Úrlausnir

Aðgangur að sjúkraskrám til að safna upplýsingum í rannsóknargagnagrunn

1.6.2006

III.

Stjórn Persónuverndar ræddi mál þetta á fundi sínum þann 6. þ.m. Fram kom að víða hafa á hinum Norðurlöndunum verið sett almenn lög um gagnagrunna með heilsufarsupplýsingum en enn sem komið er hafa slík lög ekki verið sett hér á landi. Þar sem þér vísið til sænskra laga má taka fram að þar gilda t.d. "Lag no. 1998:543 om hälsodataregister". Hér á landi eru ekki til sambærileg lög heldur einungis dreifð og ósamstæð lagaákvæði. M.a. er í 10. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga mælt fyrir um það með hvaða hætti menn geti samþykkt þátttöku í vísindarannsókn. Þá er í 3. mgr. 15. gr. sömu laga ákvæði um að Persónuvernd geti heimilað aðgang að sjúkraskrám vegna skilgreindra vísindarannsókna. Ekki er þar gert ráð fyrir að hún geti heimilað aðgang að sjúkraskám í þeim tilgangi að upplýsingar úr þeim verði notaðar við gerð gagnagrunna, sem eftir atvikum verði síðar notaður til einstakra rannsóknarverkefna. Þá má geta þess að hér á landi hafa heimildarákvæði 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 ekki verið túlkuð á þann veg að gerð slíkra gagnagrunna verði á þeim byggð. Persónuvernd getur, samkvæmt 1. tl. 7. gr. reglna nr. 698/2004, um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, veitt leyfi til "vinnslu sem felst í samkeyrslu skráar sem hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar við aðra skrá, hvort sem sú hefur að geyma almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar", en að slík leyfi taka aðeins til afmarkaðrar vinnslu, s.s. í þágu skilgreindrar rannsóknar, en ekki til smíði rannsóknartækis í formi rannsóknargagnagrunns.


Loks lítur stjórn Persónuverndar svo á að túlka beri valdheimildir Persónuverndar m.a. í ljósi Hæstaréttardóms í máli nr. 151/2003 (Gagnagrunnsdómi) en samkvæmt niðurstöðu hans ber að gera mjög strangar kröfur til smíði rannsóknargagnagrunns, með persónuupplýsingum sem sóttar eru í sjúkraskrár einstaklinga án þeirra samþykkis, sbr. eftirfarandi ummæli:

"[Upplýsingar sem færðar eru í sjúkraskrá] geta varðað einhver brýnustu einkamálefni þess, sem í hlut á, án tillits til þess hvort þær geti talist honum til hnjóðs. Ótvírætt er að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til slíkra upplýsinga og veitir sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti. Til að tryggja þá friðhelgi verður löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar sem þessar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra, sem eiga ekki réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds.

Með 7. gr. laga nr. 139/1998 er gefinn kostur á því að einkaaðili, sem hvorki er sjúkrastofnun né sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmaður, geti fengið upplýsingar úr sjúkraskrám án þess að sá, sem upplýsingarnar eru um, hafi berum orðum lýst sig samþykkan því. Þótt þetta eitt út af fyrir sig þurfi ekki að vera andstætt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar verður löggjafinn að gættu því, sem að framan greinir, að stuðla að því við setningu reglu sem þessarar að tryggt sé eins og frekast er kostur að upplýsingarnar verði ekki raktar til ákveðinna manna."


Af þessu má ráða að það geti verið andstætt 71. gr. stjórnarskrárinnar að búa til rannsóknargagnagrunn með heilsufarsupplýsingum sem rekja má til tiltekinna einstaklinga, þ.e. með persónugreinanlegum upplýsingum, nema fyrir því liggi skýr lagaheimild eða ótvírætt samþykki hins skráða.

IV.

Af framangreindu má ráða að Persónuvernd getur ekki, að óbreyttum lögum, veitt yður umbeðna heimild til aðgangs að sjúkraskrám í þeim tilgangi að safna úr þeim heilsufarsupplýsingum í persónugreinanlegan gagnagrunn.



Var efnið hjálplegt? Nei