Úrlausnir

Fræðsla við miðlun upplýsinga úr Landskrá fasteigna

25.5.2007

Hinn 26. apríl sl., veitti Persónuvernd Fasteignamati ríkisins álit varðandi lögmæti miðlunar upplýsinga úr Landskrá fasteigna. Í kjölfarið barst Persónuvernd fyrirspurn um hvort fræðsla á útsendum tilkynningarseðlum til fasteignareigenda, og á heimasíðu Fasteignamats ríkisins væri nægileg.

Efni: Fræðsla við miðlun upplýsinga úr Landskrá fasteigna

Hinn 26. apríl sl., veitti Persónuvernd Fasteignamati ríkisins álit varðandi lögmæti miðlunar upplýsinga úr Landskrá fasteigna. Í kjölfarið barst Persónuvernd fyrirspurn um hvort fræðsla á útsendum tilkynningarseðlum til fasteignareigenda, og á heimasíðu Fasteignamats ríkisins væri nægileg. Svarbréf Persónuverndar er birt hér að neðan..

Efni: Fræðsla við miðlun upplýsinga úr Landskrá fasteigna

Persónuvernd vísar til tölvubréfs yðar frá 8. maí 2007 varðandi álit stofnunarinnar, dags. 26. apríl 2007, um lögmæti miðlunar persónuupplýsinga úr Landskrá fasteigna. Í tölvubréfinu er spurt hvort fræðsla um miðlun á útsendum tilkynningarseðlum til fasteignareigenda, þ.e. um fasteigna- og brunabótamat, og heimasíðu Fasteignamats ríkisins sé nægileg.

Í framangreindu áliti Persónuverndar segir m.a.:

„Í [20. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga] er mælt fyrir um fræðslu sem veita skal hinum skráða þegar upplýsinga er aflað hjá honum sjálfum. Ljóst er að þetta ákvæði á við um starfsemi Fasteignamats ríkisins, enda eru upplýsingar í landskrá fasteigna fengnar frá eigendum fasteigna sem eru þá hinir skráðu í skilningi laga nr. 77/2000. Sú fræðsla, sem veita á samkvæmt 20. [gr.], lýtur að nafni og heimilisfangi ábyrgðaraðila og eftir atvikum fulltrúa hans skv. 6. gr. laganna (sá hluti ákvæðisins sem lýtur að fulltrúa ábyrgðaraðila á væntanlega ekki við hér); tilgangi vinnslunnar; og öðru því sem nauðsynlegt er til að hinn skráði geti gætt hagsmuna sinna, s.s. viðtakendum eða flokkum viðtakenda upplýsinganna, hvort hinum skráða sé skylt eða valfrjálst að veita umbeðnar upplýsingar og hvaða afleiðingar það kunni að hafa veiti hann þær ekki, og ákvæðum laga nr. 77/2000 um upplýsingarétt hins skráða, svo og rétti hins skráða til leiðréttingar og eyðingar rangra eða villandi persónuupplýsinga um hann.

Einnig ber að líta til ákvæða 28. gr. laga nr. 77/2000 um afhendingu upplýsinga í þágu beinnar markaðssetningar, en tekið skal fram að Persónuvernd telur slíka afhendingu úr Landskrá fasteigna geta verið heimila. Meðal þeirra ákvæða, sem þar verður að líta til, er 2. mgr. um að þess skal gætt að afhenda ekki upplýsingar um nöfn þeirra sem hafa andmælt slíkri markaðssetningu hjá Þjóðskrá, þ.e. með því að láta skrá nafn sitt á svonefnda bannskrá. Samkvæmt þessu verður ávallt, áður en persónuupplýsingar eru afhentar úr Landskrá fasteigna í þágu markaðssóknar, að bera þá skrá, sem afhenda á, saman við bannskrá Þjóðskrár og þurrka út upplýsingar um þá sem þar hafa látið skrá sig. Þá ber að telja eðlilegt að hinum skráðu sé veittur kostur á að andmæla því, óháð því hvort þeir séu á bannskrá, að upplýsingar um þá verði afhentar í umræddu skyni.

Svo að hinum skráðu sé unnt að koma slíkum andmælum á framfæri telur Persónuvernd mjög æskilegt að í ljósi 20. gr. laga nr. 77/2000 séu hinir skráðu fræddir um afhendingu í þágu beinnar markaðssetningar, s.s. á þann hátt að þeir fái tilkynningu um slíkt póstsenda eða á þann hátt að þegar þeir fara til sýslumanns vegna þinglýsingar skjala fái þeir skriflega fræðslu um að þær upplýsingar, sem í kjölfarið eru sendar Fasteignamatinu, kunni að verða afhentar aðilum sem vilja nota þær í beinni markaðssetningu. Þá verður að telja mjög æskilegt að þeim sé veittur kostur á að andmæla slíku, s.s. með því að haka við tiltekinn reit á blaði hjá sýslumanni fyrir skriflega fræðslu."

Samkvæmt framangreindu telur Persónuvernd að sé hinum skráðu veitt fræðsla á útsendum tilkynningarseðlum um miðlun persónuupplýsinga sé kröfum 20. gr. laga nr. 77/2000 um slíka fræðslu fullnægt, enda sé fræðslan veitt með áberandi hætti og með hæfilegum fyrirvara áður en upplýsingunum er miðlað. Tekið skal fram að með þessu er ekki tekin afstaða til lögmætis miðlunarinnar hverju sinni að öðru leyti, en ávallt verður m.a. að líta til ákvæða 8. gr. laga nr. 77/2000 um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga og 7. gr. laganna um sanngirni, meðalhóf og áreiðanleika við slíka vinnslu.

Ljóst er að það að birta fræðslu á heimasíðu stofnunar getur aldrei komið í stað fræðslu sem veitt er með þeim hætti að ábyrgðaraðili setur sig beint í samband við hinn skráða, hvort sem er með póstsendingu fræðslu eða öðrum hætti, enda byggjast ákvæði 20. gr. laga nr. 77/2000 á því að þannig sé farið að. Hins vegar er ljóst að telja má það til vandaðra stjórnsýsluhátta að birta fræðslu á heimasíðu stofnunar, auk þess sem viðhafa má það verklag að í t.d. póstsendri fræðslu sé vísað á heimasíðu stofnunar um nánari fræðslu. Í því sambandi ber hins vegar að hafa í huga að þrátt fyrir að notkun Netsins sé mjög útbreidd hafa ekki allir aðgang að því. Opinber stofnun, sem fer með valdheimildir, sem hafa áhrif á réttindi og skyldur stórs hluta þjóðarinnar, verður sérstaklega að líta til þessa.






Var efnið hjálplegt? Nei