Úrlausnir

Lífsýnasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar - mál nr. 2014/992

30.12.2014

Úrskurður

 

Hinn 17. desember 2014 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2014/992:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

Persónuvernd hafa borist fjórar samhljóða kvartanir, dags. 22. júní 2014, frá [A, B og C], sem og [D] (hér eftir sameiginlega nefnd „kvartendur“), yfir því með hvaða hætti leitað var til þeirra til að bjóða þeim þátttöku í samanburðarhópi vegna rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE) og samstarfsaðila, sem og til að veita heimild til vörslu lífsýna úr þeim í lífsýnasafni ÍE. Fyrir liggur að þeir sem leitað var til fengu send samþykkisgögn í pósti og að oft leið mjög skammur tími, jafnvel örfáir dagar, frá því að gögnin bárust einstaklingi og þangað til komið var á heimili hans til sækja samþykkisyfirlýsingu og lífsýni. Kvartendur vísa til þess að í ljósi þessa hafi umhugsunartími verið skammur. Þá kemur meðal annars fram í kvörtununum sú afstaða að asi hafi verið á framkvæmd söfnunarinnar og að með því að fá björgunarsveitarfólk til að safna sýnum hafi þeir sem leitað var til verið beittir þrýstingi, en auk þess hafi þeir sem söfnuðu sýnunum ekki haft þekkingu til að svara spurningum varðandi þátttöku.

 

1.

Í kvörtunum segir meðal annars:

„Vísað er til söfnunarátaks ÍE á lífsýnum með aðstoð Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem 5-10.000 meðlimir í Slysavarnafélaginu Landsbjörg gengu í hús frá fimmtudeginum 8. maí 2014 og átti að standa til sunnudagsins 11. maí 2014 (en hefur haldið áfram) og söfnuðu lífsýnum fólks sem tekur þátt í rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar en fyrirtækið sendi ríflega 100 þúsund einstaklingum umslag með munnspaða og beiðni um að gefa lífsýni í samanburðarhóp fyrirtækisins. Landsbjörg mun fá greiddar 2000 kr. fyrir hvert lífsýni. Þannig getur Landsbjörg fengið allt að 200 milljónir fyrir verkefnið.“

Í tengslum við framangreint er í kvörtunum vísað til markmiðsákvæðis 2. gr. reglna nr. 170/2001 um það hvernig afla skal upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsókn á heilbrigðissviði. Nánar tiltekið er vísað til þess að samkvæmt ákvæðinu sé reglunum ætlað að tryggja að fylgt sé vandaðri málsmeðferð sem stuðlar að því að vernda friðhelgi einkalífs og virða sjálfsákvörðunarrétt manna þegar aflað er upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Samkvæmt 7. gr. umræddra reglna skuli auk þess gæta nærfærni þegar vilji manns er kannaður til þátttöku í vísindarannsókn og sé óheimilt að beita sjúkling beinum eða óbeinum þrýstingi. Þá komi fram í 10. tölul. 3. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn, þar sem er að finna skilgreiningu á samþykki samkvæmt þeim lögum, að samþykki skuli vera upplýst, óþvingað og veitt af fúsum og frjálsum vilja. Einnig sé í 2. mgr. 1. gr. laganna tekið fram að aldrei skuli setja hagsmuni vísinda og samfélags ofar hagsmunum lífsýnisgjafa. Tenging lífsýnasöfnunar við fjársöfnun fyrir Landsbjörgu hafi falið í sér þvingandi aðgerð í andstöðu við framangreind ákvæði. Með óumbeðinni heimsókn á heimili, þar sem höfðað hafi verið verið til samvisku viðkomandi um góðgerðarmálefni, hafi verið rofin friðhelgi einkalífs og sjálfsákvörðunarréttur ekki virtur. Verði ekki litið svo á að um sé ræða þvingað samþykki, þá feli framangreint í sér óbeina þvingun.

