Úrlausnir

Rafræn vöktun í þéttbýli

3.3.2016

Persónuvernd hefur úrskurðað um að rafræn vöktun í þéttbýlli götu hafi ekki uppfyllt ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og ákvæði reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun.


Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 24. febrúar 2016 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2015/1060:

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Hinn 15. ágúst 2015 barst Persónuvernd kvörtun frá [A], íbúa á [Heimilisfangi] 5, (hér eftir nefndur kvartandi) vegna uppsetningar [B] á eftirlitsmyndavélum á [Heimilisfangi] 7. Í kvörtuninni kemur fram að hann búi í einni þrengstu götu Reykjavíkur og sætti sig ekki við að verið sé að mynda lóð hans eða að möguleiki sé á því að hægt sé að taka myndir af lóð hans. Þær myndavélar sem settar hafi verið upp snúi auk þess að gangstétt og bílastæði, sem teljist á almannafæri, og enginn hafi heimild til þess að vakta slík svæði nema lögreglan. Kvartandi krefjist þess að þessar vélar verði fjarlægðar eða aðrar vægari aðferðir verði notaðar við gæslu hússins, t.d. að settir verði upp hreyfiskynjarar á hlið og útihurðir.

 

2.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 21. september 2015, var [B], ábyrgðaraðila vöktunarinnar og íbúa á [Heimilisfangi] 7, tilkynnt um kvörtunina og boðið að koma á framfæri andmælum sínum til samræmis við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Svarbréf [X] hdl., f.h. [B], barst Persónuvernd með tölvupósti, dags. 26. október 2015. Þar segir m.a. að umbjóðandi hans hafi sett upp fjórar öryggismyndavélar utan á fasteign sína á [Heimilisfangi] 7. Vöktun þessi sé einungis í öryggis- og eignavörsluskyni og telji hann að hún uppfylli skilyrði laga nr. 77/2000 og reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun. Í svarbréfinu er jafnframt lýst sjónarhornum þeirra myndavéla sem kvörtunin lýtur að. Myndavélar sem merktar séu austur 1 og austur 2 snúi yfir garð að austanverðu sem liggur að [Heimilisfangi] 5. Sjónarhorn vélanna sé inn á eignarlóð kvartanda, að [Heimilisfangi] 7, en skyggt sé yfir sjónarhorn yfir á lóð við [Heimilisfangi] 5. Myndavél sem merkt sé suður hafi sjónarhorn yfir garð að sunnanverðu og grindverk. Sjónarhorn sé inn á eignarlóð en skyggt sé yfir sjónarhorn sem fari út fyrir eignarlóðina. Myndavél sem merkt sé norður hafi sjónarhorn að norðanverðu yfir inngang og hlið fasteignar að [Heimilisfangi] 7 en skyggt sé yfir sjónarhorn út fyrir eignarlóðina. Þá kemur fram í svarbréfinu að vöktunin fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni, sbr. ákvæði 4. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun, og fari saman við ákvæði 7. tölul. 8. gr. og 2. mgr. 9. gr laga nr. 77/2000. Að mati lögmanns [B] fari umrædd vöktun ekki gegn meginreglum um gæði gagna og vinnslu, sbr. 7. gr. laganna. Því myndefni sem safnist við framangreinda vöktun og kunni að fela í sér persónuupplýsingar sé eytt þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það og í öllu falli innan 90 daga frá söfnun þess, sbr. 7. gr. reglna nr. 837/2006. Þá sé ljóst að persónuupplýsingar sem kunni að safnast verði aðeins notaðar í þágu tilgangs með vöktuninni og þær verði ekki afhentar öðrum nema með samþykki hins skráða. Þær kunni þó að verða afhentar lögreglu ef um slys eða meintan refsiverðan verknað sé að ræða. Svarbréfinu fylgdu svo skjáskot úr myndavélum sem kvörtunin lýtur að. Þar voru skyggð þau svæði sem eru utan eignarlóðar [Heimilisfangi] 7.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2015, var kvartanda boðið að tjá sig um svarbréf [B]. Svarbréf [Y] hdl., f.h. kvartanda, barst með tölvupósti, dags. 2. desember 2015. Í bréfinu kemur fram að kvartandi telji að eftirlitsmyndavélarnar geti myndað einkalíf hans og fjölskyldu hans, gestagang á heimili hans og fleiri atriði sem ekki verði séð að [B] hafi heimild til að safna myndefni eða öðrum gögnum um. Mikið af þeim persónuupplýsingum sem safna megi með eftirlitsmyndavélum sem staðsettar séu með þessum hætti geti talist til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Þá telji kvartandi að útskýringar sem fram komi í svarbréfi [B] séu ófullnægjandi. Ekki sé með neinum hætti rökstutt hvers vegna eftirlitsmyndavélar séu taldar nauðsynlegar, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, við meinta öryggis- og eignavörslu við íbúðarhús í hverfi þar sem ekkert liggi fyrir um sérstakar hættur. Þær fjórar eftirlitsmyndavélar sem um sé að ræða séu staðsettar þannig að þær horfi yfir svæði þar sem takmarkaður hópur fólks, þ.e. íbúar húsa í kring, fari um daglega eða að jafnaði. Beri þannig við rafræna vöktun á svæðinu að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000. Þá verði ekki séð að framangreind vöktun samræmist kröfu um meðalhóf í 5. gr. reglna nr. 837/2006. Kvartandi telji að tryggja megi öryggi með vægari raunhæfum úrræðum en það hafi ekki verið gert. Fasteignin á [Heimilisfangi] 7 sé girt af með hárri girðingu og hún sé staðsett í þröngri götu þar sem aðgangur óviðkomandi sé erfiður án þess að nágrannar verði varir við hann. Kvartandi telji að ekki séu neinir áhættuþættir sem kalli á eigna- og öryggisgæslu með rafrænni vöktun. Þá bendi kvartandi á að ekkert hafi komið fram um þann tæknibúnað sem notaður sé við eftirlitið, t.d. hvernig meint skygging á upptökum fari fram, á hvaða stigi slík skygging sé framkvæmd, hvort tækjabúnaður leyfi afskyggingu, hvort það sé skrásett ef starfsmaður breyti stillingum um skyggingu og hvort upptökur séu geymdar á formi þar sem unnt sé að nálgast myndefni af þeim svæðum sem skyggð hafi verið. Þannig hafi kvartandi enga leið til að meta hvort hin meinta skygging á þeim hluta vöktunarinnar sem nái til lóðar hans, heimilis og bílastæða uppfylli nokkrar kröfur um upplýsingaöryggi. Skygging á hluta myndar úr eftirlitsmyndavél sé ekki ein og sér fullnægjandi til að vinnsla á myndefni af kvartanda teljist ekki vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sem fram fari án heimildar hans.

