Úrlausnir

Umsögn um frumvarp til laga um grunnskóla (mál nr. 285, 135. löggjafarþing)

30.1.2008

Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins um tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir.

Í 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins er fjallað um persónuupplýsingar um börn en þar kemur fram að foreldrum sé skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem „kunna að skipta máli" fyrir skólastarfið og velferð þess. Það er mat Persónuverndar að þetta orðalag þurfi að þrengja þannig að skýrt verði að foreldrum sé einungis skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnins.

Geta má þess að framangreind afstaða er í samræmi við þær skýringar sem fram koma í greingargerð með 18. gr. frumvarpsins en þar segir m.a.:„Til þess að skólaganga barns geti gengið sem eðlilegast fyrir sig verða stjórnendur grunnskóla að hafa réttar og sem bestar upplýsingar um barn og líðan þess. Ljóst er í því sambandi að upplýsingar sem teljast nauðsynlegar við ákvörðun um rétt eða skyldu nemenda geta fallið hér undir og enn fremur upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólastjórnendur til þess að rækja skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu."





Var efnið hjálplegt? Nei