Vísað er til þess að samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 10. tölul. 3. gr. laga nr. 110/2000 skal lífsýnisgjafi fræddur um markmið með töku sýnis, sbr. og 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. reglna nr. 170/2001. Í því sambandi segir nánar að tilgangur, eins og hann var kynntur í samþykkisgögnum, sé með ólíkindum óljós og virðist sem ÍE hyggist nota umrædd lífsýni almennt í starfsemi sinni. Þá segir:

„Lífsýnagjafi á að vera upplýstur um markmið með töku sýnisins. Veruleg hætta er á því að framangreindur valkostur um styrk til góðs málefnis leiði til þess að svo verði ekki og hann gefi lífsýni einungis til að veita góðu málefni lið og kynni sér ekki hvað samþykki felur í raun í sér. Fyrir liggur að ÍE bjó svo um hnútana að skammur tími var til umhugsunar eða kynningar á þeim gögnum sem liggja að baki samþykkinu og lífsýnagjöf. Ekki hefur komið fram ástæða þessa hraða. Slíkur asi á lífsýnagjöf er ekki í anda eða í samræmi við markmið laganna.“

Einnig er vísað til þess að lífsýnagjafar eiga rétt á upplýsingum sem eru réttar og óhlutdrægar þannig að samþykki sé gefið á réttum forsendum og þeir séu upplýstir um alla þætti málsins. Björgunarsveitarfólk, sem safnaði sýnum, hafi ekki haft þekkingu til að upplýsa viðkomandi um atriði varðandi þátttöku. Þá sé ekkert eftirlit haft með því að sá sem undirritar samþykki sé viðkomandi einstaklingur. Þetta sé hægt að misnota fyrir fólk sem ekki hefur getu til að skrifa undir sjálft, t.d. fólk með ýmsa taugahrörnunarsjúkdóma og elliglöp. Í samræmi við þetta sé á hefðbundnum samþykkiseyðublöðum ávallt gert ráð fyrir undirskrift aðila, sem upplýsir einstakling með takmarkaða getu, til staðfestingar því að viðkomandi hafi verið upplýstur og sé sá sem um ræði.

Að auki segir að sú ímynd, sem ÍE hafi dregið upp við umrædda lífsýnasöfnun, þ.e. að hún gagnist landi og þjóð, standist ekki, enda sé ÍE í eigu erlends aðila og engin vissa fyrir því að Íslendingar njóti góðs af starfi fyrirtækisins. Þá er lýst þeirri afstöðu að vegna tiltekinnar vinnslu hjá ÍE sem fram fór án samþykkis, sbr. ákvörðun Persónuverndar, dags. 28. maí 2013 (mál nr. 2012/1404), séu ekki forsendur til að heimila ÍE frekari lífsýnasöfnun. Sé farið fram á við Persónuvernd að hún skoði það alvarlega að söfnunin verði úrskurðuð ólögleg og öllum gögnum og upplýsingum um hana verði eytt svo upplýsingarnar verði ekki misnotaðar í framtíðinni.

 

2.

Með bréfi, dags. 9.  júlí 2014, sbr. og bréf, dags. 31. s.m. og ítrekun, dags. 7. október 2014, var ÍE veitt færi á að tjá sig um umræddar kvartanir. Svarað var með bréfi, dags. 17. október 2014.  Þar segir meðal annars að kvartendur séu ekki á meðal þátttakenda í vísindarannsóknum á mönnum á vegum ÍE. Þá segir að ganga megi út frá því sem vísu að kvartendur hafi ekki undirritað samþykki til þátttöku, enda finni þeir umræddri lífsýnasöfnun allt til foráttu og starfsemi ÍE almennt séð. Með vísan til þessa segir að kvartendur geti ekki talist aðilar máls um nein þau atvik og álitaefni sem lúta að rannsókninni eftir að þátttakendur hafa gefið upplýst samþykki eða starfsemi ÍE yfirleitt. Þá geti kvartendur ekki haft uppi kröfur um að Persónuvernd grípi til íþyngjandi athafna gegn ÍE og þátttakendum, m.a. því að samþykki þeirra verði metin ógild. Í ljósi almennra reglna stjórnsýsluréttarins um kröfur sem gerðar eru um aðild að stjórnsýslumálum, þ.e. að aðili máls þurfi að eiga beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, beri Persónuvernd að vísa kvörtununum frá.