 

Með bréfi, dags. 16. desember 2015, var [B] boðið að koma á framfæri athugasemdum við framkomnar skýringar lögmanns kvartanda. Óskaði Persónuvernd sérstaklega eftir upplýsingum um hvort hægt væri að afskyggja það myndefni sem verður til við rafræna vöktun við [Heimilisfang] 7 og á hvaða stigi vinnslunnar skygging væri framkvæmd. Í svarbréfi lögmanns [B], dags. 8. janúar 2016, kemur fram að skyggingin sé framkvæmd af sölu- og uppsetningaraðila hugbúnaðarins, það er Securitas, og hafi hún farið fram áður en kerfið hafi verið gangsett. Eftir að skygging hafi verið framkvæmd safnist ekki neitt efni frá hinu skyggða svæði. Afskygging geti hins vegar átt sér stað með breytingu á uppsetningu hugbúnaðarins. Þá skuli það tekið fram að myndavélarnar séu búnar hreyfiskynjurum og taki því bara upp þegar hreyfing verði á hinu óskyggða svæði. Í svarbréfinu kemur fram að lögmaður [B] vilji árétta að tilgangur vöktunarinnar sé eingöngu að verja eigur eigenda að [Heimilisfangi] 7 en ekki að fylgjast með athöfnum nágranna eða annarra, enda sé eigendum að [Heimilisfangi] 7 kunnugt að slík notkun eftirlitsmyndavéla samræmist ekki lögum.

 

Með bréfi, dags. 29. janúar 2016, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum við skýringar lögmanns [B]. Í svarbréfi kvartanda, dags. 10. febrúar 2016, kemur fram að staðsetning eftirlitsmyndavélanna valdi íbúum aðliggjandi húsa óþægindum vegna þess að sjónarhorni myndavélanna sé beint að þeim. Telji þeir að engin leið sé til að sjá hvort sú skygging sem tilgreind sé í svörum lögmanns [B] sé virk eða ekki. Að mati íbúa nærliggjandi húsa eigi þetta sérstaklega við þá myndavél sem merkt sé norður, sem sé beint að gangstétt og bílastæðum að [Heimilisfangi], sem teljist á almannafæri. Þá var óskað eftir því að starfsmenn Persónuverndar könnuðu aðstæður á lóðum [Heimilisfangs] 5 og 7 til að kynna sér nábýlið sem um ræðir.

Hinn 17. febrúar 2016 fór fram vettvangsathugun af hálfu Persónuverndar við [Heimilisfang] 7, Reykjavík. Starfsmenn Persónuverndar skoðuðu umræddar eftirlitsmyndavélar, staðsetningu þeirra og tóku ljósmyndir af þeim og nærliggjandi götum og húsum. Af framlögðum gögnum aðila málsins mátti sjá til hvaða svæðis myndbandsupptökur ná og staðfesti vettvangsathugunin þau gögn sem afhent voru Persónuvernd við rekstur málsins. Var því ekki talin þörf á því að fá aðgang að húsnæði að [Heimilisfangi] 5 og 7 þar sem nægra upplýsinga hafði verið aflað um kvörtunarefni kvartanda. 

