Úrlausnir

Um upplýst samþykki til aðgangs að sjúkraskrám

1.6.2006

I.Hinn 27. febrúar sl. kvað stjórn Persónuverndar upp úrskurð í máli er varðaði aðgang læknis að sjúkraskrá í tengslum við vinnslu álitsgerðar vegna bótamáls. Varð niðurstaðan sú að ekki hefði legið fyrir upplýst samþykki fyrir aðgangi að sjúkraskránni í skilningi laga nr. 77/2000 og hefði lækninum því verið óheimilt að fara í hana í umrætt sinn.

Tekið skal fram að ekki hefur verið leitt í ljós að vinnubrögð umrædds læknis hafi verið frábrugðin því sem virðist hafa tíðkast við vinnslu álitsgerða sem þessarar. Dregur Persónuvernd því ekki í efa að hann hafi verið í góðri trú um að vinnubrögðin hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Þar sem lagaumhverfi hefur hins vegar breyst án þess að verklag hafi verið tekið til endurskoðunar hefur Persónuvernd ákveðið að koma eftirfarandi á framfæri í samræmi við hlutverk sitt samkvæmt 2. og 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000:

II.
1. Heimildir til uppflettinga í sjúkraskrám

Hinn 1. janúar 2001 tóku gildi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt c-lið 8. tölul. 2. gr. laganna teljast upplýsingar um heilsuhagi til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laganna og er vinnsla þeirra, þ. á m. uppfletting í sjúkraskrá, óheimil nema eitthvert skilyrða 1. mgr. 9. gr. laganna sé uppfyllt, s.s. skilyrði 1. tölul. um upplýst samþykki.

Ekki þarf sérstakt samþykki sjúklings fyrir því að fletta upp í sjúkraskrá hans vegna læknismeðferðar sem honum er veitt eða vegna venjubundinnar stjórnsýslu á sviði heilbrigðisþjónustu, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, en í öðrum tilvikum þarf að jafnaði upplýst samþykki, lagaheimild, dómsúrskurð eða leyfi frá Persónuvernd. Breytir þar engu þótt sá sem upplýsinganna aflar sé starfsmaður heilbrigðisþjónustu og bundinn þagnarskyldu.

2. Hvað er "samþykki" í lagaskilningi ?
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 151/2003 (sk. "gagnagrunnsdómi") segir m.a.:

"Upplýsingar [í sjúkraskrám] geta varðað einhver brýnustu einkamálefni þess, sem í hlut á, án tillits til þess hvort þær geti talist honum til hnjóðs. Ótvírætt er að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til slíkra upplýsinga og veitir sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti. Til að tryggja þá friðhelgi verður löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar sem þessar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra, sem eiga ekki réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds."

Sjónarmið af sama toga og að ofan greinir hafa leitt til þess að í núgildandi lögum eru aðrar og strangari kröfur gerðar til samþykkis fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga en í tíð eldri laga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga heimil ef hinn skráði veitir samþykki sitt til hennar. Samkvæmt 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 er "samþykki" sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.

Krafan um sérstaka og ótvíræða yfirlýsingu um samþykki fyrir vinnslu tiltekinna upplýsinga felur í sér að samþykkið verður að bera með sér til hvaða upplýsinga það tekur. Því nægir ekki að sjúklingur samþykki vinnslu upplýsinga um sig án frekari tilgreiningar. Af 7. tölul. 2. gr. leiðir einnig að samþykkið verður að bera með sér í hvaða tilgangi upplýsingarnar eru unnar.

III.
Umboð til lögmanns, heimildir sem lögmenn
veita tryggingafélögum og skyldur ábyrgðaraðila sjúkraskráa

Í athugasemdum við 7. tölul. 2. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 77/2000, er m.a. tekið fram að samþykki sé persónubundið. Er það í samræmi við orðalag ákvæðisins (samþykki er yfirlýsing sem "einstaklingur" gefur af fúsum og frjálsum vilja), sem og 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. (vinnsla er heimil ef "hinn skráði" veitir samþykki sitt til hennar.) Í þessu felst að enginn getur gefið samþykki fyrir annars hönd nema hafa til þess sérstaka heimild. Samþykki forráðamanns ólögráða einstaklings er nefnt í dæmaskyni um slíka heimild, en hún getur einnig falist í skýru og afmörkuðu umboði.

1. Um umboð til lögmanna og heimildir sem lögmenn veita tryggingafélögum

Lögmaður sem ritar undir samþykki fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga f.h. umbjóðanda síns, s.s. fyrir uppflettingu í sjúkraskrá hans, verður að hafa til þess skýrt umboð frá umbjóðandanum. Slíkt umboð verður að fela í sér samþykkisyfirlýsingu sem uppfyllir framangreind skilyrði 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Verður m.a. að tilgreina í því til hvaða upplýsinga umboðið taki, hvort lögmanninum sé heimilt að veita öðrum aðgang að upplýsingunum og í hvaða tilgangi.

Almennt málflutningsumboð til lögmanns felur ekki sjálfkrafa í sér samþykkisyfirlýsingu til handa lækni eða öðrum aðilum til aðgangs að sjúkraskrá umbjóðandans. Hér er m.a. tveggja kosta völ:

a) Að í umboðsgerningi til lögmannsins samþykki umbjóðandi jafnframt aðgang tiltekins þriðja aðila að sjúkraskrá sinni í ákveðnum tilgangi. Slíkur gerningur þarf að öðru leyti að uppfylla skilyrði 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.
b) Að í umboðsgerningi lögmanns veiti umbjóðandi lögmanninum skýra heimild til að veita tilteknum þriðja aðila aðgang að sjúkraskrá sinni í ákveðnum tilgangi. Eftir sem áður þarf lögmaðurinn að undirrita aðra sjálfstæða samþykkisyfirlýsingu gagnvart lækninum, með vísan til umboðs síns, sem er í samræmi við yfirlýsingu umbjóðandans og uppfyllir skilyrði 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 að öðru leyti.

2. Skyldur ábyrgðaraðila sjúkraskráa

Áður en sá aðili sem ber ábyrgð á vörslum sjúkraskráa veitir tryggingafélagi, eða aðila á þess vegum, aðgang að tiltekinni sjúkraskrá þarf hann að ganga úr skugga um að sá sem aðgangsins óskar hafi í höndum upplýst samþykki hlutaðeigandi sjúklings, sem uppfyllir skilyrði 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, fyrir aðgangi að skránni.

Hafi leið b) hér að ofan verið farin varðandi skjalagerð þarf að leggja báða umboðsgerninga fyrir ábyrgðaraðila sjúkraskránna.

...

Þess er vinsamlegast óskað að Lögmannafélag Íslands, Læknafélag Íslands og Samband íslenskra tryggingafélaga kynni efni leiðsagnar þessarar fyrir félagsmönnum sínum.



Var efnið hjálplegt? Nei