Því er því vísað á bug að það hafi skapað óeðlilegan þrýsting að björgunarsveitarfólki var falið að safna sýnum. Um það segir nánar:

„Hverjum og einum er eins og ævinlega í sjálfsvald sett hvort hann tekur þátt í vísindarannsókn eða ekki, eða hvort hann ákveður að draga þátttöku til baka á síðari stigum. Hið sama á við um gjöf lífsýnis til vörslu í lífsýnasafni. Eins og rakið er í næsta lið var boðið upp á að taka þátt í rannsókninni og senda rannsóknargögn í pósti síðar. Þar voru ekki sett nein tímamörk og engin kvöð var um að afhenda þau björgunarfólki frekar en hver og einn kaus. Því var einmitt sérstaklega uppálagt að beita engum þrýstingi að þessu leyti.“

Einnig segir að veittar hafi verið ítarlegar upplýsingar í kynningarefni og samþykkisgögnum sem Vísindasiðanefnd hafi farið yfir. Í umræddum gögnum hafi verið að finna leiðbeiningar um það hvernig finna mætti enn frekari upplýsingar um rannsóknina hjá ábyrgðar- og framkvæmdaraðilum hennar, þ.e. hjá Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna, auk þess sem opnuð hafi verið sérstök vefsíða helguð umræddri lífsýnasöfnun þar sem finna megi margvíslegar upplýsingar um rannsóknina, rannsakendur, spurningar og svör o.s.frv. Hafi því verið gengið lengra en samkvæmt ýtrustu kröfum 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. reglna nr. 170/2001. Þá segir:

„Það má til sanns vegar færa að heppilegra hefði verið í sumum tilfellum ef lengri tími hefði liðið frá því að væntanlegum þátttakendum bárust rannsóknargögn og eyðublað með upplýstu samþykki. Hér skipti mestu að áætlanir sem Íslandspóstur gerði og kynnti fyrir ÍE um dreifingu stóðust ekki að öllu leyti. Voru dæmi þess að gögnin væru borin út nokkrum dögum seinna en gert hafði verið ráð fyrir. Það varð þess valdandi að fyrir kom að væntanlegir þátttakendur fengu þau ekki í hendur nægjanlega tímanlega áður en fulltrúar Landsbjargar knúðu dyra. Þetta var óheppilegt, en minnt er á að þátttakendum gafst eins langur tími og þeir töldu sig þurfa til að kynna sér rannsóknina eins og kom skýrt fram í sendum gögnum og fulltrúum Landsbjargar var uppálagt að ítreka, enda tóku þeir aðeins við tilbúnum gögnum.“

Að auki segir:

„Hér skiptir þó mestu máli að skýrt var tekið fram að hægt væri að setja rannsóknargögnin ófrímerkt í póst hvenær sem er á seinni stigum, væri fólk ekki búið að kynna sér þau og upplýst samþykki til hlítar og enginn þrýstingur var á að skila þeim til fulltrúa Landsbjargar frekar en hver og einn vildi. Mjög margir nýttu sér þessa leið og hafa gögnin verið að skila sér í pósti til Þjónustumiðstöðvar rannsóknarverkefna allt fram á þennan dag frá þeim einstaklingum sem hafa kosið að gefa sér góðan tíma til að kynna sér kosti og galla þess að taka þátt.“

Víðar er til umfjöllunar í kvörtunum um að tryggingu hafi skort fyrir því að þeir sem skiluðu inn sýnum væru þeir sem undirrituðu samþykkisyfirlýsingu. Um það segir:

„Erfitt er um vik að ráða í hvaða ályktun skal draga af þessari athugasemd kvartanda og í hverju kvörtun hans er fólgin að því leyti. Sérstakir skilmálar gilda um það hvernig farið skuli með tilfelli þegar í ljós kemur að sýni stafar ekki frá þeim sem undirritar samþykki, svo sem vegna ásetnings eða mistaka í meðhöndlun sýna. Eru upplýsingar og rannsóknargögn þá lögð til hliðar, enda nýtast þær ekki til rannsóknar af augljósum ástæðum.“


3.

