Úrlausnir

Ákvörðun um dagsektir

23.3.2016

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um álagningu dagsekta á ábyrgðaraðila vinnslu þar sem hann hefur ekki hefur orðið við fyrirmælum stofnunarinnar, þ.e. samkvæmt úrskurði í máli nr. 2014/1078

 

Ákvörðun

 

Hinn 24. febrúar 2016 tók stjórn Persónuverndar eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2014/1078:

 

1.

Málsatvik og bréfaskipti

Þann 17. desember 2014 kvað stjórn Persónuverndar upp úrskurð í tilefni af kvörtun [A] (hér eftir nefnd kvartandi) vegna birtingar á ljósmyndum af henni á vefsíðunni [....]. Ábyrgðarmaður þeirrar vefsíðu er [B]. Í úrskurðarorðum segir að birting mynda af kvartanda á vefsíðunni sé ekki í samræmi við lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá var lagt fyrir [B] að eyða öllum persónuupplýsingum um kvartanda af vefsíðunni fyrir 1. janúar 2015.

 

Samkvæmt athugun Persónuverndar þann 1. febrúar 2016 hafði [B] ekki farið að fyrirmælum stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 8. s.m., var honum tilkynnt um að til stæði að leggja á hann dagsektir samkvæmt 41. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar sem ekki hefði verið farið að fyrirmælum stofnunarinnar. Bréfið var birt með aðstoð stefnuvotts, og náði [B] í það þann 10. febrúar 2016. Í bréfinu var honum boðið að koma á framfæri andmælum. Var frestur í því sambandi veittur til 24. febrúar 2016. Ekkert svar hefur borist og persónuupplýsingar um kvartanda er enn að finna á vefsíðunni [....], samkvæmt athugun stofnunarinnar í dag.

 

2.

Samkvæmt 41. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga getur Persónuvernd ákveðið að leggja dagsektir á þann sem ekki fer að fyrirmælum samkvæmt 10., 25., 26. eða 40. gr. laganna, þar til úr hefur verið bætt að mati stofnunarinnar. Sektir geta numið allt að 100.000 kr. fyrir hvern dag sem líður eða byrjar að líða án þess að fyrirmælunum sé fylgt.

 

Líkt og að framan greinir hefur [B] ekki farið að fyrirmælum Persónuverndar um að fjarlægja persónuupplýsingar um kvartanda af vefsíðunni [....]. Af þeirri ástæðu hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að leggja á [B] dagsektir frá og með 1. mars næstkomandi, hafi ekki verið farið að fyrirmælum stofnunarinnar fyrir þann dag.

 

Samkvæmt heimild í 41. gr. laga nr. 77/2000 mun Persónuvernd leggja dagsektir að upphæð kr. 10.000 fyrir hvern dag sem líður án þess að umræddar upplýsingar séu fjarlægðar. Mun upphaf dagsekta miðast við 1. mars 2016 og verður uppsöfnuð sektarfjárhæð innheimt á 14 daga fresti þar til farið hefur verið að fyrirmælum Persónuverndar.

 

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Frá og með 1. mars 2016 verða lagðar dagsektir að upphæð kr. 10.000 á [B] fyrir hvern dag sem líður án þess að persónuupplýsingar um [A] séu fjarlægðar af vefsíðunni [....]. Verður uppsöfnuð sektarfjárhæð innheimt á 14 daga fresti þar til farið hefur verið að fyrirmælum Persónuverndar.

 




Var efnið hjálplegt? Nei