Úrlausnir

Gjaldeyriskaup og kennitölur

1.6.2006

Efni: Krafa fjármálastofnana um kennitölur viðskiptavina við gjaldeyriskaup

Þann 13. mars 2006 komst Persónuvernd að niðurstöðu um öflun fjármálastofnana á upplýsingum um kennitölur viðskiptamanna sem versla með gjaldeyri. Þar kom fram að fjármálastofnunum er í vissum tilvikum skylt að spyrja um kennitölur, þ.e. þegar fjárhæð fer fram úr 15.000 evrum eða ástæða er til að ætla að viðskipti tengist tiltekinni refsiverðri háttsemi. Þar af leiðandi væri þeim ekki heimilt að krefja viðskiptavini sína alltaf um kennitöur við gjaldeyriskaup.

Hins vegar taldi Persónuvernd að fjármálastofnunum gæti verið heimilt að biðja um kennitölu viðskiptavinarsins ef sérstaklega stæði á. Í vissum tilvikum mætti líta svo á að krafa um kennitölu við gjaldeyriskaup rúmaðist innan marka laga um persónuvernd þótt öflun hennar væri ekki lögskyld. Þau tilvik sem Persónuvernd benti á voru þessi:

1. Þegar ástæða er til að ætla að viðskipti tengist refsiverðri háttsemi.

2. Þegar ástæða er til að ætla að viðskipti fari fram í þágu þriðja manns.

3. Þegar upphæðir eru það háar að einka- og almannahagsmunir kunna að réttlæta öflun upplýsinga um kennitölur. Þegar upphæðir eru lágar má hins vegar efast um að hagsmunir fjármálastofnana af því að fá upplýsingar um kennitölu vegi þyngra en réttur viðskiptamanna til að gefa hana ekki upp.


Með vísan til leiðbeiningarhlutverks Persónuverndar benti hún fjármálastofnunum á að þær gætu sett sér starfsreglur um hvenær mætti krefja viðskiptavini um kennitölur við gjaldeyriskaup.

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 3. apríl 2006 ákvað hún að kanna næsta haust hvernig fjármálastofnanir hafi brugðist við framangreindri niðurstöðu. Kann þá að vera að tekið verði mið af hugsanlegum breytingum á íslensku lagaumhverfi í tengslum við nýja tilskipun um aðgerðir gegn peningaþvætti, sem kann m.a. að miða skyldu til öflunar kennitalna við aðra fjárhæð en nú er gert.



Var efnið hjálplegt? Nei