Úrlausnir

Frávísun - mál til meðferðar hjá dómstólum

1.6.2006

Kvartað var til Persónuverndar yfir meintri ólögmætri meðferð fyrrverandi vinnuveitanda á tölvupósti kvartanda. Nokkur bréfaskipti urðu milli málsaðila og Persónuverndar. Persónuvernd gerði grein fyrir því að stofnunin myndi ekki, á meðan málið væri til meðferðar fyrir dómstóli, og ekki lægi fyrir hvort hann myndi taka efnislega afstöðu til lögmætis umræddrar meðferðar á tölvupóstinum, taka það atriði til meðferðar. Hún gæti þó skoðað það atriði eitt og sér hvort vinnubrögð fyrrverandi yfirmanns kvartanda við skoðun viðkomandi tölvupósts hafi verið í samræmi við settar reglur.


Kvartandi mótmælti þessari afstöðu. Hann benti á að umrætt álitaefni væri ekki til meðferðar hjá dómstólum heldur allt önnur ágreiningsatriði og Persónuvernd gæti ekki einhliða ákveðið að bíða með afgreiðslu málsins. Kvartandi ítrekaði kröfu sína um að Persónuvernd tæki málið til afgreiðslu, þ.e.a.s. lögmæti vinnslunnar, en ekki einungis vinnubrögð fyrrverandi yfirmanns síns við skoðun á tölvupósti.


Var málið þá tekið til formlegrar afgreiðslu og komist að svofelldri niðurstöðu:


Í fyrsta lagi væri ekki óeðlilegt að ætla að dómstóllinn myndi, í tengslum við umrætt lögbannsmál, fjalla um lögmæti vinnslunnar, þ.e. þess þegar fyrrum yfirmaður kvartanda skoðaði tölvupóst hans. Annars vegar byggðist þessi afstaða stjórnar á því að málið grundvallaðist á framlögðum tölvupóstskeytum sem væntanlega þyrfti að meta hvort teldust til trúnaðarsamskipta eða ekki. Hins vegar byggðist afstaða stjórnar á því sem fram kom í greinargerð vegna lögbannsmálsins kvartanda. Þar sagði m.a.:

"Við mat á þeim gögnum sem gerðarbeiðandi hefur lagt fram er þess krafist að tekið sé tillit til þess að hér er um persónuleg gögn sem lögð eru fram í andstöðu við ákvæði 7. gr. laga um persónuvernd og því verði ekki á þeim byggt í málinu."


Í öðru lagi var ákveðið að staðfesta fyrri afstöðu stofnunarinnar um að fjalla ekki um framangreint mál meðan það væri til meðferðar fyrir dómstóli í tengslum við það mál sem höfðað hafði verið til staðfestingar umræddri lögbannsgerð. Var framangreind ákvörðun í samræmi við áralanga venju um að fjalla ekki um mál á stjórnsýslustigi um leið og þau væru til meðferðar hjá dómstólum. Var í því sambandi vísað til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1311/1994, þar sem umboðsmaður taldi ekki aðfinnsluvert að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stöðvaði meðferð kærumáls eftir að það hafði verið borið undir dómstóla. Þá var tekið fram að þessi venja væri í samræmi við stjórnsýsluframkvæmd á Norðurlöndunum. Um það vísast m.a. til rits danska stjórnsýslufræðingsins Bent Christensen: Forvaltningsret (1994); Kap. XII.2.; "En igangværende prövelse i den administrative rekurs og på den overordnedes eget initiativ må formentlig standse, hvis der anlægges en prövelsessag ved domstolene med påstande og anbringender, som svarer nogenlunde til prövelsestemaet i den administrative rekurs".


Var því ákveðið að Persónuvernd hefði ekki frekari afskipti af málinu fyrr en niðurstaða dómstólsins lægi fyrir, enda bærist stofnuninni þá krafa þess efnis.



Var efnið hjálplegt? Nei