Með tölvubréfi hinn 3. nóvember 2014 var [C] veitt færi á að tjá sig um framangreint svar ÍE fyrir hönd kvartenda. Þá var þess óskað, með tölvubréfi til [C] hinn 27. nóvember 2013, að [C] upplýsti fyrir hönd kvartenda hversu langur tími hefði liðið frá því að bréf með þátttökuboði frá ÍE barst þeim og þar til björgunarsveitarfólk kom að sækja sýni. [A] svaraði degi síðar fyrir hönd kvartenda. Kemur fram í svari [A] að liðið hafi tveir til þrír dagar.

Með bréfi, dags. 8. desember 2014, svöruðu kvartendur áðurnefndu tölvubréfi Persónuverndar frá 3. nóvember s.á. Í bréfinu er vísað til þess að í samþykkisgögnum hafi bæði verið að finna skjal fyrir yfirlýsingu um samþykki til þátttöku í umræddum samanburðarhópi, sem og skjal fyrir yfirlýsingu um samþykki til vistunar lífsýnis í lífsýnasafni. Hafi mátt skilja af framsetningu gagna að síðarnefnda samþykkið væri liður í þátttöku í samanburðarhópnum, en svo sé ekki. Hafi framsetning því verið villandi.

Einnig segir að þær fullyrðingar í samþykkisgögnum séu rangar að Persónuvernd hafi leyft umrædda lífsýnasöfnun, sem og að stofnunin hafi leyft allar rannsóknir ÍE. Að öðru leyti eru áréttuð þau atriði sem rakin í kvörtun, en auk þess segir:

„Í framangreindu svarbréfi ÍE er helsta málsvörn ÍE aðildarskortur þess sem leggur fram kvörtunina. Fyrritækið skákar þannig í því skjólinu að enginn geti gert athugasemdir við framferði fyrirtækisins og vakið athygli yfirvalda á ólögmætu athæfi þess. Samkvæmt túlkun fyrirtækisins hefur einungis sá sem samþykkir þátttöku lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins. Þessi skilningur  ÍE myndi í raun þýða að enginn myndi krefjast ógildingar á umræddum samþykkjum enda einungs þeir sem undirrituðu samþykki með málsaðild.“

Með vísan til framangreinds segir í bréfi kvartenda að þeir hafi verið þátttakendur í lífsýnaátaki ÍE og átakið beinst að þeim sem kvartendum. Þeir hafi hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort átakið samrýmist lögum. Ekki sé útilokað, þó ólíklegt megi telja á þessu stigi, að kvartendur taki þátt í átakinu ef fyrir liggi með óyggjandi hætti að það samrýmist lögum.

 

4.

Með tölvubréfi hinn 28. nóvember 2014 var ÍE veitt færi á [að koma á framfæri] athugasemdum við þá lýsingu á málsatvikum sem fram kemur í fyrrgreindum svörum [A] til Persónuverndar frá sama degi, þ.e. um þann tíma sem leið frá sendingu samþykkisgagna í pósti þar til komið var að sækja lífsýni. Einnig var óskað staðfestingar á hvort fallist væri á þann skilning Persónuverndar að nöfn kvartenda hefðu verið á útsendingarlistum sem nýttir voru þegar send voru út boð um þátttöku í samanburðarhópi og sýnum safnað. Þá var þess óskað að ÍE greindi frá því hvort mótað hefði verið verklag sem tryggði að björgunarsveitarfólk, sem kom að sækja sýni, gæti leiðbeint um það munnlega hvernig einstaklingar gætu leitað svara við spurningum sem þeir kynnu að hafa, þ.e. hvert beina mætti nánari fyrirspurnum.

 

ÍE svaraði með tölvubréfi hinn 8. desember 2014. Þar segir að ÍE hafi enga ástæðu til að vefengja fyrrgreinda lýsinga kvartenda á málsatvikum. Þá segir:

„Varðandi spurningu um það hvort mótað hafi verið verklag sem tryggði að björgunarsveitarfólk sem sótti rannsóknargögn til fólks gæti svarað spurningum um vinnslu persónuupplýsinga, þá byggir sú fyrirspurn á misskilningi.

Ítrekað skal að björgunarsveitarfólki var ekki ætlað að veita neinar slíkar upplýsingar, sbr. m.a. umfjöllun um það efni í lið 6 c) í bréfi ÍE dags. 17. október sl. þar sem veitt var umsögn um kvörtunina. Umræddar upplýsingar og hvar enn frekari upplýsinga var að leita kom á hinn bóginn rækilega fram í auglýsingum, vefsíðu rannsóknarinnar og  rannsóknargögnum sem þeim sem boðin var þátttaka voru send, þ.m.t. á upplýsingablaði því sem hér fylgir í viðhengi. […]


Skv. framanskráðu hafði björgunarsveitarfólk það hlutverk eitt að sækja rannsóknargögn til þeirra sem ákváðu að taka þátt í rannsókninni og kusu að notfæra sér það hagræði til að koma þeim til skila. Hinn möguleikinn var að senda rannsóknargögnin gjaldfrjálst í pósti, t.d. þegar þátttakendur þurftu meiri tíma til að kynna sér málið.“

Hinn 17. desember 2014 barst tölvubréf frá ÍE með viðbót við framangreint svar, þ.e. staðfestingu á að nöfn kvartenda hefðu verið á útsendingarlistum.

 

I.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna.

Fyrir liggur að við umrædda lífsýnasöfnun var óskað lífsýna úr kvartendum. Þá liggur fyrir að upplýsingar um þau voru á útsendingarlistum sem notast var við vegna lífsýnasöfnunarinnar. Í því fólst vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir lög nr. 77/2000 og þar með valdsvið Persónuverndar. Það að leitað var til kvartenda á grundvelli útsendingarlista, sem og hvernig það var gert, var þáttur í þessari vinnslu. Telur Persónuvernd því skilyrðum um aðild vera fullnægt varðandi þau atriði sem ágreiningur er um í málinu og lúta að vinnslu persónuupplýsinga um kvartendur, þ.e. hvernig staðið var að veitingu fræðslunnar sem slíkrar og hvort þau hafi átt þess kost að kynna sér ráðgerða vinnslu nægilega vel og taka upplýsta ákvörðun á þeim grundvelli.

Skilyrðum um aðild er hins vegar ekki fullnægt varðandi þau atriði sem lúta að vinnslu persónuupplýsinga um aðra en kvartendur. Verður því ekki fjallað hér um það álitaefni hvort nægilega hafi verið tryggt að þeir sem gáfu sýni væru þeir sem þeir segðust vera, enda liggur ekki fyrir að á slíkt hafi reynt í tengslum við kvartendur. Hið sama á við um álitaefni varðandi einstaklinga með takmarkaða getu til að veita samþykki, sem og athugasemd kvartenda varðandi það hvort úrskurða ætti umrædda lífsýnasöfnun ógilda í heild sinni.

Það hvort í aðkomu björgunarsveita hafi falist óeðlilegur þrýstingur fellur fremur undir svið vísindasiðfræðinnar fremur en lög nr. 77/2000. Fellur það í hlut Vísindasiðanefndar að meta vísindasiðafræðileg álitaefni, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Verður því ekki heldur fjallað um það hér hvort óeðlilegur þrýstingur hafi falist í framangreindu, en auk þess fellur það ekki í verkahring Persónuverndar að taka afstöðu til þess hvort umrædd lífsýnasöfnun gagnist landi og þjóð.

 

2.

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 5. tölul. þeirrar málsgreinar er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur meðal annars fram að undir það geti fallið vinnsla í vísindalegum tilgangi. Í ljósi þessa telur Persónuvernd að umrædd vinnsla persónuupplýsinga um kvartendur, sem fram fór í því skyni að óska lífsýna úr þeim í þágu vísindarannsókna, hafi átt stoð í umræddu ákvæði.

Við umrædda vinnslu varð að gæta [að] ákvæðum 20. gr. laga nr. 77/2000, en þar kemur fram að þegar persónuupplýsinga er aflað hjá hinum skráða sjálfum skal hann upplýstur um meðal annars tilgang vinnslu, sem og önnur atriði sem honum er nauðsynlegt að fá vitneskju um til að gæta hagsmuna sinna. Frekari kröfur um fræðslu, þegar óskað er eftir samþykki til vinnslu, er að finna í 7. tölul. 2. gr. laganna, en þar segir að með samþykki sé átt við sérstaka, ótvíræða yfirlýsingu sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. Í rannsóknum á vegum ÍE er unnið með upplýsingar um heilsuhagi, þ. á m. upplýsingar um erfðaeiginleika sem unnar eru úr lífsýnum. Slíkar upplýsingar eru viðkvæmar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, og ber því að gera sérstaklega ríkar kröfur til samþykkis sem óskað er fyrir vinnslu þeirra.

Einnig ber að líta til ákvæða í öðrum lögum sem þýðingu hafa. Má þar nefna 1. mgr. 7. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn, en samkvæmt því ákvæði skal samþykki fyrir varðveislu lífsýnis í lífsýnasafni vísindasýna veitt skriflega og af fúsum og frjálsum vilja eftir að lífsýnisgjafi hefur verið upplýstur um markmið með töku sýnisins, gagnsemi þess, áhættu samfara tökunni og að lífsýnið verði varðveitt til frambúðar í lífsýnasafni í þágu vísindarannsókna. Þá ber að líta til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, en þar kemur fram að áður en samþykki fyrir þátttöku í vísindarannsókn er gefið skuli veittar ítarlegar upplýsingar um rannsóknina, áhættu sem henni kann að fylgja og hugsanlegan ávinning og í hverju þátttakan er fólgin. Skuli viðkomandi gerð grein fyrir því að hann geti hafnað þátttöku í vísindarannsókn og að hann geti hvenær sem er hætt þátttöku eftir að hún er hafin.

Þá ber að líta til reglna nr. 170/2001 um það hvernig afla skal upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsókn á heilbrigðissviði, en þær reglur sækja stoð í meðal annars 4. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þar er að finna nánari upptalningu á þeim atriðum sem veitt skal fræðsla um þegar leitað er samþykkis fyrir þátttöku í vísindarannsókn. Segir að þessar upplýsingar skuli útskýrðar nánar munnlega miðað við þarfir væntanlegs þátttakanda. Þá segir í 3. gr. reglnanna að þegar vilji þátttakenda í vísindarannsókn sem hafa verið valdir úr Þjóðskrá er kannaður bréflega og viðeigandi upplýsingar hafa verið sendar um rannsóknina, skuli að minnsta kosti ein vika líða þar til sent er annað bréf eða haft samband símleiðis til að ítreka boð um þátttöku.

Ekki er í 3. gr. reglna nr. 170/2001 fjallað um það þegar komið er heim til einstaklings til að sækja samþykki og lífsýni. Til þess er hins vegar að líta að samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 skal þess meðal annars gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Í athugasemdum við ákvæðið í fyrrnefndu frumvarpi segir meðal annars að vinnsla persónuupplýsinga geti vart talist sanngjörn nema hinn skráði geti fengið vitneskju um hana og eigi, þegar söfnun upplýsinganna á sér stað, kost á fullnægjandi upplýsingum um vinnubrögð, vinnuferli og annað er lýtur að vinnslunni. Þá hefur verið litið svo á að viðmið um vandaða vinnsluhætti geti mótast af almennri framkvæmd á viðkomandi sviði. Af því leiðir meðal annars að telja má það til vandaðra vinnsluhátta að samskiptum við einstaklinga, sem boðin er þátttaka í vísindarannsókn, sé hagað í samræmi við 3. gr. reglna nr. 170/2001, jafnvel þótt beitt sé öðrum aðferðum við að nálgast þá en ákvæðið tilgreinir sérstaklega. Í því sambandi skal bent á að líta má á heimsókn björgunarsveitarfólks til að sækja samþykki og sýni sem ígildi ítrekunar samkvæmt ákvæðinu í formi bréfs eða símtals.

Fyrir liggur að aðeins tveir til þrír dagar liðu frá því að kvartendur fengu samþykkisgögn vegna umræddrar lífsýnasöfnunar í pósti þar til björgunarsveitarfólk kom að sækja sýni. Þess var því ekki gætt að vikufrestur liði. Af því leiðir að þess var jafnframt ekki nægilega gætt gagnvart kvartendum að þeir gætu kynnt sér gögnin nægilega vel og, eftir atvikum, óskað frekari fræðslu eftir því sem þeir töldu þörf á. Þá liggur fyrir að það björgunarsveitarfólk, sem safnaði sýnum, fékk mjög takmarkaða vitneskju um vinnsluna og var því illa í stakk búið til að svara spurningum um hana. Að lágmarki hefði þurft að móta verklag sem tryggði að það gæti leiðbeint um það munnlega hvernig einstaklingar gætu leitað svara, þ.e. hvert beina mætti nánari fyrirspurnum. Ekki liggur fyrir að mótað hafi verið slíkt verklag.

Í framangreindum ákvæðum laga og reglna felst að auki að veita ber efnislega rétta fræðslu. Í samþykkisgögnum vegna umræddrar lífsýnasöfnunar er tekið fram að Persónuvernd hafi heimilað umrædda lífsýnasöfnun. Af því tilefni skal tekið fram að söfnunin sem slík hefur ekki hlotið sérstakt leyfi frá Persónuvernd, enda er hún ekki háð slíku leyfi frá stofnuninni ef hún byggist á upplýstu samþykki þátttakenda, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglna nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Að þessu leyti var því ekki farið rétt með í samþykkisgögnum.

Eins og kvartendur benda á er einnig tekið fram í samþykkisgögnum að allar rannsóknir ÍE hafi hlotið samþykki Persónuverndar. Telja kvartendur þá fullyrðingu ranga. Persónuvernd telur hins vegar ljóst að í tengslum við þær einstöku rannsóknir, þar sem sýnin yrðu nýtt til samanburðar, hafi stofnunin ávallt veitt leyfi. Eftir atvikum kunna þó einstakir þættir í framkvæmd þeirra að hafa verið tilkynningarskyldir fremur en leyfisskyldir og því ekki sérstakt leyfi sem býr þeim að baki. Þegar litið er til þess að meginþorri vinnslu í tengslum við rannsóknir ÍE hefur með einum eða öðrum hætti verið leyfisskyldur verður hins vegar ekki talið tilefni til athugasemdar við umrædda fullyrðingu í samþykkisgögnum.

Af öllu framangreindu leiðir að verklag við umrædda söfnun lífsýna frá kvartendum, þ.e. hvað varðaði tíma þeirra til að kynna sér samþykkisgögn og möguleika á að leita sér frekari upplýsinga en þar kom fram, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000. Þá var sú fullyrðing í samþykkisgögnum röng að Persónuvernd hefði heimilað umrædda lífsýnasöfnun. Eins og á stendur, og í ljósi þeirra efnisatriða sem komið hafa fram af hálfu kvartenda, telur stofnunin ekki tilefni til frekari athugasemda, en meðal annars verður ekki talið að ÍE hafi verið óheimilt að óska samþykkis fyrir vistun lífsýnis í lífsýnasafni samhliða boði um þátttöku í umræddum samanburðarhópi. Ekki verður séð að slíkt fyrirkomulag hafi falið í sér villandi framsetningu við öflun samþykkis.

 

 Ú r s k u r ð a r o r ð:

Þegar leitað var samþykkis frá [A, B og C], sem og [D], til þátttöku í samanburðarhópi vegna rannsókna Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE) og samstarfsaðila, auk samþykkis til vörslu lífsýna úr þeim í lífsýnasafni ÍE, var þeim ekki veittur nægur tími til að kynna sér samþykkisgögn. Þá var veitingu fræðslu um hvar þau gætu leitað nánari upplýsinga ábótavant.Var efnið hjálplegt? Nei