 

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

 

Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

 

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til teljast eigendur að [Heimilisfangi] 7, [B]og [C], vera ábyrgðaraðilar að umræddri vinnslu.

 

Af framangreindu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

 

2.

Lögmæti vöktunar

Til að rafræn vöktun sé heimil verður að vera fullnægt skilyrðum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 77/2000. Þar er kveðið á um að rafræn vöktun sé ávallt háð því skilyrði að hún fari fram í málefnalegum tilgangi. Rafræn vöktun svæðis, þar sem takmarkaður hópur fólks fari um að jafnaði, sé jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram.

 

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða rafræna vöktun sem leiðir til vinnslu persónuupplýsinga. Svo að slík vinnsla sé heimil verður einhverju þeirra skilyrða, sem kveðið er á um í 8. gr. laga nr. 77/2000, að vera fullnægt. Í því tilviki sem hér um ræðir reynir einkum á 1. tölul. 1. mgr. 8. gr., um samþykki, og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þess efnis að vinna megi með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

 

Meðferð persónuupplýsinga sem til verða í tengslum við vöktun verður, auk framangreinds, m.a. að samrýmast meginreglum 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á m. þeim reglum að persónuupplýsingar skuliu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra skuli samrýmast vönduðum vinnsluháttum persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); og að þær skuli vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.). Draga má efni þessara reglna saman í eina grunnreglu þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera sanngjörn og ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu lögmæts og málefnalegs tilgangs.

 

Með stoð í 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 hefur Persónuvernd sett reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun. Samkvæmt 4. gr. þeirra reglna verður rafræn vöktun að fara fram í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, s.s. í þágu öryggis eða eignavörslu. Þá segir í 5. gr. reglnanna að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skuli gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skuli því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.

 

Í vettvangsathugun Persónuverndar mátti greina að eftirlitsmyndavélar eru staðsettar undir þakskeggi á hverju horni fasteignarinnar að [Heimilisfangi] 7 á hreyfanlegum festingum sem standa út af veggjum hússins. Sjónarhorn myndavélanna snýr ofarlega í átt að hverri hlið húsnæðisins og tekur því ekki einungis til þess svæðis sem afmarkast af girðingu eigenda [Heimilisfangi] 7. Af vettvangsathugun Persónuverndar og gögnum málsins verður ráðið að sjónarhorn eftirlitsmyndavélanna snýr að almannafæri, að húsnæði kvartanda og annars húsnæðis í eigu nágranna þar í kring. Af framlögðum skjáskotum úr eftirlitsmyndavélunum má jafnframt sjá að stór hluti sjónarhorns eftirlitsmyndavélanna snýr annaðhvort að svæðum á almannafæri eða að nálægum húsum. Þau svæði sem standa utan girðingar eigenda [Heimilisfangi] 7 eru skyggð þannig að ekki er hægt að greina mannaferðir á þeim svæðum.

 

Almennt verður að líta svo á að ábyrgðaraðila sé heimil vöktun á yfirráðasvæði sínu, þ.e. innan eignarlóðar. Þá hefur Persónuvernd talið að rafræn vöktun á almannafæri skuli einungis vera á hendi lögreglunnar. Þegar einstaklingar eiga leið um svæði í kringum [Heimilisfang] 7 getur þeim ekki verið ljóst hvort rafræn vöktun nái til þeirra eða ekki. Sú ráðstöfun að skyggja framangreint myndefni, sem Securitas sér um að gera, dugar ekki til þess að einkaaðila sé heimil rafræn vöktun á almannafæri sem ströng skilyrði gilda um. Auk þess er slík skygging ekki nægileg til þess að rafræn vöktun að [Heimilisfangi] 7 teljist uppfylla skilyrði um meðalhóf í 5. gr. reglna um rafræna vöktun, sbr. einnig 3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar eru önnur vægari úrræði í boði til að tryggja öryggi og eignarvörslu á lóð að [Heimilisfangi] 7. Breyting á sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavélanna þannig að þær taki ekki upp efni utan eignarlóðar að [Heimilisfangi] 7 er úrræði sem nær sama markmiði með óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra sem leið eiga um þetta svæði.

 

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að rafræn vöktun að [Heimilisfangi] 7 samræmist ekki ákvæðum laga nr. 77/2000 og reglum nr. 837/2006, um rafræna vöktun. Beinir stofnunin þeim fyrirmælum til ábyrgðaraðila að sjónarhorni og staðsetningu eftirlitsmyndavéla að [Heimilisfangi] 7 skuli breytt þannig að þær vísi ekki að svæðum á almannafæri eða eignum nágranna.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Rafræn vöktun að [Heimilisfangi] 7 samrýmist ekki lögum nr. 77/2000 og reglum 837/2006. Beinir Persónuvernd þeim tilmælum til ábyrgðaraðila vöktunarinnar að breyta staðsetningu og sjónarhorni eftirlitsmyndavélanna fyrir 24. mars 2016 þannig að þær vísi ekki að svæðum á almannafæri og eignum nágranna.

 



Var efnið hjálplegt? Nei