Úrlausnir

Upplýsingum um uppsögn miðlað til ráðgjafarþjónustu án ótvíræðs samþykkis

29.1.2007

Hinn 22. janúar sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um lögmæti upplýsingamiðlunar vinnuveitanda til ráðgjafarþjónustu um uppsögn starfsmanns.

Hinn 22. janúar sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um lögmæti upplýsingamiðlunar vinnuveitanda til ráðgjafarþjónustu um uppsögn starfsmanns.

05A kvartaði yfir því að fyrrverandi vinnuveitandi hennar hefði miðlað upplýsingum um uppsögn hennar til ráðgjafarþjónustu, án hennar samþykkis.

Málavextir eru þeir að til stóð að leggja starf A á LSH niður og var henni því sagt upp. Í kjölfarið var henni afhent bréf þar sem fram kom að ráðgjafarþjónusta hefði verið fengin til að vera henni innan handar við atvinnuleit. Neðst í bréfinu stóð: "Vinsamlega vertu í sambandi við [B], ráðgjafa hjá Capacent. Haft verður samband við þig ef ekki heyrist í þér innan 10 daga." Nokkru síðar hafði ráðgafinn samband við A og bauð henni að koma í viðtal. A taldi sig ekki hafa getað ráðið af bréfinu að ráðgjafinn, en ekki starfsmannahald sjúkrahússin, myndi vera sá aðili sem setti sig í samband við hana og taldi upplýsingamiðlunina ólögmæta. Upplýsingar þær sem miðlað var voru nafn A og farsímanúmer.

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að þær upplýsingar sem um ræðir teljist ekki viðkvæmar í skilningi laga um persónuvernd. Miðlun þeirra sé því lögmæt byggi hún á ótvíræðu samþykki, en með því sé m.a. átt við að af athöfn einstaklings, eða eftir atvikum athafnaleysi, megi ótvírætt ráða að hann sé samþykkur miðluninni. Forsenda þess sé að hann hafi áður fengið fræðslu um miðlunina og tækifæri til að andmæla henni.

Í samræmi við þetta taldi Persónuvernd lögmæti upplýsingamiðlunarinnar frá LSH til Capacent ráðast af því hvort líta mætti svo á að A hefði í verki veitt samþykki sitt. Hins var ekki talið hægt að líta framhjá því samþykkið yrði að vera ótvírætt. Að mati Persónuverndar varð ekki fullyrt að svo hefði verið í þessu tilviki, en til þess hefði LSH þurft að gera A grein fyrir fyrirhugaðri miðlun upplýsinganna til Capacent með skýrari hætti en gert var.  

Miðlun LSH á upplýsingum um starfslok A til Capacent var því talin óheimil og tekið fram að enda þótt upplýsingar um uppsögn teldust ekki til viðkvæmra upplýsinga í skilningi laga um persónuvernd væri engu að síður ljóst að þær gætu verið það í huga viðkomandi einstaklings og bæri að taka tillit til þess.

Úrskurður Persónuverndar.




Var efnið hjálplegt? Nei