímafrest. Að honum liðnum skuli aðgangurinn veittur nema því aðeins að ástæðurnar fyrir synjun um aðgang eigi enn við þannig að tilefni sé til að taka aftur ákvörðun um synjun. Hún skuli þá bundin við sama tímafrest.

3.

Tæknileg rannsóknarúrræði

Með 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins er lögð til eftirfarandi regla:

„Heimilt er að taka upp hljóð, taka myndir af fólki og fylgjast með því í þágu rannsóknar á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. sé fullnægt."

Í 83. gr. frumvarpsins er fjallað um efnisleg skilyrði fyrir símhlerun, myndatökum án vitundar viðkomandi og öðru slíku, þ.e. hversu alvarleg brot eða hversu miklir hagsmunirnir af upplýsingu þeirra þurfi að vera svo að slík úrræði séu heimil. Í 1. mgr. 84. gr. segir að dómsúrskurð þurfi til umræddra úrræða.

Ákvæði 2. mgr. 82. gr. er ekki skýrt nánar í greinargerð. Þess í stað segir í athugasemdum við ákvæðið að það svari til 3. mgr. 87. gr. gildandi laga nr. 19/1991. Það ákvæði hljóðar svo:

„Heimilt er að taka upp hljóð og taka myndir í þágu rannsóknar á almannafæri eða á stöðum sem almenningur á aðgang að án þess að skilyrðum 1. og 2. mgr. [sem samsvara 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. frumvarpsins] sé fullnægt."

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 19/1991 var ekki afmarkað nánar hvað fælist í þessu ákvæði. Í framhaldi af setningu laganna gaf dómsmálaráðuneytið hins vegar út handbók um lögin, þ.e. Handbók um lög um meðferð opinberra mála, þar sem farið er yfir hvernig þeim skuli beitt. Sú handbók hefur ekki ígildi athugasemda í greinargerð með lögum, en þó er ljóst að í framkvæmd hefur henni talsvert verið beitt við túlkun þeirra. Á bls. 116 er að finna umfjöllun um 3. mgr. 87. gr. laganna. Þar segir:

„Hér er á ferðinni undantekningarákvæði sem skerðir réttaröryggi sakbornings og ber þar af leiðandi að skýra þröngt. Með „stöðum sem almenningur á aðgang að" er m.a. átt við veitingahús, verslanir, banka, söfn og önnur slík hús."

Umrætt ákvæði hefur ekki verið skýrt svo heitið geti í dómaframkvæmd. Hins vegar verður helst séð að því hafi verið ætlað að taka af vafa um heimild lögreglu til ýmiss konar mynda- og hljóðupptöku sem fram fer á þágu rannsóknar sakamála en ekki felur þó beinlínis í sér tæknilegt eftirlit með tilteknum einstaklingum. Samkvæmt því má ætla að ákvæðið heimili t.d. að á stað, sem almenningur á aðgang að og þar sem eiga má von á einhverjum atburðum í tengslum við tiltekið sakamál, sé komið fyrir myndavél með hljóðupptökubúnaði til að hafa gætur á slíku.

Aftur á móti má ætla að umræddu ákvæði laga nr. 19/1991 sé ekki ætlað að heimila að t.d. á veitingahúsi sé komið fyrir hljóðupptökubúnaði gagngert til þess að hlera einkasamtal tiltekinna manna. Til þess þyrfti því dómsúrskurð.

Ákvæði 2. mgr. 82. gr. frumvarpsins er ekki með öllu samhljóða ákvæði 3. mgr. 87. gr. gildandi laga. Ólíkt ákvæði laganna er þess ekki aðeins getið í ákvæði frumvarpsins að taka megi upp hljóð og myndir heldur segir einnig að fylgjast megi með fólki án þess að umræddum skilyrðum um m.a. dómsúrskurð sé fullnægt. Ekki er með öllu ljóst hvað átt er við með þessari viðbót. Sé 2. mgr. 82. gr. lesin í samhengi við 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. frumvarpsins er hins vegar ekki útilokað að leggja í ákvæðið þann skilning, í ljósi þessarar viðbótar, að átt sé við að samkvæmt því megi nota tæknileg úrræði til að fylgjast með tilteknum einstaklingum án þess að þeir viti af því.

Slíkt eftirlit er ávallt mjög íþyngjandi og lítur Persónuvernd svo á að það verði ekki réttlætt nema að fullnægðum ströngum skilyrðum. Til að taka af allan vafa um að 2. mgr. 82. frumvarpsins sé ekki ætlað að veita slíkar heimildir, sem hér um ræðir, leggur stofnunin því til eftirfarandi viðbót við ákvæðið: „Það á þó ekki við sé notast við tæknibúnað til að fylgjast með tilteknum einstaklingum."

Tekið skal fram að Persónuvernd virðist það ekki af frumvarpinu að í raun sé fyrirhugað að rýmka umræddar heimildir á þann hátt sem að ofan er lýst. Í ljósi eðlis þessara heimilda, sem og þess hversu íþyngjandi þær eru, telur stofnunin hins vegar mikilvægt að orðalag sé sem allra skýrast. Með þeirri breytingu, sem stofnunin leggur til, gæfi orðalag ákvæðisins það glögglega til kynna að það leyfði aðeins úrræði á borð við myndatöku á stað, þar sem vænta má viðburða í tengslum við tiltekið sakamál, eða t.d. að lögreglumenn hafi auga með mönnum, sem kunna að vera viðriðnir mál, á almannafæri en hins vegar ekki hlerun samtala þeirra og annað slíkt án vitneskju þeirra.

4.

Skilyrði fyrir öflun upplýsinga um fjarskipti

Með 83. gr. frumvarpsins eru lögð til ákveðin skilyrði fyrir símahlustun og fleiri tæknilegum rannsóknarúrræðum sem fela í sér eftirlit með tilteknum einstaklingum. Að mestu eru þessi skilyrði óbreytt frá því sem er í samsvarandi ákvæðum gildandi laga nr. 19/1991, þ.e. ákvæðum 2. mgr. 86. gr. Þó er að finna tilslökun í tengslum við það rannsóknarúrræði að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl eða önnur önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki, sbr. 80. gr. frumvarpsins, sbr. b-lið 86. gr. gildandi laga, sbr. lög nr. 86/2004.

Að gildandi lögum, sbr. b-lið 2. mgr. 87. gr., er það gert að skilyrði fyrir beitingu umrædds rannsóknarúrræðis að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum tveggja ára fangelsi. Þetta skilyrði var fært inn í ákvæðið með lögum nr. 74/2006, en áður hafði verið miðað við átta ára fangelsi, auk þess sem beiting úrræðisins var heimil ef ríkir almanna- eða einkahagsmunir kröfðust þess. Var breytingin einkum rökstudd með því að rannsóknarúrræðið hefði mjög mikið vægi við rannsókn ýmissa brota sem byggjast á notkun tæknibúnaðar (svokallaðra tölvubrota) og sem ekki yrði unnt að upplýsa nema breytingin næði fram að ganga.

Í frumvarpinu er haldið lengra á þessari braut, en af ákvæðum 83. gr. þess leiðir að skilyrði um fangelsisrefsingu yrði með öllu afnumið. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu við 83. gr. er um rökstuðning fyrir því vísað til athugasemda við 80. gr. Þar segir að um sé að ræða tiltölulega væga skerðingu á friðhelgi einkalífs miðað við önnur úrræði sem fjallað er um í sama kafla frumvarpsins og þar sem 80. gr. er að finna, þ.e. XI. kafla.

Undir þetta má taka, enda fela önnur ákvæði kaflans það í sér m.a. að unnt er að fá aðgang að efni samskipta ólíkt því sem 80. gr. gerir ráð fyrir. Það breytir því þó ekki að beiting umrædds úrræðis samkvæmt 80. gr. getur falið í sér mjög veigamikla skerðingu á friðhelgi einkalífs. Þá ber að líta til þess að framangreind skilyrði gildandi laga, eins og þau eru eftir breytingar á þeim með lögum nr. 74/2006, eru mjög væg. Persónuvernd telur, í ljósi grundvallarreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, það viðurhlutamikið að slaka enn frekar á þessum skilyrðum.

Í ljósi þess leggur Persónuvernd til að við 2. mgr. 83. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem áskilji að brot verði a.m.k. að varða tiltekinni fangelsisrefsingu til að aðgerðir samkvæmt 80. gr. þess séu heimilar.

5.

Nokkur málfarsleg atriði

Rétt er að benda á nokkur ákvæði þar sem leiðrétta má málfar og annað slíkt: Í síðasta málsl. 2. mgr. 120. gr. segir m.a.: „[?] skal það gert með sama hætti og birtingu ákæru [?]", en betur færi á ef segði: „[?] skal það gert með sama hætti og birting ákæru [?]." Í f-lið 1. mgr. 152. gr. kemur auðkenni stafliðarins, „f.", fyrir tvisvar í röð. Í upphafi 1. mgr. 169. gr. segir: „Nú hafa fleiri mál verið höfðuð [?]", en betur færi á ef segði: „Nú hafa fleiri en eitt mál verið höfðuð [?]." Í upphafi 2. mgr. 221. gr. segir: „Nú liggur nægilega ljóst liggur fyrir [?]." Í síðara skiptið, þar sem orðið „liggur" kemur fyrir, er því ofaukið og þarf því að fella það út. Að auki má nefna hér 231. gr., en þar segir m.a.: „[?] sem taldar eru í 228. gr. [?]", en betur færi á ef segði: „[?] sem taldar eru upp í 228. gr. [?]."

IV.

Yfirlit yfir tillögur Persónuverndar

Að lokum skulu til glöggvunar taldar upp þær breytingatillögur sem Persónuvernd gerir í III. þætti umsagnarinnar hér að framan:

Innskotið „ef sérstök ástæða er til" í 2. málsl. 3. mgr. 16. gr. verði fellt út (sjá 1. kafla III. þáttar).

Við 3. mgr. 16. bætist svohljóðandi málsliður (sjá 1. kafla III. þáttar): „Hið sama á við þegar dómar eru birtir opinberlega, s.s. á vefsíðum dómstóla."

Í f-lið 17. gr. verði orðalagi breytt þannig að stafliðurinn hljóði svo (sjá 1. kafla III. þáttar): „f. birtingu dóma og aðgang að endurritum af dómum, úr þingbók og af framlögðum skjölum, sem og brottnám persónuauðkenna og upplýsinga um heilsuhagi og önnur einkalífsatriði."

Heimild til að synja verjanda um aðgang að gögnum samkvæmt 3. mgr. 37. gr. frumvarpsins verði ávallt afmörkuð við tiltekinn tímafrest. Að þeim fresti liðnum skuli aðgangurinn veittur nema því aðeins að ástæðurnar fyrir synjun um aðgang eigi enn við þannig að tilefni sé til að taka aftur ákvörðun um synjun. Hún skuli þá bundin við sama tímafrest (sjá 2. kafla III. þáttar).

Við 2. mgr. 82. frumvarpsins bætist eftirfarandi málsliður (sjá 3. kafla III. þáttar): „Það á þó ekki við sé notast við tæknibúnað til að fylgjast með tilteknum einstaklingum."

Við 2. mgr. 83. gr. frumvarpsins verði bætt ákvæði sem áskilji að brot verði a.m.k. að varða tiltekinni fangelsisrefsingu til að aðgerðir samkvæmt 80. gr. þess séu heimilar (sjá 4. kafla III. þáttar).

Persónuvernd minnir einnig á þau málfarsatriði sem rakin eru í 5. kafla III. þáttar umsagnarinnar.





Var efnið hjálplegt? Nei