Úrlausnir

Umsögn um frumvarp til laga um leikskóla (mál nr. 287, 135. löggjafarþing)

30.1.2008

Þann 10. október 2007, funduðu lögfræðingar Persónuverndar með fulltrúum menntamálaráðuneytisins og var fundarefnið tiltekin ákvæði í frumvarpsdrögum til nýrra laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í ljósi þess að stuttur tími var til stefnu við samningu frumvarpanna, var ákveðið að Persónuvernd myndi skila umsögn til menntamálanefndar Alþingis þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Persónuvernd hefur nú farið yfir frumvarp til laga um leikskóla og gert eftirfarandi athugasemdir.

Í 2. mgr. 16. gr. frumvarpsins er fjallað um um meðferð persónuupplýsinga í tengslum við miðlun upplýsinga um börn milli leikskóla og grunnskóla. Persónuvernd hefur fullan skilning á mikilvægi þess að ákveðnar upplýsingar, s.s. um greiningu þroskafrávika eða sértæka námsörðugleika, fylgi börnum á milli skólastiga. Stofnunin telur engu að síður mikilvægt að haft sé í huga að í sumum tilvikum getur verið um að ræða mjög ítarlegar og persónulegar upplýsingar um börn sem hafa takmarkaða þýðingu fyrir starfsmenn grunnskóla við upphaf náms á grunnskólastigi. Þessu til stuðnings er rétt að benda á þá meginreglu sem fram kemur í 3. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt henni ber að gjalda varhug við því að allar upplýsingar um börn fylgi þeim frá leikskóla til grunnskóla og jafnvel framhaldsskóla. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að börn geti fengið viðhlítandi aðstoð vegna náms.

Í framangreindri frumvarpsgrein segir upplýsingar sem „að gagni geta komið". Æskilegra er að fylgja orðalagi sem er í skýringum við greinina í greinargerð, en þar segir að eingöngu sé átt við upplýsingar sem teljast nauðsynlegar fyrir skólagöngu barns í grunnskóla og stuðlað geta að því að grunnskóli geti mætt þörfum þess. Segir og í skýringum að markmið miðlunarinnar sé að tryggja að byggt sé á fyrra námi og reynslu leikskólabarna þegar þau koma í grunnskóla. Er því lagt til að í stað orðanna „að gagni geta komið" komi orðin „nauðsynlegar eru".





Var efnið hjálplegt? Nei