Úrlausnir

Frávísun - kvartað yfir fjölmiðlaumfjöllun

1.6.2006

II.
1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ná til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar.

Í ljósi ofangreinds er ljóst að umrædd umfjöllun A fól í sér vinnslu persónuupplýsinga. Stjórn stofnunarinnar fjallaði um þessa vinnslu á fundi sínum í dag og tók þá ákvörðun sem rakin er hér að neðan. [. . .]

2.

Framangreind vinnsla persónuupplýsinga fellur undir sérákvæði 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 um vinnslu sem eingöngu fer fram á þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Samkvæmt ákvæðinu fellur slík vinnsla utan ramma flestra ákvæða laganna, þó ekki þeirra ákvæða í 7. gr. sem byggt er á í erindi B hdl. f.h. kvartanda. Til þess ber hins vegar að líta að ekkert þeirra ákvæða, sem veita Persónuvernd valdheimildir, gildir um vinnslu sem þessa, þ. á m. 40. og 41. gr. sem veita Persónuvernd heimild til að gefa fyrirmæli um úrbætur á vinnslu persónuupplýsinga og beita dagsektum ef ekki er farið að fyrirmælum hennar. Þá verður ákvæðum 42. og 43. gr. laganna, sem kveða á um refsiábyrgð og bótaábyrgð, einungis beitt af dómstólum.

Samkvæmt þessu hefur Persónuvernd ekki vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort A hafi skapað sér ábyrgð að lögum með umræddum fréttaflutningi sínum. Við úrlausn um slíkt reynir á skilin milli tveggja af helstu mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, annars vegar reglunnar um friðhelgi einkalífsins og hins vegar reglunnar um tjáningarfrelsið, sbr. 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 8. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fellur það undir dómstóla, að uppfylltum réttarfarsskilyrðum, að skera úr um mörk þessara tveggja grundvallarréttinda með túlkun á stjórnarskránni, þ. á m. við úrlausn þess hvort framangreindar reglur 7. gr. laga nr. 77/2000 hafi verið brotnar.

Í ljósi þessa mun Persónuvernd ekki aðhafast frekar af tilefni umrædds erindis. Hins vegar skal bent á að stofnunin hefur gefið út almennt álit, dags. 4. júlí 2005, um það hvernig umfjöllun og myndbirtingu fjölmiðla ber að haga svo að hún samrýmist ákvæðum laga nr. 77/2000. Vísast um þau sjónarmið, sem líta verður til við beitingu umræddra ákvæða 7. gr. laganna á umfjöllun fjölmiðla, til þess álits og er það hjálagt með bréfi þessu.

Að lokum skal bent á að siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur það hlutverk að meta hvort brotið hafi verið gegn siðareglum félagsins. Reglurnar má nálgast á heimasíðu blaðamannafélagsins, www.press.is, og er sérstaklega bent á 3. gr. þeirra. Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið gegn reglunum og á hagsmuna að gæta getur kært ætlað brot innan tveggja mánaða frá birtingu, enda sé mál ekki rekið fyrir almennum dómstólum og áður hafi verið krafist leiðréttingar hjá viðkomandi fjölmiðli.



Var efnið hjálplegt? Nei