Úrlausnir

Frávísun - kvörtun laut ekki að persónuuplýsingum

7.5.2007

Persónuvernd barst kvörtun frá fyrirtæki nokkru yfir því að annað fyrirtæki hafði flett því upp í vanskilaskrá Lánstrausts.

Persónuvernd úrskurðar í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. Stofnunin hefur hins vegar ekki heimild að lögum til þess að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja og annarra lögaðila. Málið var því ekki tekið til efnismeðferðar.



Persónuvernd hefur borist kvörtun frá yður f.h. fyrirtækisins A, dags. 27. mars sl., þar sem þér kvartið yfir því að fyrirtækið B hafi flett fyrirtækinu A upp í skrám Lánstrausts hf.

Af þessu tilefni er rétt að benda á fáein atriði varðandi gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og valdheimildir stofnunarinnar Persónuverndar.

1.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 kemur fram að lögin gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem er eða á að verða hluti af skrá. Með hugtakinu persónuupplýsingar er átt við persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Af þessu má ráða að lögunum er ætlað að gilda um vinnslu upplýsinga um einstaklinga en ekki upplýsinga um lögaðila á borð við fyrirtæki það sem þér eruð í forsvari fyrir. Á þessu er þó gerð ákveðin undantekning í 2. mgr. 45. gr. laganna en þar kemur fram að í reglugerð skuli mælt fyrir um heimild til söfnunar og skráningar upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Þá kemur fram að heimild til slíkrar starfsemi skuli bundin leyfi Persónuverndar en Persónuvernd hefur veitt fyrirtækinu Lánstrausti hf. leyfi til þess að til að annast söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila.

2.

Þrátt fyrir að heimild til þess að safna og skrá upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila sé bundin leyfi Persónuverndar gilda lög nr. 77/2000 ekki fullum fetum um vinnslu upplýsinga um lögaðila í slíkum tilvikum. Í 2. mgr. 45. gr. laganna kemur fram að um leyfisskylda starfsemi skv. ákvæðinu gildi einungis tiltekin ákvæði laganna sem þar eru talin upp.

Í 2. mgr. 37. gr. kemur fram að Persónuvernd úrskurði í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga. 2. mgr. 37. gr. laganna er ekki meðal þeirra ákvæða sem talin eru upp í 2. mgr. 45. gr. laganna og gilda um söfnun og skráningu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja og annarra lögaðila. Persónuvernd hefur því ekki heimild að lögum til þess að úrskurða í ágreiningsmálum sem lúta að söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja og annarra lögaðila.

Með vísan til framangreinds getur Persónuvernd ekki tekið kvörtun yðar, f.h. fyrirtækisins A til efnismeðferðar.







Var efnið hjálplegt? Nei