Úrlausnir

Álit Persónuverndar um umfjöllun fjölmiðla um einkamálefni

1.6.2006

Umfjöllun fjölmiðla um einkamálefni
Álit Persónuverndar


Í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er kveðið á um grundvallarregluna um tjáningarfrelsi. Þar segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 kemur fram að tjáningarfrelsið sé óumdeilanlega ein af undirstöðum lýðræðisþjóðfélags, en engu að síðar meðal vandmeðförnustu mannréttinda og að ekki sé hægt að njóta þess án ábyrgðar. Því má setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum, m.a. vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þessar takmarkanir á tjáningarfrelsinu eru settar með hliðsjón af rétti manna til friðhelgi einkalífs, sem verndaður er af 71. gr. stjórnarskrár.


71. gr. stjórnarskrár felur ekki eingöngu í sér að íslenska ríkið gangi ekki á rétt manna til að njóta friðhelgi um einkalíf sitt, heldur einnig að því sé skylt að setja reglur í löggjöf til verndar einstaklingum í innbyrðis samskiptum þeirra. Á það einkanlega við um skyldu til að þessum réttindum einstaklinga sé veitt vernd með ákvæðum refsilaga sem gera brot annarra einstaklinga á þessum réttindum refsiverð. Skyldur ríkisins í þessum efnum eru þó ekki bundnar við refsivernd, heldur ber ríkið skyldu til að lögfesta skýrar reglur um öflun, skráningu og meðferð persónuupplýsinga, hvort sem um er að ræða meðferð stjórnvalda eða einkaaðila á upplýsingunum. Þessari skyldu hefur íslenska ríkið mætt með setningu laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd hefur eftirlit með framkvæmd þeirra laga.


Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir m.a. að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Er þá sérstaklega litið til þess að samkvæmt 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 fellur vinnsla, sem eingöngu fer fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, utan ramma flestra ákvæða laganna, þ. á m. 40. og 41. gr. sem veita Persónuvernd heimild til að stöðva vinnslu persónuupplýsinga og beita dagsektum ef ekki er farið að fyrirmælum hennar. Þá verður ákvæðum 42. og 43. gr. laganna, sem kveða á um refsiábyrgð og bótaábyrgð, einungis beitt af dómstólum.


Í ljósi 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, þar sem segir að Persónuvernd skuli, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði, tjá sig um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga, lítur stofnunin hins vegar svo á að hún geti veitt álit sitt á því hvernig meðferð persónuupplýsinga sem unnar eru í þágu fréttamennsku samrýmist þeim ákvæðum laganna sem um hana gilda. Í tilefni af erindum og fjölmörgum fyrirspurnum sem hafa borist stofnuninni undanfarið vegna umfjöllunar og myndbirtinga í íslenskum fjölmiðlum hefur stjórn Persónuverndar ákveðið að veita eftirfarandi álit:


I.
Lagaumhverfi Þegar umfjöllun er með þeim hætti að hana má rekja til þess einstaklings sem um er fjallað með raunhæfum úrræðum er um vinnslu persónuupplýsinga að ræða, sbr. 1. og 2. tölul. 1. gr. laga nr. 77/2000. Sama gildir um birtingu myndar, megi þekkja þá sem á henni eru. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna. Einkum eru það 1. og 4. tölul. 7. gr. sem eftir efni sína geta átt við um umfjöllun og myndbirtingar í fjölmiðlum.


Samkvæmt 1. tölul. 7. gr. skal þess gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Samkvæmt 4. tölul. skal þess gætt að persónuupplýsingar séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta.


Rétt er að taka fram að eðli málsins samkvæmt taka framangreind ákvæði laga nr. 77/2000 eingöngu til staðhæfinga um staðreyndir en ekki til hugsana manna, s.s. gildisdóma þeirra eða skoðana.

II.
1. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000 - sanngjörn, málefnaleg og lögmæt vinnsla Þegar á það reynir hvort umfjöllun eða myndbirting í þágu fréttamennsku uppfyllir kröfur 1. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000 um sanngjarna, málefnalega og lögmæta vinnslu ber að hafa í huga það hlutverk sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi. Fjölmiðlar ,,upplýsa, fræða, mennta og skemmta". (Páll Sigurðsson, Fjölmiðlaréttur, 1997). Gildi þeirra liggur þó fyrst og fremst í því að líta samfélagið gagnrýnum augum og veita ráðamönnum og öðrum valdamönnum aðhald. Þannig geta fjölmiðlar haft áhrif á og jafnvel mótað skoðanir fólks. Til þess að gegna þessu hlutverki sínu er fjölmiðlum þörf á verulegu tjáningarfrelsi, og er það tryggt í 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Í því felst ekki einungis réttur til að koma á framfæri vitneskju og hugmyndum sem tekið er við með velþóknun eða taldar eru meinlausar eða litlu skipta, heldur einnig til þeirra er valda sárindum, hneykslun eða ólgu. Þetta merkir þó ekki að engar hömlur séu á því hversu nærri einstaklingnum má ganga í fréttaumfjöllun. Frelsi fylgir ábyrgð og fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir lögin.

1.
Sanngirni og fyrirsjáanleiki Í ákvæði 1. tölul. um sanngjarna vinnslu felst áskilnaður um tiltekinn fyrirsjáanleika. Eigi vinnsla að fullnægja þessu skilyrði verður einstaklingurinn sem fjallað er um í flestum tilvikum að hafa haft vitneskju um að verið sé að vinna um hann frétt þegar upplýsinganna er aflað frá honum sjálfum. Á það öðru fremur við um myndatökur, hljóðritun símtala og annarra samtala og að blaðamaður hvorki villi á sér heimildir þegar rætt er við viðkomandi né gefi rangar hugmyndir um fyrirhuguð efnistök.

2.
Málefnaleg vinnsla Í ákvæði 1. tölul. um málefnalega vinnslu felst krafa um meðalhóf. Þegar fjalla á um einkamálefni einstaklinga án samþykkis eða jafnvel gegn vilja þeirra ber því ávallt að hafa í huga hvaða hagsmunum umfjöllunin þjónar og hvort á henni sé nauðsyn. Þetta á einkum við um málefni er varða heimili og fjölskyldulíf einstaklinga og persónuleg málefni, s.s. hjúskaparmál, fjölskylduerjur, uppeldismál, sjúkdóma, fíkniefnanotkun og kynlíf.


Hvert tilvik, hverja umfjöllun og hverja myndbirtingu verður að meta sjálfstætt og í heild sinni út frá gildi umfjöllunarefnisins, eðli upplýsinganna, stöðu þess sem í hlut á og því samhengi sem umjöllunin eða myndin er sett í.


Fréttamenn hafa verulegt svigrúm til þess að vinna með persónuupplýsingar í þágu fréttamennsku þegar umfjöllunarefnið hefur samfélagslegt eða þjóðfélagslegt gildi. Þeim er hins vegar sniðinn öllu þrengri stakkur þegar umfjöllun eða mynd er eingöngu birt í þeim tilgangi að svala forvitni almennings um einkamálefni annarra og hagnast á því í leiðinni.


Eðli þeirra persónuupplýsinga sem um ræðir skiptir verulegu máli. Þannig eru gerðar ríkari kröfur til þess að vinnsla persónuupplýsinga sem teljast viðkvæmar í skilningi laga um persónuvernd, s.s. upplýsinga um heilsufar, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, kynlíf manna og kynhegðan, sé málefnaleg. Sama gildir um upplýsingar sem standa einstaklingnum nærri, þrátt fyrir að teljast ekki viðkvæmar í skilningi laga, og eðlilegt og sanngjarnt er að leynt fari, s.s. upplýsingar um einkunnir og félagsleg vandamál. Sérstaklega ber að hafa í huga hvort einhverjum tilgangi þjóni að nafngreina menn eða birta af þeim myndir í tengslum við slíka umfjöllun. Ekki hefur úrslitavægi hvort umfjöllun sé að einhverju leyti ærumeiðandi fyrir viðkomandi einstakling eða honum á nokkurn hátt til hnjóðs.


Þá skiptir máli staða þess sem um er fjallað eða birtar eru myndir af, þ.e. hvort hann telst vera opinber persóna eða svokölluð ,,almannapersóna". Almannapersónur geta t.d. verið stjórnmálamenn, embættismenn, þekktir menn úr viðskiptalífinu, listamenn, fjölmiðlamenn og fleiri kunnir menn sem hafa verið áberandi og í sviðsljósinu. Almennt er viðurkennt að almannapersónur verði að sæta umfjöllun umfram aðra borgara. Það getur stafað af þeirri stöðu sem þær gegna í þjóðfélaginu og verið til þess fallið að veita þeim aðhald eða markast af því að litið er á þær sem fyrirmyndir. Jafnvel getur verið réttlætanlegt að fjalla um mjög viðkvæm málefni stjórnmálamanna og embættismanna í tengslum við störf þeirra og hvernig þeir gegna þeim. Þetta felur þó engan veginn í sér að almannapersónur njóti ekki friðhelgi um einkalíf sitt. Þau mörk sem fjölmiðlum eru dregin hverju sinni hljóta að skapast af gildi þess málefnis sem til umfjöllunar er fyrir almenning og tengslum viðkomandi við þau. Þannig eiga almannapersónur, rétt eins og annað fólk, rétt á því að ekki séu teknar myndir af þeim á stöðum eða við aðstæður þar sem þær mega vænta þess að fá að njóta friðar um einkalíf sitt. Slíka staði er m.a. að finna utan fjögurra veggja heimilisins og má í dæmaskyni nefna skemmtistaði, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar. Af þessu leiðir einnig að almannapersónur, rétt eins og aðrir, eiga rétt á að ekki sé fjallað um viðkvæm einkamálefni þeirra sem ekkert gildi hafa fyrir samfélagslega hagsmuni eða þjóðfélagslega umræðu. Þá er rétt að taka fram að þrátt fyrir að eðlilegt geti verið að fjalla um tiltekinn einstakling, vegna þess að hann teljist vera almannapersóna, leiðir ekki af því að eðlilegt sé að fjalla með sama hætti um þá sem tengjast honum, hvort sem um er að ræða ættingja, vini eða aðra.


Að lokum skiptir máli það samhengi sem upplýsingar, þ.m.t. myndir, eru settar í. Birting myndar af manni sem sjálfur er fréttaefni er alla jafna málefnaleg, enda sé fréttin það einnig sem og það að segja hver hann er. Eðli málsins samkvæmt verður birting tækifærismynda ýmiss konar á almannafæri og hópmynda ekki heldur talin ómálefnaleg þrátt fyrir á þeim séu þekkjanlegir einstaklingar. Birting mynda af tilteknum einstaklingi, sem eingöngu er að sinna einkamálefnum sínum, getur hins vegar talist ómálefnaleg ef myndbirtingin þjónar engum málefnalegum tilgangi og einstaklingurinn hefur ekki veitt samþykki sitt til hennar. Þá er ekki hægt að skilja að mynd og texta sem henni fylgir. Þrátt fyrir að myndbirting ein og sér kunni að vera málefnaleg getur textinn við myndina leitt til þess að umfjöllunin í heild sinni teljist vera ómálefnaleg, m.a. vegna villandi, meinfýsinna eða ósanngjarnra athugasemda.

3.
Lögmæti Í ákvæði 1. tölul. um lögmæta vinnslu felst að upplýsinga sem á að nota í frétt skal ekki aflað með ólögmætum hætti. Ólögmætar hljóðupptökur og það að hnýsast í bréf, skjöl, dagbækur, gögn á tölvutæku formi og önnur einkagögn í því skyni að afla upplýsinga eru því meðal þeirra aðferða við fréttaöflun sem hvorki samrýmast þessu skilyrði laganna, né eftir atvikum ákvæðum annarra laga, þ. á m. almennra hegningarlaga.

III.
4. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000 - áreiðanleiki Mat á því hvort kröfu 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um áreiðanleika persónuupplýsinga sé fullnægt tekur mið af eðli þeirra. Ákvæðið felur í sér að upplýsingar skulu samrýmast þeim veruleika sem býr að baki þeim eða hlutlægu mati sem byggist á veruleikanum hverju sinni. Þegar umfjöllun hefur í för með sér óþægindi og óhagræði fyrir þann sem um er fjallað, eins og oft er óhjákvæmilegt, verður að gera þá kröfu að upplýsingarnar endurspegli veruleikann sem býr þeim að baki með enn öruggari hætti en ella og að þær séu ekki settar fram á villandi hátt. Á það sérstaklega við þegar um er að ræða viðkvæm einkamálefni.


Í 4. tölul. felst einnig að óáreiðanlegar upplýsingar skuli leiðrétta. Ef um er að ræða upplýsingar sem geta valdið þeim sem þær varða tjóni ber að leiðrétta þær tafarlaust.



IV.
Niðurstaða Íslenskum fjölmiðlum ber að haga efnistökum sínum í samræmi við framangreind ákvæði laga nr. 77/2000. Það skal minnt á að brot gegn þessum ákvæðum laga geta varðað bótaábyrgð og refsiábyrgð að lögum. Það fellur undir dómstóla að skera úr því, að uppfylltum réttarfarsskilyrðum, hvort framangreindar reglur hafa verið brotnar.




Var efnið hjálplegt? Nei