Úrlausnir

Bréf til efnahags og viðskiptanefndar

1.6.2006

Hinn 16. ágúst 2005 komst Persónuverndar að niðurstöðu um lögmæti vinnslu persónuupplýsinga hjá fjórum tryggingafélögum sem selja líf-, slysa- og sjúkdómatryggingar. Taldi hún þeim óheimilt að afla upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina umsækjenda um vátryggingu. Byggir niðurstaðan á 82. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, en þar er í 2. mgr. að finna bannreglu við því að tryggingafélög óski eftir, afli með einhverjum öðrum hætti, taki við eða hagnýti sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns sem sækir um tryggingu og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Þó segir að þetta bann gildi ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga.

1.

Framangreind tryggingafélög hafa gert athugasemdir við þessa niðurstöðu Persónuverndar og telja bannregluna aðeins taka til rannsókna á erfðaefni umsækjenda, svonefndra DNA-prófa. Hafa tryggingafélögin vísað til þess að í athugasemdum við 82. gr. í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 30/2004, sé viðurkennt að mörkin á milli bannreglunnar og undantekningarinnar séu ekki glögg og að ekki sé ólíklegt að við athugun á núverandi heilsufari skyldmenna geti komið í ljós að sá sem óskar vátryggingar hafi slíka arfgerð að verulegar líkur séu til þess að hann muni þróa með sér banvænan sjúkdóm í náinni framtíð.

2.

Persónuvernd bendir á að tilvitnuð ummæli í athugasemdum við umrædda lagagrein fara alfarið gegn skýru orðalagi bannreglunnar og dregur í efa að hægt sé að ljá þessum ummælum í lögskýringargögnum það vægi að þau víki skýru orðalagi sjálfs lagatextans algjörlega til hliðar. Þá hefur Persónuvernd jafnframt bent á eftirfarandi:

a. Ef bannregla 1. málsliðar 2. mgr. 82. gr. felur aðeins í sér að tryggingafélög megi ekki nota niðurstöður DNA prófana, þá er hún í raun og veru marklaus. Kemur það m.a. til af því að tryggingafélög hafa hvorki tíðkað né hyggjast tíðka að senda umsækjanda um vátryggingu í DNA-rannsóknir, enda eru þær afar kostnaðarsamar og gefa aðeins takmarkaðar vísbendingar.

b. Hafi vilji löggjafans staðið til þess að bannreglan tæki aðeins til DNA upplýsinga hefði hann einfaldlega orðað lagaákvæðið svo.

c. Bannreglan tekur til upplýsinga um "erfðaeiginleika" umsækjanda, en að mati Persónuverndar eru það mun víðtækari upplýsingar en aðeins um það efni sem er í litningum manns, þ.e. um deoxýríbósakjarnsýru (DNA). Skýrt orðalag 1. málsliðar mælir eindregið gegn því að einvörðungu sé verið að banna notkun rannsóknarniðurstaðna á DNA.

d. Þótt í ákvæðinu segi að bannreglan gildi ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga verður að hafa í huga er hér er um að ræða undantekningu frá bannreglunni. Undantekningunni sé fyrst og fremst ætlað að tryggja að tryggingafélög megi afla upplýsinga til að meta fyrra eða núverandi heilsufar umsækjanda með samþykki hans. Ákvæðið er undanteking frá bannreglu en undantekningarreglur ber að jafnaði að skýra þröngt og getur vart talist tækur lögskýringarkostur að skýra undantekningarákvæði á þann veg að það útrými meginreglu. Persónuvernd fær því ekki séð að ákvæðið hafi að geyma sjálfstæða heimild til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ.e.a.s. heimild til öflunar upplýsinga um aðra en umsækjanda um tryggingu án þeirra samþykkis

3.

Persónuvernd hefur nú svarað athugasemdum tryggingafélaganna með bréfi dags. 13. þ.m.. Ekki er hins vegar víst að skorið verði úr þeim skýringarvafa sem uppi er um ákvæði 2. mgr. 82. gr. vátryggingarsamningalaga í bráð. Þar sem þessi vafi er mjög bagalegur þegar til framtíðar er litið hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að vekja athygli yðar á honum, m.a. með því að senda yður hjálagt afrit af bréfi hennar til fimm tryggingafélaga sem selja líf-, slysa- og sjúkdómatryggingar.



Var efnið hjálplegt? Nei