Úrlausnir

Umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla (mál nr. 286, 135. löggjafarþing)

30.1.2008

Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins um tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Persónuvernd hefur nú farið yfir frumvarp til laga um framhaldsskóla og gert eftirfarandi athugasemdir.

Í 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins kemur fram að menntamálaráðuneytið annist söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða mats- og eftirlitshlutverk þess. Í skýringum í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gæta þurfi að því í lagasetningunni að ráðuneytið eigi greiðan aðgang að þeim upplýsingum sem það þarf um leið og sjónarmiða stjórnsýslulaga og laga um persónuvernd sé að fullu gætt.

Til að taka af allan vafa um það hvænær ráðuneytinu er heimilt að vinna með persónuupplýsingar á grundvelli ákvæðisins og ljósi lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, þ.e. þeirrar reglu að stjórnsýslan er lögbundin og að allar ákvarðanir hennar skulu byggðar á gildandi lögum, leggur Persónuvernd til að orðalagi 1. mgr. 55. gr. frumvarpsins verði breytt og það gert skýrara, með þeim hætti að fjallað verði um lögbundið eftirlitshlutverk menntamálaráðuneytisins í stað þess að fjalla um mats- og eftirlitshlutverk þess.





Var efnið hjálplegt